
Hann virtist sáttur við að örfáir (viðskipta)vinir hans eignuðust allt, ekki bara hér á landi heldur helst sem mest í öðrum löndum. Hann heillaðist af íburði og einkaþotum vina sinna. Hann hvatti, hann trúði og efaðist ekki. Hann sagði þá dyggðumprýdda víkinga.
Hann sá ekki vel, heyrði heldur illa, skildi fremur treglega og nam því ekki staðar fyrr en við hengiflugið og fylgdist með vinum sínum falla. Líf þeirra var ekki aðeins blekking heldur hjúpað spillingu. Hann sá það ekki.
Hann náði taki á bjargbrúninni, lyfti sér upp og tók að leita að þjóðinni sem hann hafið yfirgefið sjálfur. Nú var hún það eina sem gat bjargað honum. Hann lagðist við fótskör hennar og tók að sleikja hana upp:
Hann talar og talar, bendir í allar áttir. Þetta var ekki honum að kenna. Vinir hans brugðust traustinu. Hann biðst jafnvel afsökunar (ef hann gerði eitthvað rangt) þótt hann iðrist kannski ekki. Segir með sannfæringarmætti hvað sé þjóðinni fyrir bestu og að hann geti sett saman lista í tíu liðum um leiðina til sigurs. Segist vera nauðsynlegur, það megi alls ekki vísa honum á dyr.
Hann er undraverður kappi. Hann vill vera vinur okkar. Hver stenst honum snúning?
Tenglar: