Allar færslur eftir Gunnar Hersveinn

Hamingja og sköpun á heimspekikaffi

12_vef_feb_heimspeki_visitGunnar Hersveinn og Hrefna Guðmundsdóttir félagssálfræðingur fjalla um sköpunargáfuna og hamingjuna á heimspekikaffi í Gerðubergi 21. janúar. Það hefst með þessum orðum:

Forvitni hugans er áberandi einkenni mannverunnar. Hún er námsfús, forvitin um hvaðeina. Barnið grípur allt sem auga og hönd á festir, stingur upp í sig, smakkar, sýgur og svalar óseðjandi forvitni sinni um stund.

Forvitnin vex með árunum en stundum dofnar hún. Hlutir, hugtök, tilgátur og kenningar eru teknar í sundur, skoðaðar í smáatriðum og kannað hvort undrið stenst eða ekki. Hvað, hvernig, hver, hvar, hvenær og loks hvers vegna? Forvitinn hættir aldrei að spyrja, næsta spurning vaknar alltaf.

Forvitni þarfnast áræðni til að spyrja enn frekar, rannsaka, leggja í leiðangra, yfir höf og inn í ókönnuð lönd.

Líf án forvitni er dauflegt og endar í stöðnun. Það er án viðleitni til að gera eitthvað nýtt og óvænt. Sá sem glatar forvitni sinni algjörlega hættir að nenna út úr húsi. „Sá sem leitar aldrei frétta verður aldrei margs vitandi,“ segir málshátturinn.

Forvitni er eiginleiki sem hægt er að rækta og efla, forvitni er undanfari visku, óseðjandi þrá til að vita meira, sjá, heyra, finna, forvitnast um. Forvitinn leitar að svari þegar aðrir sætta sig við þau svör sem einhver annar hefur gefið þeim. Hann býst við meiru, öðru, dýpt, vídd.

Fordómar eru meðal óvina forvitninnar. Þeir bjóða upp á rangar ályktanir, þeir tefja för, villa um fyrir fólki og eyðileggja viskuleitina. Leiðangurinn verður hættuför, fyllt er upp í með tilgátum og fólk nemur staðar, hættir leitinni. Óttinn vill heldur ekki alltaf vita svarið.

Forvitni er forsenda gleði í lífinu. Forvitni er eins og fálmari þeirra sem vilja skilja eitthvað í tilverunni. Forvitni einkennir margar lífverur en sköpunargáfan er eitt af sérkennum mannverunnar. Forvitni er forsenda sköpunar, því hún dafnar og vex í huga hins forvitna. Sköpunin er leit að skilningi.

 

Sköpunargáfan

Sköpun er næsta lag á eftir forvitni, þrep, stig eða áfangi, þótt forvitnin sé ævinlega áfram með í för. Hún þarfnast einnig áræðni til að móta eitthvað annað en það sem blasir við og til að túlka á annan hátt en oftast er gert eða finna nýjar lausnir og opna dyr sem hafa verið lokaðar. Gildi sköpunar opinberast ef hún hefur haft áhrif á veruleikann.

Sköpunin er leit að skilningi.

Það er þráður á milli forvitni og sköpunargáfu og þeim fylgir gleði og þakklæti. Sá sem ræktar með sér forvitni barnsins og eflir með sér skapandi hugsun gleðst yfir verkum sínum. Verkin geta verið listaverk, nýjar lausnir, vísindaafrek, ný túlkun eða nýjar leiðir.

Sagt er að allir leiti leynt eða ljóst að hamingju. Hún felst ekki aðeins í því að vera sátt og sáttur við lífið og aðra, heldur einnig að hætta aldrei að leita að svari við því sem ósvarað er. Dofin forvitni merkir minni sköpun og hamingja í lífinu.

Sköpunargáfan kemur við sögu í leitinni að hamingju, hún knýr fólk til að gera tilraunir, undrast, efast og endurraða í lífinu.

Gunnar Hersveinn og Hrefna Guðmundsdóttir félagssálfræðingur ætla að rekja þráðinn, með hjálp gesta, milli sköpunar og hamingju á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 21. janúar kl. 20.00.  Gunnar mun einbeita sér að sköpunargáfunni og Hrefna að hamingjunni.

Allir velkomnir.

Tenglar

Viðburður á facebook

Kynning hjá Gerðubergi

 

 

 

 

 

 

 

Deila

TÍMI TIL AÐ HUGSA

island

Tímamót eru framundan. Vetrarsólstöður voru sunnudaginn 21. desember, klukkan 23:03. Nýtt tungl kviknaði strax á eftir eða 22. desember kl. 1.37. Það er tími til að hugsa.

Vetrarsólstöður eru tímamót, mót til að endurskoða. Kjörið tækifæri til að setja sér markmið, til að bæta sjálfan sig, samskiptin við aðra, samfélagið, umheiminn, Jörðina.

Hugsum um Jörðina:

Móðir Jörð er að springa af sköpunarkrafti. Hún iðar í skorpunni og fæðir linnulaust ný verk um leið og önnur glatast. Hún skapar ekki aðeins líf, heldur einnig heilu löndin, eins og Ísland á flekaskilum sínum.

Jörðin mótast af stöðu sinni í alheiminum, sennilega þáði hún vatn sitt af smástyrnum. En hún er ekki hjúpuð vernd, hún er viðkvæm fyrir áreitum, jafnvel frá eigin lífverum sem þiggja af henni búsetu og næringu.

Mannkynið er ágengt um þessar mundir. Það gengur á öll vistsvæði Jarðar, allar auðlindir, allt hörfar undan því. Maðurinn er gallagripur sem getur sínt mátt sinn og megin á mörgum plánetum. En hann er einnig kostagripur sem getur látið gott til sín leiða. Hann getur batnað. Hugsum um það.

Hugsum um mannkynið:

Manneskjan er gædd mörgum gjöfum náttúrunnar en þarf nauðsynlega að temja sig, hemja gallana og efla kostina. Hver einstaklingur þarf að gera það, hver hópur, hvert samfélag, hver þjóð og það þarf að vera í samhengi við hagsmuni Jarðarinnar.

Jafnvel þótt dagurinn sé stuttur og nóttin löng, þá er einum hring lokið og annar er framundan. Ný ferð umhverfis sólu, það er tilhlökkunarefni. Góða ferð!

Hugsum um okkur:

Það eru tími til að hugsa um sjálfan sig, allt og alla. „Hvað get ég gert?“ er ágæt spurning.

Takk fyrir lífið á Jörðinni,

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

 

Sjá einnig:

Friðarsúlan

 

 

 

 

 

VINSEMD Á HEIMSPEKIKAFFI Í GERÐUBERGI

12_vef_feb_heimspeki_visitÍmyndum okkur heiminn án vinsemdar. Öllum væri sama um alla aðra. Enginn leitaði eftir samveru eða nánum tengslum. Mannlífið yrði án hlýju.

Heimur án vinsemdar yrði kaldur og vélrænn. Ljósið í augunum myndi fjara út og við myndum ekki lengur finna til samkenndar. Ekki rétta hjálparhönd eða hlaupa undir bagga hvert með öðru.

Enginn myndi koma í heimsókn til að njóta samvista, enginn sæktist eftir vinarþeli. Sennilega myndi fólk missa heilsuna og lífið styttast.

Heimur án vinsemdar yrði skeytingarlaus um mannleg verðmæti. Greinarmunur á réttu og röngu, góðu og illu myndi þurrkast út og vélræn afstaða til hlutanna yrði ríkjandi.

Heimur án vinsemdar yrði sviptur kærleika, væntumþykju og ástarsambanda því enginn myndi sækjast eftir alúð og innileika annarra.

Einhver gæti hugsað sér að heimur án vinsemdar yrði grimmur, fullur óvildar og þjáningar. En svo yrði ekki, því andstæðan yrði heldur ekki til.

Heimur án vinsemdar yrði einnig án einsemdar, því þetta tvennt er bundið órofa böndum. Tómið yrði allsráðandi.

Enginn hefur áhuga á heimi án vinsemdar en til að bæta heiminn er ráðið að læra og rækta vinsemd, temja sér vinsamlega hegðun og hugsun. Vinsemd er dyggð, tilfinning og viðhorf.

VINÁTTA

Vinsemd er góð byrjun en vinátta er oftast lengi að verða til. Hún er ekki hrifning því fólk getur hrifist hvert af öðru án þess að mynda persónulegt samband. Vinátta felst í því að gera eitthvað saman, vinna, skemmta sér og leysa vandamál. Það vekur vonir um framtíðina að gera eitthvað ánægjulegt saman og skapa góðar minningar. Vinátta er því lifandi samband sem þróast og styrkist með árunum. Góðir vinir bæta hver annan.

Enginn getur þekkt sjálfan sig nema í gegnum náin kynni við aðra manneskju. Við deilum tilfinningum okkar og hugsunum með vinum og treystum þeim fyrir innstu hugðarefnum okkar. Vinur er ekki aðeins félagi heldur kær félagi.

HEIMSPEKIKAFFI

Styrkleiki vinsemdar hefur víðtækari áhrif en margur hyggur, m.a. á farsæld, heilsufar og samfélag. Vinsemd verður í brennidepli á heimspekikaffinu heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 19. nóvember kl. 20.00. Gunnar Hersveinn rithöfundur ræðir um einsemd og vinsemd og Margrét Leifsdóttir arkitekt og heilsumarkþjálfi mun fjalla um sterkt samband milli vinsemdar og heilsufars.

Tengill

Gerðuberg – 19. nóvember 2014

 

 

HARÐÚÐ Á TÍMUM MANNÚÐAR

12_vef_feb_heimspeki_visitHvers vegna gera samfélög mannréttinda og mannúðar loftárásir? Er það vegna vantrúar á þá mannúð sem þau boða? Er það vegna þess að harðúð virkar strax, einn, tveir og þrír og sprengjan springur? Allir dauðir.

Harðúð virkar vissulega umsvifalaust, hún er löðrungur, ofbeldi, miskunnarleysi. Hún er refsing, þjáning og dauði. Hún fælir og kemur stundum í veg fyrir ódæði en ofast er hún skammtímalausn. Hún elur á hatri, óbeit og grimmd. Hún fitar púkann á fjósbitanum sem nefndur er í þekktri þjóðsögu. Hann fitnar og fitnar og svo springur hann framan í þann sem fæðir hann. Veikleiki harðlyndis stígur fram og fellir harðstjórann á eigin bragði.

Mannúð er af öðrum meiði. Hún er sett í öndvegi en gallinn er að of fáir hafa hugrekki til að treysta á hana og verk hennar, jafnvel þótt allt mæli með henni. Mannúð er tímarek og hún krefst þolinmæði og hugrekkis. Hún þarfnast íhugunar um hvað beri að gera, hvernig og á hvaða forsendum. Hún er sáttaleið og púkinn á fjósbitanum grennist og lyppast niður.

Mannúð er mildi og mildin lætur ekki mikið yfir sér og stefnir á líf en ekki dauða, vöxt en ekki visnun. Fári klappa fyrir afrekum mildinnar því þau eru langtímaafrek. Ef hún fær viðurkenningu er það eftir áratuga starf.

Hver er hún þessi mildi? Í stað loftárása býður hún upp á félagslega aðstoð, í stað útilokunar býður hún upp á samkomulag, í stað fyrirlitningar býður hún virðingu, í stað reiði býður hún sátt, í stað grimmdar býður hún uppbyggingu, í stað dauða veitir hún tækifæri til mannsæmandi lífs. Hún drepur ekki úr launsátri eða lofti eins og heigull heldur gengur í eigin nafni andspænis fátækt, misrétti, vansæmd og aðstæðum sem vekja hatur, deilur og ofbeldi – og hlúir að veikustu þáttum samfélagsins til að efla þá.

