Flokkaskipt greinasafn: Lífsgildin

Fjölhyggja – hvað er að frétta?

Við erum ein fjölskylda.
Við erum ein fjölskylda.

Hvernig samfélag viljum við vera? Hvað með fjölhyggjusamfélag? Einhyggja gerir ráð fyrir að allt sé af einu tagi og tvíhyggja að frumþættir tilverunnar séu af tvennum toga og óskyldir, til dæmis andi og efni. Fjölhyggja er aftur á móti afstaða sem gerir ráð fyrir að veruleikinn sé fjölþættur. Hver er hún?

Nafn hennar er fjölhyggja. Hugsjón hennar felst í því að fólk, sprottið úr margvíslegri menningu, búi og starfi saman á jafnréttisgrundvelli. Margbreytileiki, fjölhæfni, fjölmenning, fjölbreytni og marglyndi eru auðlindir mannlífsins. Múrar hrynja og landamæri þurrkast út þar sem tíðarandi fjölhyggju ríkir.

Sérkenni fjölhyggju felst í því, ólíkt trúarbrögðum og öðrum lífsskoðunum, að sá og sú sem aðhyllist hana er ekki bundin kennisetningu. Enginn páfi eða forstöðumaður,  engin skrifstofa eða söfnuður, siðir eða venjur geta lagt hana undir sig eða eignað sér hana.  Enginn ótti eða erfðasynd getur eyðilagt hana. Hún er óáþreifanleg og sá sem hyggst rannsaka hana finnur fátt eitt og sennilega ekki neitt, að minnsta kosti enga spámenn eða helgirit. Fjölhyggja er merkt efasemdinni sem brennir upp stöðluð svör.

Fjölhyggjupersóna trúir fáu og efast um flest en er þó hvorki eirðarlaus né sundurlynd eins og spá mætti um. Hún hafnar ekki lífsgildum eða ljósum. Hún hefur alls ekki orðið firringunni að bráð og það sem kemur flestum í opna skjöldu er að hún er ekki óhamingjusöm.

Laus undan ánauð

Vilji hennar er laus undan ánauð kennivaldsins. Hún nemur öll trúarbrögð og lífsskoðanir og gerir sér fyllilega grein fyrir því að ekkert getur verið alrétt eða allur sannleikurinn. Hið algilda, í hennar augum, er falið í fáum siðaboðum um að rækta líf, særa engan, gefa öðrum og verja gæði. Hún stígur inn í hringinn og horfist í augu við alla sem sitja við hringborðið.

Fjölhyggjan felur í sér allt það sem reynist vel og er farsælt hjá öðrum. Hún er hluti af öllu en er ekkert sjálf nema vítt sjónarhornið. En hún birtist alls ekki þar sem aðskilnaður og kúgun eiga sér stað. Hún rúmar miskunn og kærleika, umhyggju og virðingu, skynsemi og visku, vísindi og sköpun en ekki ofbeldi.  Fjölhyggjumanneskja hefur ímugust á ofríki, yfirgangi og hroka.

Fjölhyggja á heima þar sem enginn ætlar sér að drottna yfir öðrum, hún er samkomulag sem skapar ramma þeirra sem koma víða að og vilja búa við mannúð. Enginn þarf að skipta um nafn eða klæði, trú eða skoðun. Fjölhyggjufólk skrifar fúslega undir fullyrðinguna:

„Allir eru jafnbornir til virðingar og óafsalanlegra réttinda sem eru undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.“

Fjölhyggjumanneskjan vill alls ekki leggja heimsmyndir undir sig heldur býst hún við að lifa í fjölskrúðugri menningu ólíkra trúarbragða og annarra lífsskoðana. Hún þrífst ekki án annarra. Fjölhyggjan á sér enga sérstaka fylgismenn, leiðtoga eða guði sem brenna í skinninu og enginn myndi halda í stríð í hennar nafni.

Fjölhyggjan þrífst best í samfélagi mannréttinda og virðingar þar sem allir búa saman án aðskilnaðar. Það er enginn áberandi kraftur í fjölhyggju enda er mælikvarði hennar friðsemd. Ef til vill er hún aðeins hugarástand, að minnsta kosti verður hún ekki handsömuð og hún er ekki yfirlýsingaglöð. Enginn ofríkismaður gæti beitt henni fyrir sig, því hún þarf á öllum að halda.

Andhverfa hennar er tvíhyggjan sem er hækja þeirra sem vilja flokka eftir eigin höfði í æskilegt og óæskilegt, gott og vont, rétt og rangt út frá eigin hagsmunum og viðmiðum. Átakamenningin er afurð tvíhyggjunnar; að skipa sér í flokk, að vera með eða á móti, fylgja hægri eða vinstri. Tvíhyggjuflokkun felur í sér mismunun, stéttarskiptingu og útilokun sjónarmiða. Veruleikinn er fáskrúðugur og skakkur í tvíhyggjukerfi.

Fjölhyggjumanneskja getur sprottið upp úr margskonar jarðvegi. Hún getur tilheyrt hópum en hún veit að lífsskoðanir þeirra eru ekki æðri eða betri en annarra. Fjölhyggja er ekki afstæðishyggja þar sem fólk býr saman í óvissu og myrkri heldur vísa leiðarljós samlyndis upp vegina á milli ólíkra hópa. Hún býður þó engin laun, engan sigur á dauðanum eða vafalaus svör við tilverunni. Það sem gerir hana eftirsóknarverða er sambandið og samkenndin sem getur myndast á milli hópa. „Hvernig heimur viljum við vera?“

Fjölhyggja er einkenni víðsýnnar þjóðar.

Hún hengir sig ekki í smáatriði og festir sig ekki í einni kenningu, því það er sama hvaðan gott kemur. Hún velur það sem nýtist flestum, jafnvel þótt það komi úr óvæntum áttum. Slík þjóð er frjálslynd í fasi – og virðing er dyggðin sem situr í öndvegi.

Lífið verður ævinlega ráðgáta og að til eru margar lausnir og lyklar sem ganga að mörgum sögum.

© Gunnar Hersveinn, 2017.

Deila

Hefur hugsun áhrif á heilsu?

facebook_event_1703336496546142

Heilsan er hátt skrifuð í hugum Íslendinga og er jafnan nefnd sem höfuðgildi í lífinu. Læknisfræðin lítur gjarnan á huga og líkama sem aðskilin fyrirbæri en hvað segja önnur vísindi og heimspekin? Getur til að mynda vonglaður hugur haft heilsusamleg áhrif á starfsemi líkamans? Spáum í það:

Hryggðarefnin eru óendanlega mörg og áhyggjur hafa tilhneigingu til að vaxa – en það er þó ekki næg ástæða til að útiloka gleðina.

Lífið getur verið eilífur táradalur sé þess óskað. En hvernig líður þeim sem rækta ekki gleðina? Stórir hópar fólks missa af henni því þeir hleypa henni ekki um líkama sinn, huga eða hjarta. Margar leiðir eru til að sneiða hjá gleðinni og safna fremur áhyggjum og hrukkum.

Gleðin er vanmetinn mælikvarði í lífinu, hún leynist í mörgu, kúnstin er bara að njóta hennar. Líkaminn þarfnast einfaldlega gleði, gleði áreynslunnar, matar og drykkjar, hvíldar og starfs. Gleðin kemur fjörefnum af stað í taugakerfinu svo þeir glöðustu lyfta höndum, hrópa upp yfir sig og dansa af kæti. Aðrir hlæja sig magndofa og hníga niður. Hvílík gleði! Aukaverkanir? Hún er smitandi og breiðist út til annarra. Það albesta við gleðina er löngunin til að vilja deila henni með öðrum, að gefa með gleði. Von og gleði eru gott par.

Um leið og vonin vaknar verða sporin léttari og viljinn sterkari. Þrauka má jafnvel án ástar og gleði – en ef vonin slokknar þá er voðinn vís. Von felur í sér ósk og þrá. Hún hverfist um bjartsýni og hughreysti og sá sem missir hana fer á andlegan vonarvöl. Von er sláttur hjartans, þrá sálarinnar og ósk hugans – sem getur ræst. Vonin ljær lífsbaráttunni þindarleysi og göngunni þrótt.

Hvað er heilsa? Getur hugsun haft áhrif á hjartað? Geta viðhorf haft áhrif á líðan? Getur gleðin og það að deila gleðinni með öðrum lengt lífið? Lára G. Sigðurðardóttir læknir og doktor í lýðheilsuvísindum og Gunnar Hersveinn rithöfundur ætla að eiga samtal um samband hugar og heilsu á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 20. janúar klukkan 20:00. Allir velkominir – enginn aðgangseyrir.

Tengill

Melda sig á viðburð hér

Upplýsingar um viðburðinn

 

Að byrja á sjálfum sér

12_vef_feb_heimspeki_visitEngin persóna verður fullgerð fyrr en hún finnur hjá sér knýjandi þörf til að gera eitthvað fyrir aðra. Sú persóna sem finnur samhljóminn með öðrum, getur liðið með öðrum og nemur samhengið í tilverunni fyllist löngun til að geta látið gott af sér leiða. Hún gæti anað út í verkefnið en ef hún er skynsöm þá, staldrar hún við og ákveður að búa sig undir það með því að byrja á sjálfum sér.

Ekki byrja á öðrum

Það er ekki heiglum hent að byrja á sjálfum sér, það er mun auðveldara að byrja á öðrum og segja samfélaginu til. Að byrja á sjálfum sér er viðamikil rannsókn. „Fyrir hverju vil ég berjast fyrir og hverju berst ég gegn? Hver eru mörk mín, hvenær segi ég hingað og ekki lengra! Hvaða gæði vil ég vernda, hvað get ég lagt af mörkum? Hvernig get ég skapað frið og forðast illsku og ofbeldi? Hverjar eru mínar eigin skoðanir, hverjar hugsjónir?”

Markmiðið með þessari rannsókn er falið í lönguninni til að verða betri sjálfrar sín vegna og annarra. Þessi löngun virðist hafa fylgt mannkyninu frá upphafi og hún birtist oft í þeirri viðleitni að setja sér lífsreglur til að temja sig og til að kalla fram eftirsóknarverða mynd af sjálfum sér.

Grískir fornaldarheimspekingar glímdu við þessa aðferð og hver sá sem les Málsvörn Sókratesar hlýtur að hugsa um orð hans „…  að þetta sé manni best að öllu, að iðka daglega samræður um dyggðina og reyna bæði sjálfan sig og aðra, og órannsakað líf sé einskis virði.“

Efasemdarmaður

Sá sem byrjar á sjálfum sér verður óhjákvæmilega efasemdarmaður, hann efast um það sem aðrir hafa sagt, það sem oftast er sagt, það sem á að vera satt. Hann tekur engu sem fyrirfram gefnu.

Hann er því ekki vinsæll á þessu tímabili, hann verður eins pirrandi broddfluga, því hann efast um það sem aðrir gera. Og ekki aðeins um aðra heldur einnig sjálfan sig, hann brýtur skoðanir, þekkingu, hegðun og hátterni til mergjar.

Ekki til að breyta öllu í auðn og tóm, ekki til að eyðileggja góða stemningu, heldur til að finna eitthvað sem stenst rannsókn. Efasemdin er glíma við lífið og leit að gildum þess og siðfræðispurningin sem vaknar er:

Hvers konar líf er ómaksins vert?

Þetta er heimspekilegt hugarvíl sem vekur menn upp af værum blundi hringrásar hins daglega lífs.

Slíkt hugarvíl er verðugt verkefni og það þarf hugrekki til að leyfa efanum að greina hismið frá kjarnanum. Efinn er liður í því að verða maður sjálfur, upphaf sjálfsskilningsins og eftir að hafa efast rækilega stendur vonandi vakandi hugur á varðbergi gagnvart fordómum, kreddutrú, lygi og heimsku, staðráðinn í að láta ekki glepja sig á ný með innantómum orðum.

Þetta kostar hugrekki. Það er miklu auðveldara að draga sig í hlé heldur en að standa með sjálfum sér. Sá sem byrjar á sjálfum sér verður um sinn eirðarlaus sannleiksleitandi sem þjáist af vitsmunalegri angist. Þetta verkefni getur ært óstöðugan.

Uppbygging

Efinn er grimmur til að byrja með en enginn má festast í linnulausum efasemdum, eitthvað þarf að finnast, einhver sýn eða aðferð svo hægt sé að byggja upp nýja og betri veröld. Því sá sem byrjar á sjálfum sér, gerir það ekki aðeins fyrir sjálfan sig, heldur aðra. Það er betra fyrir alla að hver leggi sig fram um að verða sjálfur sem bestur.

Það þarf sterk bein til að byrja á sjálfum sér, aga, vilja, þrautseigju.

Þetta er rannsóknarvinna sem er ómaksins verð. Sókrates sagði: „Ég leitaðist við að telja hvern mann á það, að bera ekki umhyggju fyrir neinum högum sínum, fyrr en hann hefði hugsað um að verða sjálfur sem bestur og vitrastur og ekki fyrir neinum högum borgarinnar fremur en borginni sjálfri – og svo framvegis um alla aðra hluti.“

Sókrates tók afstöðu eftir efasemdir sínar um að sækjast fyrst og fremst eftir dyggðinni, ekki aðeins til að hafa eitthvað til að hugsa um heldur til að breyta hegðun sinni til betri vegar. Hann taldi það líka skyldu sína að ávíta þá sem sækjast eftir hégóma og fjármunum fremur en dyggðum.

Efasemdarmaður getur tekið afstöðu með því sem hann telur vera til heilla fyrir lífið og jörðina, en hann verður aldrei öfgamaður. Hann segist ekki vita svarið, heldur telur það líklegt um stund. Hann er í raun að beita aðferð vísindanna, gera tilraunir og feta sig áfram til að öðlast þekkingu á veröldinni, öðrum og sjálfum sér.

Gunnar Hersveinn rithöfundur fjallar um hvað það þýðir að byrja á sjálfum sér á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti 18. mars 2015 og Ragnheiður Stefánsdóttir mannauðsráðgjafi og leiðbeinandi á námskeiðum um orkustjórnun segir frá því hvernig nálgast megi efnið með því að setja sér markmið og efla líkamlega, tilfinningalega, hugræna og andlega orku.

Tengill

Heimspekikaffi

Heimspekikaffi – viðburður á facebook

Heimild: Platón.Síðustu dagar Sókratesar. HÍB 1996.
Róbert Jack. Hversdagsheimspeki. Heimspekistofnun 2006

Orkustjórnun

 

Hamingja og sköpun á heimspekikaffi

12_vef_feb_heimspeki_visitGunnar Hersveinn og Hrefna Guðmundsdóttir félagssálfræðingur fjalla um sköpunargáfuna og hamingjuna á heimspekikaffi í Gerðubergi 21. janúar. Það hefst með þessum orðum:

Forvitni hugans er áberandi einkenni mannverunnar. Hún er námsfús, forvitin um hvaðeina. Barnið grípur allt sem auga og hönd á festir, stingur upp í sig, smakkar, sýgur og svalar óseðjandi forvitni sinni um stund.

Forvitnin vex með árunum en stundum dofnar hún. Hlutir, hugtök, tilgátur og kenningar eru teknar í sundur, skoðaðar í smáatriðum og kannað hvort undrið stenst eða ekki. Hvað, hvernig, hver, hvar, hvenær og loks hvers vegna? Forvitinn hættir aldrei að spyrja, næsta spurning vaknar alltaf.

Forvitni þarfnast áræðni til að spyrja enn frekar, rannsaka, leggja í leiðangra, yfir höf og inn í ókönnuð lönd.

Líf án forvitni er dauflegt og endar í stöðnun. Það er án viðleitni til að gera eitthvað nýtt og óvænt. Sá sem glatar forvitni sinni algjörlega hættir að nenna út úr húsi. „Sá sem leitar aldrei frétta verður aldrei margs vitandi,“ segir málshátturinn.

Forvitni er eiginleiki sem hægt er að rækta og efla, forvitni er undanfari visku, óseðjandi þrá til að vita meira, sjá, heyra, finna, forvitnast um. Forvitinn leitar að svari þegar aðrir sætta sig við þau svör sem einhver annar hefur gefið þeim. Hann býst við meiru, öðru, dýpt, vídd.

Fordómar eru meðal óvina forvitninnar. Þeir bjóða upp á rangar ályktanir, þeir tefja för, villa um fyrir fólki og eyðileggja viskuleitina. Leiðangurinn verður hættuför, fyllt er upp í með tilgátum og fólk nemur staðar, hættir leitinni. Óttinn vill heldur ekki alltaf vita svarið.

Forvitni er forsenda gleði í lífinu. Forvitni er eins og fálmari þeirra sem vilja skilja eitthvað í tilverunni. Forvitni einkennir margar lífverur en sköpunargáfan er eitt af sérkennum mannverunnar. Forvitni er forsenda sköpunar, því hún dafnar og vex í huga hins forvitna. Sköpunin er leit að skilningi.

 

Sköpunargáfan

Sköpun er næsta lag á eftir forvitni, þrep, stig eða áfangi, þótt forvitnin sé ævinlega áfram með í för. Hún þarfnast einnig áræðni til að móta eitthvað annað en það sem blasir við og til að túlka á annan hátt en oftast er gert eða finna nýjar lausnir og opna dyr sem hafa verið lokaðar. Gildi sköpunar opinberast ef hún hefur haft áhrif á veruleikann.

Sköpunin er leit að skilningi.

Það er þráður á milli forvitni og sköpunargáfu og þeim fylgir gleði og þakklæti. Sá sem ræktar með sér forvitni barnsins og eflir með sér skapandi hugsun gleðst yfir verkum sínum. Verkin geta verið listaverk, nýjar lausnir, vísindaafrek, ný túlkun eða nýjar leiðir.

Sagt er að allir leiti leynt eða ljóst að hamingju. Hún felst ekki aðeins í því að vera sátt og sáttur við lífið og aðra, heldur einnig að hætta aldrei að leita að svari við því sem ósvarað er. Dofin forvitni merkir minni sköpun og hamingja í lífinu.

Sköpunargáfan kemur við sögu í leitinni að hamingju, hún knýr fólk til að gera tilraunir, undrast, efast og endurraða í lífinu.

Gunnar Hersveinn og Hrefna Guðmundsdóttir félagssálfræðingur ætla að rekja þráðinn, með hjálp gesta, milli sköpunar og hamingju á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 21. janúar kl. 20.00.  Gunnar mun einbeita sér að sköpunargáfunni og Hrefna að hamingjunni.

Allir velkomnir.

Tenglar

Viðburður á facebook

Kynning hjá Gerðubergi

 

 

 

 

 

 

 

VINSEMD Á HEIMSPEKIKAFFI Í GERÐUBERGI

12_vef_feb_heimspeki_visitÍmyndum okkur heiminn án vinsemdar. Öllum væri sama um alla aðra. Enginn leitaði eftir samveru eða nánum tengslum. Mannlífið yrði án hlýju.

Heimur án vinsemdar yrði kaldur og vélrænn. Ljósið í augunum myndi fjara út og við myndum ekki lengur finna til samkenndar. Ekki rétta hjálparhönd eða hlaupa undir bagga hvert með öðru.

Enginn myndi koma í heimsókn til að njóta samvista, enginn sæktist eftir vinarþeli. Sennilega myndi fólk missa heilsuna og lífið styttast.

Heimur án vinsemdar yrði skeytingarlaus um mannleg verðmæti. Greinarmunur á réttu og röngu, góðu og illu myndi þurrkast út og vélræn afstaða til hlutanna yrði ríkjandi.

Heimur án vinsemdar yrði sviptur kærleika, væntumþykju og ástarsambanda því enginn myndi sækjast eftir alúð og innileika annarra.

Einhver gæti hugsað sér að heimur án vinsemdar yrði grimmur, fullur óvildar og þjáningar. En svo yrði ekki, því andstæðan yrði heldur ekki til.

Heimur án vinsemdar yrði einnig án einsemdar, því þetta tvennt er bundið órofa böndum. Tómið yrði allsráðandi.

Enginn hefur áhuga á heimi án vinsemdar en til að bæta heiminn er ráðið að læra og rækta vinsemd, temja sér vinsamlega hegðun og hugsun. Vinsemd er dyggð, tilfinning og viðhorf.

VINÁTTA

Vinsemd er góð byrjun en vinátta er oftast lengi að verða til. Hún er ekki hrifning því fólk getur hrifist hvert af öðru án þess að mynda persónulegt samband. Vinátta felst í því að gera eitthvað saman, vinna, skemmta sér og leysa vandamál. Það vekur vonir um framtíðina að gera eitthvað ánægjulegt saman og skapa góðar minningar. Vinátta er því lifandi samband sem þróast og styrkist með árunum. Góðir vinir bæta hver annan.

Enginn getur þekkt sjálfan sig nema í gegnum náin kynni við aðra manneskju. Við deilum tilfinningum okkar og hugsunum með vinum og treystum þeim fyrir innstu hugðarefnum okkar. Vinur er ekki aðeins félagi heldur kær félagi.

HEIMSPEKIKAFFI

Styrkleiki vinsemdar hefur víðtækari áhrif en margur hyggur, m.a. á farsæld, heilsufar og samfélag. Vinsemd verður í brennidepli á heimspekikaffinu heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 19. nóvember kl. 20.00. Gunnar Hersveinn rithöfundur ræðir um einsemd og vinsemd og Margrét Leifsdóttir arkitekt og heilsumarkþjálfi mun fjalla um sterkt samband milli vinsemdar og heilsufars.

Tengill

Gerðuberg – 19. nóvember 2014

 

 

JAFNSÆLT AÐ GEFA OG ÞIGGJA

12_vef_feb_heimspeki_visitAð kunna að gefa með gleði og þakka af heilum hug er meira virði en margur hyggur, það er jafnvel forsenda velgengni í lífinu. Gjöf og þakklæti ganga ekki kaupum eða sölum, þessar dyggðir eru djúpur lærdómur. Þótt ávallt sé fullyrt að sælla sé að gefa en þiggja þá er það ekki augljóslega rétt. Að mörgu leyti er jafnt á komið með þiggjanda og gefanda.

Gjöfin er ekki gjöf nema með ákveðnum skilyrðum. Hún er ekki gefin með ólund heldur gleði. Hún er aðeins gefin með góðum hug og gefandinn býst ekki við endurgreiðslu. Eins þarf þiggjandinn að gleðjast og taka við henni án beiskju.

Gjöf og þakklæti eru samstæður. Sú og sá sem lærir að gefa með gleði og sá sem lærir að þiggja með gleði lærir jafnframt uppbyggjandi afstöðu gagnvart samfélaginu. Hún losnar undan nístandi löngun til að taka af öðrum, safna upp einskis nýtum hlutum, losnar undan græðginni. Hún verður þakklát fyrir tækifærið til að geta gefið öðrum.

Siðaboðið „gefið öðrum“ er lögmál velgegni í lífinu. Sú sem gefur, öðlast eitthvað annað, hún veit ekki hvað, aðeins að það er eitthvað gott. Sá sem þiggur gerir það með þakklæti, hann vex og vonast til að geta gefið öðrum síðar. Þannig eru þessi hugtök samtvinnuð en þau verða til umræðu í heimspekikaffi í menningarmiðstöðinni í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 17. september kl. 20.

Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur fjallar þar um leyndardóma þakklætis og gjafar og Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur talar um hvernig þakklæti getur verið stysta leiðin frá reiði og vanlíðan og lykill að hamingju jafnt í amstri hversdagsins sem í erfiðleikum og sorg vegna missis.

Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum. Allir eru velkomnir.

Tengill

Heimspekikaffi í Gerðubergi 17. september: Leyndardómar þakklætis og gjafar

 

 

 

 

Heimspekikaffi haustið 2014

12_vef_feb_heimspeki_visitHeimspekikaffið verður drukkið í Gerðubergi haustið 2014 eins og undanfarin ár. Það hefur verið sérlega vel sótt og gestir tekið fullan þátt í umræðum. Eftirfarandi efni verður til umræðu í haust:

17. september 2014: Þakklæti/Gjöf
Gunnar Hersveinn býður upp á umræðu um mikilvæg hugtök. Þakklætið og gjöfin geyma leyndardóma. Innlegg frá góðum gesti.

15. október: Mildi/Ofbeldi
Gunnar Hersveinn skapar umræðu um mikilvæg viðhorf og viðbrögð. Mildi og ofbeldi eru andstæður. Innlegg frá góðum gesti.

 19. nóvember: Einsemd/Vinsemd
Gunnar Hersveinn teflir saman mannlegum tilfinningum. Vinsemd og einsemd hafa áhrif á hamingjuna. Innileg frá góðum gesti.

„Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum. Margir hafa fengið gott veganesti eftir kvöldin eða a.m.k. eitthvað til að íhuga nánar og ræða heima eða á vinnustað sínum. Heimspekikvöldin hefjast klukkan 20.00 og eru allir velkomnir. Gunnar Hersveinn hefur frá upphafi haft umsjón með dagskránni og leiðir gesti í lifandi umræðu um málefni sem eru ofarlega á baugi. Þetta kvöld fjallar hann um gildi hæglætis í hraðasamfélaginu og fær góðan gest til að finna óvænt sjónarhorn.“ www.gerduberg.is

GÓÐIR GESTIR Í GERÐUBERGI

Eftirfarandi þemu og gestir hafa verið undanfarin ár í heimspekikaffinu:

 

Heimspekikaffi – Hjálpsemi og vinátta

Gestur Sigga Víðis

Heimspekikaffi – Hamingja og nægjusemi

Gestur Anna Valdimarsdóttir

Heimspekikaffi. Röksemi – Karpsemi

Gestur Hafþór Sævarsson

Heimspekikaffi – Gott | Illt

Gestur Þórdís Elva Þorvaldsdóttir

Heimspekikaffi – Ást | Fæð

Gestur Aðalheiður Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Grín | Alvara

Gestur Helga Braga leikkona

Heimspekikaffi – Gæfuspor | Feilspor

Gestur Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Viska | Fáviska

Gestur Friðbjörg Ingimarsdóttir

Heimspekikaffi – Tími | Frelsi

Gestur Vilborg Davíðsdóttir

Heimspekikaffi – Stríð | Friður

Gestur Helga Þórólfsdóttir

Heimspekikaffi – Konur | Karlar

Gestur Hanna Björg Vilhjálmsdóttir

Heimspekikaffi – Líf | Dauði

Gestur Bjarni Randver Sigurvinsson

Heimspekikaffi – Hugsjónir breyta heiminum

Gestur Áshildur Linnet

Heimspekikaffi – Kærleikurinn og hrunið

Gestur Sigríður Guðmarsdóttir

Heimspekikaffi – Sjálfsþekking

Gestur Guðrún Margrét Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Hugrekki og sjálfsmynd

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

Heimspekikaffi – Hæglæti í hraðasamfélagi

Ásgerður Einarsdóttir

Heimspekikaffi – Sjálfsvitund

Anna Valdimarsdóttir

 

Frásögn af heimspekikaffi, Reykjavík- vikublað, bls. 12

 

 

 

Alúð, hamingja og rósemd

Copy of 11 heimspeki okt amyndHamingjan kom við sögu á heimspekikaffi í Gerðubergi 19. mars 2014. Hér er brot úr erindi Gunnars Hersveins þar, birt í tilefni af alþjóðadegi hamingjunar.

Stóuspekinginn Epiktetus (50-138 e.Kr.) kenndi speki um rósemd hjartans og að ekkert í þessum heimi væri þess vert að raska ró manna.

Þungamiðjan í heimspeki Epiktetusar snerist um að efla hæfileikana til að velja og hafna, tjá sig og sýna rólegar tilfinningar. Hann trúði á hinn frjálsa vilja. Við erum frjáls og okkur ber af þeim sökum siðferðileg skylda til að rannsaka líf okkur.

Hann ráðlagði ávallt út frá því sjónarmiði að fólk ætti aldrei að missa stjórn á skapi sínu og að enginn ætti að tileinka sér viðhorf sem gæti dregið úr hamingju. „Segðu við engan hlut: ég missti hann, heldur: ég skilaði honum aftur. “

„Ef mótlæti hendir þig, þá mundu að snúa þér ætíð til sjálfs þín og spyrja, hverja mannkosti þú megir setja gegn því. Ef þér er falið erfitt starf, nýtur þú þrautseigju þinnar. Ef þú ert svívirtur neytir þú umburðarlyndis þíns.“ Gagnvart hverri þraut ber að tefla mannkosti, sagði spekingurinn, ávallt bjartsýnn. *1

Hann sætti sig þó við hið ósveigjanlega og taldi fávisku að missa stjórn á skapi sínu gagnvart hlutum sem eru ekki á valdi okkar. Hann var taldi að lífshamingja manna réðist af því að girnast aðeins það sem er á okkar eigin valdi og innan ramma möguleikanna. Ómöguleikinn beinist einungis gagnvart því sem er ekki á okkar valdi.

Óhamingjan felst í því að reyna að flýja hið óumflýjanlega og trúa að atburðirnir sjálfir stjórni líðan okkar, þegar það er í raun viðhorf okkar til þeirra sem gerir það. „Skelfileg er einungis sú skoðun að dauðinn sé skelfilegur,“ nefndi hann sem dæmi. Hann brýndi fyrir mönnum að trúa að hamingjan væri á þeirra eigin valdi, en ekki annarra. (Því miður er það ekki alltaf svo en þannig ætti það að vera).

Epiktetus taldi að rósemd hjartans skapaði hamingjuna. Hann bjó sjálfur yfir sálarró, enda á enginn að kenna öðrum eitthvað sem hann er ekki sjálfur. „Það eitt sem þú getur rækt með trúnaði og sjálfsvirðingu, á að vera hlutverk þitt í þjóðfélaginu,“ sagði hann. Við eigum með öðrum orðum að starfa við það sem við sinnum af alhug, en ekki við það sem okkur leiðist eða höfum ekki metnað til að vinna vel. Ef við fáum eða getum skapað okkur tækifæri til að gera það sem við sinnum af alúð þá líður okkur vel og við öðlumst sálarró.

Sérhver persóna þarf að rækta með sér ákveðnar dyggðir og tilfinningar til að mikilvæg verkefni sem verða á veginum heppnist vel. Til að verða fullgerð persóna þarf að efla nokkra lykilþætti; þeirra mikilvægastir eru gjöfin, þakklætið og vináttan ásamt rósemd hjartans og ræktun þeirra skapar möguleikann á að lifa hamingjuríku lífi. *2

*1 Handbók Epiktets. Almenna bókafélagið 1955 og 1993.
*2 Gæfuspor – gildin i lífinu. Gunnar Hersveinn. Forlagið 2012

Rósemd og núvitund í heimspekikaffi

12_vef_feb_heimspeki_visitMargir standa allt sitt líf furðulostnir gagnvart tilgangi lífsins jafnvel þótt hann sé augljós: að lifa. Merkingin vefst hins vegar fyrir mörgum. Leitin að tilgangi lífsins getur verið annasöm, sérstaklega ef gert er ráð fyrir að hugtakið feli í sér mark og mið, stefnu og rás eða að fara frá einum stað til annars. Hversu oft hafa einstaklingar ekki þotið um víða veröld í leit að svari en svo fundið það innra með sér við heimkomu? (ferðalög eru reyndar oftast holl og stundum finnst svarið ekki fyrr en vatnið hefur verið sótt yfir lækinn).

Uppspretta hamingjunnar býr sennilega innra með hverjum manni. Hamingja manns er ekki á valdi annarra (nema beitt sé skipulögðu ofbeldi eins og einelti). Fullnægjandi líf fæst ekki fyrr en rósemd hjartans streymir um æðar einstaklingsins. Sá sem öðlast þá rósemd kennir ekki öðrum um það sem miður fer, hann rækir þau verkefni sem hann telur sig hafa skyldu til og skapar sér jafnframt tækifæri til að starfa við það sem hann sinnir af alúð.

Hugsun um hugsun, vitund um vitund og hæfileikinn til að vega og meta sjálfan sig í samhengi við aðra og annað gefur hverri persónu vald til að taka ákvarðanir og taka þátt í eigin sköpum. Séu menn óstöðugir eru þeir eru ekki ánægðir með þá ályktun að enginn fyrirfram gefinn tilgangur sé til, það vekur þeim ugg og hugsanir um tilgangsleysi lífsins ná undirtökunum. Lausnin kemur þó á óvart því spurningin er ekki: „Er tilgangur með lífinu?“ (svarið er augljóst, einnig um hver tilgangurinn er). Hún er heldur ekki: „Skapa umhverfi og/eða erfðir persónur?“ Svarið er hvorugt og hvorki né, því þriðju víddina vantar: Að sérhver persóna hefur vald og tækifæri til að móta sig og velja sér markmið. Enginn getur leyst hana af hólmi gagnvart þessu erfiða verkefni. Margir bjóðast eflaust til að velja fyrir hana og hún getur jafnvel beðið aðra um að velja fyrir sig en það dugar skammt.

Sérhver persóna þarf að rækta með sér ákveðnar dyggðir og tilfinningar til að mikilvæg verkefni sem verða á vegi hennar heppnist vel, m.a. til að geta brugðist rétt við mannraunum. „Ef mótlæti hendir þig, þá mundu að snúa þér ætíð til sjálfs þín og spyrja, hverja mannkosti þú megir setja gegn því. Ef þér er falið erfitt starf, nýtur þú þrautseigju þinnar. Ef þú ert svívirtur neytir þú umburðarlyndis þíns,“ sagði stóuspekingurinn Epiktetus. Gagnvart hverri þraut ber að tefla öflugum mannkosti.

„Segðu við engan hlut: ég missti hann, heldur: ég skilaði honum aftur,“ svo mælir rósemd hjartans.*

Er samband milli gátunnar um tilgang lífsins, rósemdar hjartans, gjörhygli hugans og hamingju? Málið verður krufið á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 19. mars 2014, þar mun Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur mun veita innsýn í rósemd hjartans og Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur fjallar um núvitund / gjörhygli / vakandi athygli /mindfulness. Ef til vill getur rósemdin og vakandi athygli hugans fært okkur feti nær því sem við sækjumst eftir?

Heimspekikaffi Gerðubergi

*Handbók Epiktets. 1955. Almenna bókafélagið.

 

Hæglæti á heimspekikaffihúsi

12_vef_feb_heimspeki_visitHeimspekikaffið í Gerðubergi 19. febrúar fjallar um hæglæti sem lífsstíl – og speki. En hvað er hæglæti og er þess virði að læra það?

I. Tæknilæti.

Homo sapines er nú homo technologicus. Hraðinn og magnið er vopn tæknimannsins í árás sinni á Tímann sjálfan og birtist það meðal annars í æskudýrun og von um að sigra dauðann.

Tæknin styttir og þurrkar vegalengdir út og gerir líkamleg samskipti á tilteknum stað óþörf. Orð, setningar, hugsanir, tilfinningar og jafnvel ást þýtur hjá á ljóshraða. Farsældin er tæknivædd.

Vandinn er að nokkrir mannlegir ókostir blómstra í tæknisamfélaginu og góðar dyggðir fölna. Dyggðir sem dofna í vestrænum tæknisamfélagum eru t.a.m. þolinmæði, biðlund, nægjusemi og hófsemd.

Tæknimaðurinn geysist áfram á leifturhraða þótt jaðarhópar reyni að spyrna við fótum með hæglæti. Tæknin og hraðinn hafa fært manninum margt en því miður einnig fjær sjálfum sér. Það sem á skortir er hæglæti.

II. Hæglæti

Tæknin vinnur meðal annars að því útiloka biðina en hæglætið gerir hana að liðsmanni sínum.

„Ys og þys út af engu“ gæti verið slagorðið í velmegunarlöndum nútímans. Hægláti maðurinn nemur staðar til að finna brennidepilinn bak við skýin. Hann stillir hugann og leyfir skýjunum að líða hjá.

Hæglæti er lífgildi sem dregur fram nokkra mannnkosti og útilokar valda ókosti. Hæglæti hefur þríþætt gildi: viðhorf, kennd og dyggð.

Viðhorfið felst í því að einsetja sér að leggja alúð við verkið og verkefnin. Ekki hugsa einungis um áfangastaðinn heldur um leiðina. Að hvert skref sé þess virði og áfangi í sjálfum sér. Viðhorfið hefur áhrif á líðan, það stillir hugann og dregur úr óþolinmæði og leiðindum.

Kenndin felst í jafnvægisgeði og dyggðin í biðlund. Hinn óþreyjufulli og eirðarlausi stekkur umhugsunarlaust af stað en úthaldið er lítið. Hinn þrautgóði og hægláti getur unnið árum saman að markmiðum sínum.

III. Heimspekikaffi

Hæglæti er gott mótvægi við hraða nútímans. Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, fjallar um hæglæti og biðlund sem lífsspeki og Ásgerður Einarsdóttir, ferðamálafræðingur og leiðsögumaður, fjallar um hæglæti sem lífsstíl í daglegu lífi og ferðalögum á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti 19. febrúar nk. Heimspekikaffið hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri undir stjórn Gunnars, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum.

Tengill
Gerðuberg – Heimspekikaffi

Allt er hægt – gönguferðir