Flokkaskipt greinasafn: Ýmislegt

Hamingjan í útvarpinu

 Rás 1. Flutt: mánudagur 27. júní 2011 kl. 15.25. Endurflutt: 3. júlí 2011 kl. 19.40

Hamingja og hvernig hana megi nálgast hefur verið mannskepnunni hugleikið í aldanna rás. Að vera hamingjusamur- eða söm er nokkuð sem flestum ber saman um að sé eitthvað til þess að keppa að. Hvað er hamingja? Guðni Tómasson les úr bókinni Gæfuspor eftir Gunnar Hersvein. Rætt við Gunnar Hersvein rithöfund og samfélagsrýni. Umsjón: Björg Magnúsdóttir.

http://dagskra.ruv.is/nanar/10322/

Deila

Skamm-, fram- eða víðsýn þjóð?

Það er móða á gleraugunum og ég sé ekki skýrt, ekki fram, hvað þá aftur og ekki heldur til hliðar, aðeins næsta skref. Hvað er til ráða? Skammsýni er galli sem þjóðin þráir að vinna bug á. Loforð um farsælt líf án fyrirhafnar reyndist blekking og trúgirni kaupandans var reist á forsjárleysi. Hvers vegna eru Íslendingar sagðir skammsýnir og hvernig getum við orðið víðsýn?

I. Skammsýn þjóð

Skammsýni er fyrirhyggjuleysi, stundum vegna vana, stundum vegna leti og heimsku, stundum vegna ofmetnaðar.

Ef til vill mætti segja að ungbarn sé skammsýnt, það þekkir ekki veröldina, möguleikana eða sig sjálft. Ef svo er, hefst lífið á skammsýni. Glámskyggnin er eflaust sjálfsagt mál í heimi án morgundags og hjá þeim sem ekki geta sett sig í spor næstu kynslóðar. Heimi án skuldadaga, sögu, samhengis og ábyrgðar. Þó er ekki sanngjarnt að segja að barn sé skammsýnt vegna þess að það getur ekki séð margt fyrir. Betra er sennilega að nota hugtakið um þá sem eru skammsýnir þrátt fyrir að hafa tækifæri til að afla sér þekkingar.

Skammsýni þjóða er háð ýmsum þáttum og hún tengist bæði stöðnun og breytingum. Þjóð getur orðið taugaveikluð af  sífelldum breytingum og óstöðuleika hvort sem það orsakast af eigin fyrirhyggjuleysni, stjórnmálum, stríði eða náttúruhamförum. Flestallar ákvarðanir spanna þá aðeins daga, vikur eða mánuði. Kappsöm þjóð getur líka verið skammsýn, hún fer hraðar en mannsandinn, svo hratt að líferni, hugsun og tungumál ungra verður eldri kynslóðinni framandi – og öfugt. Og þjóð sem lifir aðeins í takt við náttúruna er óvarin fyrir óvæntum áhrifum.

II. Ísland

Íslendingar geta eflaust afsakað skammsýni sína með margskonar tilvísunum. Íslandssagan er stuttaraleg, aðeins tæplega 1200 ár, en saga til að mynda Kína sem menningarþjóðar spannar meðal annars heimspeki Lao Tze og Konfúsíusar frá 6. og 5. öld f.Kr. Okkar vestræna hugsun er þó samofin menningu Forngrikka, Gyðing- og Kristinsdóms og norrænni speki sem meðal annars birtist í Hávamálum. Vits er þörf – en það er líkt og það dugi ekki.

Þrátt fyrir visku fyrri alda, meitlaða speki og greiðan aðgang að lærdómi þjóða um víða veröld virðist tíðarandinn, hversu heimskur sem hann er hverju sinni, aftur og aftur ná tökum á ístöðulausri þjóð á eyjunni í Atlantshafi. Glámskyggnin eygir aðeins tálsýn hálft ár fram í tímann og það virðist nægja henni til að halda áfram för sinni.

III. Dyggðir

Sérkenni skammsýninnar er ístöðuleysi og fljótfærni. Hinn skammsýni er snöggur að samþykkja og framkvæma – en hann verður oft skák og mát á meðan aðrir skoða tækifærin sem taflið felur í sér .

Einkenni skammsýni er blinda af ýmsum toga. Hinn skammsýni þykist hafa sjón, hann setur jafnvel upp gleraugu en tekur ekki eftir neinu sem skiptir máli. Hann sér aðeins það sem hann trúir og óttast. Hann heyrir heldur ekki vel. Það er þýðingarlaust að „senda mér skeyti, eða skrifa mér bréf – þú skilur – ég er ekki læs.“ (Megas).

Hvert sinn sem litið er á klukkuna bendir vísirinn á elleftu stundu. Ókostirnir eru streita og hraðasamfélag án rósemdar. 

Hinn skammsýni sannfærir sjálfan sig og aðra með rödd sem virðist vita hvað hún mælir. En gönguskórnir eru lélegir og vegakortið sýnir aðeins grösuga sveit en ekki jökulánna framundan og gljúfrið. Hann arkar áfram og hverfur  inn í þokuna. Nærsýn þjóð í mýri, úti er ævintýri.

IV. Framsýn þjóð

Kannanir á lífsgildum og viðhorfum Íslendinga hafa sýnt að fólk kvartar sáran undan efnishyggju, skammsýni og spillingu og kallar eftir fjölskyldugildum, virðingu og ábyrgð. Því má segja að þrátt fyrir skammsýnin ráði enn för, vaxi vitundin um skaðsemi hennar.

En framsýni þarfnast þolinmæði í stað eirðarleysis, þrautseigju í stað óvissu, hugrekkis í stað trúgirni, einbeitni í stað hugarflökts og hugsjóna í stað hagsmuna.

Mælikvarði á framsýni og skammsýni þjóðar snýst um að greina hvort þýðingarmiklar ákvarðanir séu byggðar á hugsjónum og stefnu um heillavænlegt samfélag fyrir næstu kynslóðir – eða einungis (hræðslu)viðbrögðum til að bjarga okkur frá ógöngum gærdagsins.

Annar mælikvarði opinberar hvort ákvarðanir eru byggðar á rökræðu og samráði eða þrjósku og útilokun sjónarmiða, hvort allir hópar sitji við sama borð. Réttlæti er langtímaverkefni sem snýst meðal annars um skattakerfið, auðlindir, aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu og viðleitni til friðarmenningar.

V. Mótsögnin

Sá sem getur skipulagt sig langt fram í tímann, gert áætlanir og unnið að þeim án hindrana, nær væntanlega árangri og kemst þangað sem hann ætlar sér. Sá sem getur það ekki stendur í stað eða villist í þokunni.

Framsýni getur þróast þegar þjóð hættir að vera háð atvinnuvegum sem eru nátengdir náttúrunni eins og landbúnaður og sjávarútvegur. Og þegar hún stígur inn í borgarsamfélagið þar sem allar götur tengjast saman í eitt kerfi. Framsýni getur vaxið þegar haldið er áfram dag eftir dag óháð því hvað á sér stað í náttúrunni, óháð veðri og árstíðir hætta að skipta eins miklu máli og áður og þjóðin tekur þátt í hnattrænu umhverfi. 

En svo virðist sem framsýnar þjóðir geti einnig farið villur vega og að skipulagið verði skeytingarlaust og án mannúðar. Það gerist ef stefnan og markmiðin verða heilög og æðri hverjum og einum einstaklingi, þjáningu hans og ófyrirsjáanlegri óheppni. Framsýni er því ekki skilyrðislaust góð.

Verkefnið er fremur að opna augu og eyru, hug og hjarta. Vinna að víðsýnni þjóð meðal þjóða, ekki með öfgum heldur mildi. Þjóð í hringrásar náttúrunnar staðnar og þjóð sem tapar tenglum við náttúruna getur glatað sjálfri sér. Hvorugt er æskilegt, mótsögnin blasir við. Hver er þá lausnin?

VI. Víðsýn þjóð

Víðsýni – fremur en kerfisbundin framsýni og náttúrleg skammsýni!

Mannúðin og kjarni mannréttinda felst í undantekningunni. Hún er mildin, hún er á milli.  Hún setur ekki harðneskjulega afarkosti. Mannúð hefur hliðarsjón.

Fjölhyggja er einkenni víðsýnnar þjóðar. Hún hengir sig ekki í smáatriðin og festir sig ekki í einni kenningu, því það er sama hvaðan gott kemur. Hún velur það sem nýtist flestum, þótt það komi úr óvæntri átt. Hún er frjálslynd og virðing er hennar dyggð.

Ef við segjum að skammsýni fari í hringi og framsýni áfram eftir fyrirframákveðinni línu, þá er víðsýni spírall – lína sem hringast eins og gormur, strengd milli náttúru og borgar.

Víðsýnt viðhorf hægir á tímanum, ellefta stundin rennur ekki upp og kapphlaupið við tímann rennur sitt skeið. Betri tími gefst til að ala upp börn, kanna kringumstæður, meta gögn, meiri tími til að íhuga framtíðina og fortíðina, hyggja að náttúruauðlindum, næstu kynslóðum, hlýnun jarðar af mannavöldum og hvað skapi hamingju og hvað ekki.

Víðsýn þjóð er ágætt (langtíma)markmið. Útsýnið er mikið og fordómar naumt skammtaðir. Sérkenni hennar er yfirvegun, stöðugleiki og víðskyggni.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

Beitt rökræða um kjölfestuhugtök

Bókin Þjóðgildin voru tilnefnd ásamt níu öðrum bókum frá liðnu ári til viðurkenningar Hagþenkis – félags höfunda fræðirita og kennslubóka. Viðurkenningarráð Hagþenkis gaf bókinni eftirfarandi umsögn:  „Hógvær en beitt rökræða um þau kjölfestuhugtök og gildi sem íslensk menning þarfnast við uppbyggingu þjóðar.“

Efni bókarinnar hefur verið ofarlega á baugi í janúar og febrúar og ýmsir kallað eftir fyrirlestrum, meða annars Glerárkirkja á Akureyri sem stendur fyrir vikulegri dagskrá út frá efni bókarinnar. Þá voru Þjóðgildin bók vikunnar í Bókabúð Máls og menningar.

Tenglar:
www.hagthenkir.is

Umræðukvöld

Þjóðgildin í Endurmenntun Háskóla Íslands

Þjóðgildin
Hvernig samfélag viljum við vera? Tvisvar voru þjóðfundir haldnir til að laða fram visku þjóðarinnar og tvisvar voru sömu gildin valin.

Þjóðfundagestir 2009 og 2010 voru sammála um grunngildin: heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, ábyrgð, frelsi, lýðræði. Einnig eru kærleikur, fjölskylda, sjálfbærni, jöfnuður, traust og mannréttindi hátt skrifuð hjá þjóð sem vill sporna gegn spillingu og græðgi tíðarandans og móta heiðarlegt samfélag. Hvernig getum við lagt okkar af mörkum til að festa þjóðgildin í sessi?

Á námskeiðinu verður fjallað um þjóðgildi Íslendinga í ljósi þjóðfunda, stjórnlagaþings og endurmótunar Íslands. Hvað getum við gert?

Skráningarfrestur er til 7. febrúar 2011.

Á námskeiðinu verður stuðst við bókina Þjóðgildin (2010) eftir Gunnar Hersvein. Gunnar er einnig höfundur bókanna Gæfuspor – gildin í lífinu (2005) og Orðspor – gildin i samfélaginu (2008).