Flokkaskipt greinasafn: Friðsemd

Friðarfréttaritari sendir skeyti

Stríð er ekki íþrótt. Fréttum af stríði svipar þó ógnvænlega mikið til íþróttafrétta. Barist er um sigurinn til síðasta blóðdropa, andstæðingar verða til, rétt- og rangstaða og það erum „við“ og það eru „hinir“, sigur eða tap.

Stríðsfréttaritarinn lýsir af vettvangi og hefur tamið sér ákveðna aðferð við frásögnina. Hann segir hvort við eða hinir séum í sókn eða vörn, hvaða vopnum sé beitt og hversu margir hafi fallið. Hann getur talið sér trú um að hann beri enga ábyrgð og er jafnvel gerður að hetju.

Aðferð stríðsfréttaritarans er sögð hlutlæg, áreiðanleg og byggð á staðreyndum. Gallinn er aðeins sá að þessar svokölluðu staðreyndir falla að svarthvítri heimsmynd um baráttu góðra og illra afla. Hér eru engar staðreyndir á ferð heldur úrelt viðmið til að mæla árangur og segja sögur.

Það er engan veginn áhugavert að fylgjast með stríðsfréttum, jafnvel þótt stöðunni sé lýst daglega og oft beint í fjölmiðlum. Upplýsingarnar berast iðulega beint úr herbúðum valdsins en sjaldnast frá óbreyttum borgurum sem líða kvalirnar. Engu skiptir þótt við glápum linnulaust á SKY NEWS.

Aðeins á síðustu árum hefur borgunum tekist að rugla stríðsfréttirnar með því að semja eigin fréttir á samfélagsmiðlunum. Þar opinberast annar veruleiki, aðrar þrár og langanir til að slíta af sér bönd kúgunar og ofstækis. Enginn vill nýjan einræðisherra, aðeins öryggi án ógnarstjórnar.

Stríðsfréttaritarinn kannar aftur stöðuna í stríðinu. Tölur eru vinsælar í stríði eins og í íþróttum: Hversu margar sprengjur sprungu? Hversu öflugar? Hve margir féllu? Skoðum fyrirsagnir á mbl.is 7. og 8. ágúst: „Sjö féllu í átökum í Írak í dag“, „Einn aðal-mafíósinn skotinn til bana“, Sprengdu rútu í Kabúl“, „Minna mannfall í Afganistan“, „Átta úr sömu fjölskyldu drepnir“, „Fimmtán drepnir í kirkju“.

Þetta eru ekki fréttir af staðreyndum. Þær eru ekki greinandi og ekki skiljanlegar á neinn hátt. Stríðsfréttir snúast um núning, um gap, um hvað ber á milli, um tækni, um magn, stærð og ógn. Ekki um margbreytileika, réttlæti, félagslega stöðu eða líf barna.

Sprengjurnar féllu í Hiroshima og Nagasagi í ágúst 1945. Við vitum hvað og hvernig þær voru, hvar þær féllu, hvenær og jafnvel hvers vegna,  hve margir féllu og við minnumst þeirra árlega. En það er ekki nóg, við þurfum að líða með borgarbúum.

Aldrei aftur Hiroshima og Nagasagi! Það er enginn sigurvegari, það eru engar hreinar línur, enginn leikur, engin staða, stærðin skiptir engu máli, það er enginn æðri öðrum, góður eða vondur. Heldur aðeins sundraðar fjölskyldur, dauði borgara, myrkvuð framtíð, þjáning kynslóða, heimska valdhafa, aðeins við öll ein og engar stríðandi fylkingar annarra – en okkar eigin.

Við borgarar þessa heims, föllum aldrei aftur í gryfjur stríðsherranna! Lærum að afhjúpa lygarnar! Stríð er ekki íþrótt!

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Deila

Hugsaðu þér hvergi nein grið

Að hugsa sér veröld án kúgara – það er ekki vandasamt ef ég vil. Að hugsa sér veröld án heimsveldis, sem drottnar yfir öðrum þjóðum – það er auðvelt ef ég vil. Ég get einnig gert mér líf án frelsis í hugarlund og ímyndað mér veröld án virðingar.

Veröldin sem verður – veltur á afstöðu okkar, mótspyrnu og hugsjónum.

Ég kann ekki við heimsveldi, ekki við neina þá hvöt sem felur í sér yfirráð, ekki nú, fyrr eða síðar. Hvorki heimsyfirráð Bandaríkjanna eða Kína. Mér líkar mun betur að hugsa aðeins jörð og himin og að allir lifðu og hrærðust án kúgunar annarra.

Ég kann við ekki vald sem dregur landamæri með ofbeldi og reisir múra, vald sem óttast hið frjálsa orð, vald sem berst gegn visku, vald sem læsir inn og úti, vald sem (d)eyðir.

Ég kann ekki við heimsveldi sem höndlar með manneskjur líkt og söluvöru og húsdýr. Mér líkar ekki við heimsveldi sem stingur Dr. Liu Xiaobo, baráttumanni fyrir mannréttindum og nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum, í áratugalangt fangelsi og konu hans, ljóðskáldinu og listmálaranum Liu Xia, í stofufangelsi, heimsveldi sem kveður listamenn eins og Ai Weiwei niður með ofbeldi. Heimsveldi sem óttast tjáningarfrelsi borgarana er augljóslega reist til að kúga. Engin leið er að bera virðingu fyrir því.

Ég kann ekki við heimsveldi né nokkurt yfirvald sem læðist í tölvubréf óbreyttra borgara til að refsa þeim, lokar netaðgangi að frjálsum fjölmiðlum og lýgur upp á aðra. Mér líkar ekki heimsveldi sem hneppir borgarana í varðhald án dóms og laga, pyntar þá og myrðir.

Ég myndi aldrei binda trúss mitt við heimsveldi sem traðkar á réttindum heimamanna. Ég myndi ekki heiðra mann sem væri vís til að læsa mig inni aðeins ef hann gæti. Það væri líkt og óttaslegin þjónkun við einræðisherra. Ég kann illa við heimsveldi sem neitar þjóð um frelsi og handsamar vopnlausa munka og nunnur fyrir að vera á öndverðri skoðun. Mér líkar ekki við heimsveldi sem virðir ekki lífsskoðun og trú annarra. Eða heimsveldi sem ekur á skriðdrekum yfir námsmenn sem krefjast lýðræðis og tjáningarfrelsis.

Ég á ekkert saman að sælda með þeim sem virðir ekki mannréttindi, ég myndi ekki gera viðskiptasamning við þá með von um betri hegðun síðar meir. Ég trúi ekki að verk kúgara geti breyst í góðverk. Eða hvað er fengið með því að fórna hugsjónum sínum fyrir viðskipti?

