Dómar / Umsagnir

„Ég hef lengi beðið eftir þessari bók um lífsgildin og las hana mér til mikillar ánægju. Bókin Gæfuspor er áttaviti sem vísar veginn.“ Vigdís Finnbogadóttir

———————————————-

„Líklega er réttast að kalla Gæfuspor lífsspeki … lýsing á því hvað er fólgið í hamingjuríku lífi.“ Kristján G. Arngrímsson / MORGUNBLAÐIÐ

———————————————-

„ … vísar lesendum veginn til mögulegs þroska og mögulegrar hamingju … Kaflinn um tilfinningar er einkar vel skrifaður.“ Sólveig Anna Bóasdóttir / KISTAN.IS

———————————————-

Gæfuspor Gunnars Hersveins er viskurit sem vekur til umhugsunar, gagnlegt öllum sem vinna að lífsgæðum og vanda ævigönguna.“ Sigurður Árni Þórðarson

———————————————-

„Gunnar Hersveinn vekur okkur til umhugsunar um sorg, ást, efa, stríð og samhengi manneskjunnar á okkar tímum … mikið happ er að eiga menn sem nenna að hugsa.“ Sigurbjörg Þrastardóttir

———————————————-

Bókadómar / Gæfuspor – gildin í lífinu

Kristján G. Arngrímsson / Bókablaðið / Morgunblaðið

Hamingjan kemur með aldrinum, segir Gunnar Hersveinn framarlega í þessari bók, og nokkru síðar bætir hann því við að það sé langtímaverkefni að verða hamingjusamur. Hamingjan er ekki fólgin í því að safna „æðislegum augnablikum“. Því síður er hún fólgin í peningum eða frægð. Hamingjusamur maður er sá sem lítur yfir farinn veg og sér að hann hefur lifað vel – verið farsæll – hefur lifað dygðugu lífi, ræktað sál sína og vini, verið umburðarlyndur og þakklátur.

Þessi bók er ekki beinlínis uppskrift að hamingju, heldur fremur lýsing á því hvað sé fólgið í hamingjuríku lífi. Viðhorf Gunnars til hamingjunnar minnir um margt á viðhorf Aristótelesar eins og það kom fram í Siðfræði Nikómakkosar. Líkt og Gunnar hélt Aristóteles því fram að hamingjan væri langtímaverkefni og að í raun væri það ekki fyrr en maður lægi fyrir dauðanum að maður gæti litið yfir farinn veg og séð hvort maður hafi lifað hamingjuríku lífi. Slíkt líf var fólgið í dygðugu líferni. Gunnar er ekki eins kerfisbundinn í útlistun sinni á hamingjunni og Aristóteles var – sem er eðlilegt í ljósi þess sem Gunnar hefur að segja um vanafestu og kerfisbindingu – en báðir telja þeir hamingjuna vera fólgna í því sem maður gerir. Til að verða hamingjusamur þarf maður að gera ákveðna hluti, en má ekki gera aðra; maður þarf að hafa tiltekin viðhorf en má ekki hafa önnur.

Að vísu segir Gunnar líka ýmislegt sem færir hann nær Stóuspekingunum – og hann vitnar beinlínis í einn þeirra. Samkvæmt Stóuspekinni getur maður öðlast hamingju með hugsun sinni einni saman; með því til dæmis að æðrast ekki yfir því sem maður fær ekki breytt eða þrá ekki það sem maður getur ekki eignast. Bæði aristótelíska og stóíska afstaðan til hamingjunnar fela í sér að það sé undir manni sjálfum komið hvort maður er hamingjusamur. Vilji er allt sem þarf. Aristóteles, Stóumenn og Gunnar gera ráð fyrir því að vilji manns sé frjáls og lúti stjórn skynseminnar.

Þessi afstaða til hamingjunnar er andstæð bæði forlagahyggju og efnishyggju, sem báðar fela í sér að vilji manns sjálfs dugi ekki til, það sem á endanum ráði mestu um hvort maður verður hamingjusamur séu annaðhvort æðri máttarvöld eða efnaferli í heilanum. Um hvorugt fær maður sjálfur nokkru ráðið, maður fær einfaldlega eitthvað í vöggugjöf, nú eða tiltekin gen frá forfeðrunum (og meira að segja það hvaða gen maður fær er dálítið happdrætti). Nú um stundir fer sífellt meira fyrir afstöðu sem kölluð hefur verið atferliserfðafræði, og felur í sér að atferli manns og skapgerð megi útskýra með erfðafræðilegum þáttum. Það liggur ekki nákvæmlega ljóst fyrir hvað atferliserfðafræðingar myndu segja um hamingjuna, en telja má víst að þeir séu ósammála því að hún sé fyrst og fremst fólgin í athöfnum. Þeir sem lengst ganga í efnishyggju segja beinlínis að hamingjan búi í ennisblaði heilans – það er að segja, hún er fullkomlega efniskennd og vilji manns sjálfs fær nákvæmlega engu um hana ráðið.

En hvað þarf að gera og hvaða viðhorf eru nauðsynleg til að lífið verði gæfuríkt? Gunnar byrjar á að ræða um hugarró, sem skiptist í undirkafla á borð við þakklæti, fyrirgefningu, vináttu og fleira sem stuðlar að hugarró. Síðan koma kostir og gallar, sem segja má að séu ýmsar gerðir dygða og lasta, eins og til dæmis virðing, hugrekki, heiðarleiki og fleira. Kostirnir auka manni farsæld en gallarnir draga úr henni. Síðan er fjallað um tilfinningar eins og hugarvíl, ást, gleði og samlíðun. Í síðasta hluta bókarinnar er falinn boðskapur hennar, en titill hans er Friðarmenning. Hún „felst í því að hlúa að veikustu þáttum samfélagsins og ráðast að rótum vandans sem oft er falinn í fátækt, óréttlæti, efnahagslegu misrétti, pólitík og félagslegum aðstæðum sem vekja hatur, deilur og ofbeldi“ (bls. 135). Lykilatriðið í friðarmenningu er umburðarlyndi.

Stundum finnst mér Gunnar helst til afdráttarlaus í greiningunni, eins og til dæmis í kaflanum um vana og einnig í umfjölluninni um fordóma. Af því sem hann segir má ráða að hann telji vana og fordóma að öllu leyti af hinu slæma. En hvort tveggja á sér þó jákvæðar hliðar og sinn stað og tíma í lífi manns. Fastar venjur eru nauðsynlegur þáttur í stöðugleika, sem aftur er nauðsynleg forsenda fyrir hugarró. Ef engar venjur mótast – enginn vani kemst á – verður afleiðingin óvissa sem leiðir til kvíða, sem er andstæðan við hugarró. Og hugarró, eins og Gunnar segir í upphafi, er lykilatriði í hamingjuríku lífi.

Fordómar eru ekki bara neikvæðar hugmyndir um fólk sem maður þekkir ekki. Fordómar eru fyrirfram gefnar hugmyndir sem maður gengur út frá þegar maður kynnist einhverju nýju. Þeir eru forsendur skilnings manns sjálfs á hinu nýja. Án þeirra gæti maður ekki öðlast skilning sem er manns eigin. Án fordóma yrði maður bjargarlaust rekald í hörðum straumi endalausra nýjunga sem rækju mann fram og aftur. Með öðrum orðum, fullkomlega fordómalaus maður væri, eins og stundum er sagt, svo opinn fyrir nýjungum að jaðraði við heilaleysi. Það er aftur á móti nauðsynlegt að gera þá kröfu til sjálfs sín og annarra að fordómunum sé ekki haldið hugsunarlaust við heldur sé þeim teflt í tvísýnu, látið reyna á þá með því að etja þeim gegn nýjungum. En það er blekking – og jafnvel beinlínis hættulegt – að halda að maður geti losað sig við alla fordóma.

Stundum grefur Gunnar undir yfirborð hugtaka sem við fyrstu sýn virðast afdráttarlaust jákvæð eða neikvæð, eins og til dæmis þegar hann bendir á að það séu takmörk fyrir því hversu hreinskilinn sé æskilegt að vera. Virðing fyrir tilfinningum annarra getur verið mikilvægari en fullkomin hreinskilni. Hreinskilni sem veldur engu nema sárindum er eiginlega orðin að grimmd og ber því að forðast.

Þótt Gunnar taki vara við flokkunaráráttu getur fræðimaðurinn í mér ekki á sér setið svona í lokin: Gæfuspor eru sem fyrr segir ekki sjálfshjálparbók, hún býður ekki upp á praktískar lausnir á vandamálum lífsins. Gunnar heldur sig við greiningu á hugtökum og bókin er þannig nær því að vera heimspekirit. En hugtökin sem Gunnar fæst við varða daglegt líf, svo líklega er réttast að kalla Gæfuspor lífsspeki.

kistan.is / dómur um bókina Gæfuspor

Sólveig Anna Bóasdóttir / Kistan.is

Hvers konar manneskja er æskilegt að vera og hvað einkennir góðan mann? Hvaða eiginleika er æskilegt að rækta með sér og hvaða galla ber að forðast? Hvað einkennir hið góða líf? Dyggðakenningar eru þær siðfræðikenningar gjarnan kallaðar sem fjalla um þessar spurningar. Bókina Gæfuspor má kalla framsetningu á vísandi dyggðasiðfræði. Höfundurinn, Gunnar Hersveinn, vísar lesendum veginn til mögulegs þroska og mögulegrar hamingju. Á vissan hátt er þetta sjálfshjálparbók en slíkar bækur hafa verið vinsælar að undanförnu. Framsetningin er hrein og bein, í framsöguhætti alla jafna, sterklega til orða tekið, ekki hopað á hæli.
Undirtitill bókarinn er er Gildin í lífinu. Gildi geta verið af margskonar toga, s.s. fagurfræðileg gildi, efnahagsleg gildi og trúarleg gildi. Áhersla Gunnars Hersveins liggur á siðferðilegum gildum.  Bókinni er skipt upp á fimm höfuðkafla. Í fyrsta kaflanum Hugarró er fjallað um hugtök eins og hamingjuna, fyrirgefninguna og þakklætið svo nokkuð sé nefnt. Þetta er gert í stuttum, hnitmiðuðum textum sem hafa á sér yfirbragð stillingar og yfirvegunar. Í lok hvers texta er kjarnasetning sem reynir að fanga það mikilvægasta í umfjölluninni. Erfitt er að gera upp á milli þessara texta, þeir eru allir vandaðir. Þó kom einhverskonar mótþrói upp í mér varðandi textann um fyrirgefninguna. Ekki af því að þar væri eitthvað athugavert að finna, fremur hitt að fyrirgefningin er erfitt umræðuefni, svo ótrúlega sálfræðilega flókið fyrirbæri að ómögulegt er að gera henni tæmandi skil.
Næsti kafli ber yfirskriftina Kostir og gallar. Hér er farið ofan í klassísk dygða- og lastahugtök eins og t.d.  hugrekki og heiðarleika, hroka, leiða og sjálfselsku. Höfundur undirstrikar hina klassísku sýn að dyggð sé áunnin skapgerðarþáttur. Að vera hugrakkur og heiðarlegur kemur ekki af sjálfu sér heldur þarf maðurinn að þróa með sér ákveðið siðferðisskyn til að öðlast slíka eiginleika. Það sama á við um lestina og dygðirnar, þeir eru líka áunnir og til komnar vegna skorts á viðleitni að rækta með sér hina jákvæðu, æskilegu eiginleika. Í þessum kafla hafði ég mesta ánægju af textanum um hrokann og hin mörgu birtingarform hans. Þá hafði ég einnig gaman af mörgum þeim orðum sem Gunnar Hersveinn dró upp úr pússi sínu í lastaumræðunni, orðum eins og hrokagikkur, þverhaus, þrjóskutól og að letinginn sé bikkja, draugur og silakeppur!
Kaflinn um tilfinningar er einkar vel skrifaður og þarfur að ég held, því lítið er fjallað um þátt þeirra til góðs og ills í lífinu, né heldur tengsl þeirra við dyggðir og lesti. Textarnir í þessum kafla eru stuttir, eins konar hugleiðingar, heimspekilegar og trúarlegar í senn. Hinn vísandi tónn er ekki eins fast sleginn hér og áður og hæfir það umræðuefninu. Ég geri ekki upp á milli þessara texta en fagna sérstaklega hugleiðingunum um hinar neikvæðu tilfinningar, það er áreiðanlega mikil þörf á að tala um þær.
Síðustu tveir kaflarnir Viðhorf til tímans og Friðarmenning flokka ég líka sem hugleiðingar í svipuðum stíl og minnst var á hér á undan og bera þær merki hins bjartsýna mannskilnings höfundar. Umræðuefnið er í hnotskurn hið sama, farsældin og hið góða takmark lífsins, hvernig hægt er að nálgast þessi gæði í tímanum og hvað það er sem hamlar því. Þarna kemur stríðið til sögunnar sem sérstök uppfinning mannskepnunnar. Textarnir í kaflanum Friðarmenning eru gulls ígildi. Þessir textar þyrftu að veitast og boðast öllum lýðnum!
Gunnar Hersveinn hefur með bók sinni lagt mikilvægan skerf að mörkum til umræðu um hin sígildu markmið mannlegs lífs  og plantað þeim út í nútíma samfélagi. Hann, eins og góðum lærisveini Aristóteles sæmir, er sannfærður um að hið góða sé takmark alls lífs. Það er erfitt að setja sig upp á móti því.


Deila

Gunnar Hersveinn | ritverk og greinaskrif