Flokkaskipt greinasafn: Ýmislegt

Leitin að svari á heimspekikaffi

12_vef_feb_heimspeki_visit

Hvert liggur leið? Oft er sagt að allir leiti leynt eða ljóst að hamingju en ef til vill væri betra að segja að allir leiti að svari. Nokkrir telja sig finna svarið og hanga í því eins og það væri haldreipi tilverunnar. Aðrir efast um allt og festa ekki hönd á neinu. En hvert er svarið?


Á örlagastundum sprettur svarið óvænt fram og verður öllum ljóst.

Við getum leitað að hverju sem er og að sumu leyti er allt tínt, við höfum tilhneigingu til að glata, allt sem er, er að verða eitthvað annað, ekkert er stöðugt í huga okkar, lífið er ævinlega ógert.

Við þurfum ekki nauðsynlega að leita að hamingju eða guðsríki. Við leitum vissulega að skjóli ef við erum svipt öryggi, og fæði ef það er matarskortur, og vinsemd ef við erum ein, og virðingu ef hún lætur á sér standa, en það er eitt svar sem allir hafa heyrt um en enginn skilur fyrr en á reynir. Það getur auðveldlega gleymst.

Margar bækur eru til um svarið,  trúarbrögð og  lífsskoðanir, heil mannkynssaga en þrátt fyrir það gleymist það of oft og við lendum í of mörgum ógöngum og óþarflega miklum flækjum.

Við getum komið auga á svarið með rannsóknum, við getum greint það og mælt, vegið og metið, við getum lært það og stundað það, en við „finnum“ það ekki í tvöfaldri merkingu þess orðs nema við tilteknar aðstæður og þá birtist það og verður öllum augljóst.

Það er ekkert dularfullt við svarið eða yfirnáttúrulegt og það má vissulega finna því stað í taugakerfinu en það er eldra en framheilinn og hefur þróast með manninum frá öndverðu.

Það hefur verið orðað í líffræði, heimspeki, sálfræði, trúarbragðafræði og öðrum hug- og félagsvísindum. Skilgreint og flokkað en þó er það alltaf jafn fallegt og satt, þegar það brýst fram. Það hefur fengið mörg nöfn, eitt þeirra er samlíðun sem felst í því að geta liðið með öðrum á jafnréttisgrunni og rétt þeim hjálparhönd sem þurfa á henni að halda.

Þrátt fyrir að fullyrt sé að fólk sé fullt sjálfselsku og hugsi fyrst og fremst um eigið skinn, öryggi, fæði og fjölskyldu þá brýst fram kennd sem á ekkert skylt við rök eða efnislegar ástæður, hún brýst fram þegar aðrir missa allt í hamförum hvort sem er af mannavöldum eða náttúrunnar.

Samlíðun með öðrum brýst fram meðal almennings og það er sama hvað yfirvöld á hverjum stað mæla eða gera, það skiptir engu máli. Þannig var það gagnvart fórnarlömbum flóðbylgjunnar í Indlandshafi og jarðskjálftans á Haítí og þannig er það gagnvart flóttafólkinu frá Sýrlandi, Írak og fleiri löndum. Samlíðun var svarið.

Samlíðun er ekki vorkunn, hún er samkennd, hún er umhyggja fyrir ókunnugum og geta sett sig í spor annarra. Hún er mannleg meginregla sem við verðum ekki svipt, ekki einu sinni með heilaþvotti. Hún er miðjan í allri mannúð og hún hlustar ekki á úrtölur. Hún er umhyggja og kærleikur. Hún er charity, agape, karuna og compassion.

Víðast hvar á jörðinni hafa  sprottið af henni margskonar en lykilsetningar í ólíkum samfélögum. Dæmi um það eru ráðleggingarnar: „Ekki gera öðrum það sem þér viljið ekki að þeir gjöri yður.“ (Konfúsíus 551-479 f. Kr) og „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Jesús, fjallræðan Matt. 22.37-39). Skynsemin orðar þetta svona en kjarninn er samlíðun.  Eitthvað á þessa leið skrifaði heimspekingur „Breyttu eftir þeim lífsreglum sem þú vilt jafnframt að aðrir breyti eftir.“ (Immanuel Kant 1724–1804).

Einnig hvíla nokkrar frelsiskröfur á samlíðun t.d. frelsi frá ótta, frelsi frá kvölum og frelsi til að lifa mannsæmandi lífi. Meira um það síðar.

Heimspekikaffi 16. september í Gerðubergi

Gunnar Hersveinn rithöfundur mun takast frekar á við leitina að svari í mannheimum á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 16. september kl. 20 og Þóroddur Bjarnason myndlistarmaður skoðar málið m.a. út frá spurningunni um hvort hægt sé að fullgera lífið eða hvort það sé ævinlega ógert og ósvarað. Hvert er svarið?