Orð mín eru engir órar eða bjartsýni, þau eru svartsýni og raunsæi. Þeir sem á hinn bóginn telja sig hólpna í samningum sínum við kúgara eru fullir óra og óboðlegri bjartsýni. Ég vil fremur hugsa mér heiminn halda grið og frið og öll gæði heims og jarðar deilast jafnt.

Ég kann ekki við heimsveldi sem gæti jafnvel orðið hrætt við orð mín. Hugsaðu þér það!

Gættu að því að ráðamenn Kína eru hræddir við Liu Xiaobo, Liu Xia og Ai Weiwei! Þau búa yfir ríkri sköpunargáfu og sterkri þörf fyrir að gera heiminn að griðarstað. Þau hugsa sér hvergi ranglátt spil. *

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

*Stíllinn er sóttur í Imagine eftir Lennon í þýðingu Þórarins Eldjárns Að hugsa sér.

Barátta góðs og ills í Gerðubergi

Eldur illskunnar hefur logað alla mannkynssöguna. Áður var eldurinn talinn kveiktur af ókunnum öflum með það markmið að draga mannkynið frá hinu góða og fagra. Eftir óbærilegar þjáningar uppgötvaði maðurinn sér til skelfingar að eldurinn brann innra með honum sjálfum.
Hvað er illska?
Svarið er margslungið. Er hún skortur á hinu góða? Eru illskuverk framin vegna skorts á þekkingu og visku? Eða er illska ætlunarverk sem ekki verður framkvæmt nema með því að valda öðrum þjáningu? Gerandinn veit hvaða afleiðingar gjörðir hans geta haft en honum er annað hvort sama um velferð annarra eða vill skaða þá?
Illskan er margræð, ef hún er skortur, þá er hún ekki aðeins skortur, heldur einnig eitthvað annað. Ef hún er markviss framkvæmdaáætlun, þá er hún heldur ekki aðeins það. En hvað sem hún er þá er verkefnið að slökkva hana.
En jafnvel þótt hún verði ekki slökkt, þá er markmiðið að draga úr öllum áhrifaþáttum sem blása lífi í eldinn.
Aðferðin felst í því að gera ekkert sem glæðir eldinn. Hótanir, ögranir, ógn og óvirðing eru loftið í fýsibelgnum sem notaður er til að örva eldinn í bálinu. Bandaríkin og Íran blása nú andfúl hvert á annað með hótunum sem enda sennilega í stríðsátökum. Það er dæmi um heimsku og skort á virðingu gagnvart samtíðinni og komandi kynslóðum.
INNRI VARNIR GEGN ILLSKU
Hvernig byggjum við upp innri varnir gegn illskunni? Hvað er gott og hvað illt? Enginn má leiða þessa spurningu hjá sér því við þurfum ævinlega að bregðast við illsku og ofbeldi. Hið góða og illa verður til umfjöllunar í heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 18. janúar 2011.
Heimspekikaffið var nýjung sem sló í gegn í dagskrá Gerðubergs síðastliðið haust. Fullt var út úr dyrum á kaffihúsinu þar sem lifandi umræður urðu um vináttu, hjálpsemi, hamingju, nægjusemi, röksemi og karpsemi.
Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur, leiðir umræðuna. Hann leggur fram tilgátu um aðferð sem glæðir ekki eldinn á báli illskunnar.  Gestur kvöldsins verður Þórdís Elva Þorvaldsdóttir rithöfundur og fréttamaður.  Hún hefur lagt sitt af mörkum til að kveða illskuna niður og hefur skrifað bókina Ofbeldi á Íslandi: Á mannamáli.
Og ekki aðeins þau tvö munu taka þátt þátt í baráttu góðs og ills heldur munu allir gestir í heimspekikaffinu taka þátt og leggja sitt málanna.
Staður: Menningarmiðstöðin Gerðuberg í Breiðholti.
Dagur: 18. janúar 2012
Tími: klukkan 20.00
Fyrir hverja: Allir velkomnir!
Tenglar:
www.odlingurinn.is

Konur, stríð, friður og fjölmiðlar

ÁRAMÓT/ Hópar kvenna um víða veröld standa upp úr árið 2011. Þær þustu út á torgin og yfirgáfu þau ekki fyrr en einræðisherrarnir féllu. Svo verður vonandi einnig árið 2012. En munu íslenskir fjölmiðlar fylgjast betur með þeim en árið 2011?
Þessar konur bundu ekki vonir sínar við einstaka karla, einræðisherra sem veita risafyrirtækjum og stórveldum aðgang að auðlindum þjóðarinnar í skiptum fyrir vopn, fé og völd. Þær bundu ekki vonir sínar eða trúss við þá sem svífast einskis og halda borgurum sínum í heljargreipum óttans. Þær leituðu ekki til þeirra sem selja ólögleg vopn. Þær klæddust ekki herklæðum heldur hvítum bolum, þær vissu að ekkert myndi breytast nema þær myndu sjálfar knýja á um það.
Sá sem er háður vopnaframleiðendum getur ekki skapað frið. Slíkur friður er ekki friður heldur vopnahlé. Friður merkir jöfnuð og réttlæti. Það ríkir ekki friður þar sem kúgun á sér stað. Friður er menning beggja kynja og samkomulag um að virða margbreytileika. Þessar konur og þeir karlar sem fylgdu þeim völdu friðsamleg mótmæli í stað ofbeldis. Þær þoldu ekki meira blóð og dauða og beittu annarri aðferð.
Aldrei aftur þessa einræðisherra, nöfn þeirra má þurrka út og afmá þarf þá persónudýrkun sem þeir óskuðu eftir, það vald og stolna ríkidæmi sem þeir sköpuðu. Það skiptir ekki máli hvar eða hver, aðferðin er röng og veldur þjáningu, hvort sem það er í Sýrlandi, Ísrael, Egyptalandi, Líbýu, Líberíu, Túnis, Norður-Kóreu, Súdan, Kína, Ítalíu eða Rússlandi eða Íslandi.
ARABÍSKA VORIÐ
Árið 2011 sköpuð konur arabíska vorið. Nöfn einræðisherranna og nöfn sona þeirra glumdu í hverjum fréttatíma en nöfn byltingarkvenna heyrðumst ekki fyrr en þær tóku við Friðarverðlaunum Nóbels. Lærum nöfn þeirra sem stóðu í stórræðum. Ef nöfnin birtast ekki í íslenskum fjölmiðlum, leitum þá annað: Tawakkul Kamran, Leymah Gbowee, Asmaa Mahfouz, Fatima Ahmed, Ellen Johnson Sirleaf. Og tökum eftir nöfnum þeirra sem munu berjast friðsamlega árið 2012.
Styðjum og bindum vonir við konur í Suður-Ameríku, Afríku, Asíu og Evrópu og í löndum eins og Afganistan, Írak, Íran, Súdan, Guatemala, Rússlandi, Ítalíu og hvarvetna þar sem þær stíga fram af hugrekki fram andspænis byssuhlaupum. Bindum vonir við vorið, sumarið og lífið. Látum ekki blekkjast af enn einni sýndarráðstefnu valdakarla um frið í heiminum.
Það skiptir máli að hafna strax hrynjandi heimsmynd sem býður upp á einræðisherra af ýmsum toga og kúgun. Aðferðir þeirra hafa áhrif á líf og kjör hvarvetna í heiminum, einnig áhrif á okkur, því tilvera þeirra viðheldur valdaójafnvægi og vopnaframleiðslu í heiminum og skapar tækifæri til að kúga borgara um víða veröld í verksmiðjum og með óheyrilegri þrælkun.
KVIKMYNDIR/FJÖLMIÐLAR
Þetta eru ekki draumórar. Í kvikmyndinni Pray the Devil Back to Hell (2008) segir Leymah Gbowee söguna af því hvernig hópur kvenna kom sturluðum einræðisherra frá í Líberíu og hvernig þær gerðu konu að forseta landsins í staðinn – án ofbeldis.  Hann yfirgaf landið án þess að þær hlypu af einu skoti. Það er afrek, það er frétt. Hann lyppaðist niður gagnvart samtakamætti þeirra og sannfæringu þar sem þær hikuðu ekki í hvítu bolunum sínum.
Hægt er að sjá fleiri heimildamyndir um friðarbaráttu kvenna og læra aðferðina (þáttaröðin Women, War & Peace). Hin karllæga aðferð um ógnarvopn og ofbeldi getur ekki og gat aldrei bjargað heiminum. Kynnum okkur frekar friðaraðferðir kvenna á árinu 2012 og föllum ekki enn eina ferðina í skotgrafir heimskunnar.
Vonandi verða gagngóðar fréttir í íslenskum fjölmiðlum af þessari baráttu sem nú stendur yfir um víða veröld. Fréttafókusinn fylgir af venju byssunum, sprengjunum og einræðisherrunum vegna þess að þar er ofbeldi og dauði. En árið 2011 kom nefnilega í ljós að fréttin var ekki þar, heldur í sterkum vopnlausum samtakamætti kvenna og svo verður áfram.
Konurnar í Líberíu sögðu við karlana sína: „Ef þið hafið eitthvert vald til að stöðva stríðið, notið það.“  Hafi fjölmiðill snefil að valdi til að beina kastljósinu að þeim sem geta stöðvað stríð og kúgun, ber honum að gera það í stað þess að fylgja byssunum, skoti eftir skoti …
Tengill:
http://www.pbs.org/wnet/women-war-and-peace/
http://www.womenwarpeace.org/
Gunnar Hersveinn
lifsgildin.is

Friðarreglan: særið engan

Hvar sem mannshjartað slær, hversu illa sem lífið leikur það, er eitt sem það þráir að forðast: ofbeldi. Þessi ósk hefur, þrátt fyrir allt, búið í hjarta mannkyns frá ómunatíð.

Það dýrmætasta í lífinu er oftast falið innan um hversdaglega hluti. Það er hulin fegurð, ekkert prjál og skraut. Fólk líður hjá og enginn tekur eftir því nema sá sem hefur hugrekki til að loka augunum. Hið dýrmæta er á mörkunum.

Saga ofbeldis er saga kúgunar, ofstækis og ofríkis þeirra sem vilja græða, öðlast völd, eignast land, drottna. Þetta er skelfileg saga sem greint er frá í smáatriðum í sögubókum, saga sem of oft verður hetjusaga í túlkun söguritara. Þetta er saga sem á sér fyrirmyndir í goðsögnum og stríðshetjum líkt í grískri og norrænni goðafræði. Svo stríðsglöðum goðum að þær lögðu jafnvel andstæðingum sínum lið eða egndu saman vinum. Það þekkjum við einnig úr sögu nútímavopnasölu og stríðsstuðningi stórvelda við geðsjúka einræðisherra.

Hvað sem þeir heita allir þessir ofbeldisfullu leiðtogar þjóða og hryðjuverkasamtaka allra tíma: hættum að minnast þeirra. Til er annar hópur kvenna og karla sem fátt er um skrifað þrátt fyrir þrekvirki þeirra og mannraunir til að koma í veg fyrir ofbeldi, stríð, kúgun og dauða og með því að skapa frið.

Hverjar eru útlínur friðarins?
Til er regla sem kalla má meginreglu í mannlegum samskiptum. Reglan lætur lítið yfir sér. Hún er hljóðlát, ekki áköf eða frek. Hún hrópar ekki á torgum undir lúðrablæstri, stærir sig ekki, krefst ekki fylgis og refsar ekki en hefur kraft til að láta hönd hefndar og ofbeldis síga. Nafn hennar er friðarreglan og hún hljómar svona: særið engan.

Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem sett er fram til aðskilnaðar. Hún er grunnregla mannréttinda. Hún bindur ekki, hún skerðir ekki frelsi, hún kveður aðeins á um ein mörk. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það megi ekki gera. Hún setur ein mörk, eitt bann.

Hún er sagnarandinn í brjóstinu sem hvetur fólk aldrei til eins eða neins heldur letur það og varar við: ekki gera þetta, hvað sem á dynur, ekki slá, ekki berja, ekki hóta, ekki drepa. Reglan er svo djúp og forn að hún er handan siðfræði og lögfræði. Hún er grunnstoð án undantekninga. Hún er friðurinn, jafnt friðurinn á heimilinu sem heimsfriðurinn í hjartanu.

Siðfræðingur getur fundið undantekningu á friðarreglunni í formi sjálfsvarnar og dómari gilda réttlætingu fyrir broti á reglunni – reglan sjálf verður þó ekki numin úr gildi. Verkefnið er að læra regluna og kenna hana, ekki að vopnbúast heldur friðvæðast.

Réttlætið fylgir aldrei ofbeldi og kúgun. Í grískri goðsögn er friðurinn gyðja sem á tvær systur: gyðju réttlætis og gyðju viturlegra laga – og segir fátt af þeim enda hófstilltar og í þeim brennur hvorki heift og reiði. Þar sem þær fara um eru blómlegir akrar en ekki sviðin jörð.