Mildi vísar á blíðu og miskunnsemi, gjafmildi og jafnvel örlæti.

Mildin hefur mátt þola háð og spott í árþúsundir jafnvel þótt harka sé frumstætt fyrsta viðbragð, en mildin er siðfáguð. Hún er falin fegurð sem opinberast ekki fyrr en eftir á. Hún snýst um að leggja eitthvað á sig til að sættast, um að ganga annan veg en hefðin kveður á um. Mildin er langtímalausn.

Aðferð mildinnar kemur í veg fyrir að mótspyrnumaðurinn þurfi að fórna öllu. Hann getur snúið aftur án vansæmdar og hefndarhugar. Mildin segir við hann: „Ég er reiðubúin að tapa einhverju til að forða því að þú tapir öllu“. Mildin er andstæð kúgun sem er skuggi hörkunnar. Særið engan er friðarregla  mildarinnar, ræktið lífið og verið gæði með hughreysti.

Mildin sjálf og mjúklyndið er hvorki háð réttlæti eða frelsi, hún er aðeins aðferð til að takast á við hlutina, hennar aðferð er þó réttlát og opnar fyrir frelsi. Seinvirk aðferð mildinnar knýr fólk til sátta á veginum en harðneskjan krefst skyndilausnar sem í raun er aðeins vopnahlé. Harkan þrífst á fjarlægð og fordómum. Mildin á nærveru og samlíðun.

Hvers vegna gera samfélög sem kenna sig við mannréttindi og mannúð loftárásir þar sem óbreyttir borgarar farast, karlar, konur og börn, jafnvel stórfjölskyldur. Hvers vegna er innrásin í Írak 2003 ekki víti til varnaðar? Hvers vegna feta Vesturlönd aftur og aftur í fótspor hugleysis?

Þetta er vonandi verðugar spurningar. Gunnar Hersveinn rithöfundur ræðir um styrkleika mjúklyndis og veikleika harðlyndis á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 15. október og Inga Dóra Pétursdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, talar um birtingarmyndir ófriðar fyrir konur og börn í Afganistan en hún er nýkomin heim eftir hálfs árs vinnu í Afganistan á vegum friðargæslunnar sem kynjasérfræðingur hjá NATO.

Inga Dóra hefur margt að segja en hún var jafnréttissérfræðingur í höfuðstöðvum Alþjóðaliðsins í Afganistan í sex mánuði á þessu ári á vegum Friðargæslu Íslands. Staða kvenna í Afganistan er einna verst í heiminum þrátt fyrir að lífsgæði þeirra hafi aukist undanfarin 10 ár. Staða kvenna á Íslandi er aftur á móti best samkvæmt sömu könnnunum World Economic Forum.

Íslendingar hljóta því að hafa eitthvað að gefa öðrum þjóðum. Jafnrétti er falleg gjöf til annarra.

Það var ekki fyrr en árið 2009 sem lög gegn kynbundnu ofbeldi gerðu það refsivert í Afganistan að selja/gefa konur og stúlkur sem sáttargjöf í deilum, kveikja í eða brenna með sýru, nauðga eða gifta barnungar stúlkur.

Hvernig væri að hafna harðúð endanlega og treysta á afrek mannúðar?

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

 Tengill

Heimspekikaffi í Gerðubergi 15. október 2014

 

 

JAFNSÆLT AÐ GEFA OG ÞIGGJA

12_vef_feb_heimspeki_visitAð kunna að gefa með gleði og þakka af heilum hug er meira virði en margur hyggur, það er jafnvel forsenda velgengni í lífinu. Gjöf og þakklæti ganga ekki kaupum eða sölum, þessar dyggðir eru djúpur lærdómur. Þótt ávallt sé fullyrt að sælla sé að gefa en þiggja þá er það ekki augljóslega rétt. Að mörgu leyti er jafnt á komið með þiggjanda og gefanda.

Gjöfin er ekki gjöf nema með ákveðnum skilyrðum. Hún er ekki gefin með ólund heldur gleði. Hún er aðeins gefin með góðum hug og gefandinn býst ekki við endurgreiðslu. Eins þarf þiggjandinn að gleðjast og taka við henni án beiskju.

Gjöf og þakklæti eru samstæður. Sú og sá sem lærir að gefa með gleði og sá sem lærir að þiggja með gleði lærir jafnframt uppbyggjandi afstöðu gagnvart samfélaginu. Hún losnar undan nístandi löngun til að taka af öðrum, safna upp einskis nýtum hlutum, losnar undan græðginni. Hún verður þakklát fyrir tækifærið til að geta gefið öðrum.

Siðaboðið „gefið öðrum“ er lögmál velgegni í lífinu. Sú sem gefur, öðlast eitthvað annað, hún veit ekki hvað, aðeins að það er eitthvað gott. Sá sem þiggur gerir það með þakklæti, hann vex og vonast til að geta gefið öðrum síðar. Þannig eru þessi hugtök samtvinnuð en þau verða til umræðu í heimspekikaffi í menningarmiðstöðinni í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 17. september kl. 20.

Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur fjallar þar um leyndardóma þakklætis og gjafar og Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur talar um hvernig þakklæti getur verið stysta leiðin frá reiði og vanlíðan og lykill að hamingju jafnt í amstri hversdagsins sem í erfiðleikum og sorg vegna missis.

Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum. Allir eru velkomnir.

Tengill

Heimspekikaffi í Gerðubergi 17. september: Leyndardómar þakklætis og gjafar

 

 

 

 

Höfnum óvild, veljum frið

israel-palestineKúgun er alltaf röng, stríð og ofbeldi og morð er alltaf rangt. Stríðsleiðtogar sem efna til deilna milli þjóða deyja sjaldnast vegna myrkraverka sinna heldur deyja aðrir karlar, konur og börn í hópum. Hrokafullir stríðsleiðtogar beita klækjum og blekkingum, lygum og áróðri til að fá sínu framgengt. Trúum engu sem frá þeim kemur, valdið er ekki þeirra.

