lydraediMynd

Gamla og nýja valdið

Nýr tíðarandi er á næsta leiti. Hann verður ekki líkur þeim sem var og ekki heldur þeim sem ríkti þar á undan. Það er vandasamt að vinna að þessari heimsmynd því hún er viðkvæm, auðvelt er að sniðganga hana og margir eru á móti henni. Gamla valdið berst gegn þessum nýja anda og fær ýmsa í lið með sér.

Nýr tíðarandi krefst gagnrýnnar hugsunar í stað karps. Í skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stendur: „Nauðsynlegt er að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Siðfræði og heimspeki ættu að vera sjálfsagður hluti alls náms á öllum skólastigum, sem og gagnrýnin hugsun, rökræður og fjölmiðlalæsi. Í því skyni þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð.“ (13, 2010). Skýrslan var samþykkt á Alþingi. Nú þarf að vinna þessu brautargengi og finna leiðir framhjá margskonar hindrunum.

Vissulega er holóttur vegur framundan í þeirri viðleitni að skapa nýtt og öflugt lýðræði. Gamla valdið fellir tré yfir vegi, kemur upp tálmunum, lokar vegum … Frambjóðendur til stjórnlagaþings finna það til að mynda á eigin skinni. Þeir hljóta að teljast einhvers konar grasrót, eða mögulegt nýtt vald, andspænis gamla valdinu: yfir fimmhundruð karlar og konur eru reiðubúin til að taka þátt í endurskoðun stjórnarskrár, leggja sitt af mörkum og móta sýn fyrir framtíðina. Áhrif hefðbundinna valdastofnana á væntanlega þingmenn er þverrandi og því er gamla valdið óttaslegið.

Verkefnið á stjórnlagaþingi felst í samræðu og rökræðu, þar sem skipts er á skoðunum og tilraun gerð til að taka heillvænlegar ákvarðanir fyrir almenning. Þingið hefur niðurstöður þjóðfundar til hliðsjónar og upplag stjórnlagaþingsnefndar en ekki fyrirskipanir frá foringjum stjórnmálaflokka. Þingið á að vera opin lýðræðisleg samræða í samræmi við nýjan tíðaranda. Þarna má greina vísi að nýju valdi og það vekur mörgum valdamönnum ugg í brjósti.

Stjórnlagaþing er nýjung á Íslandi. Hefðbundin, vanabundin hugsun bregst illa við. Um þessar mundir fá frambjóðendur sendar fyrirspurnir frá fjölmiðlum og öðrum sem eiga það sammerkt að vera tilraun til að flokka þá í kvíar. Ert þú með eða á móti? Já eða nei? Ekki er gert ráð fyrir samtali eða samráði eða visku, aðeins einlínu afstöðu.

Eftir stjórnlagaþing verða vonandi gerðar rannsóknir á umfjöllun hefðbundinna fjölmiðla í aðdraganda þingsins. Þar mun líklega koma fram að fjölmiðlar ræddu aðeins við sérfræðinga um þingið og höfðu sérlega gaman af því að flokka frambjóðendur í kvíar. Fáskrúðug lýðræðisleg umræða, engin gagnrýnin hugsun, aðeins flokkunarárátta hugans sem styður hið gamla og „æskilega“ vald.

Frambjóðendur birtast núna í helstu fjölmiðlum landsins sem ein hjörð sem var svo „djörf“ að bjóða sig fram til að byggja upp annað Ísland en það sem nú hopar á hæli. Frambjóðendum er hvarvetna stillt upp eins og einsleitum vefhópi og gefst ekki tækifæri til að skiptast á skoðunum sín á milli eða ræða við almenning.

Ég býst við því að fram að kosningum 27. nóvember muni fátt koma fram í fjölmiðlum, um þetta mál, sem hefur það markmið að skapa upplýst almenningsálit, þótt það sé meginhlutverk fjölmiðla. Við munum sjá enn fleiri aðferðir til að raða frambjóðendum á bása í stað gefandi umræðu um mikilvæg málefni. Fleiri já eða nei, með eða á móti. Meira af fávisku, minna af visku.

Umræðuhefðin á Íslandi er eitt af því sem nauðsynlega þarf að breytast um leið og skipt er um tíðaranda. Markmiðið með umræðu er að finna líklegan veg til farsældar en ekki að sigra í kappræðu eða gæta sérhagsmuna. Núna hlaupa menn næstum undantekningarlaust í vörn og sókn þegar mikilvæg mál bera á góma. Það er úrelt aðferð, tökum ekki þátt í henni.

Þjóðfundurinn 2010 bað um jafnrétti, lýðræði, réttlæti, frelsi, heiðarleika, virðingu, ábyrgð og mannréttindi. Hlustum!

Næsti tíðarandi verður, ef við viljum, fjöllyