Flokkaskipt greinasafn: Friðsemd

Leitin að svari á heimspekikaffi

12_vef_feb_heimspeki_visit

Hvert liggur leið? Oft er sagt að allir leiti leynt eða ljóst að hamingju en ef til vill væri betra að segja að allir leiti að svari. Nokkrir telja sig finna svarið og hanga í því eins og það væri haldreipi tilverunnar. Aðrir efast um allt og festa ekki hönd á neinu. En hvert er svarið?


Á örlagastundum sprettur svarið óvænt fram og verður öllum ljóst.

Við getum leitað að hverju sem er og að sumu leyti er allt tínt, við höfum tilhneigingu til að glata, allt sem er, er að verða eitthvað annað, ekkert er stöðugt í huga okkar, lífið er ævinlega ógert.

Við þurfum ekki nauðsynlega að leita að hamingju eða guðsríki. Við leitum vissulega að skjóli ef við erum svipt öryggi, og fæði ef það er matarskortur, og vinsemd ef við erum ein, og virðingu ef hún lætur á sér standa, en það er eitt svar sem allir hafa heyrt um en enginn skilur fyrr en á reynir. Það getur auðveldlega gleymst.

Margar bækur eru til um svarið,  trúarbrögð og  lífsskoðanir, heil mannkynssaga en þrátt fyrir það gleymist það of oft og við lendum í of mörgum ógöngum og óþarflega miklum flækjum.

Við getum komið auga á svarið með rannsóknum, við getum greint það og mælt, vegið og metið, við getum lært það og stundað það, en við „finnum“ það ekki í tvöfaldri merkingu þess orðs nema við tilteknar aðstæður og þá birtist það og verður öllum augljóst.

Það er ekkert dularfullt við svarið eða yfirnáttúrulegt og það má vissulega finna því stað í taugakerfinu en það er eldra en framheilinn og hefur þróast með manninum frá öndverðu.

Það hefur verið orðað í líffræði, heimspeki, sálfræði, trúarbragðafræði og öðrum hug- og félagsvísindum. Skilgreint og flokkað en þó er það alltaf jafn fallegt og satt, þegar það brýst fram. Það hefur fengið mörg nöfn, eitt þeirra er samlíðun sem felst í því að geta liðið með öðrum á jafnréttisgrunni og rétt þeim hjálparhönd sem þurfa á henni að halda.

Þrátt fyrir að fullyrt sé að fólk sé fullt sjálfselsku og hugsi fyrst og fremst um eigið skinn, öryggi, fæði og fjölskyldu þá brýst fram kennd sem á ekkert skylt við rök eða efnislegar ástæður, hún brýst fram þegar aðrir missa allt í hamförum hvort sem er af mannavöldum eða náttúrunnar.

Samlíðun með öðrum brýst fram meðal almennings og það er sama hvað yfirvöld á hverjum stað mæla eða gera, það skiptir engu máli. Þannig var það gagnvart fórnarlömbum flóðbylgjunnar í Indlandshafi og jarðskjálftans á Haítí og þannig er það gagnvart flóttafólkinu frá Sýrlandi, Írak og fleiri löndum. Samlíðun var svarið.

Samlíðun er ekki vorkunn, hún er samkennd, hún er umhyggja fyrir ókunnugum og geta sett sig í spor annarra. Hún er mannleg meginregla sem við verðum ekki svipt, ekki einu sinni með heilaþvotti. Hún er miðjan í allri mannúð og hún hlustar ekki á úrtölur. Hún er umhyggja og kærleikur. Hún er charity, agape, karuna og compassion.

Víðast hvar á jörðinni hafa  sprottið af henni margskonar en lykilsetningar í ólíkum samfélögum. Dæmi um það eru ráðleggingarnar: „Ekki gera öðrum það sem þér viljið ekki að þeir gjöri yður.“ (Konfúsíus 551-479 f. Kr) og „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Jesús, fjallræðan Matt. 22.37-39). Skynsemin orðar þetta svona en kjarninn er samlíðun.  Eitthvað á þessa leið skrifaði heimspekingur „Breyttu eftir þeim lífsreglum sem þú vilt jafnframt að aðrir breyti eftir.“ (Immanuel Kant 1724–1804).

Einnig hvíla nokkrar frelsiskröfur á samlíðun t.d. frelsi frá ótta, frelsi frá kvölum og frelsi til að lifa mannsæmandi lífi. Meira um það síðar.

Heimspekikaffi 16. september í Gerðubergi

Gunnar Hersveinn rithöfundur mun takast frekar á við leitina að svari í mannheimum á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 16. september kl. 20 og Þóroddur Bjarnason myndlistarmaður skoðar málið m.a. út frá spurningunni um hvort hægt sé að fullgera lífið eða hvort það sé ævinlega ógert og ósvarað. Hvert er svarið?

Allir velkomnir.

Tengill

Borgarbókasafn Gerðuberg Heimspekikaffi

Deila

AÐ MÓTMÆLA KÚGUN AF KRAFTI

um_gildin_frelsi

Þær sem mótmæltu hrelliklámi og hvers konar kúgun kvenna á óvæntan og hugvekjandi hátt 26. mars 2015 unnu lofsvert afrek sem krafðist hugrekkis.

Látum engan telja okkur trú um að við eigum ekki að búa við sömu mannréttindi og aðrir eða séum eitthvað minna virði eða meira en aðrir. Greinarmunur, aðgreining og aðskilnaður er ávallt byggður á fordómum, valdabaráttu og hroka. Við erum án vafa öll gerð úr sama efni.

Látum aldrei freistast til að trúa að einhver tiltekinn hópur hafi rétt til að deila og drottna í nafni einhvers málstaðar. Ekki í nafni guða, ekki í nafni stjórnmálahreyfinga, ekki í nafni lýðræðis, ekki í nafni yfirborðs-jafnaðar sem hægt er að veifa og dreifa.

Mismunun er af mannavöldum getur verið söguleg eða félagsleg – en hún er aldrei réttlát. Hún getur jafnvel verið skiljanleg við einkennilegar aðstæður – en engu að síður ber að hafna henni.

Heillavænlegast er að vera gagnrýninn og hugrakkur borgari sem líður ekki  kúgun og ofbeldi. Bann við mismunun í samfélagi felst í því að allir hafi sama rétt og tækifæri á öllum sviðum. Enginn sé útilokaður eða lægra settur vegna, kyns, fötlunar, kynþáttar, þjóðernis, kynhneigðar, aldurs, trúar eða lífsskoðunar. Heldur standi allir jafnvígir því mismunun er ávísun á miskunnarleysi.

Ótal spurningar eru að baki, efi og jafnvel þjáning en það er til grunnur sem hægt er að byggja á og er heillavænlegri en stefnur og straumar í stjórnmálum og trúmálum. Það eru mannréttindin. „Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum,“ segir í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem ekki var skráð fyrr en eftir síðari heimstyrjöldina eða 1948.

Versti óvinur mannréttinda er óttinn, óttinn við vald kúgarans eða jafnvel vald skriffinnskunnar. Annar illvígur óvinur er skeytingarleysið, að vera sama, að finna ekki til með öðrum, að rækta ekki með sér samkennd og/eða sætta sig við óréttlæti.

Virk andmæli eru dyggð sem beinist gegn kúgun, yfirgangi, ofbeldi, einræði, blekkingu og misnotkun valds, og einnig sinnuleysi og slæmum venjum. Þær manneskjur sem standa vörð um mannréttindi eiga lof skilið, þau sem berjast fyrir jafnrétti, réttlæti og jöfnuði eru ævinlega hugrökk því þau láta óttann ekki buga sig.

Þær sem andmæltu hrelliklámi og kúgun kvenna á óvæntan og hugvekjandi hátt 26. mars 2015 unnu lofsvert afrek sem krafðist hugrekkis. Þær tóku áhættu, þær fundu óttann en stigu þrátt fyrir það fram og mótmæltu af krafti.

MÓTMÆLI SEM DYGGÐ

Mótmæli geta sprottið upp vegna réttlátrar reiði en líkt og aðrar dyggðir þarf að æfa þau. Tökum því undir með Stéphane Hassel (1917- 2013) sem var í frönsku andspyrnuhreyfingunni, tók þátt í því að skrifa Mannréttindayfirlýsingu SÞ og skrifaði hina merku bók, Mótmælið öll! þar segir „Finnið ykkar eigin ástæðu til að mótmæla, leggist á sveif með þessum mikla straumi mannkynssögunnar.“  Hver persóna þarf að móta hugsjón sína um betri heim án kúgunar, skeytingarleysis og ofbeldis og andmæla því sem stendur í vegi fyrir réttlæti. Allir þurfa að gera eitthvað.

Friðsöm mótmæli eru ekki aðeins byggð á réttlátri reiði heldur fylgja þeim kraftur og gleði ef þau áorka einhverju. Þau hefjast í huganum þegar við rekum okkur á, þau geta birst sem gagnrýnin hugsun, grein í blaði eða ber brjóst þar sem nekt er talin ósæmileg. Slík mótmæli felast í því að benda á það sem miður fer. Friðsamleg mótmæli fela stundum í sér brot á einstaka reglum, hefðum og siðum en þau geta verið meira en tímabær og skiljanleg.

Konur efndu til friðsamlegra og óvæntra mótmæla gegn hrelliklámi og tókst að ná athyglinni, umræðunni, valda ærlegum usla í samfélaginu og þeim tókst að afhjúpa marga í kringum sig.

Gunnar Hersveinn rithöfundur www.lifsgildin.is

 Tengill

Mótmælið öll!

 

 

 

 

HARÐÚÐ Á TÍMUM MANNÚÐAR

12_vef_feb_heimspeki_visitHvers vegna gera samfélög mannréttinda og mannúðar loftárásir? Er það vegna vantrúar á þá mannúð sem þau boða? Er það vegna þess að harðúð virkar strax, einn, tveir og þrír og sprengjan springur? Allir dauðir.

Harðúð virkar vissulega umsvifalaust, hún er löðrungur, ofbeldi, miskunnarleysi. Hún er refsing, þjáning og dauði. Hún fælir og kemur stundum í veg fyrir ódæði en ofast er hún skammtímalausn. Hún elur á hatri, óbeit og grimmd. Hún fitar púkann á fjósbitanum sem nefndur er í þekktri þjóðsögu. Hann fitnar og fitnar og svo springur hann framan í þann sem fæðir hann. Veikleiki harðlyndis stígur fram og fellir harðstjórann á eigin bragði.

Mannúð er af öðrum meiði. Hún er sett í öndvegi en gallinn er að of fáir hafa hugrekki til að treysta á hana og verk hennar, jafnvel þótt allt mæli með henni. Mannúð er tímarek og hún krefst þolinmæði og hugrekkis. Hún þarfnast íhugunar um hvað beri að gera, hvernig og á hvaða forsendum. Hún er sáttaleið og púkinn á fjósbitanum grennist og lyppast niður.

Mannúð er mildi og mildin lætur ekki mikið yfir sér og stefnir á líf en ekki dauða, vöxt en ekki visnun. Fári klappa fyrir afrekum mildinnar því þau eru langtímaafrek. Ef hún fær viðurkenningu er það eftir áratuga starf.

Hver er hún þessi mildi? Í stað loftárása býður hún upp á félagslega aðstoð, í stað útilokunar býður hún upp á samkomulag, í stað fyrirlitningar býður hún virðingu, í stað reiði býður hún sátt, í stað grimmdar býður hún uppbyggingu, í stað dauða veitir hún tækifæri til mannsæmandi lífs. Hún drepur ekki úr launsátri eða lofti eins og heigull heldur gengur í eigin nafni andspænis fátækt, misrétti, vansæmd og aðstæðum sem vekja hatur, deilur og ofbeldi – og hlúir að veikustu þáttum samfélagsins til að efla þá.

Mildi vísar á blíðu og miskunnsemi, gjafmildi og jafnvel örlæti.

Mildin hefur mátt þola háð og spott í árþúsundir jafnvel þótt harka sé frumstætt fyrsta viðbragð, en mildin er siðfáguð. Hún er falin fegurð sem opinberast ekki fyrr en eftir á. Hún snýst um að leggja eitthvað á sig til að sættast, um að ganga annan veg en hefðin kveður á um. Mildin er langtímalausn.

Aðferð mildinnar kemur í veg fyrir að mótspyrnumaðurinn þurfi að fórna öllu. Hann getur snúið aftur án vansæmdar og hefndarhugar. Mildin segir við hann: „Ég er reiðubúin að tapa einhverju til að forða því að þú tapir öllu“. Mildin er andstæð kúgun sem er skuggi hörkunnar. Særið engan er friðarregla  mildarinnar, ræktið lífið og verið gæði með hughreysti.

