barn

Breytum lífi annarra

Mynd frá Unicef/ http://unicef.is/Það skiptir ekki máli hvort það eru þúsund eða þúsund sinnum þúsund manns sem þjást, félagslegt óréttlæti ríki eða hungursneyð – faðmurinn á að vera opinn. Það skiptir heldur ekki máli hvort neyðin er fjarlæg eða nálæg, það er iðulega gott að rétta fram hjálparhönd og andmæla því heimsskipulagi sem viðheldur ranglæti.

Við getum breytt lífi annarra, bæði viðhorfum samborgara okkar og lífsskilyrðum fólks í öðrum heimsálfum. Okkur bjóðast ótal tækifæri til þess. Án tafar getum við gefið pening til hjálparstarfa, við getum knúið á um breytingar og við getum jafnvel farið á vettvang sem sjálfboðaliðar. Allt, ef við bara viljum.

Þylja má upp ógnvekjandi tölur um neyð barna og fullorðinna, stundum vegna þurrka, stundum vega flóða og stundum vegna stjórnarfars. Hér er dæmi um tölu: Um það bil 700 þúsund börn í Austur-Afríku eru lífshættulega vannærð og þurfa á tafarlausri aðstoð að halda.

Mat skortir, lyf, hreint vatn, skjól og öryggi – allt þetta er til reiðu, allar forsendur, öll gæði. Hægt er að breyta heiminum til betri vegar á áratug – bara ef við viljum ryðja hindrunum úr vegi. Bíðum ekki eftir að gömlu heimsveldin rétti fram hramminn. Notum eigin hjálparhendur!

Fátækt, óréttlæti, efnahagslegt misrétti, pólitík og félagslega slæmar aðstæður vekja hatur og ofbeldi og viðhalda neyðinni. Misskipting gæða, kúgun, arðrán og áróður sem skipar fólki á bása eftir uppruna, trúarbrögðum eða stjórnmálum veldur dauða saklausra. Vandinn er fjölþættur en lausnin er til – bara ef við viljum.

Magn skiptir ekki máli, nafn ekki heldur, ekki litarháttur, búseta, kyn, staða né neitt annað þegar beðið er um hjálp og mannúð. Aðstoðin er skilyrðislaus og enginn á að þurfa að greiða hana til baka. Hún er gjöf sem gott er að gefa og hefur gæfu að geyma.

Okkur ber að standa vörð um gæðin sem við búum við – en við eigum þau ekki skilið nema við leyfum öðrum að njóta. Fyrst í stað gefum við nauðsynjar og síðan þekkingu til að breyta lífsskilyrðum til betri vegar og jafna hlutskipti milli manna. Heimsskipulag þar sem fámennur karlahópur þykist eiga 99% auðs í heiminum skapar aðeins neyð fyrir æ fleiri. Slík heimsskipan má gjarnan hrynja.

Íslendingum býðst núna tækifæri til að gefa hjálparsamtökum sem koma börnum og fullorðnum í Austur-Afríku til hjálpar um þessar mundir. UNICEF á Íslandi, Rauði krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar eru meðal þeirra sem koma gjöfunum til skila. Gefum og tökum síðan til við að breyta heiminum!

Gunnar Hersveinn/ lifsgildin.is

Deila