Hundrað ár eru liðin frá því að heimsstyrjöldin 1914-1918 hófst. Rangar ákvarðanir, heimska, illska og grimmd kostuðu að minnsta kosti 16. milljónir lífið og árin 1939-1945 töpuðu ekki færri en 40. milljónir lífi sínu, átökin í Palestínu eiga meðal annars rætur í heimsstríðum tuttugustu aldar.

Það nægir að líta eina öld aftur í tímann til að sjá blóðuga skelfinguna og heyra þjáninguna sprengja hljóðhimnur. Ofbeldismenningin getur ekki leyst eitt eða neitt, aðeins skapað meiri viðbjóð. Hún hefur aðeins dauða og þjáningu í för með sér.

Friðarferlið hefst ekki fyrr en vafasamir leiðtogar stíga til hliðar eða missa tiltrú fólksins. Það eru engin landamæri, engin lína milli nágranna. Borgarar allra landa þurfa að rísa upp og neita að taka þátt í átakmenningunni sem spinnur hatursferlið. Neita að deila, neita að vera óvinir og viðurkenna jafnan rétt allra.

Allir allsstaðar, hættum að bíða eftir óhæfum leiðtogum, sköpum friðarmenningu og gerum hana að okkar lífsskoðun. Tökum valdið og vopnin af hinum ófæru og í ljós kemur að það er græðgi hinna fáu sem allt er að drepa, óvild þeirra og hatur eyðileggur líf annarra.

Höldum grið og frið. Særum engan!

Veröldin sem verður – veltur á afstöðu okkar, mótspyrnu og hugsjónum.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Ljósmynd/Unhate foundation

Ísland – Palestína – Hvað getum við gert?

peace

Ísland á ekki landher, flugher eða sjóher, engin hervopn, engar herdeildir, enga hershöfðingja, engan stríðsmálaráðherra, engar hervarnir, ekkert af neinu tagi sem getur flokkast undir stríðsrekstur. Ísland gæti þar af leiðandi ekki gert neins konar innrás, hvorki sótt né varið sig. Sama má segja um Palestínu.

Ef stríðsleiðtogar annars lands myndu beita ógnarherstyrk sínum til að skelfa, hræða og myrða Íslendinga, rústa híbýlum þeirra, skólum, sjúkrahúsum og hverju öðru sem stríðsrekstur getur þurrkað út, myndum við sennilega óska þess að einhver rétti hjálparhönd og reyndi að skilja stöðu okkar. Ef Ísland væri undir járnhæl stríðsherra sem margir óttuðust, myndum við eflaust óska þess að einhverjir hefðu hugrekki til að vera vinir okkar.

Þjóðarleiðtogar myndu ef til vill þegja og helstu fjölmiðlar láta sér nægja að lýsa annarri hliðinni og stilla málinu upp sem átökum milli tveggja jafnvígra aðila, með og á móti, sigur og ósigur.

Allir ættu þó að vita að stríðsaðferðin sem leiðtogar Ísraelsríkis beita gagnvart Palestínumönnum gerir aðeins illt verra. Þeir vita það sjálfir, því ef það væri áhugi á nágrannakærleik og friðsemd þá yrði allt annarri aðferð beitt í samskiptunum. Sú aðferð er friðarreglan og hún hljómar svona: særið engan.

 ÁTAKAMENNING – FRIÐARMENNING

Friðaraðferðin er jafngömul og jafnkunn og aðferð átakanna en hún er hljóðlát og þarfnast alúðar og tíma. Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem sett er fram til aðskilnaðar. Hún er grunnregla mannréttinda. Hún er ekki flugskeyti. Hún bindur ekki, skerðir ekki frelsi, hún kveður aðeins á um ein mörk. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það á ekki að gera. Hún setur aðeins eitt bann.

Hún er friðurinn, heimsfriðurinn í hjartanu. Hún er silfurreglan: Ekki óska neinum þess sem vekur þér andstyggð. Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér.

Ekki gera öðrum það sem þú sjálf/ur forðast.

Eflaust má finna undantekningu á friðarreglunni í formi sjálfsvarna og gilda réttlætingu fyrir broti á reglunni – en reglan sjálf verður þó ekki numin úr gildi. Verkefnið er að læra regluna og kenna hana, ekki að vopnbúast heldur friðvæðast.

Réttlæti er aldrei samferða ofbeldi, kúgun og manndrápi.

Ef reglunni er fylgt þróast friðarmenning. Reglan er mild og þekkist á því að sá sem virðir hana vinnur lífinu ekki mein, heldur skapar ró og næði, öryggi. Hann skýtur ekki fyrst og býður svo í friðarviðræður.

Friður er lærdómsferli með jöfnuð að leiðarljósi. Hann kemur böndum á agaleysi og eyðir tortryggni sem lengir bilið á milli manna og þjóða. Hvar sem ójöfnuður fær að vaxa brýst fyrr eða síðar út styrjöld. Friðarmenning er aftur á móti ljósið út úr óreiðu heimskunnar.

Öll viðleitni sem snýst um friðarmenningu hefur jöfnuð að mælikvarða: að stytta bil á milli manna, hópa og þjóða í öllum málaflokkum og draga úr stéttaskiptingu. Það er sterk fylgni milli réttlætis og jafnaðar. Árás á Gaza núna breikkar bilið, skilur fólk að og skapar yfirstétt og undirskipun, ríkidæmi og fátækt og hvaðeina annað sem reisir múra á milli manna og þjóða.

Allir ættu því að gera sér ljósa grein fyrir að friðarreglan er ekki iðkuð um þessar mundir á þessu tiltekna svæði og það bitnar á borgurum. Hvað getum við gert? Jafnvel þótt við séum smá og virðumst marklaus, þá munum við aldrei hætta að mótmæla heimskunni og grimmdinni.

Fylgjumst með, knýjum á, mótmælum, það skiptir máli, jafnvel afstaða, viðbrögð og rödd okkar skiptir máli. Efumst ekki, við erum öll jöfn gagnvart mannréttindum hvar sem við búum, hvort sem það er í Gaza, Manhattan eða í Breiðholtinu.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

 

 

Heimspekikaffi haustið 2014

12_vef_feb_heimspeki_visitHeimspekikaffið verður drukkið í Gerðubergi haustið 2014 eins og undanfarin ár. Það hefur verið sérlega vel sótt og gestir tekið fullan þátt í umræðum. Eftirfarandi efni verður til umræðu í haust:

17. september 2014: Þakklæti/Gjöf
Gunnar Hersveinn býður upp á umræðu um mikilvæg hugtök. Þakklætið og gjöfin geyma leyndardóma. Innlegg frá góðum gesti.

15. október: Mildi/Ofbeldi
Gunnar Hersveinn skapar umræðu um mikilvæg viðhorf og viðbrögð. Mildi og ofbeldi eru andstæður. Innlegg frá góðum gesti.

 19. nóvember: Einsemd/Vinsemd
Gunnar Hersveinn teflir saman mannlegum tilfinningum. Vinsemd og einsemd hafa áhrif á hamingjuna. Innileg frá góðum gesti.

„Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum. Margir hafa fengið gott veganesti eftir kvöldin eða a.m.k. eitthvað til að íhuga nánar og ræða heima eða á vinnustað sínum. Heimspekikvöldin hefjast klukkan 20.00 og eru allir velkomnir. Gunnar Hersveinn hefur frá upphafi haft umsjón með dagskránni og leiðir gesti í lifandi umræðu um málefni sem eru ofarlega á baugi. Þetta kvöld fjallar hann um gildi hæglætis í hraðasamfélaginu og fær góðan gest til að finna óvænt sjónarhorn.“ www.gerduberg.is

GÓÐIR GESTIR Í GERÐUBERGI

Eftirfarandi þemu og gestir hafa verið undanfarin ár í heimspekikaffinu:

 

Heimspekikaffi – Hjálpsemi og vinátta

Gestur Sigga Víðis

Heimspekikaffi – Hamingja og nægjusemi

Gestur Anna Valdimarsdóttir

Heimspekikaffi. Röksemi – Karpsemi

Gestur Hafþór Sævarsson

Heimspekikaffi – Gott | Illt

Gestur Þórdís Elva Þorvaldsdóttir

Heimspekikaffi – Ást | Fæð

Gestur Aðalheiður Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Grín | Alvara

Gestur Helga Braga leikkona

Heimspekikaffi – Gæfuspor | Feilspor

Gestur Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Viska | Fáviska

Gestur Friðbjörg Ingimarsdóttir

Heimspekikaffi – Tími | Frelsi

Gestur Vilborg Davíðsdóttir

Heimspekikaffi – Stríð | Friður

Gestur Helga Þórólfsdóttir

Heimspekikaffi – Konur | Karlar

Gestur Hanna Björg Vilhjálmsdóttir

Heimspekikaffi – Líf | Dauði

Gestur Bjarni Randver Sigurvinsson

Heimspekikaffi – Hugsjónir breyta heiminum

Gestur Áshildur Linnet

Heimspekikaffi – Kærleikurinn og hrunið

Gestur Sigríður Guðmarsdóttir

Heimspekikaffi – Sjálfsþekking

Gestur Guðrún Margrét Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Hugrekki og sjálfsmynd

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Hæglæti í hraðasamfélagi

Ásgerður Einarsdóttir

Heimspekikaffi – Sjálfsvitund

Anna Valdimarsdóttir

 

Frásögn af heimspekikaffi, Reykjavík- vikublað, bls. 12

 

 

 

Náttúrugildi, tækni og hraði

islandGildin í náttúrunni voru í brennidepli í sólstöðugöngu í Viðey 21. Júní 2014. Gunnar Hersveinn hélt tölu undir berum himni og tengdi saman nokkur lykilhugtök milli manns og náttúru sem ef til vill er gott að hafa í huga í sumar.

1. NÁTTÚRUVERNDARI

Það er skylda náttúruverndara að veita aðhald, upplýsa og skapa umræðu gagnvart verkefnum sem skaða meira en þau bæta. Það er ekki aðeins lofsverð hegðun að gera það heldur skylda sem krefst oft hugrekkis og hugkvæmni. Verkefnið er það viðamikið um þessar mundir að það krefst verkaskiptingar, sumir upplýsa, aðrir skapa umræðu og þriðji hópurinn stundar aðhald með mótmælum.

Náttúruverndarar myndu ekki áorka miklu án mótmæla. Hlutverk þeirra er m.a. að standa vörð um villta náttúru. Maðurinn hefur raskað svo yfirþyrmandi mörgu í náttúrunni að það sætir furðu að hann skuli enn sífellt finna nýja staði til að manngera. Jafnvel ósnortin strandlengja, fjörður án þverunar, eyja og vegalaust hraun er á teikniborðinu líkt og hið náttúrugerða sé ekki nógu mikils virði.

Hlutverk náttúruverndara er einnig að kenna og efla virðingu gagnvart landslagi, stöðum, heimkynnum annarra og gagnvart náttúrunni allri, jafnt smáu sem stóru og út frá mörgum sjónarhornum. En dyggð er siðferðilegur eiginleiki sem hægt er að æfa með bóklegum og verklegum lærdómi.

2. FRIÐSEMD

Starf friðsemdar í náttúru Íslands snýst oft um að bjarga verðmætum undan eyðileggingarmætti græðgi og heimsku. Hún þarf sífellt að forða gersemum undan, hindra, stöðva, afla fylgis, afhjúpa og opna augu annarra. Tími og orka friðsemdar fer í björgunarstarf en miklu meira býr í henni – aðeins ef fólk gæfi henni tækifæri til að blómstra.

Friðsemdin beitir ekki aðferðum ofbeldis og eyðileggingar. Hún græðir og byggir upp. Hún getur verið kröftug sem dínamít en hún kúgar aldrei. Hún getur verið beittur penni og orðhvöss tunga en þrátt fyrir það eru sérkenni hennar vinsemd og sátt. Hún nemur ekki staðar, hún heldur áfram og einkenni hennar eru víðsýni og innsýn í betri framtíð.

Hún getur staðið fyrir kröftugum mótmælum og einnig byltingum. Hún getur bundið sig með keðjum á stórvaxnar vinnuvélar eyðileggingarinnar. Hún er fangelsuð víða um heim af hræddum kúgurum í nafni lyginnar. Hún hrópar og hún skammar – en hún er ekki flagð undir fölsku skinni eins og mótherji hennar.

Friðsemd er höfuðdyggð náttúruverndara. Framtíðarvelferð lands og þjóðar, vitundin um velferð næstu kynslóðar, vistkerfis og lífríkis knýr hana áfram. Þaðan fær hún orkuna. Hún skapar ekki óvild og vekur ekki upp hatur heldur hvetur til umræðu á jafnræðisgrunni.

Friðsemdin er engin lydda, hún er óstýrilát gagnvart kúgandi valdi. Hún er sjaldan í fréttum því aðferð hennar felur ekki í sér ógn eða sigur, ekki kænsku eða dauða. Samt er hún bylting.

Við erum ekki aðeins, íbúar í borg, bæjum og sveitarfélögum. Við erum einnig staðurinn, landslagið, umhverfið og náttúran öll.

3. BIÐLUND

Við stöndum í biðröð eftir einhverju eða bíðum í röð á símalínu. Við bíðum eftir tíma, bíðum eftir að fá aðgang eða inngöngu eða að sleppa aftur út. Við röðum okkur upp – eða ekki. Hvern einasta dag bíðum við eftir einhverju og sennilega bíða einhverjir eftir okkur.

Bið getur falið í sér eftirvæntingu, kvíða, streitu, gleði eða ugg. Hún er alls ekki tóm eða tilgangslaus, hún er full af lífi. Bið þarfnast þolinmæði og þrautsegju. Hún kallar á þolgæði gagnvart hindrunum, áskorunum, töfum og framvindu. Biðlund þarf til að meta aðstæður, tíma og viðbrögð. Bið er rúm til að íhuga og endurmeta – áður en það verður of seint.

Við bíðum oft eftir að eitthvað renni upp eða líði hjá í náttúrunni. Við bíðum eftir sólarupprás eða sólarlagi, eitthvað byrji, endi eða fari í hring. Vind lægi eða að það gefi byr í seglin. Það rigni eða stytti upp. Bið er lífsháttur en sá sem þurrkar út biðina í lífinu sínu er sagður lifa í núinu.

Náttúran bíður ekki, það er flóð eða fjara, hún líður, rís og hnígur, ólgar og róast. Hún býr yfir auðlindum sem gera svæði lífvænleg og vistvæn fyrir mannfólk og aðrar lífverur – eða ekki, jörðin er frjósöm eða hrjóstug.

Mannstæknin snýst oft um að stytta eða þurrka út bið og að fullnægja óskum fólks umsvifalaust: núna! Bið virðist óbærileg á Vesturlöndum þar sem flestallt snýst um hraða samhliða hinni gegndarlausu framþróun.

Það er hlutverk þeirra sem fylgja sjálfbærni og vinna gegn skammsýni: að verja náttúruna. Þeirri vörn lýkur aldrei. Biðlund er vissulega dyggð en bíðum ekki boðanna. Bið er betri en bráðræði.

4. TÆKNI

Tækniborgarsamfélag gaf borgarbúum tækifæri til að að yfirgefa náttúruna og stíga endanlega inn í heim tækninnar. Börn náttúrunnar urðu jafnskjótt jaðarhópur og homo technologicus varð nýtt viðmið á rétt og rangt, gott og vont. Farsældin varð tæknivædd og hið tignarlega varð manngerð náttúra líkt og fossinn Hverfandi í Kárahnjúkastíflu.

Tækniborgarbúinn glataði fljótlega sambandinu við náttúruna. Raflýsing þurrkaði út greinarmun dags og nætur. Störfin urðu óháð árstíðunum. Athafnir, viðburðir og verkefni urðu óháð árstíðum og manninum í sjálfsvald sett hvernig þeim er raðað niður á dagatalið. Veðrið hefur heldur ekki mikil áhrif því ferðir milli húsa eru í raun óþarfar.

Tæknimaðurinn sigraði náttúruna og á tæknilausnir við flestöllum hennar lögmálum. Hún getur ekki komið manninum lengur á óvart og því virðast flestallar aðstæður viðráðanlegar og leita má tæknilegra lausna á hverju því sem truflar eða vekur ugg þótt eina ráðið gegn gróðurhúsaáhrifum sé að temja sér nægjusemi.

Dyggðir sem glatast í vestrænum tæknisamfélagum eru t.a.m. þolinmæði, biðlund, nægjusemi og virðing fyrir náttúrunni. Markaðurinn í tæknisamfélaginu býður upp á skeytingarlausa sölumennsku sem snýst um að fá allt strax og selja það síðan.

Tæknimaðurinn geysist áfram á leifturhraða þótt jaðarhópar reyni að spyrna við fótum með hæglæti. En hvað með náttúruvernd í ljósi hraða- og tæknisamfélagsins? Svara þyrfti nánast öllum sviðum mannlífsins og borgarlífsins með hæglæti

Náttúruvernd snýst ekki aðeins og einungis um að bjarga óviðjafnanlegum svæðum frá eilífri glötun í gin tækninnar heldur einnig um að varðveita nauðsynlegt samband mannsins við náttúruna sjálfa.

Tæknin og hraðinn hafa fært okkur margt en því miður færa þau okkur jafnframt fjær náttúrunni. Það sem okkur skortir er hæglæti.

5. KÆRLEIKUR

Kærleikur er meira en dyggð, meira en tilfinning og meira en viðhorf. Hann birtist þegar væntumþykjan breiðist út fyrir innsta hring, líkt og vinarhönd sem teygir sig til ókunnugra. Kærleikurinn hefur biðlund, hann hugsar sig lengi um en raskar ekki jafnvæginu í náttúrunni.

Tákn hans er fugl sem veitir ungum skjól undir vængjum sínum. Kærleikurinn verpir ekki öllum (fjör)eggjum sínum í stakt hreiður og teflir hvorki auði sínum né annarra í tvísýnu vegna þrjósku eða augnabliksþarfar. Andstæða kærleikans er tómleiki, tómt hreiður.

Viskan er lík kærleikanum, hún er strengur á milli kynslóða og ráðlegging um umgengni við náttúruna. Hún mælir með varkárni og virðingu mannsins gagnvart náttúruöflunum. Tákn viskunnar er vatnið, það er safn upplýsinga um lífið. Andstæða viskunnar er tómið, uppþornað stöðuvatn.

Íslensk náttúra þarf líkt og öll náttúra á hnettinum á kærleika og visku að halda því þetta par er ekki múrað innan landamæra og girðinga stað- og tímabundinna hagsmuna. Þau eru lík fiskum sem þrífast best í heilbrigðu hafi og vatni og fuglum sem þurfa á heilnæmu lofti að halda, hvort sem það er í vestri, suðri, austri eða norðri.

Allt tengist saman í einni jörð undir einum himni, einni tímarás, einu lífi. Stund tómlætis er liðin, tími væntumþykju og þolgæði hafinn.

6. VIRÐING

Heillavænlegt mannlíf skapast þar sem sambandið við umhverfið hvílir á virðingu. Það getur falist í aðdáun, það getur einnig falist í óttablandinni virðingu. Það hvílir á varfærni þar sem tíminn er ekki iðulega að renna úr greipum. Það hvílir á von um traust samband.

Viðhorf til íslenskrar náttúru er breytilegt eftir öldum og tíðaranda. Samband manns og umhverfis hefur ekki verið stöðugt. Á 21. öldinni felst verkefnið í því að koma á jafnvægi í samband manns og umhverfis. Það er bráðnauðsynlegt verkefni að bjarga sambandinu, koma í veg fyrir (að)skilnað.

Viðhorf til umhverfis getur verð á marga lund: vistvænt, lífrænt … jafnvel hvatrænt og vitrænt. Ef sambandið er ofið virðingu þrífast mörg viðhorf, því virðing felur í sér væntumþykju í stað firringar: áhuga- og skeytingarleysis.

Virðing felst í því að nema verðmæti frá mörgum sjónarhornum, jafnt manna, dýra og náttúruminja. Skynja fyrirbærin í sjálfu sér og í samhengi við aðra og annað. Virðing felst í því að hlusta, skoða, greina, og meta með framtíðina í huga, ekki aðeins næstu þrjú ár, heldur þrjátíu og ekki aðeins þrjátíu heldur þrjú hundruð.

Næsta samband manns og náttúru, það samband sem verður ríkjandi í heiminum, þarf nauðsynlega að hvíla á virðingu. Sú virðing getur orðið gagnkvæm því lífveran sem nefndist Homo sapiens er sprottin af móður jörð þótt henni líði líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

 

Náttúrugildin virðing, biðlund, kærleikur, náttúruvernd og friðsemd þurfa að vera kröftug í tækni- og hraðasamfélaginu, þau þarf að læra og æfa.

Sólstöðugangan er meðmælaganga með lífinu og er m.a. skipulögð af Þór Jakobssyni og Viðey – Reykjavíkurborg.

Gunnar Hersveinn

 

 

HERNAÐURINN GEGN HÁLENDINU

framtidarlandspistlar_GHHernaðurinn gegn hálendinu vekur skylduna til að mótmæla eyðileggingu, skylduna til að standa vörð um verðmætin og skylduna til að setja málið í rétt samhengi, upplýsa og afhjúpa. Sóun er röng og það er skylda þess sem veit, að upplýsa um vá, vara við hættulegri hegðun og grípa til varna.

I. SKYLDAN KNÝR Á

Skyldur eru af ýmsum toga. Það er skylda að starfrækja skóla og það er skylda að ganga í skóla og mennta sig. Það er skylda að greiða skattinn og borga launfólki. Það er skylda að koma náunga sínum í nauð til hjálpar og það eru skyldur í fjölskyldum. Skyldur eru lagalegar og/eða siðferðilegar.

Hver manneskja ber margvíslegar skyldur sem knýja á með ólíkum hætti. Skyldan getur verið sett af ríkisvaldinu, hún getur sprottið af hlutverki og stöðu einstaklings en einnig af hugsjón og skilningi á samhengi hlutanna. Ef heimskan ræður för felst rík skylda í að gera tilraun til að kveða hana niður og upplýsa um hættuleg áform og hegðun.

Skyldan getur verið gagnvart náttúru lands, hún getur beinst að hálendi Íslands. Ef ómetanleg verðmæti eru um það bil að verða græðgi og heimsku að bráð þá felst skyldan í því að verja þau – til dæmis með kröftugum mótmælum og upplýsingum.

Allir bera margar skyldur en enginn getur rækt þær allar vel. Hver borgari þarf því að velja sér siðferðilegar skyldur til að sinna af alúð, þær gætu til dæmis fallið undir umhverfis-, uppeldis-, jafnréttis- eða heilbrigðismál og hvers konar baráttu gegn misrétti og ofbeldi.

