Flokkaskipt greinasafn: Gunnar bloggar

Gamla og nýja valdið

Nýr tíðarandi er á næsta leiti. Hann verður ekki líkur þeim sem var og ekki heldur þeim sem ríkti þar á undan. Það er vandasamt að vinna að þessari heimsmynd því hún er viðkvæm, auðvelt er að sniðganga hana og margir eru á móti henni. Gamla valdið berst gegn þessum nýja anda og fær ýmsa í lið með sér.

Nýr tíðarandi krefst gagnrýnnar hugsunar í stað karps. Í skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stendur: „Nauðsynlegt er að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Siðfræði og heimspeki ættu að vera sjálfsagður hluti alls náms á öllum skólastigum, sem og gagnrýnin hugsun, rökræður og fjölmiðlalæsi. Í því skyni þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð.“ (13, 2010). Skýrslan var samþykkt á Alþingi. Nú þarf að vinna þessu brautargengi og finna leiðir framhjá margskonar hindrunum.

Vissulega er holóttur vegur framundan í þeirri viðleitni að skapa nýtt og öflugt lýðræði. Gamla valdið fellir tré yfir vegi, kemur upp tálmunum, lokar vegum … Frambjóðendur til stjórnlagaþings finna það til að mynda á eigin skinni. Þeir hljóta að teljast einhvers konar grasrót, eða mögulegt nýtt vald, andspænis gamla valdinu: yfir fimmhundruð karlar og konur eru reiðubúin til að taka þátt í endurskoðun stjórnarskrár, leggja sitt af mörkum og móta sýn fyrir framtíðina. Áhrif hefðbundinna valdastofnana á væntanlega þingmenn er þverrandi og því er gamla valdið óttaslegið.

Verkefnið á stjórnlagaþingi felst í samræðu og rökræðu, þar sem skipts er á skoðunum og tilraun gerð til að taka heillvænlegar ákvarðanir fyrir almenning. Þingið hefur niðurstöður þjóðfundar til hliðsjónar og upplag stjórnlagaþingsnefndar en ekki fyrirskipanir frá foringjum stjórnmálaflokka. Þingið á að vera opin lýðræðisleg samræða í samræmi við nýjan tíðaranda. Þarna má greina vísi að nýju valdi og það vekur mörgum valdamönnum ugg í brjósti.

Stjórnlagaþing er nýjung á Íslandi. Hefðbundin, vanabundin hugsun bregst illa við. Um þessar mundir fá frambjóðendur sendar fyrirspurnir frá fjölmiðlum og öðrum sem eiga það sammerkt að vera tilraun til að flokka þá í kvíar. Ert þú með eða á móti? Já eða nei? Ekki er gert ráð fyrir samtali eða samráði eða visku, aðeins einlínu afstöðu.

Eftir stjórnlagaþing verða vonandi gerðar rannsóknir á umfjöllun hefðbundinna fjölmiðla í aðdraganda þingsins. Þar mun líklega koma fram að fjölmiðlar ræddu aðeins við sérfræðinga um þingið og höfðu sérlega gaman af því að flokka frambjóðendur í kvíar. Fáskrúðug lýðræðisleg umræða, engin gagnrýnin hugsun, aðeins flokkunarárátta hugans sem styður hið gamla og „æskilega“ vald.

Frambjóðendur birtast núna í helstu fjölmiðlum landsins sem ein hjörð sem var svo „djörf“ að bjóða sig fram til að byggja upp annað Ísland en það sem nú hopar á hæli. Frambjóðendum er hvarvetna stillt upp eins og einsleitum vefhópi og gefst ekki tækifæri til að skiptast á skoðunum sín á milli eða ræða við almenning.

Ég býst við því að fram að kosningum 27. nóvember muni fátt koma fram í fjölmiðlum, um þetta mál, sem hefur það markmið að skapa upplýst almenningsálit, þótt það sé meginhlutverk fjölmiðla. Við munum sjá enn fleiri aðferðir til að raða frambjóðendum á bása í stað gefandi umræðu um mikilvæg málefni. Fleiri já eða nei, með eða á móti. Meira af fávisku, minna af visku.

Umræðuhefðin á Íslandi er eitt af því sem nauðsynlega þarf að breytast um leið og skipt er um tíðaranda. Markmiðið með umræðu er að finna líklegan veg til farsældar en ekki að sigra í kappræðu eða gæta sérhagsmuna. Núna hlaupa menn næstum undantekningarlaust í vörn og sókn þegar mikilvæg mál bera á góma. Það er úrelt aðferð, tökum ekki þátt í henni.

