Flokkaskipt greinasafn: Lífsgildin

Hugrekki á heimspekikaffihúsi

12_vef_feb_heimspeki_visitAð láta ekki bugast þrátt fyrir ófarir og halda ferðalaginu áfram er merki um hugrekki. Að nema óttann, depla jafnvel auga andspænis ógninni en víkja ekki af vettvangi er hugrekki.  Heimspekikaffið í Gerðubergi í Breiðholti 22. janúar kl. 20.00 er tileinkað hugrekki og sjálfsmynd.

Hugrekki má efla og æfa en styrkurinn kemur í ljós þegar á reynir. Hver og einn ætti að búa sig undir þær þolraunir sem lífið leggur fyrir. Hugrekki er margslungið fyrirbæri, tengt mismunandi þáttum eftir aðstæðum.

Hugrekki tilheyrir ekki aðeins víðkunnum hetjum heldur einnig óbuguðum einstaklingum sem ákveða að hefja sig aftur til flugs daginn eftir brotlendingu, það tilheyrir óbreyttum borgurum sem yfirgefa ekki torgin fyrr en þeir fá hugsjónum sínum framgengt.

Hugrekki felur ávallt í sér áhættu, það er afl sem knýr fólk áfram þrátt fyrir óttann, það fullgerir verkið. Ef markmiðið er að komast yfir gjá og tilhlaupið er undirbúið, birtist hugrekkið í stökkinu.

Hugrekki sprettur upp af mörgum þáttum. Borgari sem greinir spillingu og kúgun og dirfist að mótmæla yfirvöldum er hugrakkur. Hinn hugaði er alltaf vongóður. En ef vonin er horfin og hann stígur þrátt fyrir það í veg fyrir óréttlætið telst það fremur fifldirska en hugrekki.

Vonin er vasaljós hins hughrausta.

Sá sem telur úr sér kjarkinn skreppur saman en sá sem stappar í sig stálinu stækkar. Hugrekki er ávísun á alls konar afrek og stolt sem styrkir sjálfsmynd sérhvers manns. Segja má að margar aðrar dyggðir og mannlegir þættir þarfnist þessa kraftar, m.a. hjálpsemi, vinátta og réttlæti. Það þarf alltaf hugrekki til að standa skilyrðislaust með eða á móti og til að segja skoðunun sína.

Hugrekki getur skilið á milli feigs og ófeigs, á örlagastundinni sprettur það fram eða ekki. Það opinberast þegar á reynir. Sá sem lætur ekki hugfallast getur verið upplitsdjarfur gagnvart öðrum og myndinni í speglinum.

HUGREKKI OG SJÁLFSMYND

Hugrekki leikur stórt hlutverk í sterkri sjálfsmynd einstaklinga. Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur mun fjalla um hugrekki sem dyggð og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sálfræðingur og sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis mun tengja saman hugrekki, sjálfsmynd og vellíðan út frá sjónarhóli jákvæðrar sálfræði á heimspekikaffi miðvikudaginn 22. janúar í Gerðubergi.

Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum. Margir hafa fengið gott veganesti eftir kvöldin eða a.m.k. eitthvað til að íhuga nánar og ræða heima eða á vinnustað sínum. Heimspekikvöldin hefjast klukkan 20.00 og eru allir velkomnir.

Tengill

Heimspekikaffi í Gerðubergi

 

 

 

Deila

HÓFSEMD Í HNOTSKURN

Hofsemd2Hófsemdin er ekki vinsæl í fræknum hópi dyggðanna. Hver velur nægjusemi í hraðasamfélagi nútímans þar sem biðlund er sögð ávísun á gjaldþrot, hik er sama og tap? Íslendingar vilja eflaust vera þekktir fyrir gestrisni, glaðlyndi, dugnað, heiðarleika, hugrekki og jafnvel visku. Og fyrir framsækni, óbilandi bjartsýni, þrautseigju og þolgæði. En hvað með hófsemi?

Segja má að hófsemdin sé innra jafnvægi, jafnvægið milli allra þátta sem togast á innra með hverjum manni, milli þess að fara aldrei af stað og spretthlaups. Hún er það sem öllum foreldrum ber skylda til að kenna börnum sínum. Agi til að standast, agi til að þora, agi til að hætta við, agi til að vinna afrek. Hún er markalínan.

Lífið þarf að finna jafnvægið milli þurrðar og flóða, milli of og van. Ofaukið, ofbirta, ofdrykkja, ofeldi, ofeyðsla, -neysla, -fjölgun, -vöxtur. Vanmat, vanræksla, vanreikna, -svefta, -traust, -þakklæti. Lífið er á milli alls sem er. Mannlífið á Íslandi er stjörnubókardæmi um öfgar. Það er ýmist í ökkla eða eyru þegar verkefnið er að finna jafnvægið á milli.

Hófsemdin kemur við sögu margra mannkosta og málaflokka. Nægjusemin er í raun kjarni sjálfbærni og aðferðin til að draga úr mengun og spillingu lands og náttúru. Hófsemd er einnig góð aðferð til að stuðla að jafnvægi milli kynja, milli valda og stöðu því hún dregur úr öfgum og misrétti. Hófsemdin er andstæða við allar þær öfgastefnur sem gera tilraunir gegn lýðræði og jöfnuði í samfélaginu. Hún er ekki fylginautur kúgunar heldur jafnvægis.

Jöfnuður vísar til dreifingar á valdi og störfum. Jöfn tækifæri, jafnir möguleikar til mennta og starfa. Hófsemdin er nauðsynleg til að skapa réttlátt samfélag, eigna-, launa- og mannjöfnuð. Jöfnuður breytist í draumóra ef hennar nýtur ekki við.

Það er sama hvar borið er niður, við þurfum á hófsemdinni að halda. Frelsið er blaðra. Hófsemdin er snærið sem bundið er um blöðruna. Hófsemdin er taumhald. Án hófs fyki frelsið út í veður og vind. Hófsemdin er mörk kærleikans, fegurð fjölskyldunnar, lykill ábyrgðarinnar, skynsemi heiðarleikans og æðasláttur traustsins. Hófsemdin vísar veginn til jafnvægis í samfélaginu og rósemdar hjartans.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

TRAUST SEM ÞJÓÐGILDI

islandMælikvarði á traust er meðal annars gagnsæi upplýsinga. Óbreyttur borgari hefur hvorki þrek, kunnáttu né tíma til að rannsaka alla hluti til hítar. Hann kýs sér sér fulltrúa sem hann treystir til að fara með valdið. Hann þarf að geta valið úr góðu og fjölbreyttu úrvali fulltrúa úr ýmsum stéttum, af báðum kynjum og af ólíkum uppruna.

Borgari í samfélagi gagnsærra upplýsinga þarf á fjölbreyttum fjölmiðlum að halda sem eru óháðir sterkum hagsmunahópum og fjármagnseigendum. Meginhlutverk fjölmiðla er að veita yfirvöldum og viðskiptalífinu aðhald. Lög og reglugerðir þurfa því að tryggja fjölmiðlum greiðan aðgang að gagnagrunnum og upplýsingum í hverjum málaflokki.

Verkefnið er í raun ósköp einfalt: almannaheill, það þjónar almenningi. Hvert stjórnvald, hver stofnun, hvert fyrirtæki þarfnast trausts og þess að njóta stuðnings almennings. Sá sem engum treystir nema sjálfum sér einangrast. Sá sem öllum treystir verður leiksoppur annarra. Verkefnið er að læra að treysta öðrum en búast þó ávallt við að einhver bregðist. Traust er göfugt og gott en það er jafnframt áhætta. Enginn ætti að treysta öðrum manni fyrir öllum fjöreggjum sínum.

Sama gildir um að treysta stofnunum, fyrirtækjum, tækni og öðrum þjóðum. Þjóð sem annaðhvort vanmetur sig eða ofmetur gefur ákveðnum öflum lausan tauminn. Þjóðir sem fyllast ofmetnaði eru sígilt efni í sögur um fall og þá bila undirstöðurnar. Hversu oft þurfum við að lesa ævintýrið Nýju fötin keisarans til að skilja það og fylgja fordæmi drengsins sem kallaði: Hann er nakinn.

Þá hefst tími vantrausts þar sem efast er um heilindi eða áreiðanleika. Vantraust er að vera í lausu lofti, ganga þar sem jörðin er ekki lengur undir fótum, svifa líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins. Vantraust hefur engan áfangastað, veruleikinn hverfur, gufar upp jafnóðum og hann birtist. Haldreipin renna úr höndum og síðasta hálmstráið slitnar, fallið hefur engan botn.

Það er því ómaksins vert að leggja mikið á sig til að rækta og efla traust með þjóðinni.

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

Einnig birt í vikublaðinu Reykjavík 23. nóvember 2013

 

 

Heimspekikaffi um sjálfþekkingu

12_vef_feb_heimspeki_visitHver er ég? Hvernig getur maður þekkt sjálfan sig? Hver er besta leiðin til að kynnast sjálfum sér? Hvernig lýsir fólk hvert öðru og hvað merkir það? Hvað þarf að gera til að öðlast þekkingu sjálfan sig? Hvernig bregst ég við áreiti? Hopa ég á fæti eða stíg ég fram? Rétti ég fram hjálparhönd eða læt ég mig hverfa sporlaust?

Spurningarnar eru verðugt viðfangsefni en sennilega öðlast enginn þekkingu á sjálfum sér fyrr en á reynir, fyrr en í harðbakkan slær, fyrr en staðið er andspænis ógninni, auglitis til auglitis. Hugrekkið og kærleikurinn skilur líklega á milli feigs og ófeigs.

Ofangreindar spurningar eru efni í margar bækur, en til er önnur hlið á sjálfsþekkingu sem sjaldan er fjallað um. Þá hlið er ekki beinlínis hægt að lesa af svipbrigðum, dyggðum eða úr samræðumi. Hún felst í þeim afleiðingum sem hegðun og skoðanir hvers og eins skapa. Ekki endilega á hér og nú heldur annars staðar og síðar meir, jafnvel í framandi heimsálfum. Ábyrgð fylgir skoðunum og hegðun sem varða aðra .

Hver persóna hefur sjálfsmynd og vinir hennar móta sér myndir af henni í huga sér en á sama tíma lengist skuggamynd mótuð af atferli og viðhorfum. Sá skuggi verður einskonar tvífari sem fæstir koma auga á og  eigandinn vill ekki kannast við. Hver er tvífarinn og hvað er hann að gera?

Virðulegur maður í samfélaginu sem sífellt fær tækifæri til að lýsa skoðunum sínum og afrekum í fjölmiðlum hefur óhjákvæmilega áhrif á aðra. Hann gæti mælt með ýmsum hugmyndum sem hljóma ágætlega á yfirborðinu, hrifningaralda í þjóðfélaginu gæti haft áhrif á lög og reglugerðir. Hann gæti jafnvel sannfært aðra um að það borgaði sig að skulda sem mest. Aðeins þegar ráðleggingar hans eru greindar og rannsakaðar opinberast duldar afleiðingar þeirra.

Stéttaskipting gæti leynst í þeim og hvers konar ójöfnuður. Hann gæti dregið upp spennandi viðskiptaumhverfi hér á landi án þess að nefna að í þeim fælist kúgun launþega í Bangladesh, að vörurnar sem auglýstar yrðu hér á útsölu væru handunnar af lægst launuðu launþegum veraldar sem ynnu svo sannarlega myrkranna á milli.Hver er ábyrgð þeirra sem trúa honum? Hver er ábyrgð hans sjálfs? Hvað segir tvífarinn?

Páll postuli og heimspekingur gat greint tvífarann sinn og tókst að orða þetta ágætlega: „Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.“ Flestallir vilja þetta góða sem þeir tala mikið um og aðrir styðja þá í þeirri viðleitni. En svo gera margir eitthvað allt annað og afleiðingarnar til lengri tíma eru alls ekki góðar. Þar er tvífarinn á ferð.

Tvífarinn er hin hliðin. Sérhver maður er ekki aðeins sá sem hann vill vera, heldur einnig sá sem hann vill ekki vera. Sjálfsþekkingin er því tvíþætt: Sá sem þú vilt horfast í augu við og sá sem þú vilt ekki horfast í augu við.

 

HEIMSPEKIKAFFI UM TVÍFARANN

„Þekktu sjálfan þig“ er ein elsta ráðlegging heimspekinnar til þeirra sem vilja skilja heiminn. Sjálfsþekking er langtímanám og sá sem er um það bil að útskrifast uppgötvar að öflug skoðun og hegðun á einum stað getur haft óvæntar afleiðingar á öðrum fjarlægum stað.

Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, og Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í mannfræði, ætla með ýmsum dæmum að varpa ljósi á leitina að sjálfsþekkingu á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 20. nóvember kl. 20.00 en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum

Gunnar Hersveinn hefur tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni um margra ár skeið og skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Guðrún Margrét Guðmundsdóttir er fyrrverandi formaður stjórnar UNIFEM, nú UNWOMEN. Hún mun m.a. glíma við þá mótsögn að berjast gegn misrétti og að viðhalda því á sama tíma.

Heimspekikaffi í Gerðubergi

www.lifsgildin.is

 

Heiðarleiki sem þjóðgildi

Heiðarleiki er eitt af þjóðgildum Íslendinga. Staða heiðarleikans í samfélaginu er stundum óljós. Allir krefjast heiðarleika en færri eru reiðubúnir til að leggja eitthvað á sig til að styðja hann og styrkja. 

Heiðarleiki er eftirsóknarverð dyggð sem þarf að læra og æfa. Samfélag sem vill vera heiðarlegt þarf aga til að standast freistinguna sem skjótfengur gróði felur í sér og hugrekki til að sporna gegn spillingu tíðarandans.

Heiðarlegt samfélag hefur tvær víddir, önnur felur í sér fyrirmyndar samskipti og hin spornar gegn slægð, blekkingu og lýgi. Heiðarlegir borgarar hafa engan áhuga á  líferni sem hægt er að afhjúpa á einu augabragði. Heiðarleikinn veitir þeim frelsi og gleði.

Þjóð verður ekki heiðarleg nema hún búi yfir kröftugum borgurum. Spilling sprettur upp ef almenningur sofnar á verðinum. Dagblað verður ekki gott nema lesendur þess séu kröfuharðir. Hætta er á að það dragi úr heiðarleika stjórnvalda ef fjölmiðlar og almenningur missa áhugann og veita ekki aðhald.

Þjóð sem vill gera heiðarleika að þjóðgildi sínu þarf að leggja ýmislegt á sig. Ekki er nóg að velja gildið. Almenningur þarf að vera heilsteyptur og áhugasamur um vænlegt samfélag og gera kröfur til fulltrúa sinna. Hann má til dæmis alls ekki umbera gort yfir svikum undan skatti eða aðferðum sem felast í því að greiða ekki í sameiginlega sjóði. Gagnrýni og gagnsæi eru nauðsynleg hjá heiðarlegri þjóð. Það er viturlegt að hrífast af þjóð sem rís upp gegn ranglæti og lætur ekki ljúga að sér.

Heiðarleiki er samhljómur milli hugsjóna og aðgerða í opnu og gagnsæju samfélagi og felst í að eiga í samskiptum án þess að bogna eða brjóta á öðrum.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

ÞJÓÐGILDIN 5 ÁRUM EFTIR HRUN

islandHvernig líður þjóðgildunum fimm árum eftir hrun? Hrunið opinberaði ekki aðeins spillingu, ofdramb og skeytingarleysi heldur einnig ófullnægða ósk og þrá sem bjó með þjóðinni. Áfallið sem fylgdi efnhagslegu hruni, falli bankanna og ríkisstjórnarinnar veitti innri rödd þjóðarinnar vægi. Þjóðfundirnir 2009 og 2010 löðuðu fram visku þjóðarinnar.

Tíðarandi græðgi, taumleysi, óbilandi bjartsýni og gildislausar hegðunar hafði ríkt um skeið. Skefjalaus heimskan fékk verðlaun, viðurkenningar og himinhá bankalán. Græðgin, agaleysið, framsæknin og hrokinn áttu greiðan aðgang að völdum, þjóðareignum og bankalánum en forsjálni, heiðarleiki, jöfnuður, umhyggja, ábyrgð og nægjusemi komu að luktum dyrum.

Þetta er ein af meginástæðunum fyrir hruninu og þarna liggur ábyrgð sem of fáir hafa gengist við. Viðhorfið, hegðunin og hugsunin sem fylgja óskum um ríkidæmi og draumsýn um að vera fremst þjóða er einfaldlega ávísun á hrun. Það er óneitanlega fífldirfska að beisla ekki kraftinn, reikna ekki út afleiðingar hegðunar og stemma ekki stigu við hömlulausri bjartsýni. Það er því engin ástæða til að draga úr ábyrgð þeirra sem réðu hvert hin svokallað þjóðarskúta sigldi.

ÁFÖLL SKÝRA MYNDIR

Við áföll kemur í ljós hvað hefur gildi í lífinu og samfélaginu. Sá sem lendir í lífsháska, uppgötvar oftast hvað hefur gildi og hvað ekki. Það sama átti sér stað með þjóðinni og hún sá skýrt hvernig samfélag hún óskaði sér og hrópaði á að gildin gagnsæi, ábyrgð, heiðarleiki, réttlæti, sjálfbærni og lýðræði yrðu efld og ræktuð.

Þjóðfundirnir voru framlag þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar. Gjöf þjóðar til sjálfs sín og ný stjórnarskrá átti að vera veganesti fyrir nýja ráðamenn og þjóð með framtíðarsýn. Flest atkvæði á þjóðfundinum 2009 fengu gildin heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, fjölskyldan, jöfnuður og traust. Einnig voru menntun, bjartsýni, öryggi og mannréttindi ofarlega á baugi. Ástæðan var að sum þeirra höfðu verið alvarlega vanrækt meðal annars heiðarleikinn.

Þjóðgildin voru efld á marga lund á næstu árum, það kostaði baráttu, óhlýðni, byltingar og breytingar auk þess að takast á við andspyrnu græðginnar. Embætti sérstakts saksóknara er til dæmis tilraun til að leita réttlætis og ný náttúruverndarlög og rammaáætlun tilraun til að auka virðingu og efla sjálfbærni svo dæmi séu nefnd.

Samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika, réttlæti og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt lendir ekki í hruni, það tekur ekki áhættu sem er út fyrir öll endimörk alheimsins. Það hefur taumhald á græðginni, hrokanum og setur bjartsýninni mörk. Þjóð sem leggur sig ekki fram um að bæta hag annarra og heldur aðeins eigin hag fyllist hroka sem hrynur yfir hana að lokum.

KÆRLEIKURINN OG HRUNIÐ

thjodgildin_bokskuggiKærleikur var eitt þeirra gilda sem innri rödd þjóðarinnar nefndi eftir hrun en segja má að skeytingarleysi hafi verið ríkjandi í tíðarandanum fyrir hrun og sú færni að hremma bráðina á undan öðrum hafi oftast verið lofuð: að grípa tækifærin á undan varfærnum þjóðum og að kaupa á meðan önnur fyrirtæki eru að kanna hvort það sé góður kostur.

Kærleikurinn til annarra verður að teljast æðsta stig mannlegrar viðleitni: að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og að vera viljug til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra og jafnvel að fórna einhverju af eigin gæðum til af svo megi verða – það er kærleikur. Gildið merkir elsku milli ólíkra hópa, ekki að taka heldur að gefa.

Sjálfselsk þjóð er á byrjunarreit. Engin þjóð er fullgild fyrr en hún finnur sér vettvang til að bæta heiminn. Hún þarf aðeins að velja hann og sinna honum af alúð í áratugi. Ég skrifaði bókina Þjóðgildin (2010) til að skilja innri rödd þjóðarinnar og greindi þá dulda óbeit hennar á því að hrifsa og hremma og vera fremst þjóða – og kom auga á löngun hennar til að vera bara þjóð meðal þjóða og að geta gefið öðrum eitthvað: „ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.“ (Þjóðgildin bls. 164). Getur það verið leiðarljós?

Þetta er sá kærleikur sem þjóðin vildi stefna að eftir hrun, hún nefndi hann skýrt og ritaði. En hvernig gengur? Kærleikurinn og hrunið verða í kastljósinu á heimspekikaffi í menningarmiðstöðunni Gerðubergi 16. október 2013 kl. 20 þar sem Gunnar Hersveinn og Sigríður Guðmarsdóttir rýna í hugtakið og tengja það við samtímann. Næsta grein fjallar um það.

Tenglar:

Heimspekikaffi um kærleikann og hrunið

Bókin Þjóðgildin

 

Hamingja og hófsemd spjalla yfir kaffibolla í Gerðubergi

Er nægjusemin lykill að hamingjunni? er ein af þeim spurningum sem munu svífa yfir bollum í heimspekikaffi með Gunnari Hersveini í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi miðvikudaginn 19. október, kl. 20. Allir eru velkomnir.

HAMINGJA – NÆGJUSEMI
 
Húsfyllir var á fyrsta heimspekikaffinu í Gerðubergi  í september þegar Gunnar Hersveinn stjórnaði lifandi umræðum um náin tengsl hjálpsemi og vináttu. Í næsta heimspekikaffi verður glímt við samband nægjusemi og hamingju ásamt mörgum öðrum skemmtilegum og mikilvægum spurningum. Gestur kvöldsins verður Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur og rithöfundur sem hefur skrifað og flutt erindi um hamingjuna, hún hefur m.a. fjallað um samband hamingjunnar við ást og einmanaleika . (Fréttatilkynning: Menningarmiðstöðin Gerðuberg).

Hamingjan er eitthvað sem allir sækjast leynt eða ljóst eftir. Hún er víðtækt hugtak og krefst mikils, m.a. fjölbreytileika, tíma, tækifæra og jafnvel heppni og langlundargeðs en nægjusemin er nokkuð einföld dyggð sem kallar á sjálfsaga til að neita sér um safaríka hluti. Árangur hófsemdarinnar opinberast yfirleitt ekki fyrr en seint og um síðir (seint koma sumir…) .

Hamingjan er vinsæl en hófsemdin sést aftur á móti ekki á mörgum vinsældarlistum … eða hver velur hana sér við hlið þegar til dæmis hugrekki stendur til boða með glæstum sigrum og lofi? (Margir segja að fylginautar hófsemdarinnar séu leiðindi og tóm leti). Ætli hófsemdin gæti fyllt hús gesta?

Málið verður rætt í Gerðubergi 19. október klukkan 20. Allir velkomnir! Ókeypis aðgangur.

Gunnar Hersveinn hefur skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Þær heita Gæfuspor, Orðspor og ÞjóðgildinAnna Valdimarsdóttir hefur haldið fjölda námskeiða í sjálfsstyrkingu og m.a. skrifað metsölubókina Leggðu rækt við sjálfa þig

í HNOTSKURN:
Nafn: Hamingja – Nægjusemi / Heimspekikaffi.
Staður: Gerðuberg – menningarmiðstöð, Gerðubergi 3-5.
Tími: Miðvikudaginn 19. október 2011, klukkan 20.00.
Umsjón: Gunnar  Hersveinn (lifsgildin@gmail.com).
Gestur: Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur.
Fyrir hverja: Allir velkomnir.
Fyrirkomulag: Innlegg frá höfundum, umræðuverkefni, samtal milli aðila, samantekt.
Tenglar:
Grein eftir Önnu Valdimarsdóttur
Brot úr textum eftir Gunnar Hersvein

Það er ómaksins vert

Það er í sjálfum sér nóg að berjast gegn kúgun, ofbeldi, misrétti og öllu sem vinnur gegn lífi og hamingju. Það er verðugt verkefni og þau sem taka það að sér standa í varnarbaráttu.

Þau standa í markinu til að verja það skotum, þau standa í dyrunum til að verja óvilhöllum inngöngu. Það er sama hvað líkingu við notum, þau standa á varnarlínunni, fyrir innan hana er varnarlaust fólk, saklaust og sært.

Tökum okkur stöðu í markinu, tökum okkur stöðu á miðjunni, tökum okkur stöðu en snúum fram, tökum okkur stöðu og sækjum fram. Hver sókn dregur úr mætti heimskunnar og illskunnar, þær hörfa og hopa á fæti.

Sýnum enga linkind, veitum ekki afslátt, horfum ekki framhjá, í gegnum fingur eða með blinda blettinum. Horfumst í augu við ókindina!

Sá sem vill batna hefur stígið skrefið, það gæti verið kærleikur, það gæti verið ábyrgð, það gæti verið jafnrétti og sjálfbærni, það gæti verið frelsi. Það er sama hvað það er.

En lífið er ekki bara leikur, eins og margoft hefur verið endurtekið áður, við stöndum ekki aðeins vörð á velli andstæðings, heldur stendur til að endurnýja völlinn …

það er ómaksins vert

Hvernig yrði heimurinn án kærleika? Hvernig yrði um að litast? Án frelsis í heimi þar sem enginn bæri ábyrgð? Traust væri óþekkt og enginn gerði ráð fyrir orðheldni eða vináttu?

Heimur þar sem virðingin fyrir lífi og náttúru væri þurrkuð út? Við könnumst við heim án lýðræðis og samfélög án jafnaðar og jafnréttis. En hvernig yrði heimur án heiðarleika og helgi fjölskyldunnar? Heimur án umönnunar og uppeldis?

Heimur án hófsemdar er heimur glundroða. Heimur án gilda er vissulega mögulegur, hann verður til þegar kærleikurinn slokknar í hjartanu.

Verkefni okkar er að glæða gildin lífi. Það er ekki nóg að hugsa um þau og nefna á nafn, heldur þurfa þau að birtast í daglegri breytni …

það er ómaksins vert

Aldrei má nema staðar. Allt þráir að vera fullbúið og fullgert en reynslan kennir að allt fram streymir, allt er til bráðabirgða. Svarið fæst hvorki staðfest eða sannað – en getur þó verið líklegt eða ólíklegt.

Tilgáta heldur áfram að vera tilgáta og viðleitni mannanna snýst um að sanna hana eða afsanna, bæði með rökræðu og reynslu. Alltaf án ofbeldis og iðulega með hug á gjöfinni.

Tilgátan er: ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.

Ef það virðir mörkin og leyfir ekki ofbeldi og kúgun – getur það orðið öðrum góð og traust fyrirmynd. Gjöf gefin af góðsemi hefur gæfu að geyma.

Tilraunin stendur yfir …

hún er ómaksins verð.

Heiðarleiki og hófsemi að leiðarljósi

(Morgunblaðið – Sunnudaginn 25. júlí, 2010 – Menningarblað/Lesbók. Bækur Ásgerður Júlíusdóttir asgerdur@mbl.is)

Gunnar Hersveinn sendir í haust frá sér bók þar sem fjallað verður um þjóðgildin sem valin voru á Þjóðfundinum 2009. 1500 manns tóku þátt í fundinum og fjallar Gunnar um tólf efstu gildin sem valin voru af fundarmönnum. Hann segir það ekki hafa komið sér á óvart að efsta gildið á listanum varð heiðarleiki.
Gunnar Hersveinn er rithöfundur, heimspekingur og ljóðskáld. Hann hefur gefið út fjórar ljóðabækur en auk þess hefur JPV útgáfa gefið út bækurnar Gæfuspor – gildin í lífinu, 2005, og Orðspor – gildin í samfélaginu, 2008. Gunnar hefur starfað við ýmislegt, m.a. verið blaðamaður á Morgunblaðinu, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg og kennari í Listaháskóla Íslands. Hann hefur hlotið viðurkenningar fyrir skrif sín um samfélagsmál, m.a. Ljósberann 2004, Fjölísviðurkenningu Rithöfundasambandsins 2010 og fengið tilnefningu til Blaðamannaverðlauna 2004.

Gunnar er einna þekktastur fyrir að láta sig varða siðferðisleg, uppeldisleg og samfélagsleg málefni og vinnur hann nú að nýrri bók sem Skálholtsútgáfan mun gefa út í haust en bókin fjallar um þjóðgildin sem valin voru á Þjóðfundinum 2009. Þessi gildi voru valin af þeim 1500 manns sem tóku þátt í fundinum en Gunnar hefur ákveðið að fjalla um tólf efstu gildin sem valin voru. Undirritaður blaðamaður hitti Gunnar Hersvein á dögunum í blíðskaparveðri á einum af kaffistöðum borgarinnar til þess að spyrja hann nánar um afrakstur fundarins og tilgang þessa verkefnis. Í alvarlegum tón segir Gunnar að nauðsynlegt hafi verið að halda þennan fund og enn nauðsynlegra að minna á hann með því að hamra á þeim gildum sem valin voru. „Eitt af því sem gert var á fundinum var að velja gildi sem þjóðin á að efla með sér á næstu árum og líka að ákveða hverskonar framtíðarsýn ætti að hafa í hávegum; auðvitað var ýmislegt fleira gert. Ég einbeiti mér að þeim gildum sem valin voru til að hafa að leiðarljósi. Um 1500 manns völdu í sameiningu þessi gildi og í raun vissi enginn fyrirfram hvaða gildi yrðu fyrir valinu en það kom svo sem ekki á óvart að efsta gildið á listanum varð heiðarleiki. Ég vinn út frá tólf efstu gildunum sem auk heiðarleika eru fjölskyldan, réttlæti, jafnrétti, virðing, ábyrgð, sjálfbærni, lýðræði, traust, frelsi, jöfnuður og kærleikur en þetta eru gildi sem þjóðfundurinn taldi brýnast að þjóðin þyrfti að efla með sér.“

Neikvætt verður jákvætt

Gunnar segist ímynda sér að þessi gildi hafi orðið ofan á vegna þess að þau hafi verið vanrækt að einhverju leyti á undanförnum árum. „Það var annar tíðarandi hér áður sem lagði ekki áherslu á þessi gildi sem þjóðfundurinn valdi heldur voru önnur gildi höfð að leiðarljósi. Áður, fyrir bankahrunið var talað um að gildi eins og framsækni væru nauðsynleg og menn ættu að hafa dug og þol til þess að stíga ákveðin skref án þess að hugsa of mikið um afleiðingarnar. Þessu var hampað eins og þetta væri eitthvert Íslendingaeðli að vera fljótari en aðrir og framkvæma áður en var hugsað. Einnig má segja að yfirvöld hafi hvatt ákveðna yfirstéttarhópa til þess að hegða sér á þennan hátt. Það stóð í skýrslum frá forsætisráðuneytinu að menn mættu sýna af sér óútreiknanlega hegðun og jafnvel agaleysi í samskiptum við erlend fyrirtæki þannig að tíðarandinn var allur annar.“
Gunnar segir ennfremur að það sem gerðist fyrir hrun var að gildi sem í venjulegu samhengi eru hlaðin neikvæðri merkingu öðluðust á þessum árum efnahagsbólunnar jákvæða merkingu. „Til dæmis var græðgi, sem er neikvætt hlaðið gildi, talin jákvæð á ákveðnum vettvangi. Einnig var óútreiknanleg hegðun skyndilega orðin jákvæð en aðeins til þess að ná í meiri peninga. Hins vegar átti almenningur að vera hlýðinn en útvalin yfirstétt mátti vera ósvífin í samskiptum við aðra.“
Árið 2007 gerði Capacent-Gallup lífsgildakönnun meðal almennings og þar kom í ljós að fólk kvartaði yfir efnishyggju, skammsýni og spillingu, segir Gunnar. „Fólki líkaði ekki við þetta afl í tíðarandanum. Einnig kom í ljós að almenningur hafði ekki týnt gömlum og góðum gildum og mat ennþá gildi eins og traust, vinsemd og virðingu. Þessi gildi voru samt ekki í deiglunni en eftir hrunið hafa þau verið dregin aftur fram í sviðsljósið.“

Afturhvarf til hinna gömlu gilda

Aðspurður hvort þjóðin muni nýta sér þessi gildi, sem í raun eru aðeins hugtök hlaðin einhverri ákveðinni siðferðislegri merkingu á einhverjum ákveðnum tíma, segir Gunnar að það muni taka langan tíma að efla með sér þessi gildi en slíkt þurfi að æfa. „Það verður ekki létt verk fyrir þjóðina að tileinka sér þessi gildi því það eru ekki til nein forrit sem maður getur bara stungið inn í heilann á sér heldur er þetta mikil vinna sem í raun ætti að koma með uppeldinu. Þetta er eitthvað sem við þurfum að læra en er ekki meðfætt. Foreldrar þurfa að kenna börnum sínum þessi gildi og yfirvöld þurfa að halda þeim að borgurum sínum. Þetta er að vissu leyti nám og því þurfum við að æfa okkur. Tökum til dæmis fyrir hugrekki. Hvernig getum við orðið hugrakkari? Það er hægt að æfa með því að gera eitthvað sem við óttumst og stíga stöðugt skrefinu lengra í óttanum og þar með verðum við hugrakkari. En þetta er nú bara einfalt dæmi um hvernig hægt er að tileinka sér jákvætt gildi.“
Gunnar segir ennfremur að þessi gildi, sem jafnvel megi flokka til ákveðinna mannréttinda, hafi alltaf búið með manninum en það sé mismikil áhersla lögð á þessi gildi á hverjum tíma. „Að efla þessi gildi er eitthvað sígilt og hluti af því að vera manneskja og til þess að samfélagið geti verið í einhverju jafnvægi. Fólk er algjörlega reiðubúið til þess að tileinka sér og efla með sér þessi gildi sem alltaf hafa verið til en er nú verið að knýja á. Tíðarandinn vill verða svona en það er ekki víst að það heppnist, það þarf kannski fleira að spila með, t.d. fyrirtækin og yfirvöld. Því veit svo sem enginn hvernig þetta fer.“

Hófsemin í hávegum höfð

Gunnar hefur, eins og áður kom fram, gefið út tvær aðrar bækur sem fjalla um persónuleg og samfélagsleg gildi sem hver manneskja getur tileinkað sér. Hins vegar segir Gunnar að nýja bókin fjalli meira um opinber, þjóðfélagsleg gildi sem almenningur og yfirvöld ættu að virða. „Þessi bók fjallar um gildi Íslendinga og er í raun ekki beintengd né framhald af hinum bókunum þó þær tengist á vissan hátt. Ég þurfti að finna aðferð til að nálgast þessi gildi á nýjan hátt og bætti því við einu gildi sem ekki er mikið nefnt en er þó alltaf undir niðri. Þetta er gildi sem aldrei er talið beint eftirsóknarvert en er þó alltaf þarna. Það er hófsemin en mætti líka kallast nægjusemi en ég set það gildi sem ákveðna miðju og vinn hin gildin tvö og tvö saman út frá þessari miðju. Ég læt öll gildin krækja einhvernveginn hvert í annað, t.d. ábyrgð og frelsi, virðing og réttlæti, traust og heiðarleiki o.s.frv. og á endanum fer ég hring og skapa þar með ákveðna heildarsýn en undir niðri impra ég á hófseminni.“

Hægt að bæta samfélagið

(Fréttablaðið, 01. júl. 2010 13:44 – thordis@frettabladid.is skrifar)

„Bókin er skrifuð fyrir almenning á mannamáli um þau tólf gildi sem 1.500 manns á þjóðfundinum 2009 völdu til að efla með sjálfum sér eða til að breyta samfélaginu til betri vegar,“ segir Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, sem situr nú við skriftir á bók sem Skálholtsútgáfan gefur út í haust um gildin tólf.

„Ég upplifði stemninguna sem á þjóðfundinum ríkti og það var ný reynsla og spennandi að leitað væri að visku fjöldans. Því er óvenjulegt að skrifa bók sem búið er að velja efnið í, en mitt hlutverk er að finna nýja nálgun á þessi gildi og tengja inn í framtíðina til endurreisnar samfélagsins,“ segir Gunnar Hersveinn og bætir við að bókin muni nýtast bæði einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum.

„Ég veit að fyrirtæki og stofnanir fóru af stað eftir þjóðfundinn og vildu innleiða gildin í starf sitt og því verður þetta handbók til þess líka, en samt sem áður opin því ekkert er nokkurn tímann endanlegt og eilífðarverkefni að vinna með þessi gildi. Því eiga lesendur að skapa um þau umræðu og bæta einhverju við,“ segir Gunnar Hersveinn.

Gildin sem nutu mest fylgis á þjóðfundinum voru heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni og lýðræði. Einnig fjölskyldan, jöfnuður og traust.

„Þessi gildi töldu þjóðfundarfulltrúar að hefði skort hingað til og heiðarleiki valinn mikilvægastur. Svona hópur af gildum er svo alltaf valinn tímabundið; eitthvað sem samfélagið þarfnast næstu árin, og mitt markmið að finna eitthvað nýtt í kringum þau í staðinn fyrir að telja upp það sem áður hefur verið sagt,“ segir Gunnar Hersveinn sem hefur langa reynslu af skrifum bóka um gildi og hefur áður skrifað bækurnar Gæfuspor – gildin í lífinu og Orðspor – gildin í samfélaginu.

„Samt er vandasamt að skrifa bók sem á líka að heppnast, en ég tel mig hafa ágætan grunn og hef reynt að æfa mig í að skrifa á skiljanlegu máli. Ég nota ákveðna aðferð til að nálgast þetta, tengi hugtökin saman og reyni að finna mælikvarða og hindranir svo að gildin virki sem best.“

Hann segir ekki hafa komið á óvart að heiðarleiki hafi lent efstur á blaði.

„Ég hef skoðað vel hvaða gildi hafa verið vinsælust í gegnum tíðina og þar hefur heiðarleiki alltaf verið verið mjög ofarlega á baugi. En við segjum oft heiðarleiki þótt við kunnum hvorki né vitum hvernig við eigum að innleiða hann, rækta með okkur eða efla hann. Bókin er því ætluð til hjálpar þeim sem vilja stíga skrefið lengra. Þá mun ég einnig fjalla um önnur gildi sem mér finnst vanta, eins og nægjusemi, því gildi þjóðfundarins voru algjör grunnhugtök þótt ánægjulegt hafi verið að sjá sjálfbærni og jafnrétti þeirra á meðal,“ segir Gunnar Hersveinn, sannfærður um að saman getum við gert Ísland að betri stað til að lifa á.

„Það er vel hægt að bæta samfélagið og markmið með bókinni er að vera verkfæri þeirra sem hafa áhuga á einmitt því. Fyrir aðeins fimm árum þótti hallærislegt að vilja gera eitthvað til að bæta samfélagið en ég vona að sá tími sé liðinn. Þá snerist allt um að bæta sjálfan sig og ná árangri í lífinu fyrir sig, en kenningin í bókinni segir að enginn verði fullþroska maður fyrr en hann stígur út úr innsta hring og vill gera eitthvað fyrir aðra.“