Copy of 11 heimspeki okt amynd

Alúð, hamingja og rósemd

Copy of 11 heimspeki okt amyndHamingjan kom við sögu á heimspekikaffi í Gerðubergi 19. mars 2014. Hér er brot úr erindi Gunnars Hersveins þar, birt í tilefni af alþjóðadegi hamingjunar.

Stóuspekinginn Epiktetus (50-138 e.Kr.) kenndi speki um rósemd hjartans og að ekkert í þessum heimi væri þess vert að raska ró manna.

Þungamiðjan í heimspeki Epiktetusar snerist um að efla hæfileikana til að velja og hafna, tjá sig og sýna rólegar tilfinningar. Hann trúði á hinn frjálsa vilja. Við erum frjáls og okkur ber af þeim sökum siðferðileg skylda til að rannsaka líf okkur.

Hann ráðlagði ávallt út frá því sjónarmiði að fólk ætti aldrei að missa stjórn á skapi sínu og að enginn ætti að tileinka sér viðhorf sem gæti dregið úr hamingju. „Segðu við engan hlut: ég missti hann, heldur: ég skilaði honum aftur. “

„Ef mótlæti hendir þig, þá mundu að snúa þér ætíð til sjálfs þín og spyrja, hverja mannkosti þú megir setja gegn því. Ef þér er falið erfitt starf, nýtur þú þrautseigju þinnar. Ef þú ert svívirtur neytir þú umburðarlyndis þíns.“ Gagnvart hverri þraut ber að tefla mannkosti, sagði spekingurinn, ávallt bjartsýnn. *1

Hann sætti sig þó við hið ósveigjanlega og taldi fávisku að missa stjórn á skapi sínu gagnvart hlutum sem eru ekki á valdi okkar. Hann var taldi að lífshamingja manna réðist af því að girnast aðeins það sem er á okkar eigin valdi og innan ramma möguleikanna. Ómöguleikinn beinist einungis gagnvart því sem er ekki á okkar valdi.

Óhamingjan felst í því að reyna að flýja hið óumflýjanlega og trúa að atburðirnir sjálfir stjórni líðan okkar, þegar það er í raun viðhorf okkar til þeirra sem gerir það. „Skelfileg er einungis sú skoðun að dauðinn sé skelfilegur,“ nefndi hann sem dæmi. Hann brýndi fyrir mönnum að trúa að hamingjan væri á þeirra eigin valdi, en ekki annarra. (Því miður er það ekki alltaf svo en þannig ætti það að vera).

Epiktetus taldi að rósemd hjartans skapaði hamingjuna. Hann bjó sjálfur yfir sálarró, enda á enginn að kenna öðrum eitthvað sem hann er ekki sjálfur. „Það eitt sem þú getur rækt með trúnaði og sjálfsvirðingu, á að vera hlutverk þitt í þjóðfélaginu,“ sagði hann. Við eigum með öðrum orðum að starfa við það sem við sinnum af alhug, en ekki við það sem okkur leiðist eða höfum ekki metnað til að vinna vel. Ef við fáum eða getum skapað okkur tækifæri til að gera það sem við sinnum af alúð þá líður okkur vel og við öðlumst sálarró.

Sérhver persóna þarf að rækta með sér ákveðnar dyggðir og tilfinningar til að mikilvæg verkefni sem verða á veginum heppnist vel. Til að verða fullgerð persóna þarf að efla nokkra lykilþætti; þeirra mikilvægastir eru gjöfin, þakklætið og vináttan ásamt rósemd hjartans og ræktun þeirra skapar möguleikann á að lifa hamingjuríku lífi. *2

*1 Handbók Epiktets. Almenna bókafélagið 1955 og 1993.
*2 Gæfuspor – gildin i lífinu. Gunnar Hersveinn. Forlagið 2012

Deila