Flokkaskipt greinasafn: Jafnrétti

Feðraveldið í heimspekikaffi

Heimspeki

Ég er femínisti, ég er karlmaður, ég er karlfemínisti. Hvaða máli skiptir það? Engu. Hvað er svona merkilegt við það? Ekkert. Hver einstaklingur getur verið lýðræðissinni, friðarsinni, jafnréttissinni, náttúruverndarsinni og hvaðeina annað og kosið, valið og mótmælt án þess að kynið komi fram.

Þetta merkir þó ekki að kyn skipti engu máli. Kyn er eldfim pólitísk breyta og viðbrögð geta ráðist af því hvort um karl eða konu er að ræða í hverju tilviki. Það er því í góðu í lagi að spyrja „Hvernig bregst feðraveldið við karlfemínistum?“ Það er áhugavert sem athugun í félagsvísindum.

Arfur kynslóðanna

Feðraveldi er víðtækt hugtak sem merkir almenna karllæga drottnum í samfélaginu. Arfur kynslóðanna og vald gengur frá föður til sonar, frá körlum til karla. Andstætt kerfi væri þá mæðraveldi þar sem opinbert vald flyst á milli frá móður til dóttur.

Útvaldir karlar tóku sér fyrr á öldum allt opinbert vald og lögðu undir sig allar stofnanir sem þeir höfðu áhuga á. Þeir lögðu hald á og eignuðu sér hluti, halda í valdatauma og voru allsráðandi á þingum, í ráðum, nefndum og í sérhverjum hópi þar sem eignir, þýðingarmiklar ákvarðanir og peningar koma við sögu. Valdahefðin er þéttskipað körlum. Þetta þýddi óhjákvæmilega einnig undirskipun og kúgun kvenna.

Forræðishyggja aðal-karlanna  á sér rætur í feðraveldinu og birtist hún reglulega í samfélagi nútímans, til dæmis nú á haustmánuðum við skipun dómara í Hæstarétt Íslands. Dómnefnd sem mat hæfni umsækjenda var skipuð fimm karlmönnum en engri konu. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að einn karlinn sem sótti um væri hæfastur af þeim, þótt mjög hæf kona væri reiðubúin til að gegna starfinu. Nú eru því níu karlar sem skipa Hæstarétt Íslands og ein kona. Þetta er dæmi um birtingarmynd feðraveldis. Efnisleg rök feðraveldisins og viðmið hníga að því að skipa karl í slíka stöðu. Jafnréttissinnar spyrja aftur á móti „Er ekki allt í lagi?“

Feðraveldið hyglar völdum körlum, veitir þeim háar stöður og laun og viðurkenningar á allan hátt. Þetta er kerfi kúgunar sem kemur í veg fyrir jafnrétti kynjanna jafnvel þótt réttlát jafnréttislög hafi verið sett í landinu. Karlar sköpuðu þetta valdakerfi, það er karllægt og sumum körlunum finnst það enn réttlátt og yfir allan vafa hafinn. Karlar eru samkvæmt þessu einfaldlega miklu oftar hæfari en konur til að gegna valdstöðum, en þó aðeins sumir karlar. Alls ekki allir karlar, þeir þurfa að standast ákveðna mælikvarða feðraveldisins,  lúta tilteknum reglum og hafna kvenlægum gildum.

Hugtakið „feðraveldi“ er vissulega víðtækt og vandasamt í meðförum en það merkir safn hefða og venja, laga og reglugerða sem standa vörð um vald karla og útilokar og undirskipar í sama mund konur og kvenlæga karla. Hugtakið merkir í sinni einföldustu mynd félagslegt kerfi þar sem konur eða hið kvenlæga er undirskipað.

Feðraveldið hefur orðið fyrir töluverðri gagnrýni á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og hefur hopað á fæti undan geirvörtum kvenna og margskonar þöggun á kvennakúgun og -ofbeldi í samfélaginu. Kvenfemínistar eru greinilega í fararbroddi byltinganna sem nú eru háðar. Brjóstabyltingunni eða #FreeTheNipple var meðal annars beint gegn feðraveldinu og flugu setningar um netið og fjölmiðla, til dæmis sagði Björt Ólafsdóttir þingmaður þegar hún tók þátt í #FreeTheNipple : „Þessi er hérna til að gefa börnum að borða. Troðiði því upp í feðraveldið á ykkur“.

Spurt er „Hvers vegna geta karlar gengið um berir að ofan í opinberu rými en konur ekki?“ Forréttindi karla í samfélaginu eru oft talin sjálfsögð og hegðun þeirra og viðhorf ekkert til að gera veður út af. Þá er aðgengi þeirra að völdum og stöðum betri en kvenna.  Spyrja má „Er lýðræði á Íslandi eða aðeins karlræði?“

Heimspekikaffi 18. nóvember kl. 20

Það er áhugavert að víkja að karlfemínistum í þessu samhengi. Hvernig tekur „feðraveldið“ viðleitni karlfemínista til að breyta samfélaginu? Hvernig gengur körlum að beita femíniskum viðmiðum til að breyta viðhorfum og brjóta niður kynjað valdakerfi ?

Kvenlæg og karllæg gildi og nýjar og breyttar karlmennskur verða til umræðu í heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 18. nóvember kl. 20.00. Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur pælir í feðraveldinu og Hjálmar Sigmarsson kynja- og mannfræðingur fjallar um reynslu ungra karlmanna sem að hafa tileinkað sér femínisma.

Velkomin, konur og karlar.

Tengill

Viðburðurinn Karlfemínistar í feðraveldi

Deila

Ertu svart- eða bjartsýnismanneskja?

12_vef_feb_heimspeki_visit

Allir ganga til augnlæknis en hvert fer sá sem hefur engar hugsjónir? Það er alls ekki nóg að sjá með augunum það sem fyrir ber eða að trúa aðeins því sem sést. Sjón heilans (augans) er aðeins hálfur heimur. Sjón hugans er heill heimur. Augu geta verið skörp en án hugsjónar taka þau ekki eftir voninni sem liggur á milli hluta, á milli lína.

Hugsjón hvílir ekki aðeins á ytri upplýsingum heldur innri sýn mannsins. Sterkar hugsjónir hvíla á máttarstólpum staðreynda og kærleika eða vonar. Hugsjón sem tekur ekki mið af aðstæðum er lík helíumgasblöðru sem barn sleppir út í bláinn. Hún er strangt til tekið ekki hugsjón heldur hugdetta.

Hugsjón er bjartsýn afstaða til mannlífs og samfélag. Hún er jákvæð og brýst úr viðjum vanans. Baráttufólk er knúið áfram af hugsjón sem lyftir sér yfir eiginhagsmuni og lendir í mannhafinu. Fyrir 50 árum flutti draumóramaðurinn Martin Luther King Jr eina af áhrifamestu ræðum sem fluttar hafa verið í Bandaríkjunum Ég á mér draum „I have a dream that one day …“.  Hann var bjartsýnn á að tími réttlætis og mannréttinda rynni upp. Hann vildi leggja sitt af mörkum því hann sá annað samfélag en það sem ríkti. Hann bjó við innri sýn.

SVARTSÝNI/BJARTSÝNI

Svartsýnisfólk býst ekki við að hlutirnir breytist, það býst við því sama áfram, það trúir ekki á frið ef það er stríð. Það gerir þó ráð fyrir vopnahléum á meðan mæðinni er kastað. Svartsýnisfólk er ekki hugsjónafólk, það trúir aðeins því sem það sér og hefur ekki innri sýn. Það býst ekki við að annað fólk batni eða hagi sér vel nema þá vegna óttans um refsingu eða von um umbun. Svartsýnisfólk segist sjálft vera raunsæisfólk.

Svartsýnisfólk gerir oft ráð fyrir að sjálfselska ráði ríkjum í fari annarra og að eigin hagsmunir stjórni gjörðum þess. Það sé ævinlega hagnaðarvonin og að hver muni skara eld að eigin köku hvernig sem reynt sé að koma í veg fyrir það. Augu þess sjá þetta svona en augun sjá ekki alla myndina, aðeins það sem virðist vera.

Bjartsýnisfólk gerir aftur á móti ráð fyrir að allt muni batna með tímanum. Spyrji maður: „Hvað segir þú í dag?“ Svarar það: „Allt gott, verður maður ekki að vera bjartsýnn?“ Bjartsýni er von hugans um betri tíð. Hugsjón er því sýn hugans á betri heim.

Hugsjónin er dýrmæt eign því hún er meiri en einstaklingurinn. Hún er andstæða sjálfselskunnar og eiginhagsmuna, hún felur í sér velferð annarra, umhyggju fyrir hóp, náttúru og öðru lífi. Hún varðar aðra.

Svartsýni og bjartsýni takast allsstaðar á. Hin svartsýnu trúa ekki og vona ekki, þau vinna verkin því það þarf að vinna þau. Hin bjartsýnu geta aftur á móti byrjað á verkum sem er á skjön við allt raunsæi og það undarlega er að stundum heppnast þau þótt allt mæli gegn því.

Ertu svartsýn eða bjartsýn manneskja?

Á heimspekikaffihúsi í Gerðubergi miðvikudaginn 18. september 2013 klukkan 20.00 efna Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Áshildur Linnet mannréttindafræðingur til lifandi umræðu með gestum um hugsjónir í lífi og starfi, m.a. um spurningarnar:

„Hvaða gildi hafa hugsjónir? Geta þær breytt einstaklingum, þjóðum og jafnvel heiminum til betri vegar? Hvernig ber að rækta hugsjónir? Hvernig verður hugsjónafólk til? Sýna hugsjónir innri mann? Er hægt að kenna hugsjónir?“

Áshildur Linnet er mannréttindafræðingur og framkvæmdastjóri hjá Rauða krossinum í Hafnarfirði. Hún hefur unnið með hugsjónadrifnum sjálfboðaliðum í mannúðarstarfi í yfir áratug. Allir eru velkomnir, gott kaffi og góð kvöldstund í boði menningarmiðstöðvarinnar í Gerðubergi í Breiðholti.

Tengill

13_dagskra_haust_gbbordi2

 

MANNRÉTTINDI Í HNOTSKURN

RegnbogiHugtakið mannréttindi hefur tvær stefnur, annars vegar að forðast og hins vegar að sækjast eftir. Mannréttindi verða ekki öflug nema með linnulausum lærdómi og reynslu. Mannréttindi virðast ekki vera eðlisleg viðbrögð heldur fremur margar lærðar dyggðir.

1. Mannréttindi er að læra að forðast illsku, kúgun og ofbeldi og temja sér að vinna gegn þessari grimmd hvenær og hvar sem er með aðferðum sem skapa ekki enn meira ofbeldi heldur draga úr því eða með friðarmenningu.

2. Mannréttindi felast í kærleika sem felst í hjartahlýju gagnvart náunganum, samlíðun með öðrum og lönguninni til að gera líf annarra bærilegt. Flestöllum finnst auðvelt að unna sínum nánustu en kærleikurinn þýðir elsku og virðingu á milli ólíkra hópa. Að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og vera viljugur til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra – það er kærleikur sem veitir jafnframt vernd gegn ofbeldi. Kærleikurinn brýtur reglur til að rétta náunganum hjálparhönd.

Mannréttindi virða engin landamæri, stöður, ríkidæmi né neitt annað sem notað er til að draga línur á milli einstaklinga eða hópa. Auðvelt er að bera kennsl á mannréttindi, þau styðja ævinlega lífið og vinna gegn allri kúgun, eyðileggingu og dauða.

Gunnar Hersveinn/ lifsgildin.is 

Á hinsegin dögum 10. ágúst 2013

Tíðarandar takast á

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október var meiriháttar áfangi. Gamli tíðarandinn situr eftir í skotgröfunum, „feigur og farinn á taugum“ og ný tíð svífur yfir vötnum.

Íslensk þjóð gat tjáð sig eftir hrunið um hvað hún vildi og hvert hún ætlaði að fara og sú viska birtist í þjóðfundunum 2009 og 2010. Hún kom sér saman um nokkur þjóðgildi: ábyrgð, heiðarleika, frelsi, virðingu, réttlæti, lýðræði, jöfnuð, jafnrétti, sjálfbærni, mannréttindi, fjölskyldugildi, kærleika og traust.

Verkefnið var að sameinast um þjóðgildi, ekki að velja lið, hægri eða vinstri, heldur rækta og efla grunngildi sem voru vanrækt.

Gamli tíðarandinn varð firringunni að bráð. Hann glataði samábyrgð sinni, missti tök á sjálfsaganum og geystist hátt í loft upp og féll til jarðar. Núna er hann „knýttur og kalinn“.*

Hann er þó ekki alveg „brotinn og búinn“ og mun enn gera tilraunir til reisa tálma og torvelda för með úrtölum og bölmóði. Næsta verkefni hjá öðrum er því bæði að greiða leið og verjast fúkyrðunum.

Ósk og þrá þjóðarinnar býr í gildunum sem valin voru á þjóðfundunum og sem unnið hefur verið úr síðan: að móta samfélag sem byggir á jöfnuði, réttlæti og virðingu, frelsi og samábyrgð.

Verkefninu er ekki lokið, sennilega mun lokaáfanginn taka mest á. Ef til vill var þetta aðeins ágætis æfing.

Gunnar Hersveinn

*tilvitun í Megas: Gamli sorrí gráni.

Ný tíð – hvernig er hún?

Magnþrungið – það er magnþrungið að gamla tíðarandanum hefur ekki enn tekist að stöðva viðleitni almennings til að fá að taka þátt í því að semja nýja stjórnarskrá! Tálmar hafa verið reistir, gryfjur grafnar, hindranir strengdar, fótakefli og fyrirstöður, torfæri og torveldi …20. október 2012: kosningar.

Endrum og eins er líkt og íslensk þjóð ætli sér að gera eitthvað nýtt og óvænt: velja 37 ára gamla konu sem forseta eða taka sjálf að sér að semja nýja stjórnarskrá með þjóðfundi og stjórnlagaráði. Erlendir fréttamenn fylgjast spenntir með …

… síðan verður úrtölufólkið hrætt og telur kjarkinn úr þjóðinni.

Framtíðarsýnin verður þessi: stytta reist af gamla forsetanum með gömlu stjórnarskrána við hjartastað!

Nýi tíðarandinn getur þó enn orðið ríkjandi!

Ný tíð – hvernig er hún? Hún kýs rökræður og gagnrýna hugsun fremur er karp og þrjóskuhausa. Hún velur gildi fremur en stjórnmálastefnur og hvetur fólk til að sameinist um valin þjóðgildi og setja sér markmið út frá þeim í stað þess að karpa til vinstri og hægri út frá misgóðum hagfræði-, og stjórnmálakenningum.

Látum ekki telja okkur trú um að það séu önnur en við sem höfum völdin og ráðin til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir. Þjóðfundurinn 2010 bað um jafnrétti, lýðræði, réttlæti, frelsi, heiðarleika, virðingu, ábyrgð og mannréttindi.

Gamla valdið stendur taugaveiklað á tánum, gagnslaust og gisið.

Í dag, 20. október, stígum við fram eða aftur. Það er magnþrungið hvað gamla tíðarandanum gengur illa að kveðja niður hinn nýja. Það er einnig magnþrungið hvað sá gamli tórir lengi og hvað hinum nýja gengur seint að verða ríkjandi.

Gunnar Hersveinn

Hættulegar skoðanir undanfari ofbeldis

Andvaraleysi gagnvart hættulegum skoðunum hefur kostað mannkynið ómældar þjáningar og dauða um aldir. Getum við lært af reynslunni og risið linnulaust upp til að kveða niður mannfyrirlitningu og kúgun sem greina má í hættulegum skoðunum?

I. Skoðanir
Samábyrgð er dyggð sem þarf að efla og rækta á Íslandi í samhengi við skoðanir. Allir skulu frjálsir skoðana sinna og því að láta þær í ljós – en hverjum réttindum fylgja mörk.

Iðulega koma fram einstaklingar og hópar sem fara yfir mörkin og hvetja til ofsókna.

Þeir segjast standa vörð um sannleikann og vilja ekki svara til saka. Þeir vísa allri ábyrgð á bug og verða jafnvel vinsælir í völdum fjölmiðlum fyrir öfgafullar skoðanir sínar sem fela í sér leynda og ljósa mismunun.

Skoðun fylgir full ábyrgð. Skoðanir geta verið réttar og rangar, góðar eða slæmar, líklegar og ólíklegar, niðurlægjandi og uppbyggjandi, úreltar og nýstárlegar, saklausar og hættulegar. Við virðum rétt fólks til að tjá skoðanir sínar en ekki gagnrýnislaust hverja skoðun fyrir sig. Slíkt flokkast undir heimsku. Ef skoðun felur í sér ofríki, kúgun og ofbeldi þá er skylda að mæla gegn henni.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna geymir þau viðmið sem við höfum sett okkur og samþykkt, þau eru mörkin sem við förum ekki yfir. Skoðun sem felur í sér mismunun milli stétta, kynja, borgara eftir mælikvörðum eins og búsetu, þjóðerni, kynferði, litarhætti, trúar, tungu eða hverju öðru sem ætlað er til aðskilnaðar er röng því hún felur í sér kúgun, þjáningu og dauða.

Við eigum ekki að temja okkur umburðarlyndi gagnvart hættulegum skoðunum sem fela m.a. í sér aðskilnað og valdamismunun. Ekki í nafni frelsis, hugrekkis eða neinu öðru grunngildi mannlífsins. Við eigum ekki að gefa skoðunum sem eru undanfarar ofbeldis svigrúm til að dafna í skúmaskotum hugans. Fyrr eða síðar myndast um þær hættulegur aðdáendahópur.

Skoðun sem ætluð er til kúgunar einkennist af því að hún leitast við að svipta tiltekinn hóp manngildi, virðingu og stöðu. Þetta hafa Afríkubúar þurft að þola, Kúrdar gyðingar, indíánar, konur, samkynhneigðir, börn, svo örfá dæmi séu nefnd.

Margskonar lúmskar aðferðir eru til sem hafa það markmið að koma í veg fyrir jafnrétti og jafngildi manna. Ef við lærum að greina þær og höfum hugrekki til að standa gegn þeim komum við um leið í veg fyrir þjáningu þeirra sem andróðurinn beinist gegn. Það er verðugt markmið.

II. Fjölmiðlar
Ábyrgð fylgir því að skrifa í fjölmiðil, reka fjölmiðil, eiga fjölmiðil og ritstýra, því fjölmiðill miðlar ekki aðeins heimsmynd, tíðaranda og skoðunum heldur tekur hann einnig þátt í að móta viðhorf í hverjum málaflokki, og ekki aðeins það, heldur hefur hann einnig áhrif á umræður, daglegt líf og flest allt sem mannréttindi varðar. meðal annars: jafnrétti kynjanna.

Hvað er skrifað og birt, hvað ekki, hvert er sjónarhornið? Er það ígrundað með fyrirvörum eða er það galgopalegt með dulið markmið? Er aðferðin gagnrýnin hugsun eða mælskulist, fagleg eða ófagleg? Eru hagsmunir almennings í húfi eða hagsmunir fyrirtækis eða einstaklings?

Leikinn blaðamaður hefur vald og af þeim sökum skiptir öllu máli að hann hafi hugsjón um betra samfélag en sé ekki skeytingarlaus og sama um aðra. Ritstjóri hefur enn meira vald og má því alls ekki vera háður öðru en hagsmunum almennings og samfélags.

Ytri þrýstingur hagsmunaaðila, stjórnmálaflokka og auðmanna hefur ævinlega fylgt fjölmiðlum og starfsfólk þeirra lærir að takast á við tilraunir til stjórn- og íhlutunarsemi þeirra. Þetta starfsfólk þarf á öflugu aðhaldi notenda að halda til að öðlast kraft til að standast þrýstinginn frá óviðkomandi.

III. Aldrei aftur
Það er mikilvægt að gera greinarmun á persónu og því sem hún gerir og segir. Það er heillavænleg aðferð að beina kastljósinu að meininu sjálfu en ekki einhverju öðru. Við berjumst síðan hiklaust gegn uppsprettu mismununar og þeim skilyrðum sem skapa ofbeldi og viðhalda því. Það er þáttur í forvörnum gegn ofbeldi.

Hættulegar skoðanir sem kveða á um mismunun eða ofbeldi gegn konum eru ekki smekksatriði hvers og eins til að skemmta öðrum, níða eða öðlast vinsældir viðhlæjenda. Þær eru ekki aðeins brot á óskráðum siðareglum heldur brot á mannréttindum samkvæmt Sameinuðu þjóðunum, stjórnarskrá Íslands og lögum og reglum. Þetta er ekkert grín.

Upphefð, vald, staða og ríkidæmi sem hvílir á sárauka annarra er einskis virði.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Ábyrgð annarra en kennara

Efla þarf kennslu í gagnrýnni hugsun, siðfræði og kynjafræði  – en það dugar skammt ef enginn tekur ábyrgð nema kennarar og foreldrar. Bankahrun og Alþingi samþykkir í kjölfarið kennslu í heimspeki. Hrun öfgakarlmennsku og við viljum kenna kynjafræði í skólum. Einn kennari getur ekki bjargað heiminum.

Áhrifaríkir hópar innan viðskiptalífs, fjölmiðla og stjórnmála gera oftast ekki ráð fyrir því að þurfa að svara fyrir ákvarðanir sínar. Þeir styðja ekki það sem fram fer í skólastofunni og þegar eitthvað hrynur bregðast þeir við með réttlætingum og gagnárásum – eða með því að segja að efla þurfi kennslu í gagnrýnni hugsun.

Samábyrgð liggur hjá fjölmiðlum. Ritstjóri sem velur ævinlega karla til að gegna yfirmannastörfum og felur konum önnur viðfangsefni en körlum hefur óbein áhrif á jafnréttisbaráttuna í landinu. Fjölmiðlar sem segja aðeins hálfa söguna eru hættulegir lýðræðinu. Fjölmiðlar sem hampa heimskunni vegna vinsælda eru hættulegir. Þetta er ekki léttvægt, allt hefur þetta áhrif. Það er sama hversu oft og lengi kennari fræðir ungmennin, það er oftast fyrir bí, ef fjölmiðlar og fyrirmyndir hrópa eitthvað annað.

Fjölmiðlar eru meðal áhrifaþátta á heimilum og skólum, en stundum heyrist fjölmiðlamaður þó segja þegar hann er spurður um ábyrgð sína: „Ég segi einungis frá því sem gerist“ og „Ég læt fólk fá það sem það vill.“ Líkt og hann sé auðmjúkur þjónn sem semur efni eftir vilja annarra. Hann talar ef til vill aðeins við þá sem valda flytja áróður, valda usla og hneykslun og býst svo við að ábyrgðin liggi öll og alltaf hjá móttakandanum.

Þegar eitthvað hrynur er iðulega knúið á skólastofnanir um að kenna meira um sammannleg gildi. Í skólum á að efla siðferðiskennd og samskiptahæfni og örva samfélagsvitund eða mennta vitræna þegna sem hafa hæfileika til að setja sig í spor annarra og finna til með öðrum. Ætlast er til að í skólum læri börn að taka þátt í umræðum um fordóma, erfiðleika í samskiptum, einelti, samskipti kynjanna, fjölmenningu, siðferðileg álitamál og um lýðræði, svo brot sé nefnt. En spyrja má: hvar er ytri stuðningurinn við það starf að kenna um manngildi?

Það er ekki nóg að búa til námskeið í grunnskóla eða framhaldsskóla, við þurfum einnig að standa með efninu og kennaranum, fylgja því eftir og gera kröfur til annarra, til viðskiptalífs, fjölmiðla og stjórnmálamanna. Hættum að leyfa fólki að firra sig sjálft ábyrgð.

Algengasta klisjan er að fjölmiðlar endurspegli samfélagið en í henni felst afsökun eða réttlæting til að taka ekki ábyrgð. Betra er að segja að fjölmiðlar taki þátt í mótun samfélagsins, mótun skoðana og hegðunar. Fjölmiðill tekur einfaldlega undir fjandsamleg viðhorf til kynjanna með því að velja blaðamenna eða þáttastjórnendur sem hvetja til ofbeldis og kúgun kvenna. Hann getur ekki firrt sig ábyrgð, þvert á móti verður hann samábyrgur. Hversu oft þarf að minna á þetta?

Hvernig getur einn kennari bjargað málunum ef markaðurinn, fjölmiðlar, viðskiptalíf og stofnanir vinna ekki með honum? Hvar er þá stuðningurinn? Hverjir aðrir en kennarar ætla að styðja foreldra til að ala upp sterka þegna í lýðræðisþjóðfélagi? Við skulum ekki telja okkur trú um að öllu séu bjargað með því að kenna heimspeki og kynjafræði í skólum. Það er nauðsynlegur grunnþáttur – en aðrir eiga að taka ábyrgð líka. Gerum þá kröfu!

Fjölmiðlar ættu með öðrum orðum að taka meiri þátt í því að fjalla um sammannleg gildi og hafa þau sem mælikvarða á ákvarðanir um efnisval. Fjölmiðill sem kýs að taka ábyrgð, reynir að forðast að falla í gryfjur hættulegra fordóma um til dæmis kynin og trúarbrögð. Hann lætur ekki mata sig á því sem aðrir vilja selja og byggist á kúgun annarra. Fjölmiðill má ekki selja notendur sína með von um vinsældir þeirra og hann ræður ekki fólk til starfa sem haldið er mannfyrirlitningu eða er sama um allt og alla. Er það ekki augljóst?

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Von er vald

Nawal el Saadawi er gestur Bókmenntahátíðar 2011 og RIKK*, fædd í Egyptalandi 1931, rithöfundur og baráttukona fyrir mannréttindum. Hún talaði í Norræna húsinu 8. september tæpitungulaust og knúði hlustendur til að endurskoða hug sinn og hugsa sjálfstætt..

Saadawai sagði ekki það sem hér fer á eftir og ég hef skrifað, heldur hugsaði ég það um leið og hún talaði og túlkaði um leið og ég skrifaði. Hún gæti ef til vill tekið undir það – en hún er kona sköpunarinnar og yrði ánægð með að sjá viðbætur fremur en að höfundinum hafi tekist að hafa allt rétt eftir henni.

Sá sem gagnrýnislaust lærir það sem læra skal og ekkert meir, verður aldrei ógnandi, heldur draumaborgari ríkjandi yfirvalda. Utanbókarlærdómur og endalausar tilvísanir í það sem áður hefur verið sagt, er vissulega vitnisburður um færni – en engum til gagns nema kerfinu sjálfu. Sá sem hins vegar getur skapað úr umhverfi sínu og heimildum umbyltandi hugmyndir er hættuleg manneskja í augum valdsins, þess vegna eru einræðisherrar iðulega hræddir við baráttukonur og -karla.

Við hlustum á það sem heyrist en ef við trúum að það sé allur heimurinn, en það er ekki rétt, heldur aðeins mannleg leti eða hræðsla. Skipting, flokkun og sundurgreining er oft gerð til að raða í valdapýramídann. Guð, karlinn í hans mynd og konan honum undirgefin. Móðir Forn-egypsku gyðjunnar Ísis réði yfir himninum og faðir hennar yfir jörðinni. Hið kvenlæga var því himinn og hið karllæga jörðin. Þessu var aftur á móti snúið við í þeim trúarbrögðum sem ríkja um þessar mundir: karlinn yfir og konan undir.

Verkefnið er þó ekki að snúa þessu aftur við heldur að skapa jafnvægi. Við viljum réttlæti, kærleika, frelsi og jafnvægi kynjanna en ekki áframhaldandi kúgun. Ekki verður þó litið fram hjá því að konunni var refsað. Evu var refsað harkalega í aldingarðinum fyrir að eta af tré þekkingarinnar og konunni sem hún táknar hefur ævinlega verið refsað síðan fyrir að ögra feðraveldinu með þekkingu sinni og sköpunarkrafti.

Sköpunargáfan sprettur af hinu kvenlæga, hún hvílir á löngun til þekkingar og ekki aðeins það, heldur hvöt til að bæta við, tengja og setja í samhengi. Hún ögrar valdinu og sameinar kúgaða. Sönn þekking og sköpunargáfa eiga samleið. Sköpunin afruglar kerfisbundna þekkingu sem hefur staðnað innra með okkur og við lærðum í skóla og hún býr til nýjar brýr á milli þess sem forðum var skilið að.

Ef við skiptum okkur og heiminum í efni, sál og anda þá missum við sjónar á einingunni á milli þeirra. Þau eru eitt þótt hægt sé að tala um þau til hagræðis í þrennu lagi. Sá sem tekur skiptinguna of bókstaflega villist af leið og skapar sundrungu vegna misskilning. Sköpunargáfan tengir á milli, hún flæðir á milli, hún er farvegur frelsis, kærleika og mannréttinda, þess vegna er einræðisherrum illa við hana. Í fangelsum einræðisherranna geta allir fengið blað og blýant nema rithöfundar sem geta skapað hugmyndir.

Ekkert er, allt er markmið. Lýðræði er ekki, það er markmið. Vonin drífur okkur áfram. Vonin er vald okkar. Vonin er orka sem knýr okkur umsvifalaust hálfa leið í mark. Saadwai gafst aldrei upp, þess vegna hefur hún skrifað 50 bækur, sætt ofsóknum og setið í fangelsi og þess vegna stóð hún á Tahir torgi fyrr á þessu ári þar til Mubarak hopaði á fæti. Höfuð valdsins er horfið en nú berjumst við við líkamann, sagði Saadawi.

Í bók minni Þjóðgildin (2010) vitnaði ég í Nawal el Saadawi, þar stendur: Skilgreiningum og flokkun er oft beitt til að öðlast völd en í raun eru þetta mannasetningar. „Góðan daginn, ég er rithöfundur frá Mið-Austurlöndum,“ sagði Nawal el Saadawi á málþingi [WALTIC 2008] og hélt svo áfram: „Hvað eru Mið-Austurlönd? Um hvaða miðju er að ræða og hvaða máli skiptir þessi flokkun? Réttlæti og jöfnuður fara ekki eftir mörkum landa. Við búum í einum heimi. Hvar er þessi þriðji heimur sem er skilgreindur handa svokölluðum (van)þróunarlöndum og hvernig eiga íbúarnir og komast út úr þessum flokki?“ Saadawai sagðist líka hafa verið flokkuð sem eftir-nýlendu-afrískur höfundur í stað þess að fá að vera rithöfundur. „Ég er fædd í Egyptalandi en hvar er mitt heimaland? Ég er heima og í essinu mínu þegar ég er með fólki sem trúir á jafnrétti og réttlæti,“ sagði hún og að án skapandi orða gætum við ekki breytt samfélaginu. Orðin voru hennar heimaland. (bls. 110).

Hér hafa aðeins brotabrot af visku Nawal el Saadawi verið túlkuð.

*Nawal El Saadawi hélt fyrirlestur í Norræna húsinu á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) og  Bókmenntahátíðar í Reykjavík um sköpunarmátt, andóf og konur.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum

Jafnréttisáætlun eða –bylting?

Hér er fjallað um jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fjögurra ára en hún liggur nú fyrir Alþingi í formi þingsályktunar. Ef til vill verður hún síðasta áætlunin áður en byltingin verður? Næsta verkefni felst væntanlega í því að brjóta niður valdakerfið og vinnumenninguna sem reist eru á karllægum viðmiðum.

I. Fræðsla gegn misrétti
„Meiri fræðsla, fræðsla, fræðsla,“ er oft svarið þegar spurt er um ráð gegn misrétti. Áróður, fræðsla, upplýsingar, fréttir, greiningar, skýrslur og grafísk framsetning sem varpa skýru ljósi á misrétti dugar þó ekki alla leið ef markmiðið er breyta valdakerfinu og menningunni.

Oftrú er á að fræðsla vinni gegn misrétti. Hefðbundin fræðsla höfðar til skynseminnar í framheilanum. Hún er sett fram með staðreyndum og pottþéttri tölfræði. Fólk fer á námskeið, les og hlustar og talar jafnvel saman um efnið.

Fræðsla er það efni sem unnið er úr vísindalegum gögnum og niðurstöðum og miðlun tekur mið af  aldurs- og þroskastigi. Gögn um jafnrétti og önnur mannréttindi opinbera oft alvarlegar skekkjur. En þrátt fyrir það nægir fræðslan ekki til að eitthvað breytist á heimilinu, vinnunni eða samfélaginu. Misrétti á sér nefnilega fleiri rætur en skort á þekkingu eða fræðslu, sumar hverjar teygja sig óheyrilega langt undir yfirborðið.

Vestræn hugsun gerir of oft ráð fyrir að (flest)allt megi laga með þekkingu, jafnvel hið illa er sagt skortur á hinu góða, lygi skortur á sannleika og misrétti skortur á réttlæti. Skortur á þekkingu er sögð undirrót alls sem misfer í heiminum. „Sá sem veit, sá sem býr yfir þekkingu, brýtur ekki á öðrum,“ er viðhorf sem varð úrelt á tímum Forngrikkja – en lifði þó áfram.

Félagslegt misrétti berst milli kynslóða – viðhorf, hefðir, viðmið og siðir verða ekki upprætt með skynseminni einni saman eða miðlun upplýsinga. Og undirskipun kvenna heldur áfram þrátt fyrir að Hagstofan gefi árlega út rit um stöðu karla og kvenna á Íslandi til að opinbera kynjaskekkjur í samfélaginu.

Þrátt fyrir alla þekkingu, upplýsingar, lög og fræðslu þá dróst t.a.m. hlutfall kvenna meðal æðstu stjórnenda 100 stærstu fyrirtækja landsins saman eða úr 12% árið 2005 í 8% árið 2007. Hlutfall þeirra sem stjórnarformenn í þessum sömu fyrirtækjum var 5% árið 2005 og varð 3% árið 2007. Hlutfall kvenna sem framkvæmdastjórar var 17% árið 2001 og 19% árið 2009. Það myndi æra óstöðugan að telja upp fleiri tölur, þótt sumt hafi nálgast jafnrétti til dæmis hlutfall kynjanna á Alþingi. Tölurnar voru birtar á Jafnfréttisþingi 2011 í febrúar.

II. Hvers vegna er fræðsla ekki nóg?
Fjölmiðill sem hefur starfað í heila öld þar sem bæði stjórnendur, eigendur og ritstjórar hafa ævinlega og iðulega verið karlar býr að öllum líkindum við rótgróin karllæg viðmið. Þau eru óskrifuð en inngróin í fyrirtækjamenninguna og starfsmenn aðlagast þeim án þess að taka eftir því.

Karlar fá fremur en konur framgang í slíkum fyrirtækjum, meiri hlunnindi og skilning. Ef landslög myndu ekki banna launamismun væru þeir einnig allir á hærri launum en konur í sömu störfum – en jafnvel lögin duga ekki, því fyrir hverja krónu sem launakarl þiggur hér á landi fær launakonan færri aura. Kynbundinn launamunur hefur mælst 16% og þar af er engin leið að úskýra með neinum þekktum mælikvörðum 7,3% launamun (Jafnréttisþing, bls. 20). Líklega liggur hann í rótgrónum viðhorfum og vinnumenningu.

Fræðsla er ekki nóg vegna þess að viðmið og menning vinnustaðar er meira og stærra en hver karl og kona, hver stjórnandi og eigandi. Vinnumenningin er sett saman úr mörgum þáttum og þegar yfirmannsstaða losnar þá er eins og hún kalli á karl. Rökin hníga að karli og næstum öllum finnst það eðlilegt því þær hugsanavenjur sem hafa mótast á vinnustaðnum kveða svo á um.

Þetta gerist aftur og aftur, vinnustaðurinn verður valdakerfi sem sækist eftir venjunni og útilokar ögrunina. Sömu relgur gilda þegar skipað er í nefndir um svokölluð brýn þjóðhagsleg málefni, þær verða þéttskipaðar körlum. Jafnvel ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti skipar reglulega nefndir sem einungis karlar eða aðeins ein kona sitja í. Ef hver flokkur á Alþingi á að skipa einn fulltrúa í nefnd má spá fyrir um að þar raðist fjórir karlar og ein kona. Glænýtt dæmi er kosning á Alþingi í landskjörstjórn: 4:1 fyrir körlum (28. febrúar 2011).

Hlutverk kynjanna í nefndum á vegum hins opinbera eru fastmótuð þrátt fyrir jafnréttislög. Ný rannsókn á nefndum á vegum sveitarfélaga sýnir að ósjálfrátt er gert ráð fyrir að konur skipi sér í nefndir sem tengist einkasviðinu og karlar hinu opinbera. „Karlar eru í miklum meirihluta í skipulagsnefndum sveitarfélaga, á meðan konur eru í miklum meirihluta í félagsmálanefndum.“ (Ásta Jóhannsdóttir, 2010). Skipulagsvaldi fylgir virðing, félagsmálavaldi fylgir skylda.

III. Vinnumenning og valdakerfi
Fræðsla er greinilega ekki nóg, ekki heldur hugsjón um réttlæti, það er eitthvað annað sem gildir og af þeim sökum má iðulega búast við bakslagi í jafnréttis- og annarri mannréttindabaráttu. Beina þarf sjónum að menningunni, m.a. vinnumenningunni.

Karllæg viðmið: hið hefðbundna, „eðlilega“ og „rétta“ eiga samleið á mörgum vinnustöðum og því skiptir stundum ekki máli, til dæmis á fjölmiðlum, hvort það er kona eða karl sem heldur á pennanum – ef þau hafa bæði aðlagast menningunni. Hið sama getur gerst á kvennavinnustað. Ekki er nóg að vita þetta, heldur þarf að læra einhverjar aðferðir til að breyta vinnumenningu og skipta um viðmið. Það krefst tíma og þekkingar.

Breytingin felur í sér meira en menntun, meira en fræðslu, hún felur í sér kraft og hugrekki: að skapa sér rödd inni í valdakerfinu á hverjum stað og koma auga á möguleikana til andófs. Sá/sú sem vill breyta vinnustað, samfélagi eða heiminum til að draga úr misrétti gerir það ekki einn/ein og ekki utan frá.

Aðferðin felst ekki einungis í því að greina misréttið eða jafna hlut fólks heldur einnig í því að finna veikleika í (vinnu)menningunni, fá jafningja til liðs við sig og sameinast gegn því sem breyta þarf. Nauðsynlegt er að safna gögnum og afhjúpa síðan misréttið með fræðslu – en það er ekki nægjanlegt, aðeins byrjunin.

IV. Kerfisbundin áætlun eða bylting?
„Af hverju er fólk með sambærilega menntun með mismunandi laun eftir kyni? Mér finnst þetta vera athyglisvert,“ sagði Pétur H. Blöndal í fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um áæltun í jafnréttismálum til fjögurra ára. (20. janúar 2011). „Ég skil ekki þennan kynjamismun í vali á starfi,“ sagði hann einnig í umræðunum. Pétur sér kynjaskekkjurnar en horfist ef til vill ekki í augu við að valdakerfið og vinnumenning valdsins lýtur karllægum viðmiðum. Meira en fræðslu þarf til að opna augun fyrir því.

Kynning og fræðsla, könnun og úttekt er títtnefnd í nýrri jafnfréttisáætlun og Alþingi heitir sér því að skipta jafnt konur sem karla í nefndir. Vandinn er þó áfram sá að venjur og viðmið flokkanna sjálfra eru áfram karllæg og valdakerfið sjálft stendur óhaggað. Fyrsta val í þýðingarmiklar nefndir sem varða efnahag, utanríkismál og annað á hinu opinbera sviði verða því væntanlega áfram einstaklingar af karlkyni.

Jafnréttisætlunin sem væntanlega verður samþykkt er nauðsynleg, t.a.m verður efnt til fræðslu um ábyrgð og skyldur stjórnenda og stjórnarmanna í fyrirtækjum. „Ef árangur á að nást þarf að auka fræðslu og stuðning við fyrirtækin og efla gagnagrunn um konur sem gefa kost á sér til stjórnunarstarfa.“ (bls. 15). Áætlunin gerir réttilega ráð fyrir að kynjajafnrétti sé fjölþætt fyrirbæri en ekki mælt á einum ás.

Áætlunin kveður á um gagnagrunna, greiningar, kannanir og stuðning, fræðslu og að draga úr kynbundnu ofbeldi, launamun, taka þátt í alþjóðastarfi og bæta þátt karla í jafnréttismálum. Áætlunin gerir ráð fyrir að dregið verði úr skekkjum – en valdakerfið stendur samt áfram.

Vandinn er ekki sá að það þurfi að fjölga körlum í kennarastétt og konum í verkfræðingastétt sem sérstækum aðgerðum. Eða tala við jafnmargar konur og karla í fjölmiðlum. Það eru afleiðingar af orsökinni og vinnumenningunni. Verkefni framtíðarinnar felst í því að brjóta niður með byltingu karlægt valdakerfi, vinnumenninguna, viðmið og mælikvarða og byggja upp samfélag jafnréttis með öðrum viðmiðunum.

Nýja jafnréttisáætlunin á að gilda til ársins 2014. Ef til vill verður hún síðasta áætlunin áður en umbyltingin verður? Næg gögn og sannanir liggja þá á borðinu. Búum okkur undir að þarnæsta jafnréttisáætlun 2014- 2018 feli í sér byltingu á kerfi sem búið er að greina og afhjúpa. Þessa byltingu þarf að undirbúa vel – en henni gæti lokið 2018.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Heimildir:

Jafnréttisþing 2011: skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála. Velferðarráðuneytið 2011.
http://www.velferdarraduneyti.is/media/ritogskyrslur2011/18022011_Jafnretti_i_tolum.pdf

Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. (2010-2011, Alþingi).
http://www.althingi.is/altext/139/s/0401.html

Ásta Jóhannsdóttir (2010). Konur og karlar í nefndum: „Við eigum að velja hæfasta fólkið“. MA ritgerð í mannfræði.
http://skemman.is/stream/get/1946/6180/17645/1/MA_ritgerd_asta_johannsdottir.pdf

Pétur H. Blöndal
http://www.althingi.is/altext/raeda/139/rad20110120T142709.html