Særið engan er friðarreglan. Tákn hennar er ekki hávaxin gyðja og herðabreið með skjöld og sverð á lofti. Ekki nakin fegurðardís sem rís upp úr skel, ekki móðirin með ungbarnið. Tákn hennar er konan sjálf án allra hlutverka – hið kvenlæga. Hún skilgreinist ekki af stríði og hún merkir ekki stríðslaust ástand eða vopnahlé eins og flestallir heimsleiðtogar virðast telja.

Ef reglunni er fylgt þróast friðarmenning. Reglan er mild og þekkist á því að sá sem virðir hana vinnur lífinu ekki mein, heldur skapar ró og næði, öryggi. Slíkur friður er sprottinn af kærleika og gleði og er meira en óljós tilfinning. Föruneyti hennar vinnur ævinlega með lífinu og aldrei gegn því.

Dyggðir friðarreglunnar
Tákn friðarreglunnar getur einnig verið regnbogi, dúfa, blóm, hringur eða silfur því hún er stundum kölluð silfurreglan í mannlegum samskiptum. Gyllta reglan kveður á um frumkvæði til að gera öðrum gott en silfurreglan er um mörk friðsemdar og ofbeldis: ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér. Friðarreglan er jafnframt kjarni frelsisreglunnar víðkunnu um að setja einstaklingum einungis þau mörk: að valda ekki öðrum tjóni.

Það krefst hugrekkis að velja regluna um friðinn: að nema staðar og hlusta á innri rödd mannshjartans, röddina sem velur lífið. Friðarreglan er friðarsúlan, ekki aðeins í Viðey heldur á öllum eyjum, heimsálfum og landamærum. Hún sendir hljóðlát skilaboð út um allan heim, hvar sem ógnarhönd ætlar að reiða til höggs, hvar sem kúgun á sér stað. Hún er skilyrðislaus beiðni um líf án ofbeldis. Hljóðlaust ljós sem flæðir um loftin.

Þær dyggðir sem þarf að efla til að friðarreglan verði okkur töm eru virðing, hófsemi og kærleikur.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Hvar sem mannshjartað slær, hversu illa sem lífið leikur það, er eitt sem það þráir að forðast: ofbeldi. Þessi ósk hefur, þrátt fyrir allt, búið í hjarta mannkyns frá ómunatíð.
Það dýrmætasta í lífinu er oftast falið innan um hversdaglega hluti. Það er hulin fegurð, ekkert prjál og skraut. Fólk líður hjá og enginn tekur eftir því nema sá sem hefur hugrekki til að loka augunum. Hið dýrmæta er á mörkunum.

Saga ofbeldis er saga kúgunar, ofstækis og ofríkis þeirra sem vilja græða, öðlast völd, eignast land, drottna. Þetta er skelfileg saga sem greint er frá í smáatriðum í sögubókum, saga sem of oft verður hetjusaga í túlkun söguritara. Þetta er saga sem á sér fyrirmyndir í goðsögnum og stríðshetjum líkt í grískri og norrænni goðafræði. Svo stríðsglöðum goðum að þær lögðu jafnvel andstæðingum sínum lið eða egndu saman vinum. Það þekkjum við einnig úr sögu nútímavopnasölu og stríðsstuðningi stórvelda við geðsjúka einræðisherra.

Hvað sem þeir heita allir þessir ofbeldisfullu leiðtogar þjóða og hryðjuverkasamtaka allra tíma: hættum að minnast þeirra. Til er annar hópur kvenna og karla sem fátt er um skrifað þrátt fyrir þrekvirki þeirra og mannraunir til að koma í veg fyrir ofbeldi, stríð, kúgun og dauða og með því að skapa frið.

Hverjar eru útlínur friðarins?
Til er regla sem kalla má meginreglu í mannlegum samskiptum. Reglan lætur lítið yfir sér. Hún er hljóðlát, ekki áköf eða frek. Hún hrópar ekki á torgum undir lúðrablæstri, stærir sig ekki, krefst ekki fylgis og refsar ekki en hefur kraft til að láta hönd hefndar og ofbeldis síga. Nafn hennar er friðarreglan og hún hljómar svona: særið engan.

Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem sett er fram til aðskilnaðar. Hún er grunnregla mannréttinda. Hún bindur ekki, hún skerðir ekki frelsi, hún kveður aðeins á um ein mörk. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það megi ekki gera. Hún setur ein mörk, eitt bann.

Hún er sagnarandinn í brjóstinu sem hvetur fólk aldrei til eins eða neins heldur letur það og varar við: ekki gera þetta, hvað sem á dynur, ekki slá, ekki berja, ekki hóta, ekki drepa. Reglan er svo djúp og forn að hún er handan siðfræði og lögfræði. Hún er grunnstoð án undantekninga. Hún er friðurinn, jafnt friðurinn á heimilinu sem heimsfriðurinn í hjartanu.

Siðfræðingur getur fundið undantekningu á friðarreglunni í formi sjálfsvarnar og dómari gilda réttlætingu fyrir broti á reglunni – reglan sjálf verður þó ekki numin úr gildi. Verkefnið er að læra regluna og kenna hana, ekki að vopnbúast heldur friðvæðast.

Réttlætið fylgir aldrei ofbeldi og kúgun. Í grískri goðsögn er friðurinn gyðja sem á tvær systur: gyðju réttlætis og gyðju viturlegra laga – og segir fátt af þeim enda hófstilltar og í þeim brennur hvorki heift og reiði. Þar sem þær fara um eru blómlegir akrar en ekki sviðin jörð.

Særið engan er friðarreglan. Tákn hennar er ekki hávaxin gyðja og herðabreið með skjöld og sverð á lofti. Ekki nakin fegurðardís sem rís upp úr skel, ekki móðirin með ungbarnið. Tákn hennar er konan sjálf án allra hlutverka – hið kvenlæga. Hún skilgreinist ekki af stríði og hún merkir ekki stríðslaust ástand eða vopnahlé eins og flestallir heimsleiðtogar virðast telja.

Ef reglunni er fylgt þróast friðarmenning. Reglan er mild og þekkist á því að sá sem virðir hana vinnur lífinu ekki mein, heldur skapar ró og næði, öryggi. Slíkur friður er sprottinn af kærleika og gleði og er meira en óljós tilfinning. Föruneyti hennar vinnur ævinlega með lífinu og aldrei gegn því.

Dyggðir friðarreglunnar
Tákn friðarreglunnar getur einnig verið regnbogi, dúfa, blóm, hringur eða silfur því hún er stundum kölluð silfurreglan í mannlegum samskiptum. Gyllta reglan kveður á um frumkvæði til að gera öðrum gott en silfurreglan er um mörk friðsemdar og ofbeldis: ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér. Friðarreglan er jafnframt kjarni frelsisreglunnar víðkunnu um að setja einstaklingum einungis þau mörk: að valda ekki öðrum tjóni.