Allir velkomnir.

Tengill

Borgarbókasafn Gerðuberg Heimspekikaffi

Deila

VÆNTUMÞYKJA GAGNVART NÁTTÚRUNNI

12_vef_feb_heimspeki_visitGildin í lífinu eru dyggðir, tilfinningar og viðhorf sem við lærum og æfum til að verða betra fólk. Gildin í samfélaginu eflum við og styrkjum til að gera samfélagið betra. Við reynum á sama tíma að kveða niður brestina, heimskuna, grimmdina og eyðileggingarmáttinn sem knýr á.

Gildin í náttúrunni felast í því að bæta samband mannverunnar við náttúruna, efla með okkur virðingu og ábyrgðarkennd gagnvart henni.

Segja má að samband mannveru við náttúruna sé í uppnámi um þessar mundir og verkefnið framundan felist í því að finna jafnvægi og farsæla braut. En hvernig má vinna að því?

Siðfræði náttúrunnar fjallar ekki aðeins skilgreinda mælikvarða um rétt og rangt, góða og ranga hegðun gagnvart náttúrunni heldur einnig um að rækta væntumþykju, virðingu og vinsemd: að finna gleði þegar sambandið styrkist, að bera virðingu fyrir heilbrigðri náttúru og að verða dapur sambandinu er raskað.

Mannveran er hluti af náttúrunni og ætti því að geta ræktað væntumþykju gagnvart henni, og ef það tekst, vex virðingin gagnvart auðlindum hennar og viljinn til að öðlast þekkingu á henni og umgangast af varkárni. En ef hlýjan hverfur, þá hverfur blíðan líka.

Það gæti verið ósnert víðerni, það gætu verið heimkynni dýra, það gæti verið heilt vistkerfi, það gæti verið gróðurlendi, fossaröð, fornt stöðuvatn, tiltekið landslag og það gæti verið háhitasvæði í hættu gagnvart mannlegu kuldakasti.

Mannskepnan gortar oft af því að vera eina siðræna veran á jörðinni, en það er ofsögum sagt , því hjá ýmsum dýrahópum má greina siðrænt atferli eins og umhyggju, samkennd, virðingu, ábyrgð, sorg, hópkennd, hjálpsemi og einnig fórnfýsi. Íslendingar ráðstafa ekki landsvæðum undir orkunýtingu einungis af siðrænum ástæðum eða vegna ábyrgðarkenndar, heldur af hagrænum ástæðum og vegna búsetuskilyrða.

Voðinn er vís ef strengurinn milli manns og náttúru slitnar og sambandið verður firringu að bráð, ef mannveran setur sig á háan hest og geymir sér yfir náttúru á korti á teikniborði.

 

NÁTTÚRAN Á TEIKNIBORÐINU

Áhuginn og krafturinn fer oft allur í það að bæta efnahaginn líkt og ekkert annað vegi þyngra í þessum heimi. Okkur hættir stórlega til að ofmeta hagkerfið og vanmeta vistkerfið. Við gerum ráð fyrir hagvexti án endimarka og sköpum okkur líferni án samhengis við náttúruna, líkt og hún sé til ekki hluti af okkur. Við fórnum vistkerfi fyrir hagkerfi víða um Jörð, vegna þess að það virðist henta okkur um hríð.

Náttúrusvæði á fullnýttu Íslandi flakka nú á milli orkunýtingarflokks, biðflokks og verndarflokks. Við flokkum, leikum okkur og náðum svæði eða nýtum, án virðingar og vinsemdar. Við segjum:
„Við náðum þig Neðri-Þjórsá!“ „Við náðum þig Dettifoss – í bili! Þú átt það ekki skilið en það hentar okkur núna, þú varst á dauðalistanum en við náðuðum þig “ „Við ónáðum þig Urriðafoss og við tökum þig af lífslistanum Dynkur – þú verður ekki lengur til – nema undir okkar stjórn.“

Þessar setningar hljóma undarlega en staðan er jafnvel verri. Tæplega níutíu svæði á Íslandi eru kölluð virkjanakostir sem mögulega verður þá raskað og nýttir til orkuframleiðslu. Náttúran liggur berskjölduð á teikniborðinu og henni á að raska til og frá – eða ekki, svæði sem voru í verndunarflokki flytjast óvænt í nýtingarflokk og jafnvel svæði í þjóðgörðum – allt eftir duttlungum og hagsmunasamningum.

Nýlega dró Orkustofnun til baka þrjá virkjanakosti af 50 sem búið var að senda til verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar. Ástæðan var sú að stofnunin notaði ekki nýjustu kort af Vatnajökulsþjóðgarði við vinnslu á virkjunarkostunum. Þessi vandræðalegi gjörningur vakti grun um sambandsrof mannsskepnunnar við náttúrusvæðin.

