Flokkaskipt greinasafn: Umhverfismál

Tíminn og náttúran

Viðhorf okkar til náttúrunnar er mótað af öðru viðhorfi: afstöðu okkar til tímans. Flestir telja að tíminn sé fast hugtak, óumbreytanlegt og óháð mannlegri tilveru. En svo er ekki. Tíminn er fljótandi og persónulegur, hann tekur mið af taugakerfi, hjartslætti og viðhorfi hverrar lífveru fyrir sig. Hann er lærður.
Vesturlandabúar hafa skapað tímahugtak sem felur í sér endalok. Form þess er lína sem býr yfir upphafi, miðju og endi. Framtíðin er ævinlega mest metin og hún er skipulögð með áætlunum og stundatöflum svo langt inn í óvissuna að við tökum að keppast við að koma sem flestu í verk (áður en það verður of seint).
HLAUPIÐ Á TÍMALÍNUNNI
Við hlaupum hraðar og hraðar á tímalínunni, vinnum hvert tímaafrekið á fætur öðru. Við trúum því að tíminn sé peningar og að hægt sé að eyða honum til einskis. Við tölum um að nýta tímann sem best og fyllumst streitu ef við gerum ekki eitthvað sem aðrir telja gagnlegt.
Viðhorf okkar til tímans er nytjahyggja sem knýr okkur til framkvæmda. Við komum böndum á auðlindir jarðar og nýtum þær til fulls þar til þær eru uppurnar, tómar, horfnar og að eilífu glataðar.
Foss og jökulsá sem rennur óbeisluð til hafs skapar þjáningu í æðum og við flýtum okkur að virkja þetta afl til að selja það, því tíminn er peningar. Þau sem kunna að umbreyta veröldinni í vélar sem eyða gjöfum náttúrunnar fá hæstu launin og virðingu. En þau sem skapa til að auðga náttúruna þurfa að gefa vinnu sína.
Vestræna tímahugtakið miklar alla framleiðslu og afkastamesta vélin er fjöldaframleidd og send út um víða veröld. Vestræna tímahugtakið rúmar ekki sjálfbærni, nægjusemi eða aðgát í nærveru náttúrugersema.
Hugtakið er ör sem flýgur, ör sem nemur ekki staðar, ör sem fer í gegnum hjartað og stöðvar slátt þess, ör sem hverfur út í tómið.
STREITUVALDUR NÚTÍMANS
Vestræna tímahugtakið táknar magn en ekki gæði, það er gegndarlaust, hamslaust og gráðugt. Viðhorf okkar til náttúrunnar breytist ekki fyrr en við breytum viðhorfi okkar til tímans. Hættum að líta á lífið sem kapphlaup, hættum að hafa það á tilfinningunni: að vera að missa af einhverju. Þetta hugtak er einn af helstu streituvöldum nútímans.
Vitund okkar um tímann er lærð, það uppgötvum við ef við kynnumst annarri menningu og öðru tímahugtaki. Til er tímahugtak sem er hringur og vitund fólks er í góðu sambandi við hringrás náttúrunnar. Náttúran kveður á um hvernær tímabært er að framkvæma. Enginn fer á taugum þótt eitthvað hindri framkvæmdir um tímasakir.
Magn er lítils virði þar sem hringrás tímans ríkir og tíminn er ekki illa nýttur og hann er heldur ekki peningar, hann er gæði. Tíminn verður til þegar einhver gerir eitthvað, tíminn er sköpunarverk einstaklingsins sem ræður yfir tíma sínum. Hann er frjáls undan oki tímans.
Tíminn tekur á sig form, hann er lína, hringur, tákn óendanleikans, sporbaugur, hann er spírall, allt eftir því hvert viðhorfið er. Viðhorf okkar til tímans ræður viðhorfi okkar til náttúrunnar. Línan krefst framleiðslu sem knýr á um að virkja auðlindir eins fljótt og auðið er – án tillits til næstu kynslóðar.
Ef tímahugtakið mætti tákna sem spíral myndi það kveða á um hægfara framþróun í sátt við aðrar lífverur, í sátt við náttúruna, umhverfið og landslagið. Það myndi fela í sér hófsemd, virðingu og sjálfbærni.
BRÚIN YFIR MÚLAKVÍSL
Sterkt dæmi um hvernig vestræna tímahugtakið hefur áhrif á önnur viðhorf, líðan og sálarheill fólks er brúin yfir Múlakvísl. Hún sópaðist í burtu í náttúruhamförum sumarið 2011 svo fólk komst ekki um stundarsakir leiðar sinnar. Menn fóru á taugum og reiknuðu daglega hversu miklir peningar fóru í súginn. Daglegt tap hlóðst upp.
Ferðaþjónustan var sögð tapa milljörðum, bílaleigur, bændur töpuðu og knúið var á um að reisa bráðabirgðabrú í einum grænum. Fjölmiðlar sögðu linnulausar fréttir af brúarleysinu og hversu háum upphæðum ferðaþjónustan tapaði á meðan tíminn leið, því tíminn er peningar á Vesturlöndum. Unnið var dag og nótt að nýrri brú, kostaði hún 30 milljónir og opnaði viku eftir að sú gamla hvarf. Einnig voru ferðamenn daglega selfluttir yfir fljótið því engan tíma mátti missa. Enginn gat beðið og notið því tíminn eyddist upp.
Þetta er vestræna tímahugtakið í hnotskurn. Við erum sífellt að græða eitthvað eða tapa einhverju og þetta viðhorf hefur feikilega mikil áhrif á viðhorf okkar til náttúrunnar og andlega líðan. En til er annað tímahugtak sem býr yfir rósemd og nægjusemi …

