Flokkaskipt greinasafn: Umhverfismál

VÆNTUMÞYKJA GAGNVART NÁTTÚRUNNI

12_vef_feb_heimspeki_visitGildin í lífinu eru dyggðir, tilfinningar og viðhorf sem við lærum og æfum til að verða betra fólk. Gildin í samfélaginu eflum við og styrkjum til að gera samfélagið betra. Við reynum á sama tíma að kveða niður brestina, heimskuna, grimmdina og eyðileggingarmáttinn sem knýr á.

Gildin í náttúrunni felast í því að bæta samband mannverunnar við náttúruna, efla með okkur virðingu og ábyrgðarkennd gagnvart henni.

Segja má að samband mannveru við náttúruna sé í uppnámi um þessar mundir og verkefnið framundan felist í því að finna jafnvægi og farsæla braut. En hvernig má vinna að því?

Siðfræði náttúrunnar fjallar ekki aðeins skilgreinda mælikvarða um rétt og rangt, góða og ranga hegðun gagnvart náttúrunni heldur einnig um að rækta væntumþykju, virðingu og vinsemd: að finna gleði þegar sambandið styrkist, að bera virðingu fyrir heilbrigðri náttúru og að verða dapur sambandinu er raskað.

Mannveran er hluti af náttúrunni og ætti því að geta ræktað væntumþykju gagnvart henni, og ef það tekst, vex virðingin gagnvart auðlindum hennar og viljinn til að öðlast þekkingu á henni og umgangast af varkárni. En ef hlýjan hverfur, þá hverfur blíðan líka.

Það gæti verið ósnert víðerni, það gætu verið heimkynni dýra, það gæti verið heilt vistkerfi, það gæti verið gróðurlendi, fossaröð, fornt stöðuvatn, tiltekið landslag og það gæti verið háhitasvæði í hættu gagnvart mannlegu kuldakasti.

Mannskepnan gortar oft af því að vera eina siðræna veran á jörðinni, en það er ofsögum sagt , því hjá ýmsum dýrahópum má greina siðrænt atferli eins og umhyggju, samkennd, virðingu, ábyrgð, sorg, hópkennd, hjálpsemi og einnig fórnfýsi. Íslendingar ráðstafa ekki landsvæðum undir orkunýtingu einungis af siðrænum ástæðum eða vegna ábyrgðarkenndar, heldur af hagrænum ástæðum og vegna búsetuskilyrða.

Voðinn er vís ef strengurinn milli manns og náttúru slitnar og sambandið verður firringu að bráð, ef mannveran setur sig á háan hest og geymir sér yfir náttúru á korti á teikniborði.

 

NÁTTÚRAN Á TEIKNIBORÐINU

Áhuginn og krafturinn fer oft allur í það að bæta efnahaginn líkt og ekkert annað vegi þyngra í þessum heimi. Okkur hættir stórlega til að ofmeta hagkerfið og vanmeta vistkerfið. Við gerum ráð fyrir hagvexti án endimarka og sköpum okkur líferni án samhengis við náttúruna, líkt og hún sé til ekki hluti af okkur. Við fórnum vistkerfi fyrir hagkerfi víða um Jörð, vegna þess að það virðist henta okkur um hríð.

Náttúrusvæði á fullnýttu Íslandi flakka nú á milli orkunýtingarflokks, biðflokks og verndarflokks. Við flokkum, leikum okkur og náðum svæði eða nýtum, án virðingar og vinsemdar. Við segjum:
„Við náðum þig Neðri-Þjórsá!“ „Við náðum þig Dettifoss – í bili! Þú átt það ekki skilið en það hentar okkur núna, þú varst á dauðalistanum en við náðuðum þig “ „Við ónáðum þig Urriðafoss og við tökum þig af lífslistanum Dynkur – þú verður ekki lengur til – nema undir okkar stjórn.“

Þessar setningar hljóma undarlega en staðan er jafnvel verri. Tæplega níutíu svæði á Íslandi eru kölluð virkjanakostir sem mögulega verður þá raskað og nýttir til orkuframleiðslu. Náttúran liggur berskjölduð á teikniborðinu og henni á að raska til og frá – eða ekki, svæði sem voru í verndunarflokki flytjast óvænt í nýtingarflokk og jafnvel svæði í þjóðgörðum – allt eftir duttlungum og hagsmunasamningum.

Nýlega dró Orkustofnun til baka þrjá virkjanakosti af 50 sem búið var að senda til verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar. Ástæðan var sú að stofnunin notaði ekki nýjustu kort af Vatnajökulsþjóðgarði við vinnslu á virkjunarkostunum. Þessi vandræðalegi gjörningur vakti grun um sambandsrof mannsskepnunnar við náttúrusvæðin.

 

SKEYTINGARLEYSIÐ ER ÓVINURINN

Skeytingarleysi mannsins er versti óvinur náttúrunnar, umhyggjuleysi, andvaraleysi og kæruleysi. Að vera sama um víðernin, að vera sama um miðhálendi Íslands og að líta aðeins á það með virkjun í huga er landinu okkar stórhættulegt. Að láta land sem er mótað af eldvirkni og jöklum, samspili elds og íss í árþúsundir, vera háð tímabundnum hagsmunum virkjanasinna, er ekki vitnisburður um virðingu. Það er vítavert ástleysi.

„Hálendi Íslands, hjarta landsins, er eitt stærsta landsvæði í Evrópu, sunnan heimskautsbaugs, sem hefur aldrei verið numið af mönnum. Sérstaða svæðisins felst í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss, óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.“ (Landvernd).

Ákvörðun um að hrinda virkjanakosti í framkvæmd styðst ekki einungis við rök um aukin atvinnutækifæri, tekjur, búsetuskilyrði og viðskipti. Ákvörðun um virkjanakost þarf fyrst og fremst að setja í samhengi við náttúruna, landslagsheildir, lífríki og vistkerfi sem varasamt er að raska. Hvað merkir þessi „kostur“ í stóra samhenginu?

Enn eru sterkar líkur eru á því að alvarleg óafturkræf slys verði gerð í gegndarlausri ásókn í óviðjafnanleg verðmæti sem íslensk náttúru geymir. Af þeim sökum þarf nauðsynlega að efla og rækta gildin í náttúrunni með mannfólkinu. „Efla tengsl fólks við landið, þekkingu og samvinnu landsmanna með auknum almannarétti,“ eins og Guðmundur Páll Ólafsson orðaði það, „að varðveita fegurð fjölbreytileikans í náttúru landsins og vatnafari Íslands.“ (Vatnið í náttúru Íslands).

Gerum ávallt ráð fyrir harðri baráttu gegn ásókn í náttúruauðlindir.

 

SAMBANDIÐ EKKI AÐEINS VITRÆNT

Og sambandið við náttúruna er dýpra. Við glímum við rök og sjónarhorn til að skilgreina mörk og til að kanna möguleika en væntumþykja gagnvart landinu felur einnig í sér víðtækara samband, til dæmis þegar taugakerfið og hugurinn nemur fegurðina, þegar einstaklingur stendur agndofa og orðlaus gagnvart óvæntri hrikafegurð. Sambandið við náttúruna er því ekki einungis vitrænt, hagrænt, siðrænt, það er einnig af öðrum toga.

Siðfræði náttúrunnar snýst ekki einungis um rannsókn á boðum og bönnum, dyggðum og löstum og verðmætum heldur einnig fegurð og væntumþykju. Sambandið við náttúruna er oftast smækkað niður í eitthvað skiljanlegt en sambandið er alls ekki alltaf hversdagslegt heldur byggist það einnig á upphafningu andans. Við hrífumst og andinn lyftist upp og dýpri merking tilverunnar opinberast. Þessar stundir veita fólki kraft til að lifa af meiri ákafa og fyllast þakklæti. En þetta undur gerist sennilega æ sjaldnar því maðurinn hefur aldrei fyrr verið svo fjarlægur heimkynnum sínum, náttúrunni.

Verkefnið framundan er margþætt en meðal annars er brýnt að rækta væntumþykju gagnvart náttúrunni. Frekari pælingar um þessa væntumþykju verða á næsta heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 18. febrúar en þá mun Gunnar Hersveinn rithöfundur tengja saman nokkur lykilhugtök milli manns og náttúru og Ásta Arnardóttir leiðsögukona og yogakennari segja frá gönguferðum þar sem fléttað er saman yoga og göngu um hálendisvíðernin ásamt fræðslu um yogavísindin og hvernig þau endurspegla dýpri lögmál náttúrunnar.

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

Tenglar

Náttúrukortið – Framtíðarlandið

Landvernd – hjarta landsins

Orkustofnun – frétt

Heimspekikaffi – gildin í lífinu og yoga í fjallasal

Meira um siðfræði náttúrunnar

Deila

Náttúrugildi, tækni og hraði

islandGildin í náttúrunni voru í brennidepli í sólstöðugöngu í Viðey 21. Júní 2014. Gunnar Hersveinn hélt tölu undir berum himni og tengdi saman nokkur lykilhugtök milli manns og náttúru sem ef til vill er gott að hafa í huga í sumar.

1. NÁTTÚRUVERNDARI

Það er skylda náttúruverndara að veita aðhald, upplýsa og skapa umræðu gagnvart verkefnum sem skaða meira en þau bæta. Það er ekki aðeins lofsverð hegðun að gera það heldur skylda sem krefst oft hugrekkis og hugkvæmni. Verkefnið er það viðamikið um þessar mundir að það krefst verkaskiptingar, sumir upplýsa, aðrir skapa umræðu og þriðji hópurinn stundar aðhald með mótmælum.

Náttúruverndarar myndu ekki áorka miklu án mótmæla. Hlutverk þeirra er m.a. að standa vörð um villta náttúru. Maðurinn hefur raskað svo yfirþyrmandi mörgu í náttúrunni að það sætir furðu að hann skuli enn sífellt finna nýja staði til að manngera. Jafnvel ósnortin strandlengja, fjörður án þverunar, eyja og vegalaust hraun er á teikniborðinu líkt og hið náttúrugerða sé ekki nógu mikils virði.

Hlutverk náttúruverndara er einnig að kenna og efla virðingu gagnvart landslagi, stöðum, heimkynnum annarra og gagnvart náttúrunni allri, jafnt smáu sem stóru og út frá mörgum sjónarhornum. En dyggð er siðferðilegur eiginleiki sem hægt er að æfa með bóklegum og verklegum lærdómi.

2. FRIÐSEMD

Starf friðsemdar í náttúru Íslands snýst oft um að bjarga verðmætum undan eyðileggingarmætti græðgi og heimsku. Hún þarf sífellt að forða gersemum undan, hindra, stöðva, afla fylgis, afhjúpa og opna augu annarra. Tími og orka friðsemdar fer í björgunarstarf en miklu meira býr í henni – aðeins ef fólk gæfi henni tækifæri til að blómstra.

Friðsemdin beitir ekki aðferðum ofbeldis og eyðileggingar. Hún græðir og byggir upp. Hún getur verið kröftug sem dínamít en hún kúgar aldrei. Hún getur verið beittur penni og orðhvöss tunga en þrátt fyrir það eru sérkenni hennar vinsemd og sátt. Hún nemur ekki staðar, hún heldur áfram og einkenni hennar eru víðsýni og innsýn í betri framtíð.

Hún getur staðið fyrir kröftugum mótmælum og einnig byltingum. Hún getur bundið sig með keðjum á stórvaxnar vinnuvélar eyðileggingarinnar. Hún er fangelsuð víða um heim af hræddum kúgurum í nafni lyginnar. Hún hrópar og hún skammar – en hún er ekki flagð undir fölsku skinni eins og mótherji hennar.

Friðsemd er höfuðdyggð náttúruverndara. Framtíðarvelferð lands og þjóðar, vitundin um velferð næstu kynslóðar, vistkerfis og lífríkis knýr hana áfram. Þaðan fær hún orkuna. Hún skapar ekki óvild og vekur ekki upp hatur heldur hvetur til umræðu á jafnræðisgrunni.

Friðsemdin er engin lydda, hún er óstýrilát gagnvart kúgandi valdi. Hún er sjaldan í fréttum því aðferð hennar felur ekki í sér ógn eða sigur, ekki kænsku eða dauða. Samt er hún bylting.

Við erum ekki aðeins, íbúar í borg, bæjum og sveitarfélögum. Við erum einnig staðurinn, landslagið, umhverfið og náttúran öll.

3. BIÐLUND

Við stöndum í biðröð eftir einhverju eða bíðum í röð á símalínu. Við bíðum eftir tíma, bíðum eftir að fá aðgang eða inngöngu eða að sleppa aftur út. Við röðum okkur upp – eða ekki. Hvern einasta dag bíðum við eftir einhverju og sennilega bíða einhverjir eftir okkur.

Bið getur falið í sér eftirvæntingu, kvíða, streitu, gleði eða ugg. Hún er alls ekki tóm eða tilgangslaus, hún er full af lífi. Bið þarfnast þolinmæði og þrautsegju. Hún kallar á þolgæði gagnvart hindrunum, áskorunum, töfum og framvindu. Biðlund þarf til að meta aðstæður, tíma og viðbrögð. Bið er rúm til að íhuga og endurmeta – áður en það verður of seint.

Við bíðum oft eftir að eitthvað renni upp eða líði hjá í náttúrunni. Við bíðum eftir sólarupprás eða sólarlagi, eitthvað byrji, endi eða fari í hring. Vind lægi eða að það gefi byr í seglin. Það rigni eða stytti upp. Bið er lífsháttur en sá sem þurrkar út biðina í lífinu sínu er sagður lifa í núinu.

Náttúran bíður ekki, það er flóð eða fjara, hún líður, rís og hnígur, ólgar og róast. Hún býr yfir auðlindum sem gera svæði lífvænleg og vistvæn fyrir mannfólk og aðrar lífverur – eða ekki, jörðin er frjósöm eða hrjóstug.

Mannstæknin snýst oft um að stytta eða þurrka út bið og að fullnægja óskum fólks umsvifalaust: núna! Bið virðist óbærileg á Vesturlöndum þar sem flestallt snýst um hraða samhliða hinni gegndarlausu framþróun.

Það er hlutverk þeirra sem fylgja sjálfbærni og vinna gegn skammsýni: að verja náttúruna. Þeirri vörn lýkur aldrei. Biðlund er vissulega dyggð en bíðum ekki boðanna. Bið er betri en bráðræði.

4. TÆKNI

Tækniborgarsamfélag gaf borgarbúum tækifæri til að að yfirgefa náttúruna og stíga endanlega inn í heim tækninnar. Börn náttúrunnar urðu jafnskjótt jaðarhópur og homo technologicus varð nýtt viðmið á rétt og rangt, gott og vont. Farsældin varð tæknivædd og hið tignarlega varð manngerð náttúra líkt og fossinn Hverfandi í Kárahnjúkastíflu.

Tækniborgarbúinn glataði fljótlega sambandinu við náttúruna. Raflýsing þurrkaði út greinarmun dags og nætur. Störfin urðu óháð árstíðunum. Athafnir, viðburðir og verkefni urðu óháð árstíðum og manninum í sjálfsvald sett hvernig þeim er raðað niður á dagatalið. Veðrið hefur heldur ekki mikil áhrif því ferðir milli húsa eru í raun óþarfar.

Tæknimaðurinn sigraði náttúruna og á tæknilausnir við flestöllum hennar lögmálum. Hún getur ekki komið manninum lengur á óvart og því virðast flestallar aðstæður viðráðanlegar og leita má tæknilegra lausna á hverju því sem truflar eða vekur ugg þótt eina ráðið gegn gróðurhúsaáhrifum sé að temja sér nægjusemi.

Dyggðir sem glatast í vestrænum tæknisamfélagum eru t.a.m. þolinmæði, biðlund, nægjusemi og virðing fyrir náttúrunni. Markaðurinn í tæknisamfélaginu býður upp á skeytingarlausa sölumennsku sem snýst um að fá allt strax og selja það síðan.

Tæknimaðurinn geysist áfram á leifturhraða þótt jaðarhópar reyni að spyrna við fótum með hæglæti. En hvað með náttúruvernd í ljósi hraða- og tæknisamfélagsins? Svara þyrfti nánast öllum sviðum mannlífsins og borgarlífsins með hæglæti

Náttúruvernd snýst ekki aðeins og einungis um að bjarga óviðjafnanlegum svæðum frá eilífri glötun í gin tækninnar heldur einnig um að varðveita nauðsynlegt samband mannsins við náttúruna sjálfa.

Tæknin og hraðinn hafa fært okkur margt en því miður færa þau okkur jafnframt fjær náttúrunni. Það sem okkur skortir er hæglæti.

5. KÆRLEIKUR

Kærleikur er meira en dyggð, meira en tilfinning og meira en viðhorf. Hann birtist þegar væntumþykjan breiðist út fyrir innsta hring, líkt og vinarhönd sem teygir sig til ókunnugra. Kærleikurinn hefur biðlund, hann hugsar sig lengi um en raskar ekki jafnvæginu í náttúrunni.

Tákn hans er fugl sem veitir ungum skjól undir vængjum sínum. Kærleikurinn verpir ekki öllum (fjör)eggjum sínum í stakt hreiður og teflir hvorki auði sínum né annarra í tvísýnu vegna þrjósku eða augnabliksþarfar. Andstæða kærleikans er tómleiki, tómt hreiður.

Viskan er lík kærleikanum, hún er strengur á milli kynslóða og ráðlegging um umgengni við náttúruna. Hún mælir með varkárni og virðingu mannsins gagnvart náttúruöflunum. Tákn viskunnar er vatnið, það er safn upplýsinga um lífið. Andstæða viskunnar er tómið, uppþornað stöðuvatn.

Íslensk náttúra þarf líkt og öll náttúra á hnettinum á kærleika og visku að halda því þetta par er ekki múrað innan landamæra og girðinga stað- og tímabundinna hagsmuna. Þau eru lík fiskum sem þrífast best í heilbrigðu hafi og vatni og fuglum sem þurfa á heilnæmu lofti að halda, hvort sem það er í vestri, suðri, austri eða norðri.

Allt tengist saman í einni jörð undir einum himni, einni tímarás, einu lífi. Stund tómlætis er liðin, tími væntumþykju og þolgæði hafinn.

6. VIRÐING

Heillavænlegt mannlíf skapast þar sem sambandið við umhverfið hvílir á virðingu. Það getur falist í aðdáun, það getur einnig falist í óttablandinni virðingu. Það hvílir á varfærni þar sem tíminn er ekki iðulega að renna úr greipum. Það hvílir á von um traust samband.

Viðhorf til íslenskrar náttúru er breytilegt eftir öldum og tíðaranda. Samband manns og umhverfis hefur ekki verið stöðugt. Á 21. öldinni felst verkefnið í því að koma á jafnvægi í samband manns og umhverfis. Það er bráðnauðsynlegt verkefni að bjarga sambandinu, koma í veg fyrir (að)skilnað.

Viðhorf til umhverfis getur verð á marga lund: vistvænt, lífrænt … jafnvel hvatrænt og vitrænt. Ef sambandið er ofið virðingu þrífast mörg viðhorf, því virðing felur í sér væntumþykju í stað firringar: áhuga- og skeytingarleysis.

Virðing felst í því að nema verðmæti frá mörgum sjónarhornum, jafnt manna, dýra og náttúruminja. Skynja fyrirbærin í sjálfu sér og í samhengi við aðra og annað. Virðing felst í því að hlusta, skoða, greina, og meta með framtíðina í huga, ekki aðeins næstu þrjú ár, heldur þrjátíu og ekki aðeins þrjátíu heldur þrjú hundruð.

Næsta samband manns og náttúru, það samband sem verður ríkjandi í heiminum, þarf nauðsynlega að hvíla á virðingu. Sú virðing getur orðið gagnkvæm því lífveran sem nefndist Homo sapiens er sprottin af móður jörð þótt henni líði líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

 

Náttúrugildin virðing, biðlund, kærleikur, náttúruvernd og friðsemd þurfa að vera kröftug í tækni- og hraðasamfélaginu, þau þarf að læra og æfa.

Sólstöðugangan er meðmælaganga með lífinu og er m.a. skipulögð af Þór Jakobssyni og Viðey – Reykjavíkurborg.

Gunnar Hersveinn

 

 

HERNAÐURINN GEGN HÁLENDINU

framtidarlandspistlar_GHHernaðurinn gegn hálendinu vekur skylduna til að mótmæla eyðileggingu, skylduna til að standa vörð um verðmætin og skylduna til að setja málið í rétt samhengi, upplýsa og afhjúpa. Sóun er röng og það er skylda þess sem veit, að upplýsa um vá, vara við hættulegri hegðun og grípa til varna.

I. SKYLDAN KNÝR Á

Skyldur eru af ýmsum toga. Það er skylda að starfrækja skóla og það er skylda að ganga í skóla og mennta sig. Það er skylda að greiða skattinn og borga launfólki. Það er skylda að koma náunga sínum í nauð til hjálpar og það eru skyldur í fjölskyldum. Skyldur eru lagalegar og/eða siðferðilegar.

Hver manneskja ber margvíslegar skyldur sem knýja á með ólíkum hætti. Skyldan getur verið sett af ríkisvaldinu, hún getur sprottið af hlutverki og stöðu einstaklings en einnig af hugsjón og skilningi á samhengi hlutanna. Ef heimskan ræður för felst rík skylda í að gera tilraun til að kveða hana niður og upplýsa um hættuleg áform og hegðun.

Skyldan getur verið gagnvart náttúru lands, hún getur beinst að hálendi Íslands. Ef ómetanleg verðmæti eru um það bil að verða græðgi og heimsku að bráð þá felst skyldan í því að verja þau – til dæmis með kröftugum mótmælum og upplýsingum.

Allir bera margar skyldur en enginn getur rækt þær allar vel. Hver borgari þarf því að velja sér siðferðilegar skyldur til að sinna af alúð, þær gætu til dæmis fallið undir umhverfis-, uppeldis-, jafnréttis- eða heilbrigðismál og hvers konar baráttu gegn misrétti og ofbeldi.

Skyldur kveða ekki aðeins á um aðgerðir heldur einnig að gera ekki eitthvað, særa ekki aðra, misbjóða ekki öðrum, beita ekki ofbeldi, ekki að eyða eða deyða. Hún gæti einnig falist í því að standa vörð um eitthvað, vernda og hlúa að og hún gæti snúist um að gera eitthvað afgerandi, breyta einhverju. Skyldan getur jafnvel togast á við aðra lagalega skyldu og borgarinn talið rétt að stíga á og jafnvel yfir strik réttvísinnar.

II. NÁTTÚRUVERNDARINN

Mótmæli eru ekki alltaf val, það er vissulega mannkostur að hafa dug í sér til að andmæla ofríki, en andspyrnan getur líka orðið skylda. Sá sem hefur valið sér málaflokk og vill vera náttúruverndari tekur sér um leið þá skyldu á herðar að mótmæla, standa vörð um tiltekin verðmæti, hlúa að eða rétta hlut með aðgerðum.

Aðstæður, staða og hefðir ráða því oft hvort sú skylda telst lagaleg eða siðferðileg en segja má að það sé borgaraleg skylda að mótmæla heimsku, kúgun, valdhroka og hvers konar aðgerðum sem valda skaða land og þjóð. Það er skylda gagnvart fortíð og nútíð og gagnvart næstu kynslóð.

Það er bæði siðferðileg og lagaleg skylda að hjálpa náunganum í nauð, en það er jafnframt skylda að vernda náttúruna fyrir eyðileggingu og koma í veg fyrir sóun á auðlindum. Sóun er ávallt röng. Fullgildur borgari mótmælir, hann situr ekki bara hjá og er skeytingarlaus, heldur ber honum skylda að taka þátt og forða því að næsta kynslóð þurfi að súpa seyðið af eyðileggingunni.

Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur leit á það sem skyldu sína að mótmæla að Fögruhverum yrði sökkt í þágu virkjunarframkvæmda. Hann mótmælti og hann vakti athygli á eyðileggingunni með því að fremja gjörning á staðnum. Breytni eftir hann hefur æ síðan verið í hávegum höfð af náttúruverndurum. Hann mótmælti, upplýsti og framkvæmdi.

Það er skylda náttúruverndara að veita aðhald, upplýsa og skapa umræðu gagnvart verkefnum sem skaða meira en þau bæta. Það er ekki aðeins lofsverð hegðun að gera það heldur skylda sem krefst oft hugrekkis og hugkvæmni. Verkefnið er það viðamikið um þessar mundir að það krefst verkaskiptingar, sumir upplýsa, aðrir skapa umræðu og þriðji hópurinn stundar aðhald með mótmælum.

III. RANGT OG RÉTT

Særum ekki, eyðum ekki, gerum ekki það sem er rangt, treystum ekki þeim sem eyða ómetanlegum verðmætum í nafni framþróunar eða ofmati á eigin mætti. Eyðilegging á hálendi Íslands á ekki að vera ákvörðunarefni einnar kynslóðar eða ríkisstjórnar. Staða hálendis Íslands er tvísýn og uggvænleg um þessar mundir. Það er því ekki lengur val heldur skylda allra núlifandi náttúruverndara að standa vörð um hálendið. Þekkingin er fyrir hendi og frekari eyðilegging og sóun er röng.

Greinarmunurinn milli þess hvað er rangt og hvað er rétt gagnvart hálendi Íslands verður æ skýrari með tímanum því víðernin þar hafa dregist saman um tæplega 70% frá árinu 1936. Hálendið þarf ekki lengur að njóta vafans því vafinn er ekki lengur fyrir hendi heldur aðeins blákaldar staðreyndir. Sá sem leggur við hlustir heyrir hjarta landsins slá og um leið vaknar skyldan.

Hernaðurinn gegn hálendinu vekur skylduna til að mótmæla eyðileggingu, skylduna til að standa vörð um verðmætin og skylduna til að setja málið í rétt samhengi, upplýsa og afhjúpa. Núna er það siðferðileg skylda sem knýr á og ef við hlýðum henni ekki munu leifarnar af hálendi Íslands aðeins birtast sem sýnishorn úr horfnum heimi.

IV. DÆMI TIL SKÝRINGAR

Reykjavík er vatnsrík borg og yfirleitt er horft framhjá sóun á neysluvatni. Ef neysluvatn dygði aftur á móti tæplega í sólarhring yrðu til siðareglur sem myndu kveða á um ábyrga notkun og virðingu gagnvart ferskvatni svo allir fengju að njóta. Ef neysluvatnið dygði ekki til að svala öllum alla daga þá yrðu sett ströng lög með reglugerðum og refsingum til að sporna gegn misnotkun. Skömmtun á vatni handa hverjum og einum yrði siðferðilega rétt og lagaleg skylda en öll sóun á þessari dýrmætu auðlind yrði röng.

Eins er með hálendi Íslands. Áform um að skerða það enn frekar með virkjunum og lónum og skera það í sundur með línumöstrum eru hrópandi röng en áform um að vernda það eru óhjákvæmilega rétt. Ný skýrsla Orkustofnunar um virkjanakosti er þáttur í hernaði gegn hálendi Íslands og áform um malbikaða hálendisvegi með raflýsingu og háspennulínur Landsnets yfir Sprengisand og annað ómetanlegt land eru alröng.

V. NIÐURSTAÐAN

Tíminn er liðinn. Hlífum hálendinu við frekari röskun, verndum miðhálendið með lögum um þjóðgarð, eflum ábyrgð og virðingu fyrir þessu undri veraldar. Náttúruverndarar sem vilja leggja hálendinu lið geta skráð sig á vefnum www.hjartalandsins.is hjá Landvernd og skoðað náttúrkortið á vef Framtíðarlandsins

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

Tenglar:
http://hjartalandsins.is/

Náttúrukortið

 

 

KRÝSUVÍK Í SÓUNARFLOKKI

ReykjaNVið stöndum í biðröð eftir einhverju eða bíðum í röð á símalínu: þú ert fjórtandi í röðinni! Við bíðum eftir tíma, bíðum eftir að fá aðgang eða inngöngu eða að sleppa aftur út. Við röðum okkur upp – eða ekki. Hvern einasta dag bíðum við eftir einhverju og sennilega bíða einhverjir eftir okkur.

Bið getur falið í sér eftirvæntingu, kvíða, streitu, gleði eða ugg. Hún er alls ekki tóm eða tilgangslaus, hún er full af lífi. Bið þarfnast þolinmæði og þrautsegju.  Hún kallar á þolgæði gagnvart hindrunum, áskorunum, töfum og framvindu. Biðlund þarf til að meta aðstæður, tíma og viðbrögð. Bið er rúm til að íhuga og endurmeta – áður en það verður of seint.

Við bíðum oft eftir að eitthvað renni upp eða líði hjá í náttúrunni. Við bíðum eftir sólarupprás eða sólarlagi, eitthvað byrji, endi eða snúist í eilífðri hringrás tímans. Vind lægi eða að það gefi byr í seglin. Það rigni eða stytti upp. Bið er lífsháttur en sá sem þurrkar út biðina í lífinu er sagður lifa í núinu.

Náttúran bíður ekki, það er flóð eða fjara, hún líður, rís og hnígur, ólgar og róast. Hún býr yfir auðlindum sem gera svæði lífvænleg og vistvæn fyrir mannfólk og aðrar lífverur – eða ekki, jörðin er frjósöm eð hrjóstug. Við fáum hugmynd um virkjun, nýtum náttúrusvæði og verndum eða setjum þau í biðflokk:

 „Í biðflokk falla virkjunarhugmyndir sem talið væri að þurfi frekari skoðunar með betri upplýsingum svo meta megi hvort þær ættu að raðast í nýtingarflokk eða verndarflokk.“ (Rammaáætlun, 2. áfangi).

Mannstæknin snýst oft um að stytta eða þurrka út bið og að fullnægja óskum fólks umsvifalaust: núna! Bið virðist óbærileg á Vesturlöndum þar sem flestallt snýst um hraða samhliða hinni gegndarlausu framþróun. Virkjunarhugmyndum er raðað í flokka nýtingar og verndar. Nýting er sögð framþróun. Biðflokkur er á milli … tannanna á fólki, milli ríkisstjórna, milli okkar.

KRÝSUVÍK BÍÐUR EKKI

Krýsuvík* er náttúrusvæði á milli vonar og ótta, náttúra á fjármálamarkaði, náttúra milli nýtingar og verndar. Svæðið stendur eða fellur, eyðist eða dafnar – ekki aðeins af eigin mætti heldur duttlungum íbúanna sem láta sér ekki nægja að þiggja húshita. Náttúruperla á biðlista er ekki góð staða – en staða Krýsuvíkursvæðisins er enn verri því það er bæði í bið- og nýtingarflokki.

Háhitasvæðin á Reykjanesskaganum eru ekki aðeins náttúruundur heldur veigamikil forsenda lífsgæða komandi kynslóða frá Hengli til Reykjanestáar. Hvernig má vera að forsendan, jarðvegurinn, jarðhitinn sé settur á bið- og nýtingarlista stóriðju? Hvernig geta örfáir af einni kynslóð dirfst að eyða auðlind, tekið feikilega áhættu og skapað með því hundrað ára einsemd fyrir aðra? Virkjunarhugmyndirnar í Krýsuvík eru alls ekki sjálfbærar og útlit er fyrir að orkan úr svæðunum klárist á fáeinum áratugum. Það er sóun á auðlind – ekki nýting.

Bíðum ekki eftir röngum ákvörðunum. Austurengjar og Trölladyngja – það er ekki eftir neinu að bíða: föllum frá öllum áformum um virkjun. Sveifluhás og Sandfell – biðin ætti að vera á enda. Þessar virkjunarhugmyndir ættu að falla í flokk sem ekki er nefndur: Sóunarflokkur.

Það er hlutverk þeirra sem fylgja sjálfbærni og vinna gegn skammsýni: að verja Krýsuvík. Sú vörn er hafin. Við höfum íhugað  virkjanahugmyndirnógu lengi á Krýsuvíkursvæðinu. Biðlund er vissulega dyggð en biðin er á enda.

Bíðum ekki boðanna, álver geta beðið! Slík bið er betri en bráðræði.

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is 

*„Krýsuvíkursvæðið nær yfir nokkur minni jarðhitasvæði sem tengjast eldstöðvakerfi sem venjulega er kennt við Krýsuvík. Meginsvæðin eru Sveifluháls, Austurengjar, Trölladyngja og Sandfell. Jarðhita er jafnframt að finna við Syðri Stapa í Kleifarvatni, við Köldunámur og við Hverinn eina.“

Suðurneshttp://www.framtidarlandid.is/natturukortid/#filter=.sn

Krýsuvíkursvæðiðhttp://www.framtidarlandid.is/natturukortid/austurengjar/

Heimildamyndhttp://blogg.smugan.is/elgurinn/2013/04/01/heimildamynd-um-krysuvik/

TIL HVERS AÐ SKIPTA UM STJÓRNARSKRÁ?

islandNý stjórnarskrá Íslands sem stjórnlagaráð lagði fram til stjórnskipunarlaga er magnað mál sem næstum hver einn og einasti borgari hefur tjáð sig um. Gunnar Hersveinn hélt ræðu á Ingólfstorgi á fundi RADDA FÓLKSINS vegna stjórnarskrámálsins þar sem hann hugleiddi hvers vegna það mætti skipta um stjórnarskrá og hvaða áhrif það gæti haft.*

I. STJÓRNARSKRÁ

Stjórnarskrá er auga samfélagsins. Hún hefur áhrif á allt – jafnvel þótt við tökum ekki eftir neinu, jafnvel þótt við séum sjálf blind á áhrif og völd. Hún hefur áhrif á skoðanir, hugarfar og framkvæmdir.

Til hvers að skipta um stjórnarskrá? spyr sá sem ekki sér.

Gamla stjórnarskráin er mótuð og túlkuð af gamla rótgróna valdinu sem vill af skiljanlegum ástæðum ekki afnema hana. Ný stjórnarskrá yrði ný byrjun, ný von, nýtt andlit eða að minnsta kosti ný gleraugu.

II. TÍÐARANDI

Gamli tíðarandinn flaug fram af hengifluginu, gráðugur og fífldjarfur, aga- og taumlaus með óbilandi bjartsýni í augum án marka, án gildi gagnvart öðrum, landi og þjóð. Hann hrærðist í spilltu, skeytingarlausu hagkerfi.

Nýi tíðarandinn bjó með þjóðinni og spratt fram eins og fugl af hreiðri þegar sá gamli strikaði fótur og flaug fram af. Hann er gagnsær og sjálfbær og vísar á fjölræði í stað fáræðis. Hann stjórnast af visku þjóðarinnar um grunngildin: jöfnuð, réttlæti og virðingu, samábyrgð og lýðræði.

Ný von mótaði nýju stjórnarskrána sem enn hefur ekki tekið gildi.

III. KERFIÐ

Til hvers að skipta um stjórnarskrá? spyr sá sem ekkert sér nema eigin spegilmynd.

Sú gamla mótast af sjónarmiðum til þjóðar og náttúru sem nú eru úrelt. Hún er túlkuð af mannhverfu sjónarhorni  sem ofmetur hagkerfið og vanmetur vistkerfið. Vöxtur hvílir ekki á sérhag mannsins heldur umhverfi hans og náttúru.

Hagkerfið hleypur í loftköstum en vistkerfið er hringrás. Hagkerfið hvílir á samkeppni og gróða en vistkerfið á sjálfbærni og samvinnu. Mannkerfið, hagkerfið og gamla stjórnarskráin þarfnast endurnýjunar við.

Hið gamla byggir á sundrung, vægðarlausri græðgi og einhæfni sem hafa gefið heiminum stríð, kreppur, átök, fátækt og misrétti.

Næsta meginregla snýst um að deilda gæðum, vinna saman, fjölbreytni og jafnvægi, heild og skilningi á sameiginlegum hagsmunum og að vistkerfið verði viðmiðið en ekki tímabundin skekkja í hagkerfinu sem sífellt þarf að leiðrétta.

IV. NÁTTÚRAN

Til hvers að skipta um stjórnarskrá? spyr sá sem ekki veit.

Ný stjórnarskrá mun breyta þjóðarsálinni og hafa djúp áhrif á viðhorf hennar til náttúrunnar. Hún kveður á um réttindi náttúrunnar. Náttúrusvæði öðlast eigið virði og geta vegið þyngra en hagsmunir tiltekinna hópa manna.

Náttúrsvæði, náttúruundur, -perlur og heimkynni annarra lífvera mun ekki ávallt og ævinlega vera léttvæg fundin út frá mannhverfum viðhorfum gamla tíðarandans. Þeirra virðing er komin!

Mannveran er út frá visthverfu sjónarhorni meðlimur í lífrænu samfélagi jarðar. Maður og náttúra eru eitt – og gildin sem þarf að rækta eru nærgætni, hófsemd og virðing til að ná jafnvægi.

V. FRAMTÍÐIN

Til hvers? spyr sá sem sér ekki breytinguna í vændum.

Ný stjórnarskrá er lykill að framtíðinni. Gamla valdið er feigt og farið á taugum – og enginn vill lifa innan um afturgöngur.

Ný stjórnarskrá yrði róttæk breyting á viðhorfum til sambands manns og náttúru, samband sem byggist á sjálfbærni. Hún yrði ekki aðeins fyrir þjóðina heldur einnig fyrir vistkerfið.

VI. UPPHAFSORÐ

Lýðræði var óljós hugsun þegar gamla stjórnarskráin var sett. Árið 2013 er lýðræði hátt skrifað þjóðgildi sem þarf að læra og rækta.

Ný stjórnarskrá er nauðsynleg fyrir nýjan tíðaranda, fyrir þjóð og náttúru, fyrir næstu kynslóð. Hún er bylting í þágu náttúrunnar.

Til hvers að skipta um stjórnarskrá?

Til að styðja siðvæðingu Íslands og til að nea lýðræðislega ábyrgð og til að uppfylla skylduna gagnvart næstu kynslóð.

Gefumst ekki upp, höldum áfram, vinnum verkið vel. Búast má við margskonar hindrunum og mikilsháttar tálmum á leiðinni en jafnvel þegar öll sund virðast lokuð: eygir bjartsýnnt augað von.

GUNNAR HERSVEINN

www.lifsgildin.is

*Ræðan var flutt 16. mars 2013 út frá stykkorðum á blaði en ofangreint er textinn sem punktarnir byggðu á.

Fyrir opnum tjöldum

um_gildin_sjalfbaerniGagnsær er gildi sem er (skilnings)ljós þeirra sem fást við að verja verðmæt náttúrusvæði. Ef rýnt er í orðið út frá siðfræði tungunnar opinberast merkingar þess og verða um leið gagnlegar í baráttunni.

Gagnsæi er leiðarljós þegar ákvarðanir eru teknar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhita – ef sátt á að nást um 2. áfanga rammaáætlunar.

Saga þýðingarmikilla ákvarðana er of oft mörkuð tímabundnum hagsmunum, takmörkuðum upplýsingum og löngunum til ráða för. Ákvarðanir, sem hafa ekki aðeins áhrif á kjör núlíðandi kynslóðar heldur einnig þeirrar næstu, þarf að taka af skilningi en ekki þrjósku. Ekki er nóg að safna upplýsingum heldur þarf einnig að greiða úr þeim, flokka og túlka.

Gagnsæi er lykilorð sem bæði virkjanasinnar og náttúruverndarar ættu að fylgja og að opna um leið gagngóða umræðu um verðmæt náttúrusvæði. Áhrifum þessa orðs má líkja við fágað stækkunargler eða heiðan himin í stað skýjahulu.

Orðið gagnsæi hefur margar merkingar. Áhugavert er að skoða liði þess gagn- og -sær. Forliðurinn gagn- getur merkt hvaðeina sem stendur andspænis hvort öðru, tvenns konar sjónarmið, gagnrök og að taka hvor sinn pólinn í hæðina. Nauðsynlegt er að meta kosti í nýtingamálum út frá gagngóðum með- og mótrökum.

Gagn- getur einnig þýtt gjör eða eitthvað á borð við gagnkunnugur eða að gagnskoða og loks merkir hann gegnum, líkt og í lýsingaorðinu gagnsær. Forliðurinn gegn- í gegnsær hefur einnig merkinguna gegnum. Ástæður á bak við ákvarðanir eiga að vera gjörþekktar ef gagnsæi er megingildi í umræðunni.

Sjálft orðið gagn kemur einnig að liði í merkingunni gögn, það á ekki að taka þýðingarmiklar ákvarðanir í málum fyrr en búið er að safna og greina öll möguleg gögn. Ekki sópa gögnum undir teppið, ekki koma í veg fyrir að gagna sé aflað, ekki túlka gögn út frá hagsmunum. Ekki taka gögn úr samhengi.

DYGGÐ

Orðið sær hefur einnig margar merkingar, það getur verið karlkyns eða kvenkyns merkt sjó eða haf og leiðir hugann að undirdjúpunum en þar er spekin stundum sögð leynast. Gagnsær gæti því merkt sjór sem sjá má gegnum, tærleiki.

Sær getur einnig þýtt svarinn eða sjáanlegur og verið viðliður: auðsær, djúpsær, gegnsær og raunsær. Tillögur um rannsóknarleyfi sem eiga ekki að hafa mikil áhrif á ósnert náttúrusvæði eru til að mynda hvorki raunsæjar né gagnsæjar.

Gagnsær vekur sterk hugrenningartengsl við gagnrýna hugsun sem felst í því að gera hlutina gagnsæja: gagnskoða, gegnumlýsa og tefla fram gagnrökum. Gagnsær merkir þá dyggð að safna öllum mögulegum gögnum áður en ákvörðun er tekin, greina þau, meta og birta opinberlega.

Ef við gerum orðið gagnsær að lífsgildi milli manns og náttúru þá er eftirsóknarvert að gefa því merkingu til viðbótar. Gagnsæi felst í því að leggja öll gögn á borðið og meta þau út frá eins mörgum sjónarhornum og okkur er unnt hverju sinni. Ekki aðeins út frá sjónarmiði mannsins heldur alls sem býr í náttúrunni; landslagi, gróðri, dýrum, fallvötnum, ám, jarðhita og stöðu gagnvart hliðstæðum annars staðar á jörðinni.

Gagnsæ ákvörðun í umhverfismálum telst því sú ákvörðun sem byggir á þverfaglegri niðurstöðu allra ofangreindra þátta.

SJÁLFBÆR

Gagnsæi er skýr mannshugur sem hefur öðlast heildarsýn og sem líkja má við tærleika og ómengað vatn. Forliðurinn gagn- skapar hugrenningartengsl við gagnsemi og nytsemd sem er gott því það rímar við nægjusemi sem er höfuðdyggð náttúruverndara – að meta það sem til staðar er af hófsemd.

Orðin gagnsær og sjálfbær eiga samleið því sjálfbær þróun felst í því að sjá samhengið á milli efnahags, mannlífs og umhverfis og hreinsa burt mengunina sem byrgir okkur sýn þegar ákvarðanir eru teknar.

Sjálfbærni snýst um jafnvægi milli manns og náttúru – að draga úr sóun og eyðileggingu og skapa samfélag sem tekur ekki meira en það gefur til baka. Gagnsæi er lykilverkfæri því það hjálpar okkur til að grafa upp svarið við spurningunni:

Hvers konar líferni veitir næstu kynslóð tækifæri til að lifa og hrærast í sátt við náttúru og samfélag?

Gunnar Hersveinn – www.lifsgildin.is

 

KÆRLEIKUR OG VISKA

Kærleikur er meira en dyggð, meira en tilfinning og meira en viðhorf. Hann birtist þegar væntumþykjan breiðist út fyrir innsta hring, líkt og vinarhönd sem teygir sig til ókunnugra.

Kærleikur er ekki sjálfgefinn heldur sprettur fram í samfélagi fólks sem hugsar ekki aðeins um eigin hag heldur annarra og ekki eingöngu samtíðarfólks heldur næstu kynslóðar. Augu kærleikans horfa úr höfði tímans en ekki stundarinnar. Þau sjá í gegnum holt og hæðir.

Ástarþrá hrífst af einstakri fegurð og vill girða svæðið sitt af. Kærleikurinn er víðsýnn, hann svífur yfir vötnum, dölum og fjöllum líkt og fugl. Hagsmunir hans eru ekki bundnir við einstaka bletti heldur vistkerfið allt, haf- og loftslagsstrauma.

Kærleikurinn hefur biðlund, hann hugsar sig lengi um en raskar ekki jafnvæginu í náttúrunni.

Tákn hans er fugl sem veitir ungum skjól undir vængjum sínum. Hann verpir ekki öllum (fjör)eggjum sínum í stakt hreiður og teflir hvorki auði sínum né annarra í tvísýnu vegna þrjósku eða augnabliksþarfar.

Andstæða kærleikans er tómleiki, tómt hreiður.

Viskan er það sem skynsemin leitar að, hún er ekki tímabundin tilgáta sem fellur úr gildi heldur má nema hana úr náttúrunni og samfélaginu. Hún blasir oft við þótt fáir taki eftir henni. Mælskulist hefur ekki áhrif á hana, ekki peningar eða tilboð.

Viskan safnast einfaldlega upp með tímanum og þótt hún geti glatast á milli kynslóða má grafa hana upp aftur. Hún er ekki tískusveifla.

Viskan er lík kærleikanum, hún er strengur á milli kynslóða og ráðlegging um umgengni við náttúruna. Hún mælir með varkárni og virðingu mannsins gagnvart náttúruöflunum.

Mannleg skynsemi er stundum sögð snauð og lík reiknivél en markmið hennar er þó ekki merkingarlaust: lífveran vill lifa en ekki deyja eða tortíma umhverfi sínu. Viskan mælir ekki með taumlausri velferð á kostnað annarra heldur jafnvægi allra hluta. Heimskan útrýmir á hinn bóginn og grefur undan framtíðinni með markalausri athafnasemi sinni.

Skynsemin og forvitnin þurfa því á öllum rannsóknum sínum og gagnasöfnun að halda og efla þarf hvers konar fræðslu og menntun um móður jörð. Viskan opinberast þó ekki fyrr en með tímanum, eftir yfirvegun og mat á reynslu kynslóðanna, því allt þarf að tengja saman til að heildarmyndin verði sýnileg.

Tákn viskunnar er vatnið, það er safn upplýsinga um lífið.

Andstæða viskunnar er tómið, uppþornað stöðuvatn.

Kærleikur og viska eiga samleið en andheiti þeirra beggja er tóm, tómleiki, eyðimörk og kuldi, það sem slitið er úr samhengi og einangrað.

Íslensk náttúra þarf líkt og öll náttúra á hnettinum á kærleika og visku að halda því þetta par er ekki múrað innan landamæra og girðinga stað- og tímabundinna hagsmuna. Þau eru lík fiskum sem þrífast best í heilbrigðu hafi og vatni og fuglum sem þurfa á heilnæmu lofti að halda, hvort sem það er í vestri, suðri, austri eða norðri.

Allt tengist saman í einni jörð undir einum himni, einni tímarás, einu lífi.

Stund tómlætis er liðin, tími væntumþykju og þolgæði hafinn.

VIRÐING OG VANTRAUST

Vantraust er ekki aðeins hugtak sem lýsir efasemdum milli manna eða þjóða, efasemdum um heilindi eða áreiðanleika. Vantraust er að vera í lausu lofti, ganga þar sem jörðin er ekki lengur undir fótum, svífa líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

Vantraust hefur engan áfangastað, veruleikinn hverfur, gufar upp jafnóðum og hann birtist. Haldreipin renna úr höndum, síðasta hálmstráið slitnar og fallið finnur engan botn.

Ef samband manns og umhverfis er tómlegt ríkir eyðileggingin ein, engin uppbygging, aðeins sóun. Vantraust yrði andrúmsloftið.

Andheiti vantrausts er ekki aðeins traust heldur einnig virðing og kærleikur. Vantraust er snautt af langlundargeði, fullt efa þar sem fortíðin er óvissan ein og ekki er hægt að reiða sig á neina framtíð.

Vantraust felur í sér skeytingaleysi gagnvart vistkerfinu, rétti og réttindum annarra lífvera og náttúrufyrirbæra.

Þetta marklausa vantraust gagnvart framtíðinni og komandi kynslóðum er uppspretta sóunar og ástleysis gagnvart auðlindum og gjöfum lífsins. Vantraust er sjálfseyðing.

Maðurinn tók sér vald og stjórn á umhverfinu, hann setti sig skör hærra en allt annað á landi og sjó. Hann tók sér vald sem hvílir ekki á gagnkvæmu sambandi.

VIRÐING

Heillavænlegt mannlíf skapast þar sem sambandið við umhverfið hvílir á virðingu. Það getur falist í aðdáun, það getur einnig falist í óttablandinni virðingu. Það hvílir á varfærni þar sem tíminn er ekki iðulega að renna úr greipum. Það hvílir á von um traust samband.

Viðhorf til íslenskrar náttúru er breytilegt eftir öldum og tíðaranda. Samband manns og umhverfis hefur ekki verið stöðugt. Á 21. öldinni felst verkefnið í því að koma á jafnvægi í samband manns og umhverfis. Það er bráðnauðsynlegt verkefni að bjarga sambandinu, koma í veg fyrir (að)skilnað.

Viðhorf til umhverfis getur verð á marga lund: vistvænt, lífrænt … jafnvel hvatrænt og vitrænt. Ef sambandið er ofið virðingu þrífast mörg viðhorf, því virðing felur í sér væntumþykju í stað firringar: áhuga- og skeytingarleysis.

Virðing felst í því að nema verðmæti frá mörgum sjónarhornum, jafnt manna, dýra og náttúruminja. Nema fyrirbærin í sjálfu sér og í samhengi við aðra og annað. Virðing felst í því að hlusta, skoða, greina, og meta með framtíðina í huga, ekki aðeins næstu þrjú ár, heldur þrjátíu og ekki aðeins þrjátíu heldur þrjú hundruð.

Virðing lífgar samband manns og náttúru, vantraust deyðir það. Firring er fylgifiskur vantrausts: sambandið dofnar og maðurinn verður einráður og hrokafullur og væntumþykjan hverfur.

Næsta samband manns og náttúru, það samband sem verður ríkjandi í heiminum, þarf nauðsynlega að hvíla á virðingu. Sú virðing getur orðið gagnkvæm því lífveran sem nefndist Homo sapiens er sprottin af móður jörð þótt henni líði líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

Gunnar Hersveinn
lifsgildin.is

FJÖLBREYTNI OG FRELSI

Frjáls þjóð á að reiða sig á marga kosti, til að geta valið, hafnað og orðið hún sjálf. Frjáls þjóð þarf að rækta með sér biðlund og hún þarf að geta geymt ósnerta fjársjóði til framtíðar. Frelsi þrífst aftur á móti illa á stað þar sem einlyndi ríkir, fáræði eða einn tónn. Frelsið er sinfónían og þjóðin hljómsveitin.
Margbreytileiki, fjölhæfni, fjölmenning,  fjölhyggja, fjölbreytni og marglyndi er auðlind mannlífsins. Fjölhæf lífvera leitar margra kosta í umhverfi sínu og er líkleg til að verða farsæl.  Jafnvel þótt henni bjóðist (glópa)gull fyrir land sitt og náttúruauðlindir velur hún fremur bundið valfrelsi á eigin forsendum en ánauð í boði annarra.
Jörðin, náttúran, umhverfið, landið, hvert svæði sem valið er til búsetu hefur oftast upp á marga kosti að bjóða, farsælast er að nýta þá með virðingu að leiðarljósi. Ef svæðið er lagt undir einn kost með víðtækri umbreytingu verða heimamenn of háðir og næsta kynslóð hefur ekki val eða tækifæri til að breyta á annan hátt en sú fyrri. Valfrelsið tapast.
Frelsi er grunngildi sem allir þrá. Of fáir búa við það og þeir sem njóta þess virðast ekki kunna að meta það til fulls og selja það frá sér. Sá sem glatar frelsinu af eigin mætti gerir það oftast með glýju í augum og gylliboð í eyrum um eitthvað annað og betra. Hann sér ekki lengur eigin auðlegð og tækifæri fyrir markaðssettum glansmyndum annarra.
Allir boða frelsi, jafnt stríðsherrar sem friðarsinnar, en eitt er víst að einhæfni, einlyndi, einn vegur, einn kostur og einn risi merkir ekki frelsi fyrir hinn almenna borgara heldur aðeins fyrir þá sem stjórna risanum. Iðulega þarf því að spyrja: frelsi – handa hverjum?
Fjölbreytni, marglyndi, fjölhyggja og fjölhæfni eru aftur á móti farvegir frelsis, þau skapa frjóan jarðveg og menningu á árbakkanum.
NÝ OG BETRI VERÖLD
Manneskjan er frjáls vera á jörðinni. Hún er ekki undirokuð af annarri lífveru líkt og húsdýr. Hún er háð aðstæðum hverju sinni en hefur tilhneigingu til að skapa sér veröld þar sem óvissuþættir er útilokaðir. En það er aldrei hyggilegt fyrir mannfélag að verða of háð einum kosti – geti það komist hjá því.
Frelsið er ekki kapphlaup um verðmæti. Sá sem hleypur með aðeins eitt í huga kemst ef til vill fyrstur í mark, en það er ekki heillavænlegt lífsmarkmið að sigra aðra í samkeppni – jafnvel þótt slíkt sé fullyrt án afláts.
Borgarar í hægfara samfélagi óttast ekki að allt hverfi eða tapist á einu augabragði – því biðlundin er sterkari en eirðarleysið. Borgarar í hraðasamfélaginu kvíða því á hinn bóginn daglega að tímaglasið tæmist og fórna því endrum og eins öllu fyrir ekkert.
Endalok frjálsrar þjóðar eru falin í freistingunni til að selja sig öðrum.
Frelsi og fjölbreytni fylgjast að. Þjóð sem vill rækta og efla frelsið skapar fjölbreytt atvinnulíf og frjóan jarðveg sem hún plægir sjálf í sátt við umhverfið. Hún nemur öll hljóðin í náttúrunni og heyrir ekki aðeins einn tón heldur heila sinfóníu.

Gunnar Hersveinn/ www.lifsgildin.is

Jarðarstundin rennur upp

Einstaklingurinn virðist oft vera sem örsmár maur í mauraþúfu eða sandkorn á endalausri strönd og engu máli skipta. En svo er ekki. Án hvers og eins væri engin strönd heldur aðeins auðn. Til eru verkefni sem sanna mátt einstaklinga – og sýna að það er borgarinn en ekki firrtur einræðisherra sem breytir heiminum til betri vegar.

Jarðarstundin er eitt af þessum verkefnum eða Earth hour þar sem einstaklingar, fyrirtæki, borgir og sveitarfélög vinna saman að orkusparnaði í eina klukkustund laugardaginn 31. mars milli klukkan 20.30 til 21.30.

Reykjavíkurborg tekur þátt í þessum viðburði í fyrsta sinn ásamt tæplega 140 öðrum borgum og borgarbúum um víða veröld. Viðburðurinn er skipulagður af sjálfboðaliðum og er markmiðið að hvetja hvern og einn til að spá í hvað hann geti lagt af mörkum í þágu umhverfisins.

Dimman sem borgarbúar skapa þessa klukkustund er tákn yfir samtakamátt og vald fjöldans. Hún er einnig tákn yfir sparnað andspænis orkusóun. Markmiðið með þessum alþjóðaviðburði er að vekja fólk til umhugsunar um umhverfismáli í víðu samhengi.

Reykjavíkurborg slekkur götuljósin í miðborginni og hvetur heimili, fyrirtæki og stofnanir til að slökkva einnig svo hægt verði að njóta þessa viðburðar betur. Einnig eru allir borgarbúar hvattir til að njóta stundarinnar með því að draga úr rafljósum. Milli klukkan 20:30 og 21:00 dregur hratt úr birtu og eftir 21:00 er myrkur í borginni og þá gefst vonandi tækifæri til að njóta stjarnanna.

Allt sem til þarf er að taka þátt, hún getur að lokum breytt heiminum til betri vegar.

Tengill:

http://www.youtube.com/watch?v=FovYv8vf5_E

http://www.earthhour.org/

https://www.facebook.com/EarthHourIceland

http://graennapril.is/