Það krefst hugrekkis að velja regluna um friðinn: að nema staðar og hlusta á innri rödd mannshjartans, röddina sem velur lífið. Friðarreglan er friðarsúlan, ekki aðeins í Viðey heldur á öllum eyjum, heimsálfum og landamærum. Hún sendir hljóðlát skilaboð út um allan heim, hvar sem ógnarhönd ætlar að reiða til höggs, hvar sem kúgun á sér stað. Hún er skilyrðislaus beiðni um líf án ofbeldis. Hljóðlaust ljós sem flæðir um loftin.

Þær dyggðir sem þarf að efla til að friðarreglan verði okkur töm eru virðing, hófsemi og kærleikur.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Ábyrgð fjölmiðla á stríði og friði

Val norsku Nóbelsnefndarinnar á framúrskarandi friðarsinnum varpar skýru ljósi á fréttamat íslenskra fjölmiðla. Verðlaunahafnir og afrekskonurnar Karman, Gbowee og Sirleaf voru nánast ónefndar í helstu fjölmiðlum landsins á sama tíma og klikkaðir karlar eru iðulega fyrsta frétt svo mánuðum skiptir.

I. FRIÐUR OG FJÖLMIÐLAR
Um leið og við fögnum friðarverðlaunahöfum árið 2011 er nauðsynlegt að gera þá smásmugulegu athugasemd: að Tawakkul Karman, Leymah Gbowee og Ellen-Johnson-Sirleaf hafa á þessu ári varla verið nefndar oftar en einu sinni á nafn í „helstu“ fjölmiðlum Íslendinga.

Fylgst er, aftur á móti, með klikkuðum einræðisherrum af sjúklegum áhuga. Eltingarleikur við áttræðan karl í Lýbíu er fyrsta frétt svo mánuðum skiptir. Karlinn er búinn að vera í sviðsljósi fjölmiðla í áratugi. Hann er hættulegur glæpamaður og baðar sig í kastljósi fjölmiðla og var ef til vill öðrum einræðisherrum fyrirmynd?

Tawakkul Karman sem nefnd hefur verið móðir byltingarinnar í Jemen komst næstum aldrei í gegnum glerþak íslenskra fjölmiðla. Ekki fyrr en hún fékk friðarverðlaun Nóbels. Ef til vill verður hún aldrei nefnd aftur, því viðleitni hennar fellur víst utan fréttviðmiða á Íslandi. Við munum hins vegar fá framhaldsfréttir af einræðisherra sem til dæmis fer í lest frá Norður-Kóreu til Japans án þess að segja neitt.

„Við náum ekki markmiðum um lýðræði og varanlegan frið í heiminum, njóti konur ekki sams konar réttinda og tækifæra og karlar til að hafa áhrif á þjóðfélagsþróun á öllum stigum,“ tilkynnti norska Nóbelsnefndin. Í Jemen eru konur lítt  sýnilegar né oft  hlustað á rödd þeirra og af þeirri hefð draga íslenskir fjölmiðlar dám. Afrek og hugrekki Karman er þó þúsund sinnum merkilegra en tilraunir hugleysingja til að vekja á sér athygli með ofbeldi.

Eitt af því sem nauðsynlega þarf að breytast er áhugasvið karllægra fréttastjóra. Einsýnt fréttamat þeirra snýst um stríð, stjórnmál, glæpi, viðskipti, valdabaráttu, gjaldþrot, hryðjuverk, réttarkerfi, stórslys, samgöngur, orkumál, eignarrétt, skattkerfi, ársreikninga, persónulega harmleiki og náttúruhamfarir … en Tawakkul Karman sem beitir gandhiískum aðferðum til að bylta samfélaginu er hvergi nefnd á nafn jafnvel þótt hún sé um það bil að breyta samfélagi sínu varanlega.

Ég hef fulla trú á að breytt fréttamat sé liður í því að breyta heiminum til betri vegar. Áhuginn á stríði, hamförum og dauða hvetur hins vegar aðgerðarsinna til að grípa til vopna til að ná athygli heimsbyggðarinnar. Norska Nóbelsnefndin hefur nú sett ný viðmið fyrir fjölmiðla. Hæglát friðaraðferð á að vera fréttnæmari en enn ein sprengja heimskunnar!

Nóbelsverðlaunahafarnir að þessu sinni eru allar þekktar af því að beita öðrum aðferðum en hin karllæga valdahefð mælir með. Tvær þeirra í Líberíu: Ellen Johnson Sirleaf sem er fyrsta afríska konan sem kosin var forseti í lýðræðislegum kosningum og Leymah Gbowee sem hefur skipulagt hreyfingu kvenna, þvert á uppruna þeirra og  trúarbrögð.

Tawakkul Karman fékk verðlaunin fyrir forystu sína í baráttu fyrir réttindum kvenna, lýðræði og friði í Jemen, bæði fyrir og eftir „Norður-Afríska vorið“ segir Nóbelsnefndin og að friðarverðlaunin eigi að verða til þess að leggja lóð á vogarskálar baráttunnar gegn kúgun kvenna, sem enn sé við lýði í mörgum löndum, og til að sýna getu og möguleika kvenna í baráttu fyrir lýðræði og friði. Karman býr í landi þar sem einræðisherra hefur ríkt í 33 ár.

Ég tel að friðarverðlaun Nóbels að þessu sinni ættu að vera íslenskum fjölmiðlum hvatning til að endurmeta fréttamat og -viðmið. Fjölmiðlar eru ekki eyland heldur samábyrgir. Innan þeirra er vald, þar er menning og þar eru úrelt viðmið sem þarf að endurskoða. Eða hvers vegna ættu ungir fréttakonur á Íslandi að lúta viðmiðum sem sett voru af hræddum körlum í kalda stríðinu? Viðmið sem hleypa friðarsinnum eins og Tawakkul Karman ekki að, viðmið sem halda henni úti og utandyra, eru fúin, fúl og fölsk.

II. FRIÐARMENNING KVENNA
Skrifaðar hafa verið lærðar greinar, rannsóknir gerðar, skólar verið starfræktir og aðferðir þróaðar til að skapa friðarmenningu – en þrátt fyrir það er athygli fjölmiðla enn bundin við heimskuna og það sem virkaði fljótlega eftir síðari heimsstyrjöld. Hlustum á aðrar raddir.