AFSAKIÐ HLÉ
Hér verður gert hlé á hugleiðingunni um tímann og náttúruna um ófyrirséða framtíð. Pistillinn er skrifaður út frá rannsóknarverkefni höfundar um tímann og náttúruna. Markmiðið hér er ekki að kenna annað tímahugtak heldur vekja athygli á að viðhorf okkar til tímans er lært og vestræna tímahugtakið krefst framleiðslu og kapphlaups. Einnig að vekja athygli á að til eru önnur viðhorf sem skapa virðingu gagnvart náttúrunni.

Einnig birt hjá Framtíðarlandinu

Deila

Frelsi og ábyrgðarkennd

Ábyrgðarkenndin dofnar í samfélagi þeirra sem trúa að allt bjargist þótt þeir standi sig ekki. Sá sem verður of góðu vanur verður firringunni að bráð. Ábyrgð og frelsi klæðir heiðarlegar manneskjur vel.
Ábyrgð er framandi hugtak fyrir þá sem ofmeta eigið frelsi. Ofsafengið frelsi, skefjalaust frelsi, takmarkalaust frelsi, „ég vil fá að gera það sem ég vil, enginn hefur rétt til að hindra áform mín,“ segir hinn ábyrgðarlausi.
Frelsi og afstæðishyggja eru ekki gott par. Verðleikar annarra þurrkast út, einnig greinarmunurinn á réttu og röngu, góðu og vondu og náttúru og borg.
Afstæðishyggja er að sumu leyti afstöðuleysi. Manneskja getur verið umburðalynd, hún getur verið víðsýn en það vegur ekki þungt nema hún taki sér einnig stöðu með lífinu. Afstöðuleysið er firring, skortur á mannúð.
Heiðarleg manneskja lýsir því ekki yfir að allt afstætt, því það er samhljómur milli hugsjóna og athafna í lífi hennar. Hún vill opið og gagnsætt samfélag. Afstæðishyggjumaður vill ekki ramma sem þvingar, aðeins frelsi án marka. Frelsi án afleiðinga fyrir hann sjálfan. Það er afstaðan – þegar allt kemur til alls.
Frelsi til og frá, frelsi fram og aftur blindgötuna … en frelsi án kærleika er einskis virði, frelsi án ábyrgðar en innantómt og hættulegt. Frelsi í huga hins skammsýna er ekki vænlegt. Og ekki heldur nauðsynlega í huga hins framsýna.
Frelsið er foss, frelsið er jökulá en þegar það flæðir yfir bakka sína eyðileggur það umhverfið sitt.
Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu.
Ábyrgð felst í því að nema hlutdeild sína í samfélaginu. Enginn verður fullþroska fyrr en hann skynjar samábyrgð sína til að vinna góð verk og koma í veg fyrir sundrungu. Ábyrgðin birtist í samstöðu þjóðarinnar gegn óréttlæti.
Lífið í landinu er boðhlaup og hver kynslóð heldur á keflinu hverju sinni, tók við því og réttir það fram til næstu kynslóðar. Ábyrgðin felst í því að bregðast ekki. Sá sem hleypur og hugsar „Þetta reddast“, skortir næmni fyrir samhengi hlutanna.
Skammsýn þjóð trúir að allt muni reddast. Hún er ístöðulaus og fljótfær. Hinn skammsýni er snöggur að samþykkja og framkvæma – en hann verður oft skák og mát.
Ábyrgð og frelsi þarfnast víðsýni og tíma. Víðsýnt viðhorf hægir á tímanum, ellefta stundin rennur ekki upp og kapphlaupið við tímann rennur sitt skeið. Betri tími gefst til að ala upp börn, kanna kringumstæður, meta gögn, meiri tími til að íhuga fortíðina og nútíðina, hyggja að náttúruauðlindum, næstu kynslóðum, hlýnun jarðar af mannavöldum og hvað skapi hamingju og hvað ekki.
Ef ábyrgð og frelsi tengjast nánum böndum skapast rúm fyrir yfirvegun, stöðugleika og víðskyggni.
Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Virðing og vinsemd

Skortur á virðingu gagnvart öðrum lífverum, skortur á virðingu gagnvart landslagi, gagnvart stöðum, heimkynnum annarra og gagnvart náttúrunni allri er sennilega það sem veldur mestum skaða á jörðinni um þessar mundir.

Skortur á kærleika, skortur á vinsemd, skortur á hófsemi, hugrekki, framtíðarsýn og skortur á auðmýkt gagnvart lífinu á jörðinni – gefur heimskunni og græðginni tækifæri til að láta greipar sópa um ómetanlegar auðlindir sem næstu kynslóðir fá ekki að njóta.

Heimskan hrópar: tíminn rennur út, hugsaðu um sjálfan þig, seldu núna! Græðgin segir: ekki hika, taktu þetta, þú færð svo meira á morgun, annars færðu ekkert. Hjá þeim er engin framtíð og það er ekki tilviljun að við gefum þeim nöfn eins og lestir, gallar, brestir, ókostir.

Heimska og græðgi búa ekki yfir virðingu eða framtíðarsýn aðeins tálsýn. Jafnvel þótt næg þekking standi til boða getur heimskan auðveldlega ráðið för – aðeins ef hún býr yfir drifkrafti græðginnar.

Skeytingarleysi er skelfilegur mannlegur galli sem vex með þeim sem læra ekki að bera virðingu fyrir öðrum og öðru. Þar er svo tómlegt um að litast að aðrir mannlegir lestir búa um sig í gímöldum skeytingarleysisins. Sá sem leyfir þessum galla að vaxa tapar sambandi sínu við mannúðina.

Hvert augnablik getur framtíðin brugðist til beggja vona. Framtíðin veltur ekki aðeins á ytri öflum, hún veltur ekki á örlögum, ekki aðeins á öðrum, heldur einnig á okkur, hverju og einu. Sá og sú sem vill skipta máli, getur skipti máli – aðeins ef hún vill.

Enginn kemst undan mannlegum göllum en hver og einn getur valið sér mannlega kosti til að efla. Hugsjónin um jafngóða og betri veröld fyrir næstu kynslóðir ber vitni um virðingu og vinsemd. Hún er ekki sjálfselsk og skeytingarlaus heldur hefur lyft sér yfir tíðarandann.

Virkur borgari er ekki aðeins að störfum hjá fyrirtæki eða hagsmunahóp, heldur jafnframt ábyrgur gagnvart næstu kynslóð. Ef honum og henni er sama um lífverur og lífsskilyrði framtíðarinnar – hefur hún orðið firringunni að bráð og þarf á endurhæfingu að halda.

Drögum lærdóma af fortíðinni og veitum náttúrunni stöðu í hjarta okkar með komandi kynslóðir i huga. Eflum kjarkinn til að skapa samfélag þar sem viska fjöldans sprettur fram. Ræktum jarðveginn fyrir margskonar atvinnugreinar fyrir alla, jafnt konur sem karla.

Höldum áfram að vinna verkin sem þarf að vinna, tökum mið af góðum fyrirmyndum genginna kynslóða og afhendum vongóð nútíðina til næstu kynslóðar.

Gunnar Hersveinn 4. des. 2011
www.lifsgildin.is

Hófsemd leysir heimsku af hólmi

Ef við greinum orðin í þeim tíðaranda sem nú hopar á fæti þá heyrum við rödd heimsku og græðgi. Og ef við greinum orðin sem gætu orðið næstu kynslóð töm þá nemum við rödd hófsemdar og samvinnu borgaranna.  Hér verður sagt frá lokaorðum þessa tíðaranda og lykilorðum næsta.

I. GRÆÐGI OG HEIMSKA
Rifjum upp vinsælustu orðin fyrir Hrunið um kosti og ímynd Íslendinga: „Aðlögunarhæfni, þrautseigja, sköpunargleði, óbilandi bjartsýni, úrræðagóðir, framkvæma hið ógerlega, kraftmikil atvinnusköpun, tjáningarfrelsi, öryggi og frelsi til athafna, agaleysi, djörf og óútreiknanleg hegðun, náttúrulegur kraftur,“ segir í skýrslu sem forsætisráðuneytið gaf út vorið 2008.

Þorgerður Einarsdóttir rifjaði upp á Jafnréttisdögum HÍ vinsælustu orðin áður en feðraveldið hrundi: „ … það áræði, sá kraftur og það frumkvæði sem býr í íslenskum athafnamönnum …, “ sagði til dæmis Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra árið 2005 og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptamálaráðherra tók undir árið 2007 með orðunum: „Kraftur, kjarkur og góð þekking íslensku útrásarmannanna skilaði meiri árangri hraðar við fjárfestingar erlendis en hægt var að sjá fyrir og víkingurinn hefur vakið athygli á alþjóðavísu.“

Tungutak græðginnar ríkti greinilega og myndi það eflaust æra óstöðugan að nefna fleiri dæmi. Gallinn við tíðaranda ofgnóttar er taumleysi, agaleysi, hraði, hugsunarleysi, hroki, áhættufíkn og hvaðeina annað sem felst í takmarkalausri samkeppni um auð almennings og auðlindir jarðar.

Græðgin blindar sýn og sá sem stjórnast af henni sér ekki hengiflugið framundan – hann sér aðeins gullið sem glóir. Græðgi er löstur sem engin leið er að fullnægja, hann er illvígur sjúkdómur sem þarf að minnsta kosti tólf spora kerfi til að vinna bug á. Ef það hendir samfélag að bæði stjórnvöld og ráðandi aðilar í viðskiptalífinu stjórnast af græðgi og óútreiknanlegri hegðun þá fellur það með glýju í augum. Andheiti græðginnar er hófsemd.

II. HÓFSEMD OG ÍGRUNDUN

Við vísum nú á dyr: græðgi sem ráðamenn og þeir sem segjast snúa hjólum atvinnulífsins litu áður vonaraugum til. Rödd græðginnar er þó ekki þögnuð, því aðferð hennar er það eina sem sumir kunna: meira, meira, enn meira og einu sinni enn – eins og spilafíkill. Önnur aðferð lætur nú á sér kræla og má greina rödd hennar í umræðunni: nægjusemi.

Hvenær höfum við nóg? spurði David Suzuki umhverfisfræðingur í fyrirlestri hér á landi núna í október og benti á það augljósa: að við ofmetum hagkerfið en vanmetum vistkerfið. Umhverfið er ekki aðeins einn þáttur sem efnahagskerfið tekur tillit til heldur er það undirstaðan og allur vöxtur hvílir á náttúrunni sjálfri – en ekki öfugt líkt og heimskan telur okkur trú um. Hagkerfið virkar jafnt í tölvuleiknum Eve Online og á Wall Street en það gerir vistkerfið ekki.

Annar gestur flutti merkan fyrirlestur hér á landi: John Thackara rithöfundur benti á hugsanavillu tíðarandans um hagvöxt án endimarka, hegðun án afleiðinga og líferni án samhengis. Við gætum lifað af á Vesturlöndum með margfalt minni nýtingu á auðlindum jarðar en nú er gert – aðeins ef áhugi er á að draga úr sóun. Slíkt væri í okkar þágu, því sóunin er starfrækt með tímabundna hagsmuni auðugustu manna og risafyrirtækja heims að leiðarljósi.

Græðgin er á vegum hinna vægðarlausu sem hafa lagt undir sig helstu auðlindir heims og mikilvægustu framleiðsluna líkt og Vandana Shiva benti á varðandi matvæla-iðnaðinn, í heimsókn sinni hingað. Kynslóð sem stjórnast af taumlausri græðgi sýnir hófsemd og langlundargeði forfeðra okkar enga virðingu.

III. SAMSTARF BORGARANA
Magn hefur verið töfraorð, fleiri ferðamenn, fleiri virkjanir, meiri nýting. Hraðar og meira ár frá ári og aldrei má dragast aftur úr: fremst, Ísland fremst þjóða! Æ fleiri ferðamenn, fleiri hótel, fleiri rútur, fleiri þotur og æ tíðari ferðir og fæstir vilja hugsa um afleiðingarnar og þurrð auðlinda. Fleiri ferðamenn kalla á fleiri álver og meira eldsneyti. Hvers vegna að keyra svo hratt þegar aðeins veggur er framundan? „Þessi vöxtur er ekki án takmarka, “ sagði John Thackara í fyrirlestri í Hörpunni í ágúst 2011 en því miður tók enginn fjölmiðill hann tali.

Þeir sem þora að líta til framtíðar í ferðamanna-iðnaðinum á Vesturlöndum vita að næstu kynslóðir munu ekki byggja á magni og sóun. Fólk mun til að mynda deila bifreiðum sín á milli, deila herbergjum í hálftómum húsum í stað þess að byggja enn eitt hótelið og kaupa enn einn einkabílinn. Vistvæn ferðaþjónusta er það sem koma skal.

Tilvera Vesturlandabúa sem lifir einn í íbúð, er einn í bíl, einn á skrifstofu, ávallt einn og án annarra, mun vonandi líða undir lok. Slík tilvera verður notuð í skólabókum framtíðar sem dæmi um firringu. Fólk mun deila gæðunum á milli sín, ekki endilega vegna neyðar né þroska, heldur vegna aðlögunarhæfni og hyggjuvits. Slíkt samfélag getur komist af með margfalt minni eyðslu á auðlindum og margfalt minni útblæstri á gróðurhúsategundum. Slíkt samfélag er framtíðin, hlustum ekki á þá sem grátbiðja okkur um meiri einkaneyslu.

Taumlaus þjónusta og framleiðsla líður undir lok og samstarf borgarana, samhjálp og sjálfboðavinna mun dafna og örvast. Borgarar munu deila gæðunum sín á milli, bæði landi og tækifærum og taka oftar á móti ferðamönnun svo dæmi sé tekið um þjónustu: hýsa þá og selja þeim mat í eldhúsinu sínu. Raunsæismenn munu kalla slíka sýn draumóra, en þeirra leið hefur þegar beðið skipsbrot. Hún er sokkin í hafið og gufuð upp í háloftin sem mengun. Vandkvæði framtíðarinnar mun ekki merkja afnám siðmenningar líkt og bölsýnismenn segja, heldur mun fólk deila kjörum.

IV. LOKA- OG LYKILORÐ
Það er algjörlega úrelt fyrirkomulag að fámennur hópur einstaklinga eigi 99% auðs í heiminum eins og nú er, það er einungis ávísun á heimsendi. Aðferð þeirra felst í enn meiri þjónustu, æ tíðari flugferðum, fleiri einkabílum, meiri einkaneyslu og hvers konar fánýtri framleiðslu. Lokaorðin eru: meira og fleira, aftur og aftur og aðeins lengur. Lösturinn er græðgi.

Samstarf og samhjálp borgarana vinnur á hinn bóginn gegn hagsmunum vægðarlausra auðmanna en með hagsmunum náttúru og jarðarbúa. Lykilorðin eru: að deila gæðum, samvinna, samhjálp, samlíðun og sjálfboðavinna. Markmiðið er ekki að vera ríkasta land í heimi. Dyggðin er hófsemd.

Fyrir áhugasama:
David Suzuki: Hvað getum við gert? 2011: http://www.hi.is/myndbond/dr_david_suzuki_i_haskola_islands
John Thackara: Clean Growth – Social Design & Innovation. 2011: http://vimeo.com/28979353
John Thackara: Iceland: Eaten Alive, or Growing to Live? http://changeobserver.designobserver.com/feature/iceland-eaten-alive-or-growing-to-live/29998/

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Lagarfljót í ljósi réttar náttúrunnar

Í frumvarpi stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá er kveðið á um rétt náttúrunnar. Þetta ákvæði er nýlunda á Íslandi og þarfnast upplýstrar umræðu almennings, alþingismanna, fræðimanna og svokallaðra hagsmunaaðila. Hér er spáð í hugtakið út frá örlögum Lagarfljóts.

I. Lagarfljót
Í sumum skýrslum átti Kárahnjúkavirkjun að hafa sáralítil áhrif  á vatnshita í Lagarfljóti, sáralítil áhrif á gróður fljótsins, sáralítil áhrif á lífríkið. En nú hefur allt lífríki fljótsins minnkað, bæði að fjölbreytni og magni – eins og spáð var í  öðrum skýrslum, greinum og bókum þar sem höfundar skynjuðu skyldur sínar og virðingu gagnvart Fljótinu.

Segja má að „réttur“ virkjanaaðila hafi verið virtur til fulls og jafnvel fegraður með dýrum skýrslum. Réttur náttúrunnar, réttur dýranna, réttur Lagarfljóts og réttur málssvara náttúrunnar var aftur á móti vanvirtur.

Nú er dauft yfir Fljótinu mikla, gegnsæi þess var mikið en er nú lítið, það er kaldara en áður, gruggugra og í raun allt annað vatnsfall en það var áður en Jökulsá á Dal var veitt í það. Lagarfljót var af náttúrunnar hendi stærsta jökulvatnið hér á landi en er nú manngert og fáir fiskar veiðast – en Fljótið hefur gegnt hlutverki sem búsvæði fyrir laxfiskana, einkum fyrir silung og sem farvegur fyrir fiskana til að komast í dragár sem falla til vatnsins.

„Við ritun þessarar bókar hefur mér stundum fundist að ég væri að skrifa eftirmæli um látinn vin,“ skrifaði Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur í formála ritsins Lagarfljót – mesta vatnsfall Íslands, „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“ Lagarfljót er horfið í þeirri mynd sem það var og annað fljót komið í staðinn. Helgi sýndi Fljótinu virðingu sýna.

Ekkert fljót á Íslandi er viðlíka djúpt og breitt enda það eina sem nýtt hefur verið til siglinga hérlendis. Lagarfljót er bæði straumvatn og stöðuvatn, án þess að glögg skil séu þar á milli. Þar bjó einnig frægasta vatnaskrímsli landsins Lagarfljótsormurinn sem getið er allt frá 14. öld.

Öllu jökulvatni Jökulsár á Dal var steypt í Lagarfljót og þar með 600 þúsund tonn af aur, þegar Kárahnjúkavirkjun var tekin í gagnið – og við það næstum tvöfaldast Fljótið að vatnsmagni. Grænn einkennislitur Fljótsins hvarf og varð skolpbrúnn.

Örlög Lagarfljóts ættu að vekja fólk til umhugsunar um rétt náttúrunnar eða rétt Fljótsins til að halda áfram á sömu braut í samræmi við lífríkið og sátt við mannfólkið. Hafði Lagarfljót rétt sem ekki var virtur? Vanræktu Íslendingar skyldur sínar gagnvart náttúrunni?

II. Réttur náttúrunnar
Getur náttúran öðlast rétt? Hvað ef vötn falla um árþúsundir um hérað sem kennt er við Fljót og dal? Er réttlætanlegt að breyta fljótinu vegna mögulegs ávinnings fyrir eina kynslóð manna og svo ekki meir?  Getur t.a.m. hreindýrastofn á Snæfellsöræfum átt sér rétt eða getur hann öðlast jafnan eða meiri rétt en aðrir íbúar á tilteknum svæðum? Geta veigalitlir hagsmunir manna vegið þyngra mikilsháttar hagsmunum dýrategunda?

Í frumvarpi stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá er kveðið skýrt á um rétt náttúrunnar, virðingu og vernd hennar, rétt fólks á heilnæmu umhverfi og rétt komandi kynslóða til að njóta þess sem gegnar kynslóðir nutu (33. gr.). Öllum ber að virða náttúruna og vernda samkvæmt þessari grein, það verður beinlínis skylda okkar, því tryggja skal öllum rétt á óspilltri náttúru og bæta skal fyrri spjöll eftir föngum.

Náttúrunni verður þá veittur sjálfstæður réttur og vernd til mótvægis við mannmiðaðar hugmyndir um að fólk eigi rétt til náttúrunnar. Við segjumst gefa náttúrunni rétt en ef til vill mun rétturinn fremur opinberast okkur. Við uppgötvum ef til vill rétt náttúrunnar eftir að hafa sýnt henni vanvirðingu. Við uppgötvun þá að langtímahagsmunir dýrategunda geti vegið þyngra en skammtímahagsmunir ráðandi hagmunahópa manna.

III. Verkefnið framundan
Ef réttur náttúrunnar verður staðfestur í stjórnarskrá er verkefnið framundan væntanlega að rækta betur skyldur sínar gagnvart náttúrunni, efla virðinguna og leggja sitt af mörkum til að vernda hana gagnvart yfirþyrmandi athafnasemi einnar kynslóðar. Hlutverk okkar er m.a. að tryggja að þessi skylda verði næstu kynslóð í blóð borin. Réttur náttúrugersema eins og Lagarfljóts yrði þá tekinn alvarlega og veginn og metinn á sanngjarnan hátt. Til eru mælikvarðar sem vega og meta hlut náttúrufyrirbæra og dýra gagnvart hagsmunum mannsins, verkefnið er að temja sér að beita þeim.

Verkefnið framundan er að ræða ákvæði 33. greinar frumvarpsins, að taka dæmi af nýliðnum atburðum eins og Kárahnjúkavirkjun og ræða rétt náttúrunnar einnig gagnvart fyrirhuguðum breytingum.

Við skiljum vonandi að komandi kynslóðir hafi sama rétt á heilnæmu umhverfi, andrúmslofti og óspilltri náttúru eins og við. En getum við skilið rétt náttúrunnar gagnvart manninum, réttinn til að vera áfram fjölbreytt, búa yfir óbyggðum víðernum og gróðri og dýralífi í öræfum?

Getum við skilið rétt Lagarfljóts sem rennur að hluta til í byggð? Getum við virt hann? Hefjum umræðuna! Tölum ekki bara um hvort endurnýja eigi stjórnarskrá Íslands, tölum um hvað sú nýja eigi að kveða á um og tölum um hugtökin þangað til við skiljum hvað þau merkja.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Heimildir
Guðmundur Páll Ólafsson. 2003. Víðerni Snæfells.
Helgi Hallgrímsson. 2005. Lagarfljót – Mesta vatnsfall Íslands.
Unnur Birna Karlsdóttir. 2010. Þar sem fossarnir falla. Háskólaútgáfan.
Frumvarp til stjórnskipunarlaga. 2011.  www.stjornlagarad.is

Nægjusemi – nauðsynlegt skilyrði sjálfbærni

Hugtakið sjálfbærni er um þessar mundir eitt af þjóðgildum Íslendinga. Það er títtnefnt á fundum og er líklegt til að koma við sögu í næstu stjórnarskrá. Sjálfbærni gefur til kynna að rétt sé staðið að málum og af þeim sökum vilja ýmsir (mis)nota hugtakið, jafnt íhaldsmenn sem framfarasinnar. Svo rammt kveður á um misnotkun orðsins að það jafnast á við notkun á hugtakinu framför: sá sem ekki er með stórgerðum framkvæmdum er á móti framförum.

Hugtakið nægjusemi er hins vegar ekki eitt af þjóðgildunum og er sjaldan nefnt sem eftirsóknarverð íslensk dyggð. Fremur er hvatt til óbilandi bjartsýni og að takast á við lífið af (náttúrulegum) krafti, þrautseigju og dirfsku. Það teljst fremur óþjóðlegt að hugsa sig um, neita sér um og að velja eitthvað af kostgæfni. Hér verður leitast við að skýra hvers vegna nægjusemi er nauðsynlegt skilyrði sjálfbærrar þróunar.

I. Sjálfbær þróun
Breytingar eru ekki til hagsældar nema menn temji sér nægjusemi gagnvart umhverfinu. Markmið sjálfbærrar þróunar er hagsæld og jafnvægi milli mannlífs og umhverfis. Náttúran býður upp á gæði en auðlindir hennar eru sjaldnast óþrjótandi.

Lífið nemur ekki staðar, lífverur hafa áhrif til breytingar. Sjálfbær þróun er aðferð sem hefur það að markmiði að næstu kynslóðir eigi óskerta möguleika til að þroskast og dafna við svipuð skilyrði og fyrri kynslóðir.

Engin kynslóð getur skilað umhverfinu af sér eins og hún tók við því, líf merkir breytingar. Nægjusemi snýst ekki um að varðveita gamlagróna lífshætti og fátækt. Hún merkir ekki afturhvarf til fortíðar heldur kveður hún á um heillavænlega framtíð. Hún er aðferð til að nálgast gæði á sjálfbæran hátt. Hún stillir hug, lægir vitund og róar hjartað til að ná árangri. 

Viðhorfið snýst um mannlega viðleitni sem nýtir auðlindir á hófsaman hátt til að fullnægja þörfum samtímans og án þess að það bitni á næstu kynslóð. Markmiðið sjálfbærni er að möguleikar til búsetu og lífs séu ekki verri en áður, heldur betri ef eitthvað er.

Eyðilegging á svæði sem án sér engar eða fáar hliðstæður í veröldinni er ekki einkamál landeiganda, sveitafélags eða þjóðar heldur verknaður gagnvart öllum þjóðum. Ef, til að mynda, lífríki (Þingvalla)vatns er án hliðstæðu í heiminum ber okkur skylda til að beita allri okkar þekkingu og verkviti til að svo verði áfram og koma í veg fyrir verk heimskunnar.

II. Nægjusemi
Nægjusemi er lærð dyggð. Sjálfbærni er lærð aðferð. Nægjusemi er nauðsynlegt skilyrði sjálfbærrar þróunar. Sá sem vill efla sjálfbærni með þjóðinni, hefur mál sitt á því að kynna nægjusemi til sögunnar því hún er svarið við aga- og taumleysi sem skamm- og þröngsýni býður oft upp á. Nægjusemi er samvinnudyggð.

Nægjusemi er agi. Hún felst í því að virkja óbeislaðar langanir, hvatir og athafnasemi þar sem hugsunarleysi ræður för og ekki er spurt um afleiðingar. Sjálfbærni er af sama toga, hún er þróuð aðferð til að hemja gegndarlausa græðgi sem veldur eyðileggingu og dauða.

Ekki vantar auðlindirnar á Íslandi eða orkuna – aðeins siðvitið, þolinmæðina og hófstillinguna. Nægjusemi er dyggðin sem breytir fólki til betri vegar í umhverfismálum. Hún merkir ekki stöðnun eða afturför, heldur þvert á móti hagsæld.

Nægjusemi felst í því að velja úr öllu því sem stendur til boða og þeim löngunum sem menn vilja fullnægja. Hún hefst handa á því að fækka valkostum og sinnir síðan þeim vel sem valdir eru. Græðgin er andhverfan, hún er þess ekki umkomin að velja úr, hemur ekki langanir sínar og glatar loks öllu.

Samfélag verður ekki sjálfbært og framkoman við vistkerfið ekki heilbrigð og þróunin ekki vænleg fyrr en viðleitni mannanna verður hófstillt og tillitssöm og virðing  borin fyrir náttúrunni: lífríkinu og landslaginu. Þjóð sem getur tamið sig í góðæri og staðist freistingar er lofsverð og þjóð sem stenst freistingar um að selja undan sér á krepputímum vinnur afrek.

Einkenni þeirra sem vilja fara aðrar leiðir er að segja að ákvarðanir þurfi að taka skjótt, engan tíma megi missa því annars glatist ómetanlegt tækifæri. Nauðsynlegt sé að selja verðmæti Íslands umsvifalaust annars tapist milljarðar, því enginn vilji kaupa á morgun og fátækt blasi við. Áróðurinn styður sig við óttann og teflir honum stíft fram. Hrætt samfélag gæti því selt landið án þess að taka eftir því.

III. Nauðsynlegt skilyrði
Hugtakið sjálfbærni er oftlega misnotað af þeim sem engan áhuga eða skilning hafa á sjálfbæru samfélagi. Oft er það þannig að „andstæðingurinn“ tileinkar sér hugtökin til að eyðileggja þau. Fullyrt hefur verið til að mynda, að landshluti verði sjálfbær þegar fallvötn og jökulár hafa verið virkjuð og álver risið. Þá verði næg atvinna og fólk geti haldið áfram að búa á svæðinu. Það verði engum háð og því sjálfbært. Þarna er hugtakið einungis tengt við atvinnuskilyrði manna en ekki náttúru, lífríki eða mannlíf og efnahag í víðtækum skilningi. Þetta er ótæk notkun á hugtakinu.

Hvert svæði þarf að ræða út frá ýmsum rökum og gæðum, til að mynda búsetu, fegurð, siðfræði, hagfræði, lífræði, tilfinningum og ýmsum vísindum. Meta má svæði út frá undrun ferðamanna eða þeirri rósemd sem svæðið skapar og áhrif þess á heilsu. Nýting og sala á svæðinu gegn greiðslum er aðeins ein aðferð sem oft hefur í för með sér óafturkræf áhrif og tekur ekki mið af næstu kynslóðum. Hún er því ekki sjálfbær.

Sjálfbærni er aðferð þar sem að engu er óðslega farið. Hún er ekki óútreiknanleg, djörf, agalaus eða harkaleg, heldur mild, hæg og vinaleg í samskiptum við aðrar þjóðir, lífverur og umhverfið. Staðir, þar sem aðferðinni er beitt, leggjast ekki í auðn, heldur þróast þeir með íbúum sínum í sátt við vistkerfið. Sjálfbærni krefst samvinnu milli þeirra sem hlut eiga að máli, hún spyr um hlutskipti mannsins út frá fortíð og framtíð en ekki aðeins nútíð.

Sérkenni nægjusemi og sjálfbærni eru agi, varkárni og val byggt á ígrundun og gögnum. Einkenni þeirra er yfirsýn, þverfagleg nálgun, fjöldi sjónarhorna og samráð við hagsmunaaðila. Kostir nægjusemi og sjálfbærni er að í þeim felst taumhald og mildi. Þau draga úr hraða og líkum á mistökum og heimsku.

Nægjusemi og sjálfbærni eru skjaldbakan sem kemst þótt hægt fari. Sá sem kann sér ekki hóf er horfinn af sjónarsviðinu þegar hinn hófsami telur sig reiðubúinn til að stíga fram og láta að sér kveða. Annar er uppbrunninn, útrunninn, gufaður upp, sprunginn blaðra. Hann var illa undirbúinn og gráðugur. Hinn kemur í mark,  þó ekki undir lófaklappi, því hann ætlaði engan að sigra.

www.thjodgildin.is

Ljósmyndari með hugsjón

Ég fór á opnun sýningar Ragnars Axelssonar ljósmyndara í Gerðarsafni í Kópavogi (30.10.10), en þar gefur að líta magnþrungnar myndir í þremur sölum. Þar eru meðal annars sýndar myndir úr bókinni Veiðimenn norðursins (Crymogea 2010). RAXI hefur skrásett lífið í veiðimannasamfélögum Grænlands og Norður-Kanada frá því um miðjan níunda áratuginn með lofsverðum árangri sem hefur vakið athygli víða um heim og veitt honum margvíslegar viðurkenningar.

Viðfangsefni RAXA vekur fólk til umhugsunar um loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar. Hann hefur sjálfur upplifað hlýnun jarðar á þessum slóðum og fylgst með ísnum þynnast. Örlög frumbyggjanna, inúítanna, ráðast nú af mörgum þáttum. Stórveldin hafa gert tilkall til námuréttinda og olíuvinnslu, hugað er að skipaleiðum og öðrum gróða en minna hugsað um menn og dýr sem lifa á svæðinu.

Í fróðlegum texta Mark Nuttall í bókinni segir að nú sé svo komið að svæðin í kringum norðurpólinn séu ekki lengur útjaðrar. þau eru viðfangsefni átaka á svið stjórnmála og efnahags og eru miðdepill rannsókna á framtíð jarðar. Ég tel að almennir borgarar geti einnig látið sig þessi mál varða, kynnt sér þau og tekið þátt í ákvörðunum sem þau varða. En hvaða gildi koma við sögu?

Lífshættir á þessum norðlægu slóðum, menning, saga, náttúra og dýralíf þarfnast virðingu okkar og við getum gert að minnsta kosti tvennt til að leggja þeim lið en sú viðleitni kristallast í gildunum virðing og sjálfbærni sem eru meðal þeirra gilda sem þjóðin valdi á Þjóðfundinum 2009 og bókin Þjóðgildin fjallar um.

Virðing felur í sér væntumþykju gagnvart öðrum og er svarið við fordómum. Hún felst í því að heiðra sambandi milli sín og annarra og veita umhverfinu stöðu í hjarta sínu. Ég held að bók RAXA hjálpi okkur til að virða náttúru norðursins og íbúana. Ekki aðeins í orði heldur einnig á borði. RAXI er ekki aðeins ljósmyndari heldur ljósmyndari með hugsjón um betra samfélag og betri heim.

Sjálfbærni felst í líferni sem hugar að umhverfi, mannlífi og efnahag og mælikvarði þess er nægjusemi. Sjálfbærni er aðferð sem felur í sér virðingu fyrir náttúrunni og komandi kynslóðum. Íbúar norðursins, sem sagt er frá í bókinni, hafa ekki ofnýtt gæði jarðar og ekki tekið frá næstu kynslóðum heldur lifað í góðu jafnvægi við náttúruna og dýrin.

Við höldum oftast að aðrir eigi að læra af okkur Vesturlandabúum, en málið er að við getum meðal annars lært af inúítum, til að mynda virðingu. Það virðist ríkja gagnkvæm virðing milli veiðimannanna og dýranna sem RAXI myndaði og á einu stað stendur í bókinni: Sé dýrunum ekki sýnd virðing … leyfa þau ekki veiðimanninum að veiða sig.

Nú hefur jafnvæginu á norðurslóðum verið raskað og eina leiðin fyrir íbúa Vesturlanda til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga er að tileinka sér sjálfbært og nægjusamt líferni í stað þess að seilast í auðlindir annarra til að geta áfram lifað kostnaðarsömu líferni.

Sjálfbært samfélag er nafn yfir samfélag sem er vinsamlegt gagnvart lífinu og náttúrunni. Það tekur ekki einungis mið af tímabundnum og ofmetnum þörfum sínum heldur af öðrum lífverum, vistkerfinu. Það samþættir efnahag, umhverfi og félagslega þætti. Við getum lært ýmsa þætti sjálfbærni af samfélagi inúíta.

Ég hvet ykkur til að fara á sýninguna í Gerðarsafni og kynna ykkur efni bókarinnar Veiðimenn norðursins. Auk þess að innihalda óviðjafnanlegar ljósmyndir hvetur efnið fólk til að kanna hvað það geti gert til að draga úr líkum á endalokum samfélags inúíta.

Í hnotskurn: Ljósmyndari með hugsjón vekur okkur til djúprar umhugsunar með óviðjafnanlegum myndum sem kenna okkur að bera virðingu fyrir mannlífi og náttúru.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is