Flokkaskipt greinasafn: Ýmislegt

KÍMNIGÁFAN Á TOPP TÍU LISTANUM

Engum hefur tekist að skilgreina húmor eða gera grein fyrir kímnigáfunni, þótt margir hafi gert góðar og nytsamar tilraunir og jafnvel smíðað viðamikil kerfi í þeirri viðleitni. Húmorinn sleppur iðulega úr greipum fræðimannsins með því að gera gys að honum og skilgreiningin deyr um leið og beitt grínið sker hana á hol.

Skilgreiningin liggur ævinlega vel við höggi, því um leið og kerfi hefur verið smíðað sem rúma skal allt mögulegt háð og grín sem mannveru getur dottið í hug, þá sprettur fram nýtt afbrigði eða jafnvel tegund og kerfið hrynur.

Gleði og hlátur eiga sér sjálfstætt líf óháð kímnigáfunni og fasta búsetu í manninnum. En þau eru jafnframt fylgifiskar kímninnar. Hlátur veit þó ekki alltaf á gott því fátt óttast sá hrokafulli og þrjóski meira en háð og hlátur annarra. Sá hlátur nístir í beinum.

Húmor þræðir króka og kima mannlífsins, svo virðist vera sem enginn áfangastaður sé honum óviðkomandi, ekkert sæluríki og ekkert skúmaskot, háhýsi eða dyflissa. Hann er utan marka og innan, siðlaus og siðlegur, líkur kitli og hnífsstungu. Óvæntur.

KÍMNIGÁFAN VINSÆLT LÍFSGILDI

Í lífsgildakönnun Capacent sem birt var 2008 kom fram að kímnigáfan er meðal þess sem Íslendingar meta mest í lífinu. Ekki aðeins góða brandara heldur fólk sem kemur auga á spaugilegu hliðina. Það er sérstök gáfa.

Lífið er stutt ef kímnigáfuna skortir, því húmor er lækning og hlátur lengir lífið og gleðin er fjörefni hugans. Ein þekktasta kenningin um húmor snýst um að grínið losi um uppsafnaða spennu í líkama og sál.  Andrúmsloftið er þrúgandi og þungt og þá finnur húmoristinn óvænta leið að markinu og fólk springur úr hlátri og gleðin brýst út úr búrinu og streitan hverfur á brott.

Rannsóknir á kímnigáfu og húmor eru heil fræðigrein þar sem íslenskir þjóðfræðingar hafa meðal annarra staðið sig vel. Fjórum sinnum hafa þeir haldið Húmorþing á Hólmavík. Einnig virðist uppistand vera í góðri sveifu um þessar mundir. Enginn býst þó við endanlegu svari við ráðgátunni um þessa sálargáfu mannsins.

VALD HÚMORS OG ÁHRIF

Húmor getur sprottið fram hvar og hvenær sem er og hann spyr ekki um rétt eða rangt eða gott og vont. Hann er ekki mælikvarði en hann hefur þó merkingu innan siðferðis. Hann getur tekið undir staðalímyndir, hann getur viðhaldið kúgun. En hann getur líka verið þáttur til að brjóta niður harðstjórn.

Húmor getur verið viðeigandi eða óviðeigandi, grófur og góðlátlegur, meiðandi og græðandi. Hann getur opinberað kynþáttahatur eða hatur á konum eða körlum. Hann getur líka verið áhrifarík samfélagsgagnrýni. Húmor getur verið ógn, svo hættulegur að hann hefur verið kenndur við djöfulinn (fyrr á öldum).

Hann getur snúist um kúk og piss og henn getur verið fágaður orðaleikur. Hann afhjúpar eitthvað með því að rugla aðra, fara úr karakter, skapa misræmi og varpa óvæntu ljósi á eitthvað sem sumir kalla sannleikann. Hann er ekki alltaf „bara grín“ eða „jók“ eins og oft er sagt. Því hann getur verið meiðandi, hatursfullur og unnið gegn jöfnuði

Húmor er nátengdur hópum. Í hverjum hóp skapast ákveðin tegund af húmor. Kaldhæðni og gálgahúmor verða oft til í hópum þar sem lífið er háskalegt eða getur látið undan sjúkdómum. Sá húmor myndi ekki virka til að mynda á virðulegri skrifstofu. Húmor virðist því háður stað og stund og ef til vill hverri þjóð.

Kímnigáfan er sammannleg og þróaðist ef til vill sem viðbragð við áreitum eða aðferð til að ná árangri og öðlaðist þroska hjá sagnaþulum. Ekki er ólíklegt að hver þjóð búi við sitt sérafbrigði af húmor, allt eftir aðstæðum. Húmor þróast mismunandi eftir hverri þjóð, hvort í landinu ríki einræði eða lýðræði, trúfrelsi eða trúhelsi, hvort þar yfirstétt sem gín yfir öllu og kúgar, hvort landið er meginland eða eyja, fjölmenn eða fámenn. Ísland er bæði örríki og dvergríki. Hvernig er húmorinn þar?

Tegund: Hvað einkennir íslenska fyndni?

Afbrigði: Hver eru sérkenni íslenskrar fyndni?

Leitað verður svara við þessum spurningum og öðrum á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 21. mars kl. 20.00 þar sem Gunnar Hersveinn stjórnar umræðum og leikkonan Helga Braga Jónsdóttir verður gestur, en hún hefur tekið þátt í ótal gamanþáttum í sjónvarpi m.a. Fóstbræðrum og Áramótaskaupinu.

P.S. Boðsgestur gengur inn í eldhús og spyr kokkinn: Hvað er í matinn? Kokkurinn svarar: Það er svínabógur sem ég keypti í Danmörku. Gesturinn segir: Það er gott að það er búið að þýða hann.

Tengill

Gerðuberg

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Deila

Frelsi og ábyrgðarkennd

Ábyrgðarkenndin dofnar í samfélagi þeirra sem trúa að allt bjargist þótt þeir standi sig ekki. Sá sem verður of góðu vanur verður firringunni að bráð. Ábyrgð og frelsi klæðir heiðarlegar manneskjur vel.
Ábyrgð er framandi hugtak fyrir þá sem ofmeta eigið frelsi. Ofsafengið frelsi, skefjalaust frelsi, takmarkalaust frelsi, „ég vil fá að gera það sem ég vil, enginn hefur rétt til að hindra áform mín,“ segir hinn ábyrgðarlausi.
Frelsi og afstæðishyggja eru ekki gott par. Verðleikar annarra þurrkast út, einnig greinarmunurinn á réttu og röngu, góðu og vondu og náttúru og borg.
Afstæðishyggja er að sumu leyti afstöðuleysi. Manneskja getur verið umburðalynd, hún getur verið víðsýn en það vegur ekki þungt nema hún taki sér einnig stöðu með lífinu. Afstöðuleysið er firring, skortur á mannúð.
Heiðarleg manneskja lýsir því ekki yfir að allt afstætt, því það er samhljómur milli hugsjóna og athafna í lífi hennar. Hún vill opið og gagnsætt samfélag. Afstæðishyggjumaður vill ekki ramma sem þvingar, aðeins frelsi án marka. Frelsi án afleiðinga fyrir hann sjálfan. Það er afstaðan – þegar allt kemur til alls.
Frelsi til og frá, frelsi fram og aftur blindgötuna … en frelsi án kærleika er einskis virði, frelsi án ábyrgðar en innantómt og hættulegt. Frelsi í huga hins skammsýna er ekki vænlegt. Og ekki heldur nauðsynlega í huga hins framsýna.
Frelsið er foss, frelsið er jökulá en þegar það flæðir yfir bakka sína eyðileggur það umhverfið sitt.
Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu.
Ábyrgð felst í því að nema hlutdeild sína í samfélaginu. Enginn verður fullþroska fyrr en hann skynjar samábyrgð sína til að vinna góð verk og koma í veg fyrir sundrungu. Ábyrgðin birtist í samstöðu þjóðarinnar gegn óréttlæti.
Lífið í landinu er boðhlaup og hver kynslóð heldur á keflinu hverju sinni, tók við því og réttir það fram til næstu kynslóðar. Ábyrgðin felst í því að bregðast ekki. Sá sem hleypur og hugsar „Þetta reddast“, skortir næmni fyrir samhengi hlutanna.
Skammsýn þjóð trúir að allt muni reddast. Hún er ístöðulaus og fljótfær. Hinn skammsýni er snöggur að samþykkja og framkvæma – en hann verður oft skák og mát.
Ábyrgð og frelsi þarfnast víðsýni og tíma. Víðsýnt viðhorf hægir á tímanum, ellefta stundin rennur ekki upp og kapphlaupið við tímann rennur sitt skeið. Betri tími gefst til að ala upp börn, kanna kringumstæður, meta gögn, meiri tími til að íhuga fortíðina og nútíðina, hyggja að náttúruauðlindum, næstu kynslóðum, hlýnun jarðar af mannavöldum og hvað skapi hamingju og hvað ekki.
Ef ábyrgð og frelsi tengjast nánum böndum skapast rúm fyrir yfirvegun, stöðugleika og víðskyggni.
Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Þrífst ástin á einmanakennd?