 

SKEYTINGARLEYSIÐ ER ÓVINURINN

Skeytingarleysi mannsins er versti óvinur náttúrunnar, umhyggjuleysi, andvaraleysi og kæruleysi. Að vera sama um víðernin, að vera sama um miðhálendi Íslands og að líta aðeins á það með virkjun í huga er landinu okkar stórhættulegt. Að láta land sem er mótað af eldvirkni og jöklum, samspili elds og íss í árþúsundir, vera háð tímabundnum hagsmunum virkjanasinna, er ekki vitnisburður um virðingu. Það er vítavert ástleysi.

„Hálendi Íslands, hjarta landsins, er eitt stærsta landsvæði í Evrópu, sunnan heimskautsbaugs, sem hefur aldrei verið numið af mönnum. Sérstaða svæðisins felst í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss, óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.“ (Landvernd).

Ákvörðun um að hrinda virkjanakosti í framkvæmd styðst ekki einungis við rök um aukin atvinnutækifæri, tekjur, búsetuskilyrði og viðskipti. Ákvörðun um virkjanakost þarf fyrst og fremst að setja í samhengi við náttúruna, landslagsheildir, lífríki og vistkerfi sem varasamt er að raska. Hvað merkir þessi „kostur“ í stóra samhenginu?

Enn eru sterkar líkur eru á því að alvarleg óafturkræf slys verði gerð í gegndarlausri ásókn í óviðjafnanleg verðmæti sem íslensk náttúru geymir. Af þeim sökum þarf nauðsynlega að efla og rækta gildin í náttúrunni með mannfólkinu. „Efla tengsl fólks við landið, þekkingu og samvinnu landsmanna með auknum almannarétti,“ eins og Guðmundur Páll Ólafsson orðaði það, „að varðveita fegurð fjölbreytileikans í náttúru landsins og vatnafari Íslands.“ (Vatnið í náttúru Íslands).

Gerum ávallt ráð fyrir harðri baráttu gegn ásókn í náttúruauðlindir.

 

SAMBANDIÐ EKKI AÐEINS VITRÆNT

Og sambandið við náttúruna er dýpra. Við glímum við rök og sjónarhorn til að skilgreina mörk og til að kanna möguleika en væntumþykja gagnvart landinu felur einnig í sér víðtækara samband, til dæmis þegar taugakerfið og hugurinn nemur fegurðina, þegar einstaklingur stendur agndofa og orðlaus gagnvart óvæntri hrikafegurð. Sambandið við náttúruna er því ekki einungis vitrænt, hagrænt, siðrænt, það er einnig af öðrum toga.

Siðfræði náttúrunnar snýst ekki einungis um rannsókn á boðum og bönnum, dyggðum og löstum og verðmætum heldur einnig fegurð og væntumþykju. Sambandið við náttúruna er oftast smækkað niður í eitthvað skiljanlegt en sambandið er alls ekki alltaf hversdagslegt heldur byggist það einnig á upphafningu andans. Við hrífumst og andinn lyftist upp og dýpri merking tilverunnar opinberast. Þessar stundir veita fólki kraft til að lifa af meiri ákafa og fyllast þakklæti. En þetta undur gerist sennilega æ sjaldnar því maðurinn hefur aldrei fyrr verið svo fjarlægur heimkynnum sínum, náttúrunni.

Verkefnið framundan er margþætt en meðal annars er brýnt að rækta væntumþykju gagnvart náttúrunni. Frekari pælingar um þessa væntumþykju verða á næsta heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 18. febrúar en þá mun Gunnar Hersveinn rithöfundur tengja saman nokkur lykilhugtök milli manns og náttúru og Ásta Arnardóttir leiðsögukona og yogakennari segja frá gönguferðum þar sem fléttað er saman yoga og göngu um hálendisvíðernin ásamt fræðslu um yogavísindin og hvernig þau endurspegla dýpri lögmál náttúrunnar.

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

Tenglar

Náttúrukortið – Framtíðarlandið

Landvernd – hjarta landsins

Orkustofnun – frétt

Heimspekikaffi – gildin í lífinu og yoga í fjallasal

Meira um siðfræði náttúrunnar

Heimspekikaffi um sjálfþekkingu

12_vef_feb_heimspeki_visitHver er ég? Hvernig getur maður þekkt sjálfan sig? Hver er besta leiðin til að kynnast sjálfum sér? Hvernig lýsir fólk hvert öðru og hvað merkir það? Hvað þarf að gera til að öðlast þekkingu sjálfan sig? Hvernig bregst ég við áreiti? Hopa ég á fæti eða stíg ég fram? Rétti ég fram hjálparhönd eða læt ég mig hverfa sporlaust?

Spurningarnar eru verðugt viðfangsefni en sennilega öðlast enginn þekkingu á sjálfum sér fyrr en á reynir, fyrr en í harðbakkan slær, fyrr en staðið er andspænis ógninni, auglitis til auglitis. Hugrekkið og kærleikurinn skilur líklega á milli feigs og ófeigs.

Ofangreindar spurningar eru efni í margar bækur, en til er önnur hlið á sjálfsþekkingu sem sjaldan er fjallað um. Þá hlið er ekki beinlínis hægt að lesa af svipbrigðum, dyggðum eða úr samræðumi. Hún felst í þeim afleiðingum sem hegðun og skoðanir hvers og eins skapa. Ekki endilega á hér og nú heldur annars staðar og síðar meir, jafnvel í framandi heimsálfum. Ábyrgð fylgir skoðunum og hegðun sem varða aðra .

Hver persóna hefur sjálfsmynd og vinir hennar móta sér myndir af henni í huga sér en á sama tíma lengist skuggamynd mótuð af atferli og viðhorfum. Sá skuggi verður einskonar tvífari sem fæstir koma auga á og  eigandinn vill ekki kannast við. Hver er tvífarinn og hvað er hann að gera?

Virðulegur maður í samfélaginu sem sífellt fær tækifæri til að lýsa skoðunum sínum og afrekum í fjölmiðlum hefur óhjákvæmilega áhrif á aðra. Hann gæti mælt með ýmsum hugmyndum sem hljóma ágætlega á yfirborðinu, hrifningaralda í þjóðfélaginu gæti haft áhrif á lög og reglugerðir. Hann gæti jafnvel sannfært aðra um að það borgaði sig að skulda sem mest. Aðeins þegar ráðleggingar hans eru greindar og rannsakaðar opinberast duldar afleiðingar þeirra.

Stéttaskipting gæti leynst í þeim og hvers konar ójöfnuður. Hann gæti dregið upp spennandi viðskiptaumhverfi hér á landi án þess að nefna að í þeim fælist kúgun launþega í Bangladesh, að vörurnar sem auglýstar yrðu hér á útsölu væru handunnar af lægst launuðu launþegum veraldar sem ynnu svo sannarlega myrkranna á milli.Hver er ábyrgð þeirra sem trúa honum? Hver er ábyrgð hans sjálfs? Hvað segir tvífarinn?

Páll postuli og heimspekingur gat greint tvífarann sinn og tókst að orða þetta ágætlega: „Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.“ Flestallir vilja þetta góða sem þeir tala mikið um og aðrir styðja þá í þeirri viðleitni. En svo gera margir eitthvað allt annað og afleiðingarnar til lengri tíma eru alls ekki góðar. Þar er tvífarinn á ferð.

Tvífarinn er hin hliðin. Sérhver maður er ekki aðeins sá sem hann vill vera, heldur einnig sá sem hann vill ekki vera. Sjálfsþekkingin er því tvíþætt: Sá sem þú vilt horfast í augu við og sá sem þú vilt ekki horfast í augu við.

 

HEIMSPEKIKAFFI UM TVÍFARANN

„Þekktu sjálfan þig“ er ein elsta ráðlegging heimspekinnar til þeirra sem vilja skilja heiminn. Sjálfsþekking er langtímanám og sá sem er um það bil að útskrifast uppgötvar að öflug skoðun og hegðun á einum stað getur haft óvæntar afleiðingar á öðrum fjarlægum stað.

Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, og Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í mannfræði, ætla með ýmsum dæmum að varpa ljósi á leitina að sjálfsþekkingu á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 20. nóvember kl. 20.00 en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum

Gunnar Hersveinn hefur tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni um margra ár skeið og skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Guðrún Margrét Guðmundsdóttir er fyrrverandi formaður stjórnar UNIFEM, nú UNWOMEN. Hún mun m.a. glíma við þá mótsögn að berjast gegn misrétti og að viðhalda því á sama tíma.

Heimspekikaffi í Gerðubergi

www.lifsgildin.is

 

ÞJÓÐGILDIN 5 ÁRUM EFTIR HRUN

islandHvernig líður þjóðgildunum fimm árum eftir hrun? Hrunið opinberaði ekki aðeins spillingu, ofdramb og skeytingarleysi heldur einnig ófullnægða ósk og þrá sem bjó með þjóðinni. Áfallið sem fylgdi efnhagslegu hruni, falli bankanna og ríkisstjórnarinnar veitti innri rödd þjóðarinnar vægi. Þjóðfundirnir 2009 og 2010 löðuðu fram visku þjóðarinnar.

