Heimspeki

Að byrja á sjálfum sér

12_vef_feb_heimspeki_visitEngin persóna verður fullgerð fyrr en hún finnur hjá sér knýjandi þörf til að gera eitthvað fyrir aðra. Sú persóna sem finnur samhljóminn með öðrum, getur liðið með öðrum og nemur samhengið í tilverunni fyllist löngun til að geta látið gott af sér leiða. Hún gæti anað út í verkefnið en ef hún er skynsöm þá, staldrar hún við og ákveður að búa sig undir það með því að byrja á sjálfum sér.

Ekki byrja á öðrum

Það er ekki heiglum hent að byrja á sjálfum sér, það er mun auðveldara að byrja á öðrum og segja samfélaginu til. Að byrja á sjálfum sér er viðamikil rannsókn. „Fyrir hverju vil ég berjast fyrir og hverju berst ég gegn? Hver eru mörk mín, hvenær segi ég hingað og ekki lengra! Hvaða gæði vil ég vernda, hvað get ég lagt af mörkum? Hvernig get ég skapað frið og forðast illsku og ofbeldi? Hverjar eru mínar eigin skoðanir, hverjar hugsjónir?”

Markmiðið með þessari rannsókn er falið í lönguninni til að verða betri sjálfrar sín vegna og annarra. Þessi löngun virðist hafa fylgt mannkyninu frá upphafi og hún birtist oft í þeirri viðleitni að setja sér lífsreglur til að temja sig og til að kalla fram eftirsóknarverða mynd af sjálfum sér.

Grískir fornaldarheimspekingar glímdu við þessa aðferð og hver sá sem les Málsvörn Sókratesar hlýtur að hugsa um orð hans „…  að þetta sé manni best að öllu, að iðka daglega samræður um dyggðina og reyna bæði sjálfan sig og aðra, og órannsakað líf sé einskis virði.“

Efasemdarmaður

Sá sem byrjar á sjálfum sér verður óhjákvæmilega efasemdarmaður, hann efast um það sem aðrir hafa sagt, það sem oftast er sagt, það sem á að vera satt. Hann tekur engu sem fyrirfram gefnu.

Hann er því ekki vinsæll á þessu tímabili, hann verður eins pirrandi broddfluga, því hann efast um það sem aðrir gera. Og ekki aðeins um aðra heldur einnig sjálfan sig, hann brýtur skoðanir, þekkingu, hegðun og hátterni til mergjar.

Ekki til að breyta öllu í auðn og tóm, ekki til að eyðileggja góða stemningu, heldur til að finna eitthvað sem stenst rannsókn. Efasemdin er glíma við lífið og leit að gildum þess og siðfræðispurningin sem vaknar er:

Hvers konar líf er ómaksins vert?

Þetta er heimspekilegt hugarvíl sem vekur menn upp af værum blundi hringrásar hins daglega lífs.

Slíkt hugarvíl er verðugt verkefni og það þarf hugrekki til að leyfa efanum að greina hismið frá kjarnanum. Efinn er liður í því að verða maður sjálfur, upphaf sjálfsskilningsins og eftir að hafa efast rækilega stendur vonandi vakandi hugur á varðbergi gagnvart fordómum, kreddutrú, lygi og heimsku, staðráðinn í að láta ekki glepja sig á ný með innantómum orðum.

Þetta kostar hugrekki. Það er miklu auðveldara að draga sig í hlé heldur en að standa með sjálfum sér. Sá sem byrjar á sjálfum sér verður um sinn eirðarlaus sannleiksleitandi sem þjáist af vitsmunalegri angist. Þetta verkefni getur ært óstöðugan.

Uppbygging

Efinn er grimmur til að byrja með en enginn má festast í linnulausum efasemdum, eitthvað þarf að finnast, einhver sýn eða aðferð svo hægt sé að byggja upp nýja og betri veröld. Því sá sem byrjar á sjálfum sér, gerir það ekki aðeins fyrir sjálfan sig, heldur aðra. Það er betra fyrir alla að hver leggi sig fram um að verða sjálfur sem bestur.

Það þarf sterk bein til að byrja á sjálfum sér, aga, vilja, þrautseigju.

Þetta er rannsóknarvinna sem er ómaksins verð. Sókrates sagði: „Ég leitaðist við að telja hvern mann á það, að bera ekki umhyggju fyrir neinum högum sínum, fyrr en hann hefði hugsað um að verða sjálfur sem bestur og vitrastur og ekki fyrir neinum högum borgarinnar fremur en borginni sjálfri – og svo framvegis um alla aðra hluti.“

Sókrates tók afstöðu eftir efasemdir sínar um að sækjast fyrst og fremst eftir dyggðinni, ekki aðeins til að hafa eitthvað til að hugsa um heldur til að breyta hegðun sinni til betri vegar. Hann taldi það líka skyldu sína að ávíta þá sem sækjast eftir hégóma og fjármunum fremur en dyggðum.

Efasemdarmaður getur tekið afstöðu með því sem hann telur vera til heilla fyrir lífið og jörðina, en hann verður aldrei öfgamaður. Hann segist ekki vita svarið, heldur telur það líklegt um stund. Hann er í raun að beita aðferð vísindanna, gera tilraunir og feta sig áfram til að öðlast þekkingu á veröldinni, öðrum og sjálfum sér.

Gunnar Hersveinn rithöfundur fjallar um hvað það þýðir að byrja á sjálfum sér á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti 18. mars 2015 og Ragnheiður Stefánsdóttir mannauðsráðgjafi og leiðbeinandi á námskeiðum um orkustjórnun segir frá því hvernig nálgast megi efnið með því að setja sér markmið og efla líkamlega, tilfinningalega, hugræna og andlega orku.

Tengill

Heimspekikaffi

Heimspekikaffi – viðburður á facebook

Heimild: Platón.Síðustu dagar Sókratesar. HÍB 1996.
Róbert Jack. Hversdagsheimspeki. Heimspekistofnun 2006

Orkustjórnun

 

Deila