Morgunblaðið/menning: Rætt verður um ástina í Heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudagskvöldið 15. febrúar kl. 20. Gunnar Hersveinn mun stýra umræðum sem gestir taka virkan þátt í, um eðli ástarinnar og kraftana sem eru þar að verki.
Er ást losti, vinátta eða kærleikur? Er ástin háð tíma, stétt og viðhorfi eða er hún alltaf og alls staðar eins? Er viðhorf Íslendinga til ástarinnar sprottið úr norrænum sögum eða er það ef til vill sprottið úr forngrískri heimspeki og ástarbókmenntum miðalda? Þetta eru sumar spurninganna sem ber á góma í Heimspekikaffi undir stjórn Gunnars Hersveins, sem haldið verður í Gerðubergi miðvikudaginn 15. febrúar, klukkan 20.00. Gestur kvöldsins verður Aðalheiður Guðmundsdóttir, aðjunkt í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Aðalheiður hefur fjallað um ástina í bókmenntum fyrri alda og er meðal annars höfundur bókar um norrænu arfsöguna Úlfhams sögu.»Við byrjum hjá Grikkjum til forna og ræðum meðal annars hugmynd um ástina út frá kenningu Aristófanesar, um að maðurinn og konan hafi upphaflega verið ein vera sem guðirnir skiptu í tvennt,« segir heimspekingurinn Gunnar Hersveinn. Í þeirri táknsögu um ástina segir hann helmingana síðan leita hvor annars. »Að sumu leyti er ástin þá söknuður og þrífst á einmanakennd og löngun til að finna hinn helminginn,« bætir hann við.»Til umhugsunar verður lögð fram tilgáta þar sem ástinni er skipt í þrennt og reynt að raða hlutunum upp á ýmsan hátt. Það eru hinn erótíski þáttur, þáttur vináttunnar og hinn andlegi þáttur.«Aðalheiður segir frá riti Rómverjans Óvíðs sem skrifaði rit sitt Ars amatoria (Listin að elska), hún hefur einnig skoðað ástina í riddarasögum og hvernig kenningar um hana hafi borist fyrst til Íslands, meðal annars í riti eftir Óvíd, því elsta sem til er um þetta efni.»Við Aðalheiður munum ekki bara tala, heldur er þetta umræðuvettvangur og gestirnir taka við,« segir Gunnar um Heimspekikaffið. »Við hvert borð verða ákveðnar spurningar um ástina ræddar og tjá hóparnir sig um þær.«
efi@mbl.is Morgunblaðið 14.02.12

Siðfræði jólanna í hnotskurn

Siðfræði jólanna er kærleikur, gleði, von, gjöf og friður.

Kærleikurinn merkir að líta náunga sinn geðmjúkum augum. Andstæða hans er öfund og að leggja fæð á aðra. Boð hans er að gera náunga sínum gott en ekki illt. Og hann gengur lengra því hann bræðir óvildarmenn með hlýhug sínum.

Gleðin klingir í eyrum þegar klukkurnar slá sex en þá gengur nýr dagur í garð. Við segjum gleðileg jól. Tákn hennar er klukkuspilið sem hringir inn jólin svo jafnvel verður glatt í döprum hjörtum.

Gjöfin er mikilsverður þáttur jólanna. Jólapakkinn er kraftbirting gjafarinnar, en sjálf er hún hugarfarið sem liggur að baki og hugurinn sem þiggur hana. En hvernig sem gjöfin er gefin þá er hún góð í eðli sínu. Hugtakið gjöf rúmar ekki illkvittni, því gjöf gefin af góðsemi hefur gæfu að geyma.

Friðurinn sprettur upp þegar ábyrgðarkenndin vaknar í hugum og hjörtum – og slekkur hefndarþorstann. Tákn hans er blóm eða hvít dúfa. Það eru ekki uggvænleg fyrirbæri.

Vonin er ósk og þrá og bæn, hún er grunur. Von er bjartsýni og hughreysti, en sá sem missir vonina kemst á vonarvöl. Von er bæn hjartans, þrá sálarinnar og ósk hugans sem getur ræst. Litur vonarinnar grænn og tákn hennar er fugl sem syngur í dimmunni fyrir dögun.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Karpsemi og röksemi mætast í Gerðubergi

Karpsemi er þjóðlegur löstur sem ef til vill mætti flytja út. Hvar er hún kennd og hvaða gráðu veitir þekking og kunnátta í karpsemi? Það er milljón dollara spurningin. Nú vill svo vel til að karpsemin verður tekin til greiningar á Heimspekikaffihúsinu í menningarmiðstöðinni Gerðuberg miðvikudaginn 16. nóvember 2011. Gunnar Hersveinn hefur stjórnað þar umræðum og fengið góða gesti til að vera með innlegg. Fullt var út úr dyrum í síðasta kaffi þegar hamingjan og nægjusemin ræddust við.

En spurningin er, hvað með karpsemi, röksemi og umræðuvenjur Íslendinga? Sá sem hefur áhuga á að mæta á skemmtilegt kvöld, heyra sögur af karpi, hvernig skoðun myndast og annað sem lýtur að skynslegum rökum er velkomin/n. Kostar ekkert.

Undirritaður óskar hér með eftir góðum karpsögum, þverstæðum, röksemdum, dæmum, greiningum eða öðru slíku sem lesendur luma og og vilja miðla. Annaðhvort á facebook eða með því að senda t-póst á lifsgildin@gmail.com.

Hér er smá texti til að hita upp fyrir kvöldið:

Karpsemi: Hinn karpsami Íslendingur hefur enga trú á að rökræður veiti heillavænlega niðurstöðu. Hann treystir á síbylju fullyrðinga. Réttlæti er ekki áhyggjuefni þar sem karpyrðin fjúka. Allt karp er lagt á að sigra andstæðinginn. Hann segist vera að hugsa um komandi kynslóðir en er aðeins að hugsa um eigin hag.

Röksemi: Sjálfstæð hugsun felst í að taka upplýsingum með varúð. Hún hefur efann að vopni. Maður með sjálfstæða hugsun hlustar á kenningar og svör en trú hans er ekki gefin. Hann veit að hann getur engum treyst nema sjálfum sér og hann leggur mál sín undir dóm gagnrýninnar hugsunar. Hann skilur að þrjóska og fordómar lenda í öngstræti heimskunnar.

Gunnar Hersveinn, lifsgildin@gmail.com

Myndin er birt með góðfúslegu leyfi höfundar, Halldórs Baldurssonar

Þarna stendur: Talið er að rökræðuhefð Íslendinga hafi mótast á Sturlungalöld.

Hamingja og hófsemd spjalla yfir kaffibolla í Gerðubergi

Er nægjusemin lykill að hamingjunni? er ein af þeim spurningum sem munu svífa yfir bollum í heimspekikaffi með Gunnari Hersveini í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi miðvikudaginn 19. október, kl. 20. Allir eru velkomnir.

HAMINGJA – NÆGJUSEMI
 
Húsfyllir var á fyrsta heimspekikaffinu í Gerðubergi  í september þegar Gunnar Hersveinn stjórnaði lifandi umræðum um náin tengsl hjálpsemi og vináttu. Í næsta heimspekikaffi verður glímt við samband nægjusemi og hamingju ásamt mörgum öðrum skemmtilegum og mikilvægum spurningum. Gestur kvöldsins verður Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur og rithöfundur sem hefur skrifað og flutt erindi um hamingjuna, hún hefur m.a. fjallað um samband hamingjunnar við ást og einmanaleika . (Fréttatilkynning: Menningarmiðstöðin Gerðuberg).

Hamingjan er eitthvað sem allir sækjast leynt eða ljóst eftir. Hún er víðtækt hugtak og krefst mikils, m.a. fjölbreytileika, tíma, tækifæra og jafnvel heppni og langlundargeðs en nægjusemin er nokkuð einföld dyggð sem kallar á sjálfsaga til að neita sér um safaríka hluti. Árangur hófsemdarinnar opinberast yfirleitt ekki fyrr en seint og um síðir (seint koma sumir…) .

Hamingjan er vinsæl en hófsemdin sést aftur á móti ekki á mörgum vinsældarlistum … eða hver velur hana sér við hlið þegar til dæmis hugrekki stendur til boða með glæstum sigrum og lofi? (Margir segja að fylginautar hófsemdarinnar séu leiðindi og tóm leti). Ætli hófsemdin gæti fyllt hús gesta?

Málið verður rætt í Gerðubergi 19. október klukkan 20. Allir velkomnir! Ókeypis aðgangur.

Gunnar Hersveinn hefur skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Þær heita Gæfuspor, Orðspor og ÞjóðgildinAnna Valdimarsdóttir hefur haldið fjölda námskeiða í sjálfsstyrkingu og m.a. skrifað metsölubókina Leggðu rækt við sjálfa þig

í HNOTSKURN:
Nafn: Hamingja – Nægjusemi / Heimspekikaffi.
Staður: Gerðuberg – menningarmiðstöð, Gerðubergi 3-5.
Tími: Miðvikudaginn 19. október 2011, klukkan 20.00.
Umsjón: Gunnar  Hersveinn (lifsgildin@gmail.com).
Gestur: Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur.
Fyrir hverja: Allir velkomnir.
Fyrirkomulag: Innlegg frá höfundum, umræðuverkefni, samtal milli aðila, samantekt.
Tenglar:
Grein eftir Önnu Valdimarsdóttur
Brot úr textum eftir Gunnar Hersvein

Æfa hjálpsemi og rækta vináttu

Heimspekikaffi er nýjung sem Gerðuberg stendur fyrir nú á haustmánuðum. Þar mun Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur, stjórna lifandi umræðum – en efni fyrsta kvöldsins, miðvikudaginn 21. september, er hvernig æfa má hjálpsemi og rækta vináttu til að bæta samfélagið. Sigríður Víðis Jónsdóttir þróunarfræðingur verður með innlegg út frá bók sinni Ríkisfang: Ekkert – flóttinn frá Írak á Akranes.

Hjálpsemi og vinátta eru ekki aðeins falleg hugtök heldur mannkostir sem þarf að æfa og rækta. En hvernig er það gert og hversu mikilvægar eru þær í nútíma samfélagi? Vinátta er nauðsynleg fyrir sálarheill einstaklinga en hvað er vinátta, hver eru mörk hennar og hvernig er henni viðhaldið? Hjálpsemi tilheyrir ekki ósjálfráða taugakerfinu og hún sprettur ekki fram nema eftir æfingu og góðum fyrirmyndum. Hvernig verður maður hjálpsamur og hvers virði er það? Getur þjóð lært að vera hjálpsöm? Eigum við að hjálpa öðrum?

Gunnar Hersveinn hefur skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Þær heita Gæfuspor, Orðspor og Þjóðgildin. Sigríður Víðis Jónsdóttir er með meistarapróf í þróunar- og átaksfræðum. Hún hefur skrifað sögu átta mæðra sem fengu hæli á Akranesi sem flóttamenn með börn sín.

Enginn aðgangseyrir, allir velkomnir!

Tenglar

http://gerduberg.is/desktopdefault.aspx/tabid-3475/5844_read-28139/

Eigum við að hjálpa öðrum? Sigríður Víðis Jónsdóttir. B.A. ritgerð við Háskóla Íslands 2003. http://www.redcross.is/redcross/upload/files/pdf/eigumvidatthalpa.pdf

Hjálpsöm manneskja óskast

EJ ljósmyndari

Ábendingar sendist á netfangið: lifsgildin@gmail.com

Leitað er eftir ábendingum um hjálpsama manneskju. Hún þarf að hafa vilja og löngun til að leggja öðrum lið og hún þarf að hafa kjark til að tefla eigin hagsmunum eða stöðu í tvísýnu á sama tíma og hún hjálpar öðrum. Hún þarf að hafa sýnt hjálpsemi í verki og geta miðlað til annarra.

Menntunarkröfur og reynsla
Námskeið í skyndihjálp er kostur ekki nauðsyn.
Æfing í því að hjálpa öðrum óumbeðin/n.

Hæfniskröfur
Að geta hugsað um öryggi annarra ef hættu steðjar að, áður en hugsað er um eigin hagsmuni.
Að geta liðið með öðrum (samlíðun) og óskað þeim velfarnaðar.
Að geta sett sig í spor annarra.
Að búa yfir hugrekki til að taka áhættu fyrir aðra en sjálfa sig. 

Launakjör
Eigin hjartagleði og/eða annarra auk þóknunar.

Starfið felst í
Að koma fram á Heimspekikaffi um hvernig megi æfa hjálpsemi og rækta vináttu til að bæta samfélagið í Gerðubergi 21. september 2011 hjá Gunnari Hersveini:
http://gerduberg.is/desktopdefault.aspx/tabid-3685/5623_view-4667

Ábendingar
Tekið er við ábendingum um hjálpsamar manneskjur með þökkum. Vinsamlegast sendið ábendingar á netfangið: lifsgildin@gmail.com. Með bestu þökkum GH

Nánar
Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur, mun stjórna lifandi umræðum í Gerðubergi á haustönn 2011 um ýmis konar hugtök og fá til sín góða gesti sem verða með stutt innlegg. „Gunnar Hersveinn hefur tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni til margra ára og skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Þær heita Gæfuspor – gildin í lífinu, Orðspor – gildin í samfélaginu og Þjóðgildin – sprottin af visku þjóðar. Hann hefur jafnframt gefið út ljóðabækur, nú síðast ljóðaumslagið Sjöund. Gunnar Hersveinn hefur einnig starfað sem blaðamaður og hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir greinaskrif og framlag sitt sem samfélagsrýnir. Þeir sem vilja kynna sér verk Gunnars er bent á heimasíðuna www.lifsgildin.is.  Heimspekikaffið er nýjung í dagskrá Gerðubergs. “ (http://gerduberg.is/desktopdefault.aspx/tabid-3685/5623_view-4667)

Gunnar stjórnar í Gerðubergi 21. september lifandi umræðum um hvernig æfa megi hjálpsemi og rækta vináttu til að bæta samfélagið – að gefa öðrum er forsenda velgengni. Innlegg frá góðum gesti. Hefst kl. 2o.00. Hvað er hjálpsemi? Hvernig getur maður lært hana? Hverjir leggja helst stund á hana? Hvað er vinátta? Er hún lærð?

www.lifsgildin.is

Breytum lífi annarra

Mynd frá Unicef/ http://unicef.is/Það skiptir ekki máli hvort það eru þúsund eða þúsund sinnum þúsund manns sem þjást, félagslegt óréttlæti ríki eða hungursneyð – faðmurinn á að vera opinn. Það skiptir heldur ekki máli hvort neyðin er fjarlæg eða nálæg, það er iðulega gott að rétta fram hjálparhönd og andmæla því heimsskipulagi sem viðheldur ranglæti.

Við getum breytt lífi annarra, bæði viðhorfum samborgara okkar og lífsskilyrðum fólks í öðrum heimsálfum. Okkur bjóðast ótal tækifæri til þess. Án tafar getum við gefið pening til hjálparstarfa, við getum knúið á um breytingar og við getum jafnvel farið á vettvang sem sjálfboðaliðar. Allt, ef við bara viljum.

Þylja má upp ógnvekjandi tölur um neyð barna og fullorðinna, stundum vegna þurrka, stundum vega flóða og stundum vegna stjórnarfars. Hér er dæmi um tölu: Um það bil 700 þúsund börn í Austur-Afríku eru lífshættulega vannærð og þurfa á tafarlausri aðstoð að halda.

Mat skortir, lyf, hreint vatn, skjól og öryggi – allt þetta er til reiðu, allar forsendur, öll gæði. Hægt er að breyta heiminum til betri vegar á áratug – bara ef við viljum ryðja hindrunum úr vegi. Bíðum ekki eftir að gömlu heimsveldin rétti fram hramminn. Notum eigin hjálparhendur!

Fátækt, óréttlæti, efnahagslegt misrétti, pólitík og félagslega slæmar aðstæður vekja hatur og ofbeldi og viðhalda neyðinni. Misskipting gæða, kúgun, arðrán og áróður sem skipar fólki á bása eftir uppruna, trúarbrögðum eða stjórnmálum veldur dauða saklausra. Vandinn er fjölþættur en lausnin er til – bara ef við viljum.

Magn skiptir ekki máli, nafn ekki heldur, ekki litarháttur, búseta, kyn, staða né neitt annað þegar beðið er um hjálp og mannúð. Aðstoðin er skilyrðislaus og enginn á að þurfa að greiða hana til baka. Hún er gjöf sem gott er að gefa og hefur gæfu að geyma.

Okkur ber að standa vörð um gæðin sem við búum við – en við eigum þau ekki skilið nema við leyfum öðrum að njóta. Fyrst í stað gefum við nauðsynjar og síðan þekkingu til að breyta lífsskilyrðum til betri vegar og jafna hlutskipti milli manna. Heimsskipulag þar sem fámennur karlahópur þykist eiga 99% auðs í heiminum skapar aðeins neyð fyrir æ fleiri. Slík heimsskipan má gjarnan hrynja.

Íslendingum býðst núna tækifæri til að gefa hjálparsamtökum sem koma börnum og fullorðnum í Austur-Afríku til hjálpar um þessar mundir. UNICEF á Íslandi, Rauði krossinn og Hjálparstarf kirkjunnar eru meðal þeirra sem koma gjöfunum til skila. Gefum og tökum síðan til við að breyta heiminum!

Gunnar Hersveinn/ lifsgildin.is

Friðarmenning í Noregi

Viðbrögð Norðmanna gegn hryðjuverkunum í Ósló og fjöldamorðunum í Útey eru lofsverð, því þjóðin heitir sér því að leggja áherslu á kærleika og meira lýðræði. Það er ríkur þáttur í þeirri friðarmenningu sem Norðmenn hafa boðað.

Hugtakið friður er viðamikið og felur í sér tilfinningar og dyggðir. Friður er mennska sem borgarar eiga að rækta með sér. Friðarmenning er ekki vopnahlé eða skyndiákvörðun heldur margskonar starfsemi sem lýtur að sama markmiði: að rækta líf, særa engan og virða aðra.

Viðbrögð Norðmanna við ódæðisverkum á heimavelli skapa einhug og vekja þeim löngun til að efla kærleikann. Þau ætla að nota þjáninguna, ekki til að hefna sín, heldur til að vinna bug á uppsprettu og afleiðingum haturs og heimsku. Það er aðdáunarvert.

Friður er meginregla en ekki draumur, hann er veruleiki sem er forsenda betra lífs á jörðinni. Líkt og hægt er að ala upp hermenn og þjálfa þá til hernaðar er unnt að leggja stund á frið með uppeldi og þjálfun og kenna hann í skólum. Það er friðarmenning.

Menntuð stjórnvöld skapa aðstæður til að gera út um deilur og áföll á friðsamlegan hátt í stað þess að velja fjölfarna leið óttans. Verkefnið er að setja sig í spor annarra og markmiðið að skapa samkennd milli ólíkra einstaklinga. Það skapar frið og öryggi íbúa.

Norðmenn senda nú þau skilaboð til heimsins að svarið við illvirkjum sé meira lýðræði, gagnsæi og mannúð, svarið við hatri sé kærleikur. Ótta og illsku er vísað á bug. Þetta er sjaldséð, lofsvert og í anda ungmennanna í Útey sem börðust fyrir friði, jafnrétti og opnu samfélagi fyrir alla.

Það er sama úr hvaða ranni ódæðismenn eða hópar spretta, það er sama hvaða nöfnum þeir eru nefndir, það er sama hvort illvirki er kennt við hægri eða vinstri, austur eða vestur, það eru viðbrögðin sem skipta máli. Friðarmenning brýtur vítahring haturs.

Gunnar Hersveinn / lifsgildin.is