island

Þankar um forsetakosningar I

Mér leiðist forsetaframbjóðandi sem sífellt hugsar: hvernig get ég hitt í mark? Hvernig get ég unnið kosningarnar? Hvaða trix ætti ég að nota í dag? Hvernig get ég skotið á aðra? Hvernig get ég látið alla tala um mig? Hvernig get ég náð athygli alla daga? Hvernig get ég komist í fréttir? Hvernig get ég látið fólk gleyma því sem ég sagði í gær?
Mér leiðist forsetaframbjóðandi sem kannast ekki við sjálfan sig, sem er ekki það sem hann var og var ekki það sem hann er og verður ekki annað en það sem hentar hverju sinni og er ekki einu sinni það sem hann er eða virðist vera.
Forsetinn sem ef til vill fellur af stóli í sumar fékk þessi eftirmæli í rannsóknarskýrslunni: Forsetinn beitti sér af krafti við að draga upp fegraða, drambsama og þjóðerniskennda mynd af yfirburðum Íslendinga sem byggðust á fornum arfi. Það er athyglisvert að nokkrir þeirra eiginleika sem forsetinn taldi útrásarmönnum til tekna eru einmitt þeir þættir sem urðu þeim og þjóðinni að falli… Hann tók þátt í að gera lítið úr þeim röddum sem vöruðu við hættulega miklum umsvifum íslenskra fyrirtækja. (Rannsóknarskýrsla Alþingis: 8. bindi, s. 178). Tekið skal fram að forsetinn kannast ekki við þessa lýsingu og hafnar þeim alfarið.
Mér leiðist forsetaframbjóðandi sem hefur níu líf, sem sífellt rís upp úr öskustónni og finnst það flott og tekst með lipurtungu sinni að sannfæra fólk aftur og aftur um það hann sé málið, hann sé nýr og endurnýjaður. Mér finnst það ekki aðdáunarvert.
Mér líkar á hinn bóginn forsetaframbjóðandi sem er ekki með eigin markaðsetningu á heilanum heldur kemur til dyranna eins og hann eða hún er klædd. Íslendingar segjast meta heiðarleika mest allra dyggða en eiga þó í erfiðleikum með að bera kennsl á hann. Það ætti að vera augljóst hver stendur í dyrunum í nýju fötum keisarans, samt fær sá frambjóðandi mest fylgi í skoðanakönnunum (ÓRG 56%, 1. júní).
Mér líkar forsetaframbjóðandi sem treystir á hugsjónir sínar og fylgir innri rödd en ekki markaðssetningunni. Mér líkar forsetaframbjóðandi sem hugsar ekki áður en setningarnar eru sagðar: hvernig kemur þetta út? Heldur mælir sannfæringu sína sem endist örugglega út daginn.
Meira síðar.
Gunnar Hersveinn lifsgildin.is
Deila