Tíðarandi græðgi, taumleysi, óbilandi bjartsýni og gildislausar hegðunar hafði ríkt um skeið. Skefjalaus heimskan fékk verðlaun, viðurkenningar og himinhá bankalán. Græðgin, agaleysið, framsæknin og hrokinn áttu greiðan aðgang að völdum, þjóðareignum og bankalánum en forsjálni, heiðarleiki, jöfnuður, umhyggja, ábyrgð og nægjusemi komu að luktum dyrum.

Þetta er ein af meginástæðunum fyrir hruninu og þarna liggur ábyrgð sem of fáir hafa gengist við. Viðhorfið, hegðunin og hugsunin sem fylgja óskum um ríkidæmi og draumsýn um að vera fremst þjóða er einfaldlega ávísun á hrun. Það er óneitanlega fífldirfska að beisla ekki kraftinn, reikna ekki út afleiðingar hegðunar og stemma ekki stigu við hömlulausri bjartsýni. Það er því engin ástæða til að draga úr ábyrgð þeirra sem réðu hvert hin svokallað þjóðarskúta sigldi.

ÁFÖLL SKÝRA MYNDIR

Við áföll kemur í ljós hvað hefur gildi í lífinu og samfélaginu. Sá sem lendir í lífsháska, uppgötvar oftast hvað hefur gildi og hvað ekki. Það sama átti sér stað með þjóðinni og hún sá skýrt hvernig samfélag hún óskaði sér og hrópaði á að gildin gagnsæi, ábyrgð, heiðarleiki, réttlæti, sjálfbærni og lýðræði yrðu efld og ræktuð.

Þjóðfundirnir voru framlag þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar. Gjöf þjóðar til sjálfs sín og ný stjórnarskrá átti að vera veganesti fyrir nýja ráðamenn og þjóð með framtíðarsýn. Flest atkvæði á þjóðfundinum 2009 fengu gildin heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, fjölskyldan, jöfnuður og traust. Einnig voru menntun, bjartsýni, öryggi og mannréttindi ofarlega á baugi. Ástæðan var að sum þeirra höfðu verið alvarlega vanrækt meðal annars heiðarleikinn.

Þjóðgildin voru efld á marga lund á næstu árum, það kostaði baráttu, óhlýðni, byltingar og breytingar auk þess að takast á við andspyrnu græðginnar. Embætti sérstakts saksóknara er til dæmis tilraun til að leita réttlætis og ný náttúruverndarlög og rammaáætlun tilraun til að auka virðingu og efla sjálfbærni svo dæmi séu nefnd.

Samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika, réttlæti og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt lendir ekki í hruni, það tekur ekki áhættu sem er út fyrir öll endimörk alheimsins. Það hefur taumhald á græðginni, hrokanum og setur bjartsýninni mörk. Þjóð sem leggur sig ekki fram um að bæta hag annarra og heldur aðeins eigin hag fyllist hroka sem hrynur yfir hana að lokum.

KÆRLEIKURINN OG HRUNIÐ

thjodgildin_bokskuggiKærleikur var eitt þeirra gilda sem innri rödd þjóðarinnar nefndi eftir hrun en segja má að skeytingarleysi hafi verið ríkjandi í tíðarandanum fyrir hrun og sú færni að hremma bráðina á undan öðrum hafi oftast verið lofuð: að grípa tækifærin á undan varfærnum þjóðum og að kaupa á meðan önnur fyrirtæki eru að kanna hvort það sé góður kostur.

Kærleikurinn til annarra verður að teljast æðsta stig mannlegrar viðleitni: að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og að vera viljug til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra og jafnvel að fórna einhverju af eigin gæðum til af svo megi verða – það er kærleikur. Gildið merkir elsku milli ólíkra hópa, ekki að taka heldur að gefa.

Sjálfselsk þjóð er á byrjunarreit. Engin þjóð er fullgild fyrr en hún finnur sér vettvang til að bæta heiminn. Hún þarf aðeins að velja hann og sinna honum af alúð í áratugi. Ég skrifaði bókina Þjóðgildin (2010) til að skilja innri rödd þjóðarinnar og greindi þá dulda óbeit hennar á því að hrifsa og hremma og vera fremst þjóða – og kom auga á löngun hennar til að vera bara þjóð meðal þjóða og að geta gefið öðrum eitthvað: „ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.“ (Þjóðgildin bls. 164). Getur það verið leiðarljós?

Þetta er sá kærleikur sem þjóðin vildi stefna að eftir hrun, hún nefndi hann skýrt og ritaði. En hvernig gengur? Kærleikurinn og hrunið verða í kastljósinu á heimspekikaffi í menningarmiðstöðunni Gerðubergi 16. október 2013 kl. 20 þar sem Gunnar Hersveinn og Sigríður Guðmarsdóttir rýna í hugtakið og tengja það við samtímann. Næsta grein fjallar um það.

Tenglar:

Heimspekikaffi um kærleikann og hrunið

Bókin Þjóðgildin

 

KALDAR TÆR KJÓSENDA

islandÞjóðin er á gönguferð og ólíkir tíðarandar blása ýmist í bakið eða fangið. Sumir vilja snúa við – aðrir ekki, sumir benda í austur, aðrir í vestur, nokkrir til hægri og stöku til vinstri. Kosið verður um áttina 27. apríl 2013.

I. TÍÐARANDINN

Spár fyrir Alþingiskosningar 2013 gera ráð fyrir því að það sem var verði næst á dagskrá. Taumleysi og agaleysi er það sem var ásamt hroka, óbilandi bjartsýni og óbeisluðum krafti að ógleymdri óútreiknanlegri hegðun.

Efnishyggja, skammsýni, spilling, yfirstétt og eyðing auðlina einkenndi það sem var – en það sem átti að koma í staðinn var víðsýni, heiðarleiki, jöfnuður, sjálfbærni og gagnsæi ásamt vináttu og samábyrgð. Þangað átti að minnsta kosti að stefna.

Óbilandi einstaklingshyggja, þrautseigja, forysta og yfirburðir geystust um eins og framtíðin væri þeirra. En eftir hengiflugið efldist virðing, umhyggja, nægjusemi og lýðræði. Tíðarandar takast á, það sem var togar í og það sem vill verða er ekki fast í hendi.

II. GÖNGUFERÐIN

Gangan á milli þess sem var og þess sem verður tekur á, hún þarfnast þolinmæði og úthalds göngufólks. Sundrung skapast í hópnum, sumir vilja snúa við, aðrir halda áfram og einhverjir eru áttavilltir.

„Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi – snúum við,“ segir þreytt göngufólk,“ „Sjáið þið ekki reykinn sem stígur upp af rústunum, þar er ekkert skjól – höldum áfram,“ segja aðrir í hópnum.

Áfangastaðurinn er handan við hæðirnar en of margt göngufólk virðist reiðubúið að snúa við á vaðinu yfir jökulána. Kjósa þarf um næstu höfuðátt í miðri á. Enginn vandi er að spá köldum tám kjósenda á bakkanum báðum megin árinnar en …

III. AFTURGANGA – FRAMGANGA

Framtíðin er val, hún er mótuð af þeim sem stíga lífsgönguna á hverjum tíma. Hún er ýmist fram eða aftur, í hring eða spíral í meðvindi eða mótvindi tíðarandans. Þjóðin er á vaði og lýkur ferðinni með kaldar tær á árbakkanum hvort sem hún snýr við eða ekki. Öðrum megin blána þær en hinum megin má nudda lífi í þær og fá blóðið til að renna á nýjan leik. En hvorum megin?

 

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

 

 

 

Ekki – er allt sem þarf

Allt sem þarf til að bæta samfélagið er að fylgja örfáum reglum – og hver þeirra segir aðeins til um mörkin. Hvað við ættum ekki að gera: ekki beita ofbeldi, ekki gera öðrum það sem veldur manni sjálfum óþægindum og ógleði.

Reglurnar eru sammannlegar, þær eru óháðar öllum stefnum og kennisetningum, öllum trúarbrögðum og siðakerfum. Við getum prófað og gert ýmsar tilraunir en að lokum lærum við (vonandi) að gera ekki öðrum það sem við sjálf höfum ímugust á.

Reglurnar skapa friðsemd. Ofbeldið, illskan, hatrið, hefndin og heimskan tapa orkunni og lyppast ámátlega niður. Ein af þessum reglum heitir friðarreglan og hún er svo einföld að furðu sætir: „særið engan“. Hún hefur þó fylgt mannkyninu í gegnum aldirnar og birtst í stefnum og ýmsum trúarbrögðum þótt hún sé í eðli sínu fráls og óháð.

Reglan snýst um að hætta einhverju og að framkvæma ekki það sem veldur misklíð, usla, hatri, sársauka og dauða. Einnig mætti orða hana svona í stíl við víðkunna fullyrðingu: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður EKKI, það skuluð þér og þeim EKKI gjöra.“ Ekki – er allt sem þarf!

Verkefnið snýst aðeins um aga og taumhald á sjálfum sér. Það er að minnsta kosti fyrra verkefnið. Síðari hlutinn er önnur einföld regla sem felst í því að gera eitthvað. Hún opinberar eitthvað sem gæti verið það fegursta í dýraríkinu: samlíðan, hjálpsemi, umhyggja, vinarþel.

Að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og að vera viljugur til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra og jafnvel að fórna einhverju að eigin gæðum til af svo megi verða – það er kærleikur.

Meira um kærleika á kyrrðarstund Náttúrulækningafélags Íslands á mánudagskvöld kl 20.00

Kyrrðarkvöld NLFI

Ný stjórnarskrá

Við Íslendingar fáum nú einstakt tækifæri til að eignast nýja íslenska stjórnarskrá. Til þess þurfum við að segja já við fyrstu spurningunni í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október. Og segja um leið já við mannréttindum og frelsi núlifandi Íslendinga og komandi kynslóða, náttúruvernd, jafnrétti, bættu stjórnarfari og meira lýðræði.

Tillögur stjórnlagaráðs eru byggðar á þjóðarvilja sem kom fram á þjóðfundunum 2009 og 2010 og vandaðri vinnu stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs, sem náði einhuga samstöðu um frumvarp sitt að nýrri stjórnarskrá. Hún ilmar af hugsjónum Framtíðarlandsins sem berst fyrir verndun mestu verðmæta Íslands og samfélagslegri nýsköpun og hvetur félaga sína til þess að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október og leggja sitt lóð á vogarskálarnar.

Tengill:

 

VIRÐING OG VANTRAUST

Vantraust er ekki aðeins hugtak sem lýsir efasemdum milli manna eða þjóða, efasemdum um heilindi eða áreiðanleika. Vantraust er að vera í lausu lofti, ganga þar sem jörðin er ekki lengur undir fótum, svífa líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

Vantraust hefur engan áfangastað, veruleikinn hverfur, gufar upp jafnóðum og hann birtist. Haldreipin renna úr höndum, síðasta hálmstráið slitnar og fallið finnur engan botn.

Ef samband manns og umhverfis er tómlegt ríkir eyðileggingin ein, engin uppbygging, aðeins sóun. Vantraust yrði andrúmsloftið.

Andheiti vantrausts er ekki aðeins traust heldur einnig virðing og kærleikur. Vantraust er snautt af langlundargeði, fullt efa þar sem fortíðin er óvissan ein og ekki er hægt að reiða sig á neina framtíð.

Vantraust felur í sér skeytingaleysi gagnvart vistkerfinu, rétti og réttindum annarra lífvera og náttúrufyrirbæra.

Þetta marklausa vantraust gagnvart framtíðinni og komandi kynslóðum er uppspretta sóunar og ástleysis gagnvart auðlindum og gjöfum lífsins. Vantraust er sjálfseyðing.

Maðurinn tók sér vald og stjórn á umhverfinu, hann setti sig skör hærra en allt annað á landi og sjó. Hann tók sér vald sem hvílir ekki á gagnkvæmu sambandi.

VIRÐING

Heillavænlegt mannlíf skapast þar sem sambandið við umhverfið hvílir á virðingu. Það getur falist í aðdáun, það getur einnig falist í óttablandinni virðingu. Það hvílir á varfærni þar sem tíminn er ekki iðulega að renna úr greipum. Það hvílir á von um traust samband.

Viðhorf til íslenskrar náttúru er breytilegt eftir öldum og tíðaranda. Samband manns og umhverfis hefur ekki verið stöðugt. Á 21. öldinni felst verkefnið í því að koma á jafnvægi í samband manns og umhverfis. Það er bráðnauðsynlegt verkefni að bjarga sambandinu, koma í veg fyrir (að)skilnað.

Viðhorf til umhverfis getur verð á marga lund: vistvænt, lífrænt … jafnvel hvatrænt og vitrænt. Ef sambandið er ofið virðingu þrífast mörg viðhorf, því virðing felur í sér væntumþykju í stað firringar: áhuga- og skeytingarleysis.

Virðing felst í því að nema verðmæti frá mörgum sjónarhornum, jafnt manna, dýra og náttúruminja. Nema fyrirbærin í sjálfu sér og í samhengi við aðra og annað. Virðing felst í því að hlusta, skoða, greina, og meta með framtíðina í huga, ekki aðeins næstu þrjú ár, heldur þrjátíu og ekki aðeins þrjátíu heldur þrjú hundruð.

Virðing lífgar samband manns og náttúru, vantraust deyðir það. Firring er fylgifiskur vantrausts: sambandið dofnar og maðurinn verður einráður og hrokafullur og væntumþykjan hverfur.

Næsta samband manns og náttúru, það samband sem verður ríkjandi í heiminum, þarf nauðsynlega að hvíla á virðingu. Sú virðing getur orðið gagnkvæm því lífveran sem nefndist Homo sapiens er sprottin af móður jörð þótt henni líði líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins.

Gunnar Hersveinn
lifsgildin.is

Þankar um forsetakosningar III

Varúð!
Sókrates lýsti sagnarandanum í mannshjartanu á einfaldan hátt: Röddin í brjóstinu varar einungis við en hvetur aldrei til dáða. Hún þekkir mörkin.
Frelsið þarfnast rýmis og einstaklingurinn þarf að sprikla og reka sig á. Sagnarandinn truflar ekki frelsið en það er hollt að hlusta þegar innri viðvörunarljós kveikna, þegar orðin nei og ekki berast um æðarnar.
Oft vitum við ekki alveg hvað við viljum en við vitum oft alveg hvað við viljum ekki. Ef við stefnum út fyrir hið heillavænlega, þá skynja vonandi flestallir innri rödd sem varar við: ekki fara þangað!
Ýmsar kenningar eru til um hvaðan þessi mörk eru og hvers eðlis sagnarandinn er, en hann snýst alltaf um það sem markar greinarmun á milli þess sem er rétt og rangt.
Allir eru sammála um að byggja upp nýtt og betra Ísland. Við gerum okkur þó óljósa grein fyrir því hvernig samfélag jöfnuðar og réttlætis verður til.
Við trúum vonandi að samfélagið verði sanngjarnt fyrir börnin sem vaxa nú úr grasi. Enginn vill tefja fyrir því en við þurfum væntanlega að breyta hugsun, hegðun, og vali í stað þess að kjósa það sama aftur og aftur.
MÖRG ANDLIT ÍSLANDS
Ísland hefur mörg andlit. Andlitin mótast eftir vali okkar og hegðun. Stóriðja gæti orðið áberandi hrukka, frelsi í fjalladal gæti mást út, sóðaskapur birst í fílapenslum, gestrisni í augum eða níska. Náttúran, tungan, þjóðin … hvernig mótast andlitið?
Forseti Íslands er þýðingarmikið andlit. Sitjandi forseti er andlit gamla tíðarandans sem getur ekki staðið upp og yfirgefið sviðið. Eigum við rétta honum hjálparhönd?
Hvað er heillavænlegast fyrir land og þjóð næstu árin? Vandasamt er að segja nákvæmlega til um það en þó má greina viðvörunarmerkin: Blindhæð! Torleiði! Brött brekka! Ósléttur vegur! Grjóthrun! Sviptivindur! Sleipur vegur! Steinkast!
Við stöndum nú frammi fyrir vali sem hefur áhrif á stöðu tíðarandans og viðhorf gagnvart framtíðinni. Það er til val um aðra leið, val um annan forseta. Hvað veljum við?
Sagnarandinn lætur á sér kræla, hann varar aðeins við, segir til um hvað skapi sundrung í stað sameiningar.  Hlustum á innri rödd. Gefum okkur tíma til að hlusta, þessi rödd er ekki hávær og krefst ekki athygli, hún hvíslar, hún bannar ekki heldur tekur upp viðvörunarmerkið sem hver og einn þarf að lesa á.
Varúð!

Þankar um forsetakosningar II

Hann vildi vera vinur þeirra. Hann greiddi götu þeirra með meðmælabréfum sem leiðtogar landa um víða veröld lásu. Hann kallaði þá vini sína, sagði þá skemmtilega og afburðasnjalla og að hyggilegt væri að treysta þeim til að gæta þjóðargersema og fjöreggja. Hann veitti þeim orður og bauð þeim oft heim til sín ásamt tignum erlendum gestum. Hann skrifaði upp á vottorð um heiðarleika þeirra. Hann vildi njóta virðingar þeirra, vera einn af þeim.
Hann virtist sáttur við að örfáir (viðskipta)vinir hans eignuðust allt, ekki bara hér á landi heldur helst sem mest í öðrum löndum. Hann heillaðist af íburði og einkaþotum vina sinna. Hann hvatti, hann trúði og efaðist ekki. Hann sagði þá dyggðumprýdda víkinga.
Hann sá ekki vel, heyrði heldur illa, skildi fremur treglega og nam því ekki staðar fyrr en við hengiflugið og fylgdist með vinum sínum falla. Líf þeirra var ekki aðeins blekking heldur hjúpað spillingu. Hann sá það ekki.
Hann náði taki á bjargbrúninni, lyfti sér upp og tók að leita að þjóðinni sem hann hafið yfirgefið sjálfur. Nú var hún það eina sem gat bjargað honum. Hann lagðist við fótskör hennar og tók að sleikja hana upp:
Hann talar og talar, bendir í allar áttir. Þetta var ekki honum að kenna. Vinir hans brugðust traustinu. Hann biðst jafnvel afsökunar (ef hann gerði eitthvað rangt) þótt hann iðrist kannski ekki. Segir með sannfæringarmætti hvað sé þjóðinni fyrir bestu og að hann geti sett saman lista í tíu liðum um leiðina til sigurs. Segist vera nauðsynlegur, það megi alls ekki vísa honum á dyr.
Hann er undraverður kappi. Hann vill vera vinur okkar. Hver stenst honum snúning?
Tenglar: