EKKI GLATT Í DÖPRUM HJÖRTUM

barnOrkan brennur upp í taumlausri löngun til að vera fremst þjóða. Enginn vill rifja upp mislukkaðar tilraunir til að þjóna þessari þrá, aðeins er horft fram á veginn í leit að nýjum tækifærum til að öðlast virðingu fyrir að vera best í heimi.

Aðeins ef metnaðurinn stæði til þess að vera þjóð meðal þjóða, stolt þjóð sem tekur þátt í því með öðrum að bæta lífskjör annarra jarðarbúa. Þessi metnaður væri nóg fyrir vestræna velmegunarþjóð í gjöfulu landi.

Ísland hafði sett sér metnaðarfulla áætlun um að komast yfir 0,3% til þróunarsamvinnu en viðmiðunarlöndin Danmörk, Svíðþjóð og Noregur veita yfir 0,7% af þjóðarframleiðslu til þessa málaflokks.

Nú berast þær fréttir að Ísland stefni fremur undir 0,2% en í þá átt sem önnur Norðurlönd ganga. Það er sorglegt, það er ekki vilji þjóðarinnar. Ákvörðun um niðurskurð í þróunarsamvinnu vinnur gegn þrá þjóðarinnar um virðingu.

Þjóð sem verður fremst þjóða í skjótfengnum gróða öðlast ekki virðingu, þjóð sem gortar af snilld sinni og þráir aðdáun valdaþjóðanna, verður annað hvort aðhlátursefni eða vekur öfund, ótta og óvild.

Til er lögmál sem ætti að höfða til stjórnmálafólks. Það hljómar svona: „Ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.“ (Þjóðgildin, 2010).

Mælikvarðar í vestrænni siðfræði, kennisetningar í trúarbrögðum, fjölmargar niðurstöður skáldsagna og hug- og félagsvísindarannsókna vitna um að meiri líkur eru á gæfu þeirra sem gefa en þeirra sem taka.

Þetta er lögmál í mannheimum sem á ekki aðeins við um einstaklinga heldur einnig þjóðir. Allir alast upp við þessa vitneskju og flestir heyra nefnt að allra best sé að gefa/hjálpa öðrum án þess að búast við endurgjöf – en trúir því einhver?

Það er ekki góð jólagjöf að draga úr þróunarsamvinnu í stað þess að efla hana. Í dag er ekki glatt í döprum hjörtum.

Gunnar Hersveinn  www.lifsgildin.is

Við getum breytt lífi annarra

Þróunarsamvinnustofnun

 

 

Deila