Flokkaskipt greinasafn: umfjöllun

Beitt rökræða um kjölfestuhugtök

Bókin Þjóðgildin voru tilnefnd ásamt níu öðrum bókum frá liðnu ári til viðurkenningar Hagþenkis – félags höfunda fræðirita og kennslubóka. Viðurkenningarráð Hagþenkis gaf bókinni eftirfarandi umsögn:  „Hógvær en beitt rökræða um þau kjölfestuhugtök og gildi sem íslensk menning þarfnast við uppbyggingu þjóðar.“

Efni bókarinnar hefur verið ofarlega á baugi í janúar og febrúar og ýmsir kallað eftir fyrirlestrum, meða annars Glerárkirkja á Akureyri sem stendur fyrir vikulegri dagskrá út frá efni bókarinnar. Þá voru Þjóðgildin bók vikunnar í Bókabúð Máls og menningar.

Tenglar:
www.hagthenkir.is

Umræðukvöld

Deila

Grein Gunnars í Skólavörðunni

Gunnar Hersveinn skrifaði jólagrein í Skólavörðuna um kærleikann og fjölskylduna. Gunnar hafði á sínum tíma umsjón með menntasíðu í Morgunblaðinu sem kennarar og foreldrar voru þakklátir fyrir. Nýjungin fólst í því að skrifað var um jákvæða þætti í skólastarfinu og viðtöl tekin við kennara og nemendur sem brydduðu upp á nytsamlegum nýjungum. Hér er grein Gunnars Kærleikurinn og fjölskyldan sem birtist í Skólavörðunni í desember 2010.

Ritdómur Morgunblaðsins

Morgunblaðið 13. desember, 2010 – Bókmenntir  bækur

Leiðarvísir fyrir þjóð í kreppu
Þjóðgildin ****
Eftir Gunnar Hersvein. Skálholtsútgáfan 2010, 167 bls.

Íslenska þjóðin þarf á leiðarvísi að halda eftir bankahrunið og gott innlegg í þá umræðu er bókin Þjóðgildin, eftir Gunnar Hersvein heimspeking. Hann hefur áður sent frá sér bækur um manngildin og er því vel að sér um efnið.
Í bókinni fjallar Gunnar um gildin 12 sem valin voru á Þjóðfundinum í nóvember 2009, af ríflega 1.200 manns sem fundinn sátu. Tekur hann fyrir kærleik og fjölskyldu, ábyrgð og frelsi, heiðarleika og traust, virðingu og réttlæti, lýðræði og jöfnuð og jafnrétti og samfélag. Jafnframt bendir hann á andheiti þessara gilda og leggur út frá þeim.
Gunnari tekst vel upp, bókin er læsilega skrifuð og hugrenningar hans settar fram með skipulögðum og markvissum hætti. Auk þeirra 12 gilda sem urðu efstar á blaði þjóðfundarins tekur Gunnar fyrir hófsemdina, sem hann telur halda öðrum gildum á floti. Á meðan gildin eru árar þjóðarskútunnar er hófstillingin seglið, ritar hann.
Þjóðgildin er holl lesning fyrir kreppuþjáða þjóð, sem enn er í sárum eftir hrunið og veltir fyrir sér hvernig höndla eigi verkefni morgundagsins. Hrunið var ekki eingöngu efnahagslegt heldur ekki síður siðferðilegt.
Gunnar segir hófsemdina vera andstöðu græðginnar og með sanni má segja að græðgin hafi orðið þjóðinni að falli. Og því miður virðist hún vera enn til staðar.
Hugleiðingar Gunnars og tilgátur ættu að vera skyldulesning fyrir t.d. stjórnendur fjármálafyrirtækja, skilanefndir, lögmenn, endurskoðendur, ráðherra, þingmenn og þá 25 einstaklinga sem kjörnir hafa verið á stjórnlagaþing. En ekki bara þessa hópa heldur alla þá sem vilja leita sér leiðsagnar að betra mannlífi.
Eflaust verða ekki allir sammála Gunnari og einhver myndi segja að hann sé að gera óraunhæfar kröfur til mannskepnunnar. Enginn er jú gallalaus. Margt er þó af mikilli visku skrifað og flest gæti flokkast undir heilbrigða og alkunna skynsemi. Líta má á bókina sem óskalista um það hvernig þegnar samfélagsins ættu að haga sér. Þó að Gunnar leggi fram sínar tilgátur þá biður hann lesandann um að halda áfram með efnið og ræða það í sínum ranni, halda þjóðfundinum áfram á heimilum landsmanna og í því skyni skilur hann eftir nokkrar síður í lok bókarinnar fyrir lesandann að fylla út í með eigin hugleiðingum.
Mannskepnan er breysk að eðlisfari og sagan hefur gengið í bylgjum, með risi og falli í aldanna rás. Við náum sennilega aldrei fullkomnun eða hinu eina sanna draumaríki en hægt er að leggja af stað í þá vegferð með bók Gunnars í hendi – þar til næsta hrun ríður yfir.

Björn Jóhann Björnsson

Viðtal í Morgunblaðinu 4. des

Morgunblaðið 4. desember 2010
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is

Að bæta samfélagið
Bókin Þjóðgildin eftir Gunnar Hersveinn er veganesti inn í umræðu um það í hvernig samfélagi Íslendingar vilja búa. Verkefnið framundan er að eiga samræðu um það mál.
Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, hefur sent frá sér bókina Þjóðgildin. Hann leggur áherslu á að ritið sé handa almenningi og öllum fræðihugtökum því sleppt. Frumhugmyndin að bókinni eru gildin 12 sem valin voru á Þjóðfundinum 2009; heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikar, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, fjölskylda, jöfnuður og traust.
“Ég bætti svo við einu, hófsemd, einu af höfuðgildum Forn-Grikkja sem felst í sjálfsaga og nægjusemi. Því að hver maður þurfti að fækka löngunum sínum til að geta unnið betur með tiltekna hæfileika – þetta er akkúrat andstæðan við græðgi, sem felst í því að uppfylla sem flestar hvatir og langanir. Mikið var talað um að græðgin væri meginlöstur Íslendinga og því vildi ég hafa hófsemdina með, því hún er sjaldan valin sem vinsælt gildi en allir þurfa samt á henni að halda.”
Gunnar setur síðan fram eftirfarandi tilgátu: “Ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugmyndum, með það að markmiði að bæta heiminn, batnar það sjálft. Gjöf gefin af góðsemi hefur gæfu að geyma.”
Hann segir meginspurninga í þessum vangaveltum vera í hvernig samfélagi Íslendingar vilja búa. „Þegar svona margir koma saman, eins og á Þjóðfundinum, og nota samræðuaðferðina til að laða fram visku þá segir innri rödd þjóðarinnar að efla þurfi þessi gildi. Það er byrjunin, síðan verðum við að finna leiðir til þess. Hvað þurfum við þá að gera? Við getum ekki bara hengt þau upp á vegg heldur þurfa menn að leggja eitthvað á sig, til dæmis að líta í eigin barm og temja sér heiðarleika, að gæta þess að traðka ekki á öðrum eða hlunnfara aðra; leggi maður áherslu á það í uppeldi barnanna smitar það út í nærumhverfið. Lykilatriðið er að eiga samtal um málið. Íslendingar gleyma því oft og ákveða í staðinn að setja sér fallegar siðareglur, einhverjir semja þær og skrifa niður, þær eru stimplaðar og samþykktar en þar sem enginn tók þátt í umræðunni fer enginn eftir reglunum og enginn skánar.”
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is

Þjóðgildin 6. besta kápan að mati Fréttatímans

Serfræðingar Fréttatímans völdu bestu bókakápur ársins og kom kápa þjóðgildanna í 6. sæti sem er hönnuð af Sóleyju Stefánsdóttur.

„Þótt langflestir sækist frekar eftir innihaldi bóka en umbúðunum þarf ekki að deila um það að bókarkápan gegnir mikilvægu hlutverki og góð kápa sem dregur að sér athygli og heillar getur skilið milli feigs og ófeigs í jólabókaflóðinu.“

„Skýrt myndmál sem gefur góða hugmynd um innihaldið án þess að fara í einhverjar flækjur eða of mikið ljósmyndamix.“

Arnór Bogason

„ÞJÓÐGILDIN, á erindi við alla“

„Bók Gunnars Hersveins, ÞJÓÐGILDIN, á erindi við alla. Í bókinni fjallar hann um lífsgildin, sem Þjóðfundurinn 2009 valdi.  Á þessum síðustu og verstu tímum er okkur hollt að huga að því sem skiptir máli í lífinu og byggja afstöðu okkar á kærleika, mannvirðingu og heiðarleika.  Ég mæli með því, að allir sem áhuga hafa á mannlegu samfélagi – og sjálfum sér – lesi þessa bók.“

Tryggvi Gíslason, fv. skólameistari

„Bókin varðar veg út úr ógöngunum“

Flest okkar telja að ein af meginástæðum bankahrunsins hérlendis hafi verið sú staðreynd að hin klassísku gildi hafi lotið í lægra haldi hjá þjóðinni. Þess vegna var líka boðað til þjóðfundar fyrir ári síðan þar sem marktækt úrtak Íslendinga hóf að móta með sér nýja framtíðarsýn og valdi þarafleiðandi þau gildi sem skyldu eflast með þjóðinni, gildi eins og heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti o.s.frv.

En hvað fela þessi orð í sér í raun og veru ? Þetta eru margslungin orð með fjölbreyttan snertiflöt.

Þessvegna er það mikils virði að fá í hendur bók Gunnars Hersveins um þjóðgildin, þar sem hann greinir þau og setur inn í íslenskt samhengi af mikilli yfirsýn.

Bókin getur nýst á margan hátt, sem uppsláttarbók, til lesturs í einrúmi og við eigið uppgjör en líka sem grundvöllur umræðu í minni sem stærri hópum.

Bókin varðar veg út úr ógöngunum.

Bernharður Guðmundsson