Ellen-Johnson-Sirleaf hefur tekið þátt í að safna vitnisburðum af átakasvæðum. Ég skrifaði um það í bókinni Gæfuspor – gildin í lífinu (JPV.2005) og er ástæða til að rifja það upp, þökk sé norsku Nóbelsnefndinni. Neðangreind viðleitni ætti að vera daglega í fréttum ein svo er ekki:

[…] Í skýrslunni er ekki aðeins sagt frá stríðshrjáðum konum – heldur einnig konum sem sjaldnast er getið: Þeim sem vinna að friði og ættu að hafa völd til jafns við karla til að endurreisa samfélög. Körlum farnast ekki nógu vel við að byggja einir upp samfélögin.  Konur vilja taka áhættuna og fara óhefðbundnar leiðir til uppbyggingar – ekki með ofríki og ofstæki – heldur miskunnsemi. Þær vilja vinna gegn fátækt, misrétti og ofbeldi.

[…] Ráð þeirra [Rehn og Sirleaf] er að brjóta konum leið að upplýsingum, stefnumótun og ákvörðunum, ekki síst þar sem stríð eða friður kemur við sögu … Allir þurfa að taka þátt í friðarferlinu, fjölskyldan, samfélagið og stjórnvöld, en ekki aðeins utanaðkomandi karlar sem semja um vopnahlé.

[…] Heimildir sýna að flestar konur … vilja mennta heimamenn og skapa þeim tækifæri til að hjálpa landsmönnum til að sigrast á fátækt, misrétti og ofbeldi.“

III. FRÉTTAMAT
Hvað segja synir Gaddafis í dag? Svarið er hvarvetna. Hvað segir Karman í dag? Svarið þyrfti að vera hvarvetna. Áhrif fjölmiðla eru mikil og ábyrgðin í samræmi við það. Kynslóðir sem alast upp við alvarlega áhersluskekkjur, eins og hér hefur verið lýst, geta að mínu mati skaðast. Nóbelsnefndin á lof skilið fyrir góða ábendingu sem læra má af!

Gunnar Hersveinn  www.lifsgildin.is

Höfnum ofbeldi, sköpum frið

Fagur borgardagur undir heiðbláum himni. Fyrsta kennslustundin í barnaskólunum stóð yfir og börnin hlökkuðu til dagsins. Drengur leit út um skólagluggann og sá tvær B-29 orrustuflugvélar birtast. Dauðaþögn í skólastofunni og andartaki síðar var allt breytt í Hiroshima.

Fagur dagur, regnvot stræti í borginni og blautur gróður á eyjunni. Fyrsti viðburðurinn á eyjunni þennan dag tókst vel og ungmennin hlökkuðu til helgarinnar. Fréttir bárust um sprengingu í höfuðborginni. Stúlka sá vopnaðan mann stíga á land. Dauðaþögn og svo hófst skothríðin og allt var breytt í Noregi.

Ofbeldi ber að hafna í allri sinni mynd, í öllu sínu veldi, allri sinni smæð. Ofbeldi er þó hvarvetna réttlætt með margvíslegum rökum og það er víða stundað. Forseti í lýðræðisríki gefur fyrirskipanir um ofbeldi og heigull tekur hann sér til fyrirmyndar. Ofbeldi dafnar í skúmaskotum. Ókunnur ofbeldismaður fitnar í stofunni heima hjá sér þegar fyrirmyndin í jakkafötum sendir aðra í stríð gegn einræðisherrum, hryðjuverkum eða í nafni trúar og hugmyndafræði til að komast yfir auðlindir.

Þjóðarleiðtogi skipar sérsveitir, leyniþjónustu, dregur upp mynd af hryðjuverkamönnum, skipar þjóðum á bása góðs og ills, býr til öxulveldi hins illa til að draga athyglina frá eigin græðgi og kúgun. Hlustum ekki á rödd heimskunnar!

Heigull, sem enginn veitir athygli, hlustar á leiðtoga heimsins og skipar sjálfan sig riddara hins góða, tekur til sinna ráða, smíðar hættulegar sprengjur og myrðir ungmenni í tugatali. Heigullinn er ekki aðeins óheppileg undantekning í heimalandi sínu, truflaður einstaklingur, heldur einhver sem hlustaði meðal annars á óróður George W. Bush og Osama bin Laden á fyrsta áratug 21. aldar.

Ræður þeirra, hugmyndir og áróður áttu iðulega greiðan aðgang í fjölmiðlum. Þeir drógu upp svarthvíta og ranga mynd af veröldinni og lífinu, til að skapa óróa og hræðslu. Veröld óttans sem aðeins mætti sigra með ofbeldi. Menn ófriðar. Málflutningur þeirra og vald skapaði aðeins meiri kúgun, meira stríð, meira ofbeldi. Þeir höfðu engan mátt til að bæta heiminn.

Höfnum öllu ofbeldi og öllum málflutningi fyrir ofbeldi, hvaða dulum sem hann klæðist. Aldrei skal hampa stríðsherrum, lærum fremur að greina málflutning ofbeldismanna og föllum ekki í gryfjur þeirra. Það er verkefnið framundan en ekki meiri varnir og fleiri vopnabúr.

Hættum að trúa á úreltar aðferðir sem byggjast á ofbeldi. Aðferðin: ofbeldi fyrir ofbeldi, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn var afhjúpuð á tímum Sókratesar í Grikklandi hinu forna en áróðursmeistarar telja hverri nýrri kynslóð trú um að hún sé sú rétta.

Fagur dagur í borg, sveit eða á eyju … hann getur breyst í martröð ef við höldum áfram að hlusta á stríðsáróðurinn. Leiðtogi talar undir rós um ofbeldi og heigull hlustar. Sofnum ekki á verðinum, til er önnur aðferð.

… meira síðar/ Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Breytum lífi annarra

Mynd frá Unicef/ http://unicef.is/Það skiptir ekki máli hvort það eru þúsund eða þúsund sinnum þúsund manns sem þjást, félagslegt óréttlæti ríki eða hungursneyð – faðmurinn á að vera opinn. Það skiptir heldur ekki máli hvort neyðin er fjarlæg eða nálæg, það er iðulega gott að rétta fram hjálparhönd og andmæla því heimsskipulagi sem viðheldur ranglæti.

Við getum breytt lífi annarra, bæði viðhorfum samborgara okkar og lífsskilyrðum fólks í öðrum heimsálfum. Okkur bjóðast ótal tækifæri til þess. Án tafar getum við gefið pening til hjálparstarfa, við getum knúið á um breytingar og við getum jafnvel farið á vettvang sem sjálfboðaliðar. Allt, ef við bara viljum.

