Flokkaskipt greinasafn: Friðsemd

Friðarjól? Um stríð og frið

Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Ógnvænlegar fréttir berast nú fyrir jólin 2010 um mögulegar hryðjuverkaárásir í Evrópu. Tökum þær alvarlega. Í þessari grein verður stiklað á stóru um möguleikana á friði umfram stríð og ofbeldi.

I. STRÍÐSHERRAR

Karlarnir sitja enn með flekaðar hendur bakvið fáguð skrifborðin. Þeir hafa aldrei gert neitt nema það að valda eyðileggingu og dauða. Huglausir senda ungt fólk á blóðvelli eða láta fjarstýrð stríðstól eyða þorpum og borgum án þess að neinn stígi inn fyrir hliðin – allra síst þeir sjálfir.

Við þekkjum þá öll. Bob Dylan samdi lagið Masters Of War þeim til háðungar árið 1963. Þúsund sinnum hafa þeir verið afhjúpaðir, nú síðast í uppljóstrunum WikiLeaks.org.

Svokölluð stórveldi búa yfir svo miklum og öflugum vopnum að þau hafa ekki einu sinni sýn yfir. Þau telja borgurum sínum sífellt trú um að þetta sé nauðsynlegt, að skatturinn verði að fara í vopnaframleiðslu undir yfirskini heimavarna. Hvílíkt bull. Það mætti aðeins treysta þeim til að eyða mörg hundruð plánetum og eiga síðan tölvuverðan vopnaforða eftir.

WikiLeaks skjölin opinbera hrokafulla menn sem þjást af minnimáttarkennd eins og flestallir stríðsherrar mannkynssögunnar. Þeir girnast land, vald, fé og frama i sögubókum. Þrá að vera skrásettir sem mikilmenni. Hvernig tekst þeim þetta?

Þeir áforma og eru hvattir af öðrum körlum í öðrum löndum til að skríða til skarar eins og WikiLeaks sýnir dæmi um. Treystum aldrei þessum körlum, felum þeim aldrei veg okkar. Höfnum þeim umsvifalaust. Treystum ekki Bush, ekki Blair, ekki Cameron, ekki Obama, ekki Rassmussen eða Reinfeld, ekki Hu Jintao, ekki Berluscon, Sarkozy eða hvað sem þeir heita. Stríð er aldrei svarið, ekki kúgun, ofbeldi, nauðgun, dauði. Allir vita svarið en flestir láta telja sér trú um annað. Þar liggja mistökin.

Mér er sagt að ég sé með óra en ég er ekki einn um það. Meginmálið er að taka afstöðu og standa við hana: að friðvæða jörðina. Hunsum stríðsherranna, mætum ekki á vígvöllinn! Hættum að kjósa þá. Veljum alltaf frið fram yfir stríð. Auðvitað lendum við linnulaust í flóknum siðaklemmum og eigum eftir að kveljast yfir valkostum, en það er til mælikvarði.

Viðmiðið er uppbygging lífs andspænis eyðileggingu og dauða. Allt lendir á þessum skala lífs og dauða og við þurfum iðulega að standa lífsmegin andspænis dauðanum.

Menntum okkur til að greina milli góðs og ills og til að þekkja muninn á réttu og röngu, stríði og frið. Lærum að láta ekki kúgun annarra viðgangast. Hættum að láta telja okkur trú um eitthvað annað. Hugsum fremur: það eru þau í dag en við á morgun. Bara að við gætum lært að miðla og gefa. Við verðum að gefa öðrum til að koma í veg fyrir eigin þjáningu!

WikiLeaks upplýsingaflóðið er staðfesting á að heimskan ræður enn för. Lesum, hlustum, tölum saman, hlustum á Masters Of War með Dylan. Skilaboðin eiga enn við.

II. FRIÐARJÓL 2010
Jólin eru hátíð árs og friðar en friðurinn er sjaldan á forsíðum. Hann er ekki athyglissjúkur, það eru stríðin. Heitum okkur að vinna að friði heima og að heiman. Hvað getum við gefum þjóðum?

Við ættum að geta miðlað friðarmenningu til annarra þjóða –  en getum við það? Höfum við ræktað hana? Þetta er ónumið land, við höfum ekki sinnt þessu borðleggjandi verkefni.

Lærum af nokkrum af friðarverðlaunahöfum Nóbels: Aung San Suu Kyi í Mjanmar – og Liu Xiaobo í Kína sem hlaut viðurkenninguna 2010 fyrir langa og friðsamlega baráttu sína fyrir grundvallar mannréttindum í Kína. Við eigum góðar fyrirmyndir til að hlusta á og læra af.

Hættum að hlusta á stríðherrana og leggjum hlustir þegar friðurinn kveður sér hljóðs. Það er aldrei með látum og lúðrablæstri heldur með rósemd hjartans. Það verður að lokum Liu Xiaobo sem hlýtur virðinguna en ekki núverandi stjórnvöld í Kína.

III. Hryðjuverk
Formlegir leiðtogar þjóða sem hafa skrifað undir mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóð komast ekki undan skrifræðinu góðaþ Þeir sem draga þjóðir sínar í stríð verða fyrr eða síðar afhjúpaðir – til dæmis á WikiLeaks eða einhverjum öðrum öflugum fjölmiðli sem starfar fyrir almenning. Annar vandi eru hryðjuverkasamtök.

Verstu fréttirnar sem birtast núna fyrir jólin eru að hryðjuverkasamtök hafi í hyggju að valda usla í Evrópu um hátíðirnar. Aðgerðir hryðjuverkasamtaka eru byr undir báða vængi fyrir vopnaframleiðslu og þróun hernaðartækni stórveldanna svokölluðu. Nýja hertæknin verður fyrr eða síðar á höndum hryðjuverkamanna, það vita allir. Þetta er því skeflilegur vítahringur sem bitnar allra helst á almennum friðsömum borgurum, sérstaklega á börnum framtíðar sem gætu fyllst hefndarhug ef ekkert er að gert.

Þetta er ein af siðaklemmunum sem við lendum í. Hvernig getum við leyst úr henni?

IV. FRIÐARMENNING
Friðarmenningin hefur ekki enn skotið djúpum rótum því við upphaf 21. aldarinnar hófst styrjöld gegn hryðjuverkum, styrjöld með óljós endimörk og dulin markmið. Ógnin er alls staðar og ekki bundin við lönd eða þjóðir. Þetta stríð er afsprengi hinnar óheillavænlegu aðferðar að gjalda illt með illu.

Andstætt þessum hugsunarhætti þarf að leggja rækt við sprota friðarmenningar því hefðbundin viðbrögð við stríði hafa beðið skipsbrot. Skapa mætti vænlegra líf á jörðinni fyrir fleiri en nú er og til lengri tíma með því að beita aðferðum friðar. Þetta vita flestir. Knýjandi þörf er á því að þróa friðartækni og að ungt fólk læri friðarlist. Menntun er friðarskref en því þarf að fylgja heillavænleg viðhorf og vilji annarra í samfélaginu.

Friðarmenning er mannlegur þroski þar sem umburðarlyndi og gagnkvæm virðing koma helst við sögu. Stundum gefast tækifæri til friðarmenningar en þau eru oftast látin sér úr greipum sleppa.

Elisabeth Rehn, fyrrverandi varnarmálaráðherra Finnlands, skrifaði merka skýrslu, Konur, stríð, friður, fyrir UNIFEM ásamt Ellen Johnson Sirleaf frá Líberíu. Þær ferðuðust um 14 átakasvæði og sáu ofstæki, þjáningu og sorg í flestum myndum. Þær hlustuðu á sögur á ýmsum tungumálum, sögur um mismunandi missi eftir svæðum og einstaklingum. Aðeins hryllingurinn og sársaukinn var sameiginlegur. Hlustum á þær og lærum! Niðurstaða Rehn og Sirleaf var að konur væru helstu fórnarlömbin í stríðum. Þessar konur vilja aftur á móti ekki láta ýta sér til hliðar þegar móta á friðarferlið í löndum þeirra. Þær vilja nota þjáninguna, ekki til að hefna sín heldur til að vinna bug á afleiðingum ófriðarins.

Konur eru í meirihluta þeirra almennu borgara sem lenda á flótta, missa heimili sín og bera ábyrgð á börnum og gamalmennum á átakatímum, og þær verða fyrir annars konar hremmingum en karlar, til dæmis skipulögðu kynferðisofbeldi.

Menntun er góð en hún er ekki nóg. Þrír lykilþættir verða að vinna saman til að menntunin nýtist: viðhorf og vilji fjölskyldu, samfélags og ríkis til að tækifæri barnanna til að sjá sér farborða í framtíðinni verði að veruleika. Börn fara oft á mis við formlega menntun í langvarandi stríðsátökum og sjá hana síðan í hillingum og trúa því að hún færi þeim betra líf. Miklu skiptir því að raunverulegir valkostir standi þessum börnum til boða að námi loknu, þau verði sjálfstæð og geti tekið þátt í að móta friðsamt samfélag.

Friðurinn lætur lítið yfir sér en krefst mikils. Hann krefst borgara sem veita aðhald og fjölmiðla sem eru ekki leiðitamir. Hann þarfnast hugsjóna, sýnar hugans um betri heim. Hugsjónin um frið er hugsjón um sátt og útkljáðar deilur. Sáttmáli hlýtur ævinlega að vera æðsta takmark þjóða og einstaklinga og felur í sér ákvörðun um að lifa í sátt og samlyndi. Hann er ánægjulegt friðarband sem enginn skyldi slíta nema við óbærilegar aðstæður.

V. NIÐURSTAÐA
Ég hef trú á öflugum borgurum sem veita aðhald, fylgjast með og láta til sín taka. Ég tel að á sama hátt og það var hægt að þróa ótrúlega hernaðartækni megi þróa magnaða friðartækni. Ég óska þess að friðartæknin leysi hertæknina af hólmi og verði svo þróuð að umfangsmikil friðaráætlun geti hafist á örskotsstundu. Hvarvetna um heiminn verða friðarbækistöðvar og umhverfis jörðina sveima athugul augu friðartungla – og engu verður til sparað.

Ég myndi setja konur sem hafa ekki gengið veg herkarlanna við stjórnvölinn . Aðferð friðarins felst í því að mennta og byggja upp og standa með lífinu!

Ég gæti haldið áfram en læt staðar numið að sinni. Ég bendi á að við eigum þegar hér á Íslandi nokkra einstaklinga sem hafa menntað sig í friðarmenningu. Fyrsta verk er að ráða þau í vinnu og leyfa þeim að blómstra. Hlustum á friðarmenninguna, höfnum stríðsmenningu!

Með von um friðsamleg jól!
Gunnar Hersveinn, 20. desember 2010
www.thjodgildin.is

Deila