Skyldur kveða ekki aðeins á um aðgerðir heldur einnig að gera ekki eitthvað, særa ekki aðra, misbjóða ekki öðrum, beita ekki ofbeldi, ekki að eyða eða deyða. Hún gæti einnig falist í því að standa vörð um eitthvað, vernda og hlúa að og hún gæti snúist um að gera eitthvað afgerandi, breyta einhverju. Skyldan getur jafnvel togast á við aðra lagalega skyldu og borgarinn talið rétt að stíga á og jafnvel yfir strik réttvísinnar.

II. NÁTTÚRUVERNDARINN

Mótmæli eru ekki alltaf val, það er vissulega mannkostur að hafa dug í sér til að andmæla ofríki, en andspyrnan getur líka orðið skylda. Sá sem hefur valið sér málaflokk og vill vera náttúruverndari tekur sér um leið þá skyldu á herðar að mótmæla, standa vörð um tiltekin verðmæti, hlúa að eða rétta hlut með aðgerðum.

Aðstæður, staða og hefðir ráða því oft hvort sú skylda telst lagaleg eða siðferðileg en segja má að það sé borgaraleg skylda að mótmæla heimsku, kúgun, valdhroka og hvers konar aðgerðum sem valda skaða land og þjóð. Það er skylda gagnvart fortíð og nútíð og gagnvart næstu kynslóð.

Það er bæði siðferðileg og lagaleg skylda að hjálpa náunganum í nauð, en það er jafnframt skylda að vernda náttúruna fyrir eyðileggingu og koma í veg fyrir sóun á auðlindum. Sóun er ávallt röng. Fullgildur borgari mótmælir, hann situr ekki bara hjá og er skeytingarlaus, heldur ber honum skylda að taka þátt og forða því að næsta kynslóð þurfi að súpa seyðið af eyðileggingunni.

Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur leit á það sem skyldu sína að mótmæla að Fögruhverum yrði sökkt í þágu virkjunarframkvæmda. Hann mótmælti og hann vakti athygli á eyðileggingunni með því að fremja gjörning á staðnum. Breytni eftir hann hefur æ síðan verið í hávegum höfð af náttúruverndurum. Hann mótmælti, upplýsti og framkvæmdi.

Það er skylda náttúruverndara að veita aðhald, upplýsa og skapa umræðu gagnvart verkefnum sem skaða meira en þau bæta. Það er ekki aðeins lofsverð hegðun að gera það heldur skylda sem krefst oft hugrekkis og hugkvæmni. Verkefnið er það viðamikið um þessar mundir að það krefst verkaskiptingar, sumir upplýsa, aðrir skapa umræðu og þriðji hópurinn stundar aðhald með mótmælum.

III. RANGT OG RÉTT

Særum ekki, eyðum ekki, gerum ekki það sem er rangt, treystum ekki þeim sem eyða ómetanlegum verðmætum í nafni framþróunar eða ofmati á eigin mætti. Eyðilegging á hálendi Íslands á ekki að vera ákvörðunarefni einnar kynslóðar eða ríkisstjórnar. Staða hálendis Íslands er tvísýn og uggvænleg um þessar mundir. Það er því ekki lengur val heldur skylda allra núlifandi náttúruverndara að standa vörð um hálendið. Þekkingin er fyrir hendi og frekari eyðilegging og sóun er röng.

Greinarmunurinn milli þess hvað er rangt og hvað er rétt gagnvart hálendi Íslands verður æ skýrari með tímanum því víðernin þar hafa dregist saman um tæplega 70% frá árinu 1936. Hálendið þarf ekki lengur að njóta vafans því vafinn er ekki lengur fyrir hendi heldur aðeins blákaldar staðreyndir. Sá sem leggur við hlustir heyrir hjarta landsins slá og um leið vaknar skyldan.

Hernaðurinn gegn hálendinu vekur skylduna til að mótmæla eyðileggingu, skylduna til að standa vörð um verðmætin og skylduna til að setja málið í rétt samhengi, upplýsa og afhjúpa. Núna er það siðferðileg skylda sem knýr á og ef við hlýðum henni ekki munu leifarnar af hálendi Íslands aðeins birtast sem sýnishorn úr horfnum heimi.

IV. DÆMI TIL SKÝRINGAR

Reykjavík er vatnsrík borg og yfirleitt er horft framhjá sóun á neysluvatni. Ef neysluvatn dygði aftur á móti tæplega í sólarhring yrðu til siðareglur sem myndu kveða á um ábyrga notkun og virðingu gagnvart ferskvatni svo allir fengju að njóta. Ef neysluvatnið dygði ekki til að svala öllum alla daga þá yrðu sett ströng lög með reglugerðum og refsingum til að sporna gegn misnotkun. Skömmtun á vatni handa hverjum og einum yrði siðferðilega rétt og lagaleg skylda en öll sóun á þessari dýrmætu auðlind yrði röng.

Eins er með hálendi Íslands. Áform um að skerða það enn frekar með virkjunum og lónum og skera það í sundur með línumöstrum eru hrópandi röng en áform um að vernda það eru óhjákvæmilega rétt. Ný skýrsla Orkustofnunar um virkjanakosti er þáttur í hernaði gegn hálendi Íslands og áform um malbikaða hálendisvegi með raflýsingu og háspennulínur Landsnets yfir Sprengisand og annað ómetanlegt land eru alröng.

V. NIÐURSTAÐAN

Tíminn er liðinn. Hlífum hálendinu við frekari röskun, verndum miðhálendið með lögum um þjóðgarð, eflum ábyrgð og virðingu fyrir þessu undri veraldar. Náttúruverndarar sem vilja leggja hálendinu lið geta skráð sig á vefnum www.hjartalandsins.is hjá Landvernd og skoðað náttúrkortið á vef Framtíðarlandsins

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

Tenglar:
http://hjartalandsins.is/

Náttúrukortið