Þylja má upp ógnvekjandi tölur um neyð barna og fullorðinna, stundum vegna þurrka, stundum vega flóða og stundum vegna stjórnarfars. Hér er dæmi um tölu: Um það bil 700 þúsund börn í Austur-Afríku eru lífshættulega vannærð og þurfa á tafarlausri aðstoð að halda.

Mat skortir, lyf, hreint vatn, skjól og öryggi – allt þetta er til reiðu, allar forsendur, öll gæði. Hægt er að breyta heiminum til betri vegar á áratug – bara ef við viljum ryðja hindrunum úr vegi. Bíðum ekki eftir að gömlu heimsveldin rétti fram hramminn. Notum eigin hjálparhendur!

Fátækt, óréttlæti, efnahagslegt misrétti, pólitík og félagslega slæmar aðstæður vekja hatur og ofbeldi og viðhalda neyðinni. Misskipting gæða, kúgun, arðrán og áróður sem skipar fólki á bása eftir uppruna, trúarbrögðum eða stjórnmálum veldur dauða saklausra. Vandinn er fjölþættur en lausnin er til – bara ef við viljum.

Magn skiptir ekki máli, nafn ekki heldur, ekki litarháttur, búseta, kyn, staða né neitt annað þegar beðið er um hjálp og mannúð. Aðstoðin er skilyrðislaus og enginn á að þurfa að greiða hana til baka. Hún er gjöf sem gott er að gefa og hefur gæfu að geyma.

Okkur ber að standa vörð um gæðin sem við búum við – en við eigum þau ekki skilið nema við leyfum öðrum að njóta. Fyrst í stað gefum við nauðsynjar og síðan þekkingu til að breyta lífsskilyrðum til betri vegar og jafna hlutskipti milli manna. Heimsskipulag þar sem fámennur karlahópur þykist eiga 99% auðs í heiminum skapar aðeins neyð fyrir æ fleiri. Slík heimsskipan má gjarnan hrynja.

Íslendingum býðst núna tækifæri til að gefa hjálparsamtökum sem koma börnum og fullorðnum í Austur-Afríku til hjálpar um þessar mundir. UNICEF á Íslandi, Rauði krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar eru meðal þeirra sem koma gjöfunum til skila. Gefum og tökum síðan til við að breyta heiminum!

Gunnar Hersveinn/ lifsgildin.is

Friðarmenning í Noregi

Viðbrögð Norðmanna gegn hryðjuverkunum í Ósló og fjöldamorðunum í Útey eru lofsverð, því þjóðin heitir sér því að leggja áherslu á kærleika og meira lýðræði. Það er ríkur þáttur í þeirri friðarmenningu sem Norðmenn hafa boðað.

Hugtakið friður er viðamikið og felur í sér tilfinningar og dyggðir. Friður er mennska sem borgarar eiga að rækta með sér. Friðarmenning er ekki vopnahlé eða skyndiákvörðun heldur margskonar starfsemi sem lýtur að sama markmiði: að rækta líf, særa engan og virða aðra.

Viðbrögð Norðmanna við ódæðisverkum á heimavelli skapa einhug og vekja þeim löngun til að efla kærleikann. Þau ætla að nota þjáninguna, ekki til að hefna sín, heldur til að vinna bug á uppsprettu og afleiðingum haturs og heimsku. Það er aðdáunarvert.

Friður er meginregla en ekki draumur, hann er veruleiki sem er forsenda betra lífs á jörðinni. Líkt og hægt er að ala upp hermenn og þjálfa þá til hernaðar er unnt að leggja stund á frið með uppeldi og þjálfun og kenna hann í skólum. Það er friðarmenning.

Menntuð stjórnvöld skapa aðstæður til að gera út um deilur og áföll á friðsamlegan hátt í stað þess að velja fjölfarna leið óttans. Verkefnið er að setja sig í spor annarra og markmiðið að skapa samkennd milli ólíkra einstaklinga. Það skapar frið og öryggi íbúa.

Norðmenn senda nú þau skilaboð til heimsins að svarið við illvirkjum sé meira lýðræði, gagnsæi og mannúð, svarið við hatri sé kærleikur. Ótta og illsku er vísað á bug. Þetta er sjaldséð, lofsvert og í anda ungmennanna í Útey sem börðust fyrir friði, jafnrétti og opnu samfélagi fyrir alla.

Það er sama úr hvaða ranni ódæðismenn eða hópar spretta, það er sama hvaða nöfnum þeir eru nefndir, það er sama hvort illvirki er kennt við hægri eða vinstri, austur eða vestur, það eru viðbrögðin sem skipta máli. Friðarmenning brýtur vítahring haturs.

Gunnar Hersveinn / lifsgildin.is

Skamm-, fram- eða víðsýn þjóð?

Það er móða á gleraugunum og ég sé ekki skýrt, ekki fram, hvað þá aftur og ekki heldur til hliðar, aðeins næsta skref. Hvað er til ráða? Skammsýni er galli sem þjóðin þráir að vinna bug á. Loforð um farsælt líf án fyrirhafnar reyndist blekking og trúgirni kaupandans var reist á forsjárleysi. Hvers vegna eru Íslendingar sagðir skammsýnir og hvernig getum við orðið víðsýn?

I. Skammsýn þjóð

Skammsýni er fyrirhyggjuleysi, stundum vegna vana, stundum vegna leti og heimsku, stundum vegna ofmetnaðar.

Ef til vill mætti segja að ungbarn sé skammsýnt, það þekkir ekki veröldina, möguleikana eða sig sjálft. Ef svo er, hefst lífið á skammsýni. Glámskyggnin er eflaust sjálfsagt mál í heimi án morgundags og hjá þeim sem ekki geta sett sig í spor næstu kynslóðar. Heimi án skuldadaga, sögu, samhengis og ábyrgðar. Þó er ekki sanngjarnt að segja að barn sé skammsýnt vegna þess að það getur ekki séð margt fyrir. Betra er sennilega að nota hugtakið um þá sem eru skammsýnir þrátt fyrir að hafa tækifæri til að afla sér þekkingar.

Skammsýni þjóða er háð ýmsum þáttum og hún tengist bæði stöðnun og breytingum. Þjóð getur orðið taugaveikluð af  sífelldum breytingum og óstöðuleika hvort sem það orsakast af eigin fyrirhyggjuleysni, stjórnmálum, stríði eða náttúruhamförum. Flestallar ákvarðanir spanna þá aðeins daga, vikur eða mánuði. Kappsöm þjóð getur líka verið skammsýn, hún fer hraðar en mannsandinn, svo hratt að líferni, hugsun og tungumál ungra verður eldri kynslóðinni framandi – og öfugt. Og þjóð sem lifir aðeins í takt við náttúruna er óvarin fyrir óvæntum áhrifum.

