vidvorun1

Þankar um forsetakosningar III

Varúð!
Sókrates lýsti sagnarandanum í mannshjartanu á einfaldan hátt: Röddin í brjóstinu varar einungis við en hvetur aldrei til dáða. Hún þekkir mörkin.
Frelsið þarfnast rýmis og einstaklingurinn þarf að sprikla og reka sig á. Sagnarandinn truflar ekki frelsið en það er hollt að hlusta þegar innri viðvörunarljós kveikna, þegar orðin nei og ekki berast um æðarnar.
Oft vitum við ekki alveg hvað við viljum en við vitum oft alveg hvað við viljum ekki. Ef við stefnum út fyrir hið heillavænlega, þá skynja vonandi flestallir innri rödd sem varar við: ekki fara þangað!
Ýmsar kenningar eru til um hvaðan þessi mörk eru og hvers eðlis sagnarandinn er, en hann snýst alltaf um það sem markar greinarmun á milli þess sem er rétt og rangt.
Allir eru sammála um að byggja upp nýtt og betra Ísland. Við gerum okkur þó óljósa grein fyrir því hvernig samfélag jöfnuðar og réttlætis verður til.
Við trúum vonandi að samfélagið verði sanngjarnt fyrir börnin sem vaxa nú úr grasi. Enginn vill tefja fyrir því en við þurfum væntanlega að breyta hugsun, hegðun, og vali í stað þess að kjósa það sama aftur og aftur.
MÖRG ANDLIT ÍSLANDS
Ísland hefur mörg andlit. Andlitin mótast eftir vali okkar og hegðun. Stóriðja gæti orðið áberandi hrukka, frelsi í fjalladal gæti mást út, sóðaskapur birst í fílapenslum, gestrisni í augum eða níska. Náttúran, tungan, þjóðin … hvernig mótast andlitið?
Forseti Íslands er þýðingarmikið andlit. Sitjandi forseti er andlit gamla tíðarandans sem getur ekki staðið upp og yfirgefið sviðið. Eigum við rétta honum hjálparhönd?
Hvað er heillavænlegast fyrir land og þjóð næstu árin? Vandasamt er að segja nákvæmlega til um það en þó má greina viðvörunarmerkin: Blindhæð! Torleiði! Brött brekka! Ósléttur vegur! Grjóthrun! Sviptivindur! Sleipur vegur! Steinkast!
Við stöndum nú frammi fyrir vali sem hefur áhrif á stöðu tíðarandans og viðhorf gagnvart framtíðinni. Það er til val um aðra leið, val um annan forseta. Hvað veljum við?
Sagnarandinn lætur á sér kræla, hann varar aðeins við, segir til um hvað skapi sundrung í stað sameiningar.  Hlustum á innri rödd. Gefum okkur tíma til að hlusta, þessi rödd er ekki hávær og krefst ekki athygli, hún hvíslar, hún bannar ekki heldur tekur upp viðvörunarmerkið sem hver og einn þarf að lesa á.
Varúð!
Deila