Mildin sjálf og mjúklyndið er hvorki háð réttlæti eða frelsi, hún er aðeins aðferð til að takast á við hlutina, hennar aðferð er þó réttlát og opnar fyrir frelsi. Seinvirk aðferð mildinnar knýr fólk til sátta á veginum en harðneskjan krefst skyndilausnar sem í raun er aðeins vopnahlé. Harkan þrífst á fjarlægð og fordómum. Mildin á nærveru og samlíðun.

Hvers vegna gera samfélög sem kenna sig við mannréttindi og mannúð loftárásir þar sem óbreyttir borgarar farast, karlar, konur og börn, jafnvel stórfjölskyldur. Hvers vegna er innrásin í Írak 2003 ekki víti til varnaðar? Hvers vegna feta Vesturlönd aftur og aftur í fótspor hugleysis?

Þetta er vonandi verðugar spurningar. Gunnar Hersveinn rithöfundur ræðir um styrkleika mjúklyndis og veikleika harðlyndis á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 15. október og Inga Dóra Pétursdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, talar um birtingarmyndir ófriðar fyrir konur og börn í Afganistan en hún er nýkomin heim eftir hálfs árs vinnu í Afganistan á vegum friðargæslunnar sem kynjasérfræðingur hjá NATO.

Inga Dóra hefur margt að segja en hún var jafnréttissérfræðingur í höfuðstöðvum Alþjóðaliðsins í Afganistan í sex mánuði á þessu ári á vegum Friðargæslu Íslands. Staða kvenna í Afganistan er einna verst í heiminum þrátt fyrir að lífsgæði þeirra hafi aukist undanfarin 10 ár. Staða kvenna á Íslandi er aftur á móti best samkvæmt sömu könnnunum World Economic Forum.

Íslendingar hljóta því að hafa eitthvað að gefa öðrum þjóðum. Jafnrétti er falleg gjöf til annarra.

Það var ekki fyrr en árið 2009 sem lög gegn kynbundnu ofbeldi gerðu það refsivert í Afganistan að selja/gefa konur og stúlkur sem sáttargjöf í deilum, kveikja í eða brenna með sýru, nauðga eða gifta barnungar stúlkur.

Hvernig væri að hafna harðúð endanlega og treysta á afrek mannúðar?

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

 Tengill

Heimspekikaffi í Gerðubergi 15. október 2014

 

 

Höfnum óvild, veljum frið

israel-palestineKúgun er alltaf röng, stríð og ofbeldi og morð er alltaf rangt. Stríðsleiðtogar sem efna til deilna milli þjóða deyja sjaldnast vegna myrkraverka sinna heldur deyja aðrir karlar, konur og börn í hópum. Hrokafullir stríðsleiðtogar beita klækjum og blekkingum, lygum og áróðri til að fá sínu framgengt. Trúum engu sem frá þeim kemur, valdið er ekki þeirra.

Hundrað ár eru liðin frá því að heimsstyrjöldin 1914-1918 hófst. Rangar ákvarðanir, heimska, illska og grimmd kostuðu að minnsta kosti 16. milljónir lífið og árin 1939-1945 töpuðu ekki færri en 40. milljónir lífi sínu, átökin í Palestínu eiga meðal annars rætur í heimsstríðum tuttugustu aldar.

Það nægir að líta eina öld aftur í tímann til að sjá blóðuga skelfinguna og heyra þjáninguna sprengja hljóðhimnur. Ofbeldismenningin getur ekki leyst eitt eða neitt, aðeins skapað meiri viðbjóð. Hún hefur aðeins dauða og þjáningu í för með sér.

Friðarferlið hefst ekki fyrr en vafasamir leiðtogar stíga til hliðar eða missa tiltrú fólksins. Það eru engin landamæri, engin lína milli nágranna. Borgarar allra landa þurfa að rísa upp og neita að taka þátt í átakmenningunni sem spinnur hatursferlið. Neita að deila, neita að vera óvinir og viðurkenna jafnan rétt allra.

Allir allsstaðar, hættum að bíða eftir óhæfum leiðtogum, sköpum friðarmenningu og gerum hana að okkar lífsskoðun. Tökum valdið og vopnin af hinum ófæru og í ljós kemur að það er græðgi hinna fáu sem allt er að drepa, óvild þeirra og hatur eyðileggur líf annarra.

Höldum grið og frið. Særum engan!

Veröldin sem verður – veltur á afstöðu okkar, mótspyrnu og hugsjónum.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Ljósmynd/Unhate foundation

Ísland – Palestína – Hvað getum við gert?

peace

Ísland á ekki landher, flugher eða sjóher, engin hervopn, engar herdeildir, enga hershöfðingja, engan stríðsmálaráðherra, engar hervarnir, ekkert af neinu tagi sem getur flokkast undir stríðsrekstur. Ísland gæti þar af leiðandi ekki gert neins konar innrás, hvorki sótt né varið sig. Sama má segja um Palestínu.

Ef stríðsleiðtogar annars lands myndu beita ógnarherstyrk sínum til að skelfa, hræða og myrða Íslendinga, rústa híbýlum þeirra, skólum, sjúkrahúsum og hverju öðru sem stríðsrekstur getur þurrkað út, myndum við sennilega óska þess að einhver rétti hjálparhönd og reyndi að skilja stöðu okkar. Ef Ísland væri undir járnhæl stríðsherra sem margir óttuðust, myndum við eflaust óska þess að einhverjir hefðu hugrekki til að vera vinir okkar.

Þjóðarleiðtogar myndu ef til vill þegja og helstu fjölmiðlar láta sér nægja að lýsa annarri hliðinni og stilla málinu upp sem átökum milli tveggja jafnvígra aðila, með og á móti, sigur og ósigur.

Allir ættu þó að vita að stríðsaðferðin sem leiðtogar Ísraelsríkis beita gagnvart Palestínumönnum gerir aðeins illt verra. Þeir vita það sjálfir, því ef það væri áhugi á nágrannakærleik og friðsemd þá yrði allt annarri aðferð beitt í samskiptunum. Sú aðferð er friðarreglan og hún hljómar svona: særið engan.

 ÁTAKAMENNING – FRIÐARMENNING

Friðaraðferðin er jafngömul og jafnkunn og aðferð átakanna en hún er hljóðlát og þarfnast alúðar og tíma. Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem sett er fram til aðskilnaðar. Hún er grunnregla mannréttinda. Hún er ekki flugskeyti. Hún bindur ekki, skerðir ekki frelsi, hún kveður aðeins á um ein mörk. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það á ekki að gera. Hún setur aðeins eitt bann.

Hún er friðurinn, heimsfriðurinn í hjartanu. Hún er silfurreglan: Ekki óska neinum þess sem vekur þér andstyggð. Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér.

Ekki gera öðrum það sem þú sjálf/ur forðast.

Eflaust má finna undantekningu á friðarreglunni í formi sjálfsvarna og gilda réttlætingu fyrir broti á reglunni – en reglan sjálf verður þó ekki numin úr gildi. Verkefnið er að læra regluna og kenna hana, ekki að vopnbúast heldur friðvæðast.

Réttlæti er aldrei samferða ofbeldi, kúgun og manndrápi.

Ef reglunni er fylgt þróast friðarmenning. Reglan er mild og þekkist á því að sá sem virðir hana vinnur lífinu ekki mein, heldur skapar ró og næði, öryggi. Hann skýtur ekki fyrst og býður svo í friðarviðræður.

Friður er lærdómsferli með jöfnuð að leiðarljósi. Hann kemur böndum á agaleysi og eyðir tortryggni sem lengir bilið á milli manna og þjóða. Hvar sem ójöfnuður fær að vaxa brýst fyrr eða síðar út styrjöld. Friðarmenning er aftur á móti ljósið út úr óreiðu heimskunnar.

Öll viðleitni sem snýst um friðarmenningu hefur jöfnuð að mælikvarða: að stytta bil á milli manna, hópa og þjóða í öllum málaflokkum og draga úr stéttaskiptingu. Það er sterk fylgni milli réttlætis og jafnaðar. Árás á Gaza núna breikkar bilið, skilur fólk að og skapar yfirstétt og undirskipun, ríkidæmi og fátækt og hvaðeina annað sem reisir múra á milli manna og þjóða.

Allir ættu því að gera sér ljósa grein fyrir að friðarreglan er ekki iðkuð um þessar mundir á þessu tiltekna svæði og það bitnar á borgurum. Hvað getum við gert? Jafnvel þótt við séum smá og virðumst marklaus, þá munum við aldrei hætta að mótmæla heimskunni og grimmdinni.

Fylgjumst með, knýjum á, mótmælum, það skiptir máli, jafnvel afstaða, viðbrögð og rödd okkar skiptir máli. Efumst ekki, við erum öll jöfn gagnvart mannréttindum hvar sem við búum, hvort sem það er í Gaza, Manhattan eða í Breiðholtinu.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

 

 

EKKI GLATT Í DÖPRUM HJÖRTUM

barnOrkan brennur upp í taumlausri löngun til að vera fremst þjóða. Enginn vill rifja upp mislukkaðar tilraunir til að þjóna þessari þrá, aðeins er horft fram á veginn í leit að nýjum tækifærum til að öðlast virðingu fyrir að vera best í heimi.

Aðeins ef metnaðurinn stæði til þess að vera þjóð meðal þjóða, stolt þjóð sem tekur þátt í því með öðrum að bæta lífskjör annarra jarðarbúa. Þessi metnaður væri nóg fyrir vestræna velmegunarþjóð í gjöfulu landi.

Ísland hafði sett sér metnaðarfulla áætlun um að komast yfir 0,3% til þróunarsamvinnu en viðmiðunarlöndin Danmörk, Svíðþjóð og Noregur veita yfir 0,7% af þjóðarframleiðslu til þessa málaflokks.

Nú berast þær fréttir að Ísland stefni fremur undir 0,2% en í þá átt sem önnur Norðurlönd ganga. Það er sorglegt, það er ekki vilji þjóðarinnar. Ákvörðun um niðurskurð í þróunarsamvinnu vinnur gegn þrá þjóðarinnar um virðingu.

Þjóð sem verður fremst þjóða í skjótfengnum gróða öðlast ekki virðingu, þjóð sem gortar af snilld sinni og þráir aðdáun valdaþjóðanna, verður annað hvort aðhlátursefni eða vekur öfund, ótta og óvild.

Til er lögmál sem ætti að höfða til stjórnmálafólks. Það hljómar svona: „Ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.“ (Þjóðgildin, 2010).

Mælikvarðar í vestrænni siðfræði, kennisetningar í trúarbrögðum, fjölmargar niðurstöður skáldsagna og hug- og félagsvísindarannsókna vitna um að meiri líkur eru á gæfu þeirra sem gefa en þeirra sem taka.

Þetta er lögmál í mannheimum sem á ekki aðeins við um einstaklinga heldur einnig þjóðir. Allir alast upp við þessa vitneskju og flestir heyra nefnt að allra best sé að gefa/hjálpa öðrum án þess að búast við endurgjöf – en trúir því einhver?

Það er ekki góð jólagjöf að draga úr þróunarsamvinnu í stað þess að efla hana. Í dag er ekki glatt í döprum hjörtum.

Gunnar Hersveinn  www.lifsgildin.is

Við getum breytt lífi annarra

Þróunarsamvinnustofnun

 

 

Ertu svart- eða bjartsýnismanneskja?

12_vef_feb_heimspeki_visit

Allir ganga til augnlæknis en hvert fer sá sem hefur engar hugsjónir? Það er alls ekki nóg að sjá með augunum það sem fyrir ber eða að trúa aðeins því sem sést. Sjón heilans (augans) er aðeins hálfur heimur. Sjón hugans er heill heimur. Augu geta verið skörp en án hugsjónar taka þau ekki eftir voninni sem liggur á milli hluta, á milli lína.

Hugsjón hvílir ekki aðeins á ytri upplýsingum heldur innri sýn mannsins. Sterkar hugsjónir hvíla á máttarstólpum staðreynda og kærleika eða vonar. Hugsjón sem tekur ekki mið af aðstæðum er lík helíumgasblöðru sem barn sleppir út í bláinn. Hún er strangt til tekið ekki hugsjón heldur hugdetta.

Hugsjón er bjartsýn afstaða til mannlífs og samfélag. Hún er jákvæð og brýst úr viðjum vanans. Baráttufólk er knúið áfram af hugsjón sem lyftir sér yfir eiginhagsmuni og lendir í mannhafinu. Fyrir 50 árum flutti draumóramaðurinn Martin Luther King Jr eina af áhrifamestu ræðum sem fluttar hafa verið í Bandaríkjunum Ég á mér draum „I have a dream that one day …“.  Hann var bjartsýnn á að tími réttlætis og mannréttinda rynni upp. Hann vildi leggja sitt af mörkum því hann sá annað samfélag en það sem ríkti. Hann bjó við innri sýn.

SVARTSÝNI/BJARTSÝNI

Svartsýnisfólk býst ekki við að hlutirnir breytist, það býst við því sama áfram, það trúir ekki á frið ef það er stríð. Það gerir þó ráð fyrir vopnahléum á meðan mæðinni er kastað. Svartsýnisfólk er ekki hugsjónafólk, það trúir aðeins því sem það sér og hefur ekki innri sýn. Það býst ekki við að annað fólk batni eða hagi sér vel nema þá vegna óttans um refsingu eða von um umbun. Svartsýnisfólk segist sjálft vera raunsæisfólk.

Svartsýnisfólk gerir oft ráð fyrir að sjálfselska ráði ríkjum í fari annarra og að eigin hagsmunir stjórni gjörðum þess. Það sé ævinlega hagnaðarvonin og að hver muni skara eld að eigin köku hvernig sem reynt sé að koma í veg fyrir það. Augu þess sjá þetta svona en augun sjá ekki alla myndina, aðeins það sem virðist vera.

Bjartsýnisfólk gerir aftur á móti ráð fyrir að allt muni batna með tímanum. Spyrji maður: „Hvað segir þú í dag?“ Svarar það: „Allt gott, verður maður ekki að vera bjartsýnn?“ Bjartsýni er von hugans um betri tíð. Hugsjón er því sýn hugans á betri heim.

Hugsjónin er dýrmæt eign því hún er meiri en einstaklingurinn. Hún er andstæða sjálfselskunnar og eiginhagsmuna, hún felur í sér velferð annarra, umhyggju fyrir hóp, náttúru og öðru lífi. Hún varðar aðra.

Svartsýni og bjartsýni takast allsstaðar á. Hin svartsýnu trúa ekki og vona ekki, þau vinna verkin því það þarf að vinna þau. Hin bjartsýnu geta aftur á móti byrjað á verkum sem er á skjön við allt raunsæi og það undarlega er að stundum heppnast þau þótt allt mæli gegn því.

Ertu svartsýn eða bjartsýn manneskja?

Á heimspekikaffihúsi í Gerðubergi miðvikudaginn 18. september 2013 klukkan 20.00 efna Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Áshildur Linnet mannréttindafræðingur til lifandi umræðu með gestum um hugsjónir í lífi og starfi, m.a. um spurningarnar:

„Hvaða gildi hafa hugsjónir? Geta þær breytt einstaklingum, þjóðum og jafnvel heiminum til betri vegar? Hvernig ber að rækta hugsjónir? Hvernig verður hugsjónafólk til? Sýna hugsjónir innri mann? Er hægt að kenna hugsjónir?“

Áshildur Linnet er mannréttindafræðingur og framkvæmdastjóri hjá Rauða krossinum í Hafnarfirði. Hún hefur unnið með hugsjónadrifnum sjálfboðaliðum í mannúðarstarfi í yfir áratug. Allir eru velkomnir, gott kaffi og góð kvöldstund í boði menningarmiðstöðvarinnar í Gerðubergi í Breiðholti.

Tengill

13_dagskra_haust_gbbordi2

 

TVEGGJA KARLA TAL

israel-palestineVestur eða austur? Já eða nei? Gott eða illt? Hægri eða vinstri? Sigur eða tap? Stríð eða friður? Svona er meginstraumurinn í Vestrænum fréttamiðlum.

Fréttamiðlar búa við rótgróna aðferð við að segja fréttir, aðferð sem byggir á átökum. Heimavöllur fréttanna er skákborðið. Persónum, hópum, flokkum, þjóðum, heimsálfum og hugmyndakerfum er vísað til sætis við skákborð fréttamiðlanna. Skerpt er á því sem skilur að og þeim boðið að tefla í fjölmiðlum þar til annar er skák og mát, fellur á tíma, gefst upp eða sigrar.

Venjan í fréttamiðlum hvílir á því að etja saman andstæðingum, segja frá grimmdarverkum og ofbeldisfullum svörum við þeim. Þetta er kölluð hlutlaus fréttamennska en hún er í raun þáttur í átakamenningu. Hlutlaus fréttamennska er sögð byggð á staðreyndum. En í raun eru staðreyndirnar svo margar að einungis er hægt að velja úr tilteknar staðreyndir og það er gert út frá viðmiðum átakanna.

Í stríði er lygi leyfileg, blekkingar og allt það sem borgarar heimsins forðast og kenna ekki börnum sínum. Fyrir nokkrum árum mátti sjá á forsíðum vestrænna fréttamiðla andlitsmynd tveggja karla sem áttu á túlka Íraksstríðið: Saddams og Bush með fyrirsögninni: Hvor vinnur? (Who will vin?). Allir töpuðu – ekki síst heimafólk. Verður næsta stríð við Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu? Hvaða karl ætlar í hann? Ástandið í Kóreu er afkvæmi átakamenningar á 20. öldinni.

Stríðsfréttir snúast um núning, um gap, um hvað ber á milli, um tækni, um magn, stærð og ógn. Ekki um margbreytileika, réttlæti, félagslega stöðu eða líf barna og framtíð, ekki um konur sem standa fyrir byltingum án ofbeldis (Líbería).

Fréttafólk flytur skakkar fréttir og nefnir nöfn kennd við hið illa og hið góða. Engin skýring er gefin því þetta er flokkað sem staðreynd. Á milli línanna berast þau skilaboð að ofbeldi þeirra sem standa réttu megin við ímyndaða línu sé réttlætanlegt. Fréttin sem „hlutlausu“ stríðsfréttaritarnir flytja er vatn á myllu vopnaframleiðenda en vinnur gegn mannréttindabaráttu.

Stríð er ofbeldi, ofbeldi er aldrei réttlætanlegt, samt er það látið viðgangast og sagðar eru fréttir af því á sama hátt og hverju öðru. Það er alröng nálgun, byggð á heimsku og leti. Málið er þó ekki að hætta að segja fréttir af ofbeldi heldur að spyrja um áhrif ofbeldis á daglegt líf fólks. Spyrjum fréttafólk: Hvers vegna hlustið þið á tveggja karla tal og heyrið ekki allar þær margbreytilegu raddir sem hljóma og hrópa á friðsemd?

Miðvikudaginn 20. febrúar kl. 20 munu Gunnar Hersveinn og Helga Þórólfsdóttir friðarfræðingur fjalla um stríð og frið á heimspekikaffihúsinu í Gerðubergi. Gunnar mun m.a. segja frá muninum á stríðsfréttaritara og friðarfréttaritara. Helga lýsir því hvernig hugmyndir hennar um stríð og frið breyttust við störf hennar á átakasvæðum.

Heimspekikaffi í Gerðubergi

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Ljósmynd/ úr UNHATE herferð Benettons http://unhate.benetton.com/gallery/china_usa/

 

 

 

Ekki – er allt sem þarf

Allt sem þarf til að bæta samfélagið er að fylgja örfáum reglum – og hver þeirra segir aðeins til um mörkin. Hvað við ættum ekki að gera: ekki beita ofbeldi, ekki gera öðrum það sem veldur manni sjálfum óþægindum og ógleði.

Reglurnar eru sammannlegar, þær eru óháðar öllum stefnum og kennisetningum, öllum trúarbrögðum og siðakerfum. Við getum prófað og gert ýmsar tilraunir en að lokum lærum við (vonandi) að gera ekki öðrum það sem við sjálf höfum ímugust á.

Reglurnar skapa friðsemd. Ofbeldið, illskan, hatrið, hefndin og heimskan tapa orkunni og lyppast ámátlega niður. Ein af þessum reglum heitir friðarreglan og hún er svo einföld að furðu sætir: „særið engan“. Hún hefur þó fylgt mannkyninu í gegnum aldirnar og birtst í stefnum og ýmsum trúarbrögðum þótt hún sé í eðli sínu fráls og óháð.

Reglan snýst um að hætta einhverju og að framkvæma ekki það sem veldur misklíð, usla, hatri, sársauka og dauða. Einnig mætti orða hana svona í stíl við víðkunna fullyrðingu: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður EKKI, það skuluð þér og þeim EKKI gjöra.“ Ekki – er allt sem þarf!

Verkefnið snýst aðeins um aga og taumhald á sjálfum sér. Það er að minnsta kosti fyrra verkefnið. Síðari hlutinn er önnur einföld regla sem felst í því að gera eitthvað. Hún opinberar eitthvað sem gæti verið það fegursta í dýraríkinu: samlíðan, hjálpsemi, umhyggja, vinarþel.

Að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og að vera viljugur til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra og jafnvel að fórna einhverju að eigin gæðum til af svo megi verða – það er kærleikur.

Meira um kærleika á kyrrðarstund Náttúrulækningafélags Íslands á mánudagskvöld kl 20.00

Kyrrðarkvöld NLFI