II. Ísland

Íslendingar geta eflaust afsakað skammsýni sína með margskonar tilvísunum. Íslandssagan er stuttaraleg, aðeins tæplega 1200 ár, en saga til að mynda Kína sem menningarþjóðar spannar meðal annars heimspeki Lao Tze og Konfúsíusar frá 6. og 5. öld f.Kr. Okkar vestræna hugsun er þó samofin menningu Forngrikka, Gyðing- og Kristinsdóms og norrænni speki sem meðal annars birtist í Hávamálum. Vits er þörf – en það er líkt og það dugi ekki.

Þrátt fyrir visku fyrri alda, meitlaða speki og greiðan aðgang að lærdómi þjóða um víða veröld virðist tíðarandinn, hversu heimskur sem hann er hverju sinni, aftur og aftur ná tökum á ístöðulausri þjóð á eyjunni í Atlantshafi. Glámskyggnin eygir aðeins tálsýn hálft ár fram í tímann og það virðist nægja henni til að halda áfram för sinni.

III. Dyggðir

Sérkenni skammsýninnar er ístöðuleysi og fljótfærni. Hinn skammsýni er snöggur að samþykkja og framkvæma – en hann verður oft skák og mát á meðan aðrir skoða tækifærin sem taflið felur í sér .

Einkenni skammsýni er blinda af ýmsum toga. Hinn skammsýni þykist hafa sjón, hann setur jafnvel upp gleraugu en tekur ekki eftir neinu sem skiptir máli. Hann sér aðeins það sem hann trúir og óttast. Hann heyrir heldur ekki vel. Það er þýðingarlaust að „senda mér skeyti, eða skrifa mér bréf – þú skilur – ég er ekki læs.“ (Megas).

Hvert sinn sem litið er á klukkuna bendir vísirinn á elleftu stundu. Ókostirnir eru streita og hraðasamfélag án rósemdar. 

Hinn skammsýni sannfærir sjálfan sig og aðra með rödd sem virðist vita hvað hún mælir. En gönguskórnir eru lélegir og vegakortið sýnir aðeins grösuga sveit en ekki jökulánna framundan og gljúfrið. Hann arkar áfram og hverfur  inn í þokuna. Nærsýn þjóð í mýri, úti er ævintýri.

IV. Framsýn þjóð

Kannanir á lífsgildum og viðhorfum Íslendinga hafa sýnt að fólk kvartar sáran undan efnishyggju, skammsýni og spillingu og kallar eftir fjölskyldugildum, virðingu og ábyrgð. Því má segja að þrátt fyrir skammsýnin ráði enn för, vaxi vitundin um skaðsemi hennar.

En framsýni þarfnast þolinmæði í stað eirðarleysis, þrautseigju í stað óvissu, hugrekkis í stað trúgirni, einbeitni í stað hugarflökts og hugsjóna í stað hagsmuna.

Mælikvarði á framsýni og skammsýni þjóðar snýst um að greina hvort þýðingarmiklar ákvarðanir séu byggðar á hugsjónum og stefnu um heillavænlegt samfélag fyrir næstu kynslóðir – eða einungis (hræðslu)viðbrögðum til að bjarga okkur frá ógöngum gærdagsins.

Annar mælikvarði opinberar hvort ákvarðanir eru byggðar á rökræðu og samráði eða þrjósku og útilokun sjónarmiða, hvort allir hópar sitji við sama borð. Réttlæti er langtímaverkefni sem snýst meðal annars um skattakerfið, auðlindir, aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu og viðleitni til friðarmenningar.

V. Mótsögnin

Sá sem getur skipulagt sig langt fram í tímann, gert áætlanir og unnið að þeim án hindrana, nær væntanlega árangri og kemst þangað sem hann ætlar sér. Sá sem getur það ekki stendur í stað eða villist í þokunni.

Framsýni getur þróast þegar þjóð hættir að vera háð atvinnuvegum sem eru nátengdir náttúrunni eins og landbúnaður og sjávarútvegur. Og þegar hún stígur inn í borgarsamfélagið þar sem allar götur tengjast saman í eitt kerfi. Framsýni getur vaxið þegar haldið er áfram dag eftir dag óháð því hvað á sér stað í náttúrunni, óháð veðri og árstíðir hætta að skipta eins miklu máli og áður og þjóðin tekur þátt í hnattrænu umhverfi. 

En svo virðist sem framsýnar þjóðir geti einnig farið villur vega og að skipulagið verði skeytingarlaust og án mannúðar. Það gerist ef stefnan og markmiðin verða heilög og æðri hverjum og einum einstaklingi, þjáningu hans og ófyrirsjáanlegri óheppni. Framsýni er því ekki skilyrðislaust góð.

Verkefnið er fremur að opna augu og eyru, hug og hjarta. Vinna að víðsýnni þjóð meðal þjóða, ekki með öfgum heldur mildi. Þjóð í hringrásar náttúrunnar staðnar og þjóð sem tapar tenglum við náttúruna getur glatað sjálfri sér. Hvorugt er æskilegt, mótsögnin blasir við. Hver er þá lausnin?

VI. Víðsýn þjóð

Víðsýni – fremur en kerfisbundin framsýni og náttúrleg skammsýni!

Mannúðin og kjarni mannréttinda felst í undantekningunni. Hún er mildin, hún er á milli.  Hún setur ekki harðneskjulega afarkosti. Mannúð hefur hliðarsjón.

Fjölhyggja er einkenni víðsýnnar þjóðar. Hún hengir sig ekki í smáatriðin og festir sig ekki í einni kenningu, því það er sama hvaðan gott kemur. Hún velur það sem nýtist flestum, þótt það komi úr óvæntri átt. Hún er frjálslynd og virðing er hennar dyggð.

Ef við segjum að skammsýni fari í hringi og framsýni áfram eftir fyrirframákveðinni línu, þá er víðsýni spírall – lína sem hringast eins og gormur, strengd milli náttúru og borgar.

Víðsýnt viðhorf hægir á tímanum, ellefta stundin rennur ekki upp og kapphlaupið við tímann rennur sitt skeið. Betri tími gefst til að ala upp börn, kanna kringumstæður, meta gögn, meiri tími til að íhuga framtíðina og fortíðina, hyggja að náttúruauðlindum, næstu kynslóðum, hlýnun jarðar af mannavöldum og hvað skapi hamingju og hvað ekki.

Víðsýn þjóð er ágætt (langtíma)markmið. Útsýnið er mikið og fordómar naumt skammtaðir. Sérkenni hennar er yfirvegun, stöðugleiki og víðskyggni.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is