Heimspeki

Ertu svart- eða bjartsýnismanneskja?

12_vef_feb_heimspeki_visit

Allir ganga til augnlæknis en hvert fer sá sem hefur engar hugsjónir? Það er alls ekki nóg að sjá með augunum það sem fyrir ber eða að trúa aðeins því sem sést. Sjón heilans (augans) er aðeins hálfur heimur. Sjón hugans er heill heimur. Augu geta verið skörp en án hugsjónar taka þau ekki eftir voninni sem liggur á milli hluta, á milli lína.

Hugsjón hvílir ekki aðeins á ytri upplýsingum heldur innri sýn mannsins. Sterkar hugsjónir hvíla á máttarstólpum staðreynda og kærleika eða vonar. Hugsjón sem tekur ekki mið af aðstæðum er lík helíumgasblöðru sem barn sleppir út í bláinn. Hún er strangt til tekið ekki hugsjón heldur hugdetta.

Hugsjón er bjartsýn afstaða til mannlífs og samfélag. Hún er jákvæð og brýst úr viðjum vanans. Baráttufólk er knúið áfram af hugsjón sem lyftir sér yfir eiginhagsmuni og lendir í mannhafinu. Fyrir 50 árum flutti draumóramaðurinn Martin Luther King Jr eina af áhrifamestu ræðum sem fluttar hafa verið í Bandaríkjunum Ég á mér draum „I have a dream that one day …“.  Hann var bjartsýnn á að tími réttlætis og mannréttinda rynni upp. Hann vildi leggja sitt af mörkum því hann sá annað samfélag en það sem ríkti. Hann bjó við innri sýn.

SVARTSÝNI/BJARTSÝNI

Svartsýnisfólk býst ekki við að hlutirnir breytist, það býst við því sama áfram, það trúir ekki á frið ef það er stríð. Það gerir þó ráð fyrir vopnahléum á meðan mæðinni er kastað. Svartsýnisfólk er ekki hugsjónafólk, það trúir aðeins því sem það sér og hefur ekki innri sýn. Það býst ekki við að annað fólk batni eða hagi sér vel nema þá vegna óttans um refsingu eða von um umbun. Svartsýnisfólk segist sjálft vera raunsæisfólk.

Svartsýnisfólk gerir oft ráð fyrir að sjálfselska ráði ríkjum í fari annarra og að eigin hagsmunir stjórni gjörðum þess. Það sé ævinlega hagnaðarvonin og að hver muni skara eld að eigin köku hvernig sem reynt sé að koma í veg fyrir það. Augu þess sjá þetta svona en augun sjá ekki alla myndina, aðeins það sem virðist vera.

Bjartsýnisfólk gerir aftur á móti ráð fyrir að allt muni batna með tímanum. Spyrji maður: „Hvað segir þú í dag?“ Svarar það: „Allt gott, verður maður ekki að vera bjartsýnn?“ Bjartsýni er von hugans um betri tíð. Hugsjón er því sýn hugans á betri heim.

Hugsjónin er dýrmæt eign því hún er meiri en einstaklingurinn. Hún er andstæða sjálfselskunnar og eiginhagsmuna, hún felur í sér velferð annarra, umhyggju fyrir hóp, náttúru og öðru lífi. Hún varðar aðra.

Svartsýni og bjartsýni takast allsstaðar á. Hin svartsýnu trúa ekki og vona ekki, þau vinna verkin því það þarf að vinna þau. Hin bjartsýnu geta aftur á móti byrjað á verkum sem er á skjön við allt raunsæi og það undarlega er að stundum heppnast þau þótt allt mæli gegn því.

Ertu svartsýn eða bjartsýn manneskja?

Á heimspekikaffihúsi í Gerðubergi miðvikudaginn 18. september 2013 klukkan 20.00 efna Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Áshildur Linnet mannréttindafræðingur til lifandi umræðu með gestum um hugsjónir í lífi og starfi, m.a. um spurningarnar:

„Hvaða gildi hafa hugsjónir? Geta þær breytt einstaklingum, þjóðum og jafnvel heiminum til betri vegar? Hvernig ber að rækta hugsjónir? Hvernig verður hugsjónafólk til? Sýna hugsjónir innri mann? Er hægt að kenna hugsjónir?“

Áshildur Linnet er mannréttindafræðingur og framkvæmdastjóri hjá Rauða krossinum í Hafnarfirði. Hún hefur unnið með hugsjónadrifnum sjálfboðaliðum í mannúðarstarfi í yfir áratug. Allir eru velkomnir, gott kaffi og góð kvöldstund í boði menningarmiðstöðvarinnar í Gerðubergi í Breiðholti.

Tengill

13_dagskra_haust_gbbordi2

 

Deila