Þjóðfundurinn 2010 bað um jafnrétti, lýðræði, réttlæti, frelsi, heiðarleika, virðingu, ábyrgð og mannréttindi. Hlustum!

Næsti tíðarandi verður, ef við viljum, fjöllyndur, hann gefur ekki eyðileggingunni undir fótinn. Hann lyftir því sem hefur gildi. Hann teflir ekki fram einni lausn, heldur mörgum. Hann verður mildur. Hann er ekki draumur, heldur raunhæfur möguleiki sem nú þegar breiðist út …

Þegar úrelt hugsun á fjölmiðlum líður undir lok mun ný aðferð felast í því að beita uppbyggilegri gagnrýni, greina, skýra og miðla á faglegan hátt. Aðferðin er í raun ekki ný heldur felst nýjungin í því að leyfa henni að lifa.

Lýðræðið hefur spillst og engir geta hreinsað út nema borgararnir sjálfir. Sjálfboðaliðar úr hópi borgaranna verða að fá áheyrn fjöldans og leyfi til að breyta kerfinu. Verkefnið felst í því að endurskapa samfélagið, ekki að smiða hindranir með úrtölum.

Látum ekki telja okkur trú um að það séu önnur en við sem höfum völdin og ráðin til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir. Viska þjóðarinnar býr innra með henni. Hún verður ekki þvinguð fram heldur stígur hún fram sjálf við kjöraðstæður. Sköpum þær!

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Deila

Óttalaust tjáningarfrelsi

Frelsi til að tjá sig, frelsi til að mæla mál sitt. Frelsi til að tala, andmæla, færa rök, frelsi til að efast, gagnrýna og byggja upp. Frelsi til að leita upplýsinga og miðla þeim aftur til almennings. Frelsi til að gefa ráð, til að kynna verk sín, frelsi til að vera manneskja án þess að búa við fordóma annarra er dýrmætt.

Frelsi til að vera fullgildur borgari í landinu sem getur án ótta tekið þátt í lýðræðislegri umræðu ætti að vera sjálfsagt. Enginn ætti að þurfa að færa fórnir einungis til að geta tekið þátt í lýðræðislegum umræðum á opinberum vettvangi. Það er fásinna.

Á Íslandi sem var – krafðist það hugrekkis að taka þátt í lýðræðislegri umræðu, því sífellt reis einhver upp og reyndi að gera andmælendur tortryggilega. Þetta vissu allir og var síðan afhjúpað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Blaðamenn þögðu, háskólamenn þögðu …

Enn í dag þarf hugrekki til að standa með frelsi sínu til tjáningar. Hræðslan við skammir, óttinn við brottrekstur, kvíðinn vegna möguleikans á því að persónan yrði dregin inn í málið – allt þetta leiðir til þess að fólk velur fremur að þegja en að tala.

Frelsið knýr fólk til að tjá sig, gagnrýna heimsku og ofbeldi og mótmæla ósanngjarni hegðun. Í hverju landi og á hverjum stað er vald og hópur sem vill ráða ferðinni og berst ekki fyrir óttalausu tjáningarfrelsi borgarana. Foreldrar ættu í uppeldi barna sinna að kenna þeim hugrekki til að tala, hugrekki til að tjá hug sinn og ályktun, hugrekki til að mótmæla heimskunni. Slíkt myndi draga úr líkum á hræðslusamfélagi. Eða hver vill búa í samfélagi kvíða og angistar?

Frelsi er eitt af þjóðgildunum. Þjóðfundurinn 2009 valdi frelsi og þjóðfundurinn 2010 valdi frelsi. Hvers vegna? Vegna þess að þjóðin finnur fyrir skorti á frelsi andans og frelsi til tjáningar. Það eru alltaf einhverjir sem vilja setja öðrum of þröngar skorður. Samfélag þar sem borgarar þora ekki að tala eða taka þátt í rökræðum og samræðu af ótta við afleiðingarnar er ekki í góðum málum.

Sá sem verður hræddur, sá sem lætur kúga sig, sá sem hættir að þora að tjá sig, hann glatar sjálfum sér. Við eigum þvert á móti að standa keik í fæturna og mótmæla. Málfrelsi, ritfrelsi, talfrelsi, tjáningarfrelsi – hvers vegna ætti einhver að beita sig innri ritskoðun óttans, í stað þess að vera fyrirmyndarborgari sem tjáir sig og vill styrkja rétt sinn til að segja skoðun sína og taka þátt í umræðunni?

Sá sem gerir tilraun til að draga persónur niður í svaðið, sá sem sviptir einhvern einhverju vegna skoðana hans er ekki vinur frelsis heldur kúgunar. Ég held að á næstu árum verði frelsið eitt mikilvægasta þjóðgildið því þjóðin þarf að berjast fyrir frelsi sínu gagnvart skuldurum sínum og hver og einn þarf að standa vörð um frelsi sitt gagnvart öðrum. Aðferðin felst í því að temja okkur samræður, greina á milli málefnis og persónu og leita lausna í stað þess að búa til vandamál.

Ég skrifaði kafla um frelsið í bók minni Þjóðgildin. Þar stendur meðal annars:

„Innra ófrelsi felst í því að skapa sjálfum sér eða taka í arf ótta og hugleysi til að stíga skrefin. Sá sem býr við andlegt ófrelsi lýtur eigin þvingunum og stjórnsömu fólki. Hann nemur innri rödd og löngun, veit hvað hann vill, en skortir kraft og sjálfstraust til að fylgja því eftir. Frelsið er fyrir hendi en hann nýtir það ekki til fulls.“

„Hrædd þjóð, stillt þjóð, hlýðin þjóð, værukær þjóð, saklaus þjóð er í bágri stöðu þegar kjöraðstæður skapast fyrir þá sem vilja græða á henni. Þjóðin, hver hópur, hvert fyrirtæki, stofnun og félag þarf því að temja sér hugrekki og heiðarleika til að láta ekki traðka á sér. “

„Frelsið snýst ekki aðeins um að taka sér bessaleyfi til að framkvæma það sem hugurinn girnist. Frelsið felst einnig í því að setja sjálfum sér mörk, skipta um viðhorf, breyta hegðun sinni og gangast við ábyrgð sinni. Stilla frekjunni í hóf. Helsta hindrunin er að heimskan ræður of oft för. Þeir sem við leyfum að ráða hafa sjaldan áhuga á breyttu fyrirkomulagi.“

„Hættum að þræta um útmörk mögulegs frelsis og hefjumst handa við að velja leiðir til að bæta aðstæður, líðan, menntun og valfrelsi annarra. Frelsi spinnst af mörkum. Þau mörk snúast um kúgun og ofbeldi gegn manninum og anda hans. Frelsið sjálft felst í því að skapa heim sem fer ekki yfir mörk ofbeldis. Frelsi klæðir heiðarlegar manneskjur vel.“

„Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu. Frelsi án kærleika er einskis virði.“

Við þetta má bæta: Frelsið lamast ef óttinn við hið þekkta og óþekkta verður sterkur. Frelsi án hugrekkis, frelsi án kærleika og frelsi án ábyrgðar er einskis virði. Frelsi án ótta er aftur á móti eftirsóknarvert.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

 

Úr Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, bls. 207
„Íslenskir fjölmiðlar eru í kreppu en ef einhver gerir athugasemdir við vinnubrögð þeirra er sá hinn sami annaðhvort hunsaður eða gerður tortryggilegur. Það er líkt og hugrekki þurfi til að taka þátt í lýðræðislegri umræðu á Íslandi.“
Gunnar Hersveinn: „Röng umræða um fjölmiðla.“ Fréttablaðið 8. desember 2009.

Gildin eru í bókinni Þjóðgildin

Þjóðfundurinn 6. nóvember 2010 stendur nú yfir. Þjóðfundargestir hafa nú valið grunngildin sem þeir telja að eigi að birtast í nýrri stjórnarskrá. Í bókinni minni Þjóðgildin eru að finna greinar um öll þessi gildi; jafnrétti, lýðræði, réttlæti, virðing, heiðarleiki, frelsi, mannréttindi og ábyrgð. Hér eru gildin í hnotskurn:

Jafnrétti felst í jafnri stöðu kynjanna gagnvart völdum, ríkidæmi, störfum og heimili. Jafnrétti er svar við kúgun og launin eru betri veröld fyrir alla, konur og karla. Jafnrétti skapar jafnvægi milli manna og laðar fram heillavænlegar ákvarðanir.

Lýðræði felst í samfélagi þar sem viska fjöldans stígur hæglátlega fram og kveður á um veginn framundan. Lýðræði þrífst ekki í landi hörku, múgsefjunar eða valdamikilla manna. Lýðræði kallar á virðingu og samráð fólks um næstu skref.

Réttlæti felst í því að skapa jafnan aðgang að völdum og tækifærum og að allir standi jafnfætis gagnvart lögum og reglum, þar á meðal refsingum. Réttlæti felur í sér mannúð og það skapar samfélag mannréttinda sem berst gegn spillingu.

Virðing felst í því að heiðra sambandið milli sín og annarra og veita umhverfinu stöðu í hjarta sínu. Virðing felur í sér væntumþykju gagnvart öðrum. Hún er forsenda fyrir betri heimi. Virðing er svarið við fordómum og aðskilnaði.

Heiðarleiki felst í því að eiga í samskiptum án þess að bogna eða brjóta á öðrum. Sá sem vill verða heill til orðs og æðis þarf að finna jafnvægið milli sín og samfélags. Heiðarleiki er samhljómur milli hugsjóna og aðgerða og samfélagið verður opið og gagnsætt.

Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu. Frelsi án kærleika er einskis virði.

Ábyrgð felst í því að nema hlutdeild sína í samfélaginu. Enginn verður fullþroska fyrr en hann skynjar samábyrgð sína til að vinna góð verk og koma í veg fyrir sundrungu. Ábyrgðin birtist í samstöðu þjóðarinnar gegn óréttlæti.

Mannréttindi felast í þeim gildum sem eru sammannleg og þar af leiðandi óháð trúarbrögðum, stjórnmálum, stöðu, búsetu og hverju öðru sem ætlað er til að aðgreina manneskjur og raða þeim í flokka. Mannréttindi gilda á öllum tímum og óháð aðstæðum og fyrir alla. Þau eru ævinlega til stuðnings lífinu og gegn allri kúgun, eyðileggingu og dauða.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Innri varnir með börnum


Ég tók þátt í hlustunarfundi í dag, 2. nóvember, um trú og skóla. Sjá nánar hér. Fundurinn var vel sóttur og góð erindi flutt. Ég fjallaði um hugtökin sem komu fram á fundinum og sagði eftirfarandi:

UM SIÐFRÆÐI
Siðfræði er vísindaleg hugsun og aðferð, markmið hennar er að finna almennar reglur sem verja það sem mönnum er mikilvægast: réttinn til að lifa mannsæmandi lífi. Hún mælir iðulega með lífinu og virðingu fyrir öllu sem lifir. Siðfræðingar þurfa ekki fremur en aðrir vísindamenn að taka afstöðu til guðs eða trúarinnar í starfi sínu, því guð er ekki fyrirfram gefin forsenda í þeirra fræðum. Markmið þeirra er fremur öðru að skilgreina hvaða líferni leiðir til hamingju og hvað til óhamingju. Heimspeki og siðfræði er leitin að sannleikanum, guðfræði er rannsókn á sannleikanum. Sannleikurinn sjálfur er hulin ráðgáta.

UM TRÚ
Íslendingar eru sprottnir upp úr ýmiskonar menningararfleifð, aðallega kristni, norrænni goðafræði, gyðingdómi og grískri heimspeki, auk áhrifa frá Asíu. Trú verður ekki opinberuð með aðferð skynseminnar. Trú hvílir ekki á sannreynanlegum staðreyndum heldur sterkum grun eða jafnvel ímyndun. Trúmaðurinn gerir ekki útreikninga áður en lagt er af stað – heldur lætur hjartað ráða för. Hann trúir á það sem ekki sést en efast um það sem virðist vera. Trú felst í því að stökkva af rökbrettinu, svífa í loftinu og vona að það sé vatn í guðslauginni.

UM LÍFSSKOÐUN
Lífsskoðun þarf ekki að vera trúarskoðun. Hún getur verið reist á viðhorfum til lífsins og tilgátum eða kenningum um líf og dauða. Manneskja getur boðað lífsskoðanir með markvissum hætti til dæmis með því að stofna félag um það eða hóp. Félagið getur síðan haft það á stefnuskrá sinni að útbreiða boðskapinn vegna þess að það telur að því fleiri sem aðhyllist þessa lífsskoðun, því betra verði samfélagið. Lífsskoðanir geta verið veraldlegar ólíkt trúarskoðunum.

UM BARNIÐ
Barnið er frumskjólstæðingur okkar. Námið felst í því að leiðbeina því í að temja hugann. Kenna því að þekkja skemmd epli frá óskemmdum og efla með því gagnrýna hugsun. Mennt er máttur! Verkefnið er að efla innri varnir með börnum svo þau geti sjálf tekist á við öllu þau áreiti sem þjóta um í samtímanum. Markmiðið í skólastarfi er meðal annars: að kenna heillavænleg gildi og viðhorf, mannkosti, svo börnin öðlist sjálf innri varnir til að takast á við veruleikann og þær ólíku skepnur sem búa í tíðarandanum.
UM VIRÐINGU
Virðing er grundvallargildi í öllum mannlegum samskiptum og umgengni gagnvart jarðlífinu öllu. Að rækta virðinguna er forsenda góðs samfélags. Lögmál virðingarinnar er að sá sem ber virðingu fyrir öðrum öðlast virðingu annarra. Virðing er dyggð helsta mannréttinda, hún er burðarvirki menningar þar sem lögð er áhersla á frið og stöðugleika. Að heiðra og virða aðra er forsenda velgengni í sátt og samlyndi. Ástæðan fyrir því að börnum var í öndverðu kennt að bera virðingu fyrir öðrum var sú að reynslan sýndi að þá urðu þau farsæl. Virðing er að umgangast aðra með tillitssemi, þekkja rétt annarra og kunna að meta hann.

SAMLÍÐUN
Samlíðun er fallegt orð, í því felst að geta sett sig í spor annarra, skynja samhljóminn milli einstaklinga, finna til með öðrum, gleðjast með öðrum, syrgja með öðrum, vera ekki sama og vilja gefa öðrum eitthvað af sér. Samlíðun er aflið en hún er ekki eingöngu kennd með orðum eða texta, heldur er hún ræktuð með börnum. Máttur hennar er mikill, hún er til að mynda árangursrík gegn einelti.

UM UMBURÐARLYNDI
Umburðarlyndi er að þola öðrum mönnum að hafa skoðanir, halda í heiðri hefðir, vera af ólíkum litarhætti og iðka trú af ólíkum toga. Umburðarlyndi er  lykill að bættum samskiptum. Umburðarlyndi kemur í veg fyrir að menn verði of fljótir til að dæma en það er ein meginástæða mistaka í samskiptum milli manna, hópa og þjóða. Þolinmæði í þrautum vex og verður langlundargeð gagnvart brestum, göllum, veikleikum og eigin gæfuleysi sem annarra.

UM FORDÓMA
Við eigum öll við einhverja fordóma að stríða og til að sigrast á þeim verðum við að skoða hug okkar. Náin persónuleg kynni á jafnréttisgrunni eru besta leiðin til að eyða fordómum okkar.

UM SAMRÁÐ
Tengsl milli skóla, trúar og lífsskoðunarhópa eru greinilega viðkvæm. Af þeim sökum er samráð milli aðila lykilatriði. Hverjir eru í hópnum? Börn, foreldrar, skólafólk, yfirvöld og fulltrúar trúar og lífsskoðunarhópa. Hlustum saman, tölum saman. Frumskjólstæðingur okkar í þessu máli eru börnin. Verkefni okkar er að finna farsæla og uppbyggilega lausn þar sem gagnrýnin hugsun og innri varnir barna eru efldar.

Tek þátt í hlustunarfundi um trú og skóla

Á hlustunarfundi um trú og skóla, sem sprettur af umræðunni um tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar ,verður hlutverk mitt að „draga saman það helsta sem sagt hefur verið og varpa ljósi á þau gildi sem eru sameiginleg í máli framsögumanna og þau sem ósamkomulag ríkir um,“ eins og stendur í fundaboði.

Fundurinn verður haldinn í sal Laugalækjarskóla að frumkvæði hinna óformlegu hverfissamtaka Laugarneshverfis Laugarnes á ljúfum nótum þriðjudaginn 2.11. kl. 16:30 – 17:30. Þar verður hlýtt á mál fimm fulltrúa ólíkra sjónarhorna. Sjá nánar hér.

Ég býst við að hugtök eins og virðing, umburðarlyndi, mannréttindi, víðsýni, fordómar, skilngur, mennska, umhyggja og jafnræðisregla komi við sögu.

Ef tækifæri gefst mun ég einnig benda á eftirfarandi um föruneyti barnsins:

Bernskan er ævintýri – og það er ævintýri að ala upp barn. Bernskan er dýrmæt og viðkvæm og þarfnast gætni og virðingar. Barnið þarf föruneyti, ráð og leiðbeiningar til að geta metið aðstæður og tekið gifturíkar ákvarðanir. Verkefnið er það sama og í öllum ævintýrum: Að læra að greina á milli góðs og ills – og sýna hugrekki og styrk.

Námið felst í því að leiðbeina því í að temja hugann. Kenna því að þekkja skemmd epli frá óskemmdum og efla með því gagnrýna hugsun. Mennt er máttur!

Innra með börnum búa vísdómsorð að heiman og ráð hinna eldri. Þennan heimanmund þarf að draga fram, vega og meta á lífsleiðinni. Sumt reynist vel en annað hefur misst gildi sitt. Aðeins með því að prófa og hlusta á eigin rödd tekst að reyna sanngildið. Lífið nemur ekki staðar og því þarf að endurmeta gildin en skilja þau ekki eftir í vegkantinum. 

Föruneytið má alls ekki sofna á verðinum þegar unglingurinn fer út fyrir garðinn því þá fyrst verður hann fyrir áreitum úr öllum áttum. Gagnrýnin hugsun er því meðal þeirra gjafa sem föruneytið veitir. Farsælt föruneyti leitast við að hjálpa börnum að verða gott fólk sem dofnar ekki undir sefjun umhverfisins heldur man hvert erindi þess og jafnvel köllun er.

Í góðu samfélagi er lögð stund á samræður ólíkra hópa og djúp virðing er borin fyrir fjölbreytninni. Framtíð heimalandsins veltur ekki á einsleitni fyrri kynslóða heldur fjölmenningu komandi kynslóða. Það er verkefnið sem mætir ungu fólki og lykillinn að betri heimkynnum. Hæfnin felst í því að geta skoðað mál frá ólíkum sjónarhornum, greint á milli þeirra til að samþætta þau og þekkja sóma frá ósóma.

Sá sem hélt á vit ævintýranna hefur lært hugrekki, hann hefur lært að gera greinarmun á góðu og illu, réttu og röngu í tíðarandanum. Honum hefur tekist að öðlast sjálfsaga og styrk til að taka ákvarðanir. Hann hefur gengið um land skuggans og lýst það upp og býst við að geta snúið værukær heim og sofnað áhyggjulaus.

Verkefnið er að efla innri varnir með börnum svo þau geti sjálf tekist á við öllu þau áreiti sem þjóta um í samtímanum.

Markmiðið í skólastarfi er meðal annars: að kenna heillavænleg gildi og viðhorf, mannkosti, svo börnin öðlist sjálf innri varnir til að takast á við veruleikann og þær ólíku skepnur sem búa í tíðarandanum.
Heimspekileg samræða með börnum felst í því að þau og kennarinn velja saman gildi bekkjarins fyrir veturinn. Það geta verið innri gildi eða samfélagsleg gildi. Eða bæði.

Gildi í skólastarfi eru kennd með æfingum og raunverulegum verkefnum í samfélaginu.

Gunnar Hersveinn
www.tjodgildin.is

 

Ljósmyndari með hugsjón

Ég fór á opnun sýningar Ragnars Axelssonar ljósmyndara í Gerðarsafni í Kópavogi (30.10.10), en þar gefur að líta magnþrungnar myndir í þremur sölum. Þar eru meðal annars sýndar myndir úr bókinni Veiðimenn norðursins (Crymogea 2010). RAXI hefur skrásett lífið í veiðimannasamfélögum Grænlands og Norður-Kanada frá því um miðjan níunda áratuginn með lofsverðum árangri sem hefur vakið athygli víða um heim og veitt honum margvíslegar viðurkenningar.

Viðfangsefni RAXA vekur fólk til umhugsunar um loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar. Hann hefur sjálfur upplifað hlýnun jarðar á þessum slóðum og fylgst með ísnum þynnast. Örlög frumbyggjanna, inúítanna, ráðast nú af mörgum þáttum. Stórveldin hafa gert tilkall til námuréttinda og olíuvinnslu, hugað er að skipaleiðum og öðrum gróða en minna hugsað um menn og dýr sem lifa á svæðinu.

Í fróðlegum texta Mark Nuttall í bókinni segir að nú sé svo komið að svæðin í kringum norðurpólinn séu ekki lengur útjaðrar. þau eru viðfangsefni átaka á svið stjórnmála og efnahags og eru miðdepill rannsókna á framtíð jarðar. Ég tel að almennir borgarar geti einnig látið sig þessi mál varða, kynnt sér þau og tekið þátt í ákvörðunum sem þau varða. En hvaða gildi koma við sögu?

Lífshættir á þessum norðlægu slóðum, menning, saga, náttúra og dýralíf þarfnast virðingu okkar og við getum gert að minnsta kosti tvennt til að leggja þeim lið en sú viðleitni kristallast í gildunum virðing og sjálfbærni sem eru meðal þeirra gilda sem þjóðin valdi á Þjóðfundinum 2009 og bókin Þjóðgildin fjallar um.

Virðing felur í sér væntumþykju gagnvart öðrum og er svarið við fordómum. Hún felst í því að heiðra sambandi milli sín og annarra og veita umhverfinu stöðu í hjarta sínu. Ég held að bók RAXA hjálpi okkur til að virða náttúru norðursins og íbúana. Ekki aðeins í orði heldur einnig á borði. RAXI er ekki aðeins ljósmyndari heldur ljósmyndari með hugsjón um betra samfélag og betri heim.

Sjálfbærni felst í líferni sem hugar að umhverfi, mannlífi og efnahag og mælikvarði þess er nægjusemi. Sjálfbærni er aðferð sem felur í sér virðingu fyrir náttúrunni og komandi kynslóðum. Íbúar norðursins, sem sagt er frá í bókinni, hafa ekki ofnýtt gæði jarðar og ekki tekið frá næstu kynslóðum heldur lifað í góðu jafnvægi við náttúruna og dýrin.

Við höldum oftast að aðrir eigi að læra af okkur Vesturlandabúum, en málið er að við getum meðal annars lært af inúítum, til að mynda virðingu. Það virðist ríkja gagnkvæm virðing milli veiðimannanna og dýranna sem RAXI myndaði og á einu stað stendur í bókinni: Sé dýrunum ekki sýnd virðing … leyfa þau ekki veiðimanninum að veiða sig.

Nú hefur jafnvæginu á norðurslóðum verið raskað og eina leiðin fyrir íbúa Vesturlanda til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga er að tileinka sér sjálfbært og nægjusamt líferni í stað þess að seilast í auðlindir annarra til að geta áfram lifað kostnaðarsömu líferni.

Sjálfbært samfélag er nafn yfir samfélag sem er vinsamlegt gagnvart lífinu og náttúrunni. Það tekur ekki einungis mið af tímabundnum og ofmetnum þörfum sínum heldur af öðrum lífverum, vistkerfinu. Það samþættir efnahag, umhverfi og félagslega þætti. Við getum lært ýmsa þætti sjálfbærni af samfélagi inúíta.

Ég hvet ykkur til að fara á sýninguna í Gerðarsafni og kynna ykkur efni bókarinnar Veiðimenn norðursins. Auk þess að innihalda óviðjafnanlegar ljósmyndir hvetur efnið fólk til að kanna hvað það geti gert til að draga úr líkum á endalokum samfélags inúíta.

Í hnotskurn: Ljósmyndari með hugsjón vekur okkur til djúprar umhugsunar með óviðjafnanlegum myndum sem kenna okkur að bera virðingu fyrir mannlífi og náttúru.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Bók handa þjóðinni

Boðað var til þjóðfundar um nýjan sáttmála af grasrótarsamtökum undir heitinu Mauraþúfan með þeim orðum að íslenskt þjóðfélag stæði á tímamótum. Nýjar aðstæður kölluðu á endurmat þeirra grunngilda sem samfélagið er reist á og skýrari framtíðarsýn en áður. Bókin Þjóðgildin er skrifuð út frá þessum forsendum.

Þjóðfundurinn var haldinn laugardaginn 14. nóvember 2009 í Laugardalshöllinni þar sem glímt var við þessi brýnu verkefni. Marktæku úrtaki íslensku þjóðarinnar var stefnt til fundarins, rúmlega 1200 manns sátu fundinn. Þjóðfundurinn átti að virkja sameiginlegt innsæi og vitund almennings sem hulin væri hverjum einstaklingi. Þjóðfundurinn var framlag þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar. Gjöf til sjálfs sín og veganesti fyrir ráðamenn.

Íslensk þjóð bjó of lengi við ofríki fárra valdamikilla einstaklinga. Tími var kominn til að opna fyrir visku fjöldans og kanna hvað hann vildi. Um það bil 30 þúsund hugmyndir og tillögur komu fram á fundinum um mikilvægustu málaflokkana, framtíðarsýn og þau gildi sem þjóðin ætti helst að efla með sér á næstu árum. Flest atkvæði fengu gildin heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikur. ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, fjölskyldan, jöfnuður og traust. Einnig voru gildin menntun, bjartsýni, öryggi og mannréttindi ofarlega á baugi.

Bókin Þjóðgildin er helguð tólf fyrstu gildunum sem viska fjöldans valdi á Þjóðfundinum 2009. Þau eru ekki valin af höfundi bókarinnar og ekki heldur af andlegum eða veraldlegum leiðtogum, heldur af fjöldanum þar sem hver og einn stendur jafnfætis öðrum og tekur þátt í samræðum. Hugtakið hófsemd kemur einnig við sögu í bókinni og er það valið af undirrituðum því hófsemin dugar best til að kveða niður grægðina.

Í textanum í bókinni er lagt út af þeim gildum sem þjóðfundurinn 2009 valdi sér. Á fundinum sköpuðust aðstæður sem löðuðu fram visku. Ég beiti skapandi fræðiskrifum til að takast á við efnið og leita í hugtakaheim heimspekinnar og felli efnið undir siðfræði en gef mér jafnframt frelsi til að halda sköpuninni áfram. Gert er ráð fyrir að hugtökin séu lifandi og opin, fljótandi og móttækileg og að lesendur geti haldið áfram að fylla út í þau.

Bókin er skrifuð handa almenningi með von um öfluga borgara sem veita yfirvöldum og fjölmiðlum gott aðhald. Efni hennar er valið af visku fjöldans og ég legg síðan út frá því upp á eigin ábyrgð.

Gunnar Hersveinn

Nesti og nýir skór þjóðar

Verður Þjóðfundurinn 14. nóvember skráður í sögubækur? Fundurinn er skipulagður af sjálfboðaliðum og á hann eru fulltrúar þjóðarinnar kallaðir. Ef til vill mun eftirfarandi standa í alfræðiritum framtíðarinnar:
„Þjóðfundurinn 2009 markaði þáttaskil í varnarbaráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði sínu. 1.500 íbúar voru kallaðir til fundarins í Laugardalshöll til að endurskoða gildin eftir hrun efnishyggjunnar og varpa upp framtíðarsýn um samfélag þar sem hamingja almennings og heill náttúru er mælikvarði allra þýðingarmikilla ákvarðana. Þjóðfundurinn varð afl gegn skammsýni og stundarhagsmunum. Máttarstólpar risu, þjóðin sameinaðist um gildin og hætti að veita afslátt á auðlindum sínum. Straumhvörf urðu á Þjóðfundinum 2009 líkt og á Þjóðfundinum 1851 þar sem hin fleygu orð svifu yfir:

„Vér mótmælum allir!“ Þverskurður þjóðarinnar á Þjóðfundinum 2009 mótmælti fífldirfsku, aga- og taumleysi og óútreiknanlegri hegðun útvaldra og fékk fólk til að sameinast um ný gildi með bjartsýni og kraft í farteskinu. Þjóðfundurinn markaði endalok tíðaranda græðginnar og upphaf nýrrar samábyrgðar.“

Ofangreind orð eru tilgáta um mögulega framtíð – sem verður ef við viljum. Allt er mögulegt, ekkert útilokað, enginn veit. Þjóðfundurinn er merkileg tilraun sem getur aðeins heppnast ef þeir sem boðaðir hafa verið mæta. 1.500 einstaklingar hvaðanæva af landinu fengu boð á fundinn, ef til vill má segja að þeir hafi verið kallaðir til að búa þjóð sína undir ferðalag með nesti og nýja skó. Búa hana til sóknar og nýsköpunar.

Það er hollt að spyrja sjálfa sig: „Hvaða gildi vil ég efla með sjálfum mér á næstunni?“ Ef til vill sjálfsaga, vináttu, jákvæðni og hæglæti? En hvaða gildi þarf þjóðin á að halda á næstunni? Ef til vill gagnsæi, sjálfbærni, samvinnu og bjartsýni? Vandasamt er að finna svörin nema í samræðum við aðra og rökræðum þar sem markmiðið er að finna heillavænlega niðurstöðu sem er ósnert af skammsýni. Finnum svörin af eigin mætti og leggjum drög að næstu framtíð!

Höfundur er rithöfundur.

[fbshare]