AÐ MÓTMÆLA KÚGUN AF KRAFTI

um_gildin_frelsi

Þær sem mótmæltu hrelliklámi og hvers konar kúgun kvenna á óvæntan og hugvekjandi hátt 26. mars 2015 unnu lofsvert afrek sem krafðist hugrekkis.

Látum engan telja okkur trú um að við eigum ekki að búa við sömu mannréttindi og aðrir eða séum eitthvað minna virði eða meira en aðrir. Greinarmunur, aðgreining og aðskilnaður er ávallt byggður á fordómum, valdabaráttu og hroka. Við erum án vafa öll gerð úr sama efni.

Látum aldrei freistast til að trúa að einhver tiltekinn hópur hafi rétt til að deila og drottna í nafni einhvers málstaðar. Ekki í nafni guða, ekki í nafni stjórnmálahreyfinga, ekki í nafni lýðræðis, ekki í nafni yfirborðs-jafnaðar sem hægt er að veifa og dreifa.

Mismunun er af mannavöldum getur verið söguleg eða félagsleg – en hún er aldrei réttlát. Hún getur jafnvel verið skiljanleg við einkennilegar aðstæður – en engu að síður ber að hafna henni.

Heillavænlegast er að vera gagnrýninn og hugrakkur borgari sem líður ekki  kúgun og ofbeldi. Bann við mismunun í samfélagi felst í því að allir hafi sama rétt og tækifæri á öllum sviðum. Enginn sé útilokaður eða lægra settur vegna, kyns, fötlunar, kynþáttar, þjóðernis, kynhneigðar, aldurs, trúar eða lífsskoðunar. Heldur standi allir jafnvígir því mismunun er ávísun á miskunnarleysi.

Ótal spurningar eru að baki, efi og jafnvel þjáning en það er til grunnur sem hægt er að byggja á og er heillavænlegri en stefnur og straumar í stjórnmálum og trúmálum. Það eru mannréttindin. „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum,“ segir í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem ekki var skráð fyrr en eftir síðari heimstyrjöldina eða 1948.

Versti óvinur mannréttinda er óttinn, óttinn við vald kúgarans eða jafnvel vald skriffinnskunnar. Annar illvígur óvinur er skeytingarleysið, að vera sama, að finna ekki til með öðrum, að rækta ekki með sér samkennd og/eða sætta sig við óréttlæti.

Virk andmæli eru dyggð sem beinist gegn kúgun, yfirgangi, ofbeldi, einræði, blekkingu og misnotkun valds, og einnig sinnuleysi og slæmum venjum. Þær manneskjur sem standa vörð um mannréttindi eiga lof skilið, þau sem berjast fyrir jafnrétti, réttlæti og jöfnuði eru ævinlega hugrökk því þau láta óttann ekki buga sig.

Þær sem andmæltu hrelliklámi og kúgun kvenna á óvæntan og hugvekjandi hátt 26. mars 2015 unnu lofsvert afrek sem krafðist hugrekkis. Þær tóku áhættu, þær fundu óttann en stigu þrátt fyrir það fram og mótmæltu af krafti.

MÓTMÆLI SEM DYGGÐ

Mótmæli geta sprottið upp vegna réttlátrar reiði en líkt og aðrar dyggðir þarf að æfa þau. Tökum því undir með Stéphane Hassel (1917- 2013) sem var í frönsku andspyrnuhreyfingunni, tók þátt í því að skrifa Mannréttindayfirlýsingu SÞ og skrifaði hina merku bók, Mótmælið öll! þar segir „Finnið ykkar eigin ástæðu til að mótmæla, leggist á sveif með þessum mikla straumi mannkynssögunnar.“  Hver persóna þarf að móta hugsjón sína um betri heim án kúgunar, skeytingarleysis og ofbeldis og andmæla því sem stendur í vegi fyrir réttlæti. Allir þurfa að gera eitthvað.

Friðsöm mótmæli eru ekki aðeins byggð á réttlátri reiði heldur fylgja þeim kraftur og gleði ef þau áorka einhverju. Þau hefjast í huganum þegar við rekum okkur á, þau geta birst sem gagnrýnin hugsun, grein í blaði eða ber brjóst þar sem nekt er talin ósæmileg. Slík mótmæli felast í því að benda á það sem miður fer. Friðsamleg mótmæli fela stundum í sér brot á einstaka reglum, hefðum og siðum en þau geta verið meira en tímabær og skiljanleg.

Konur efndu til friðsamlegra og óvæntra mótmæla gegn hrelliklámi og tókst að ná athyglinni, umræðunni, valda ærlegum usla í samfélaginu og þeim tókst að afhjúpa marga í kringum sig.

Gunnar Hersveinn rithöfundur www.lifsgildin.is

 Tengill

Mótmælið öll!

 

 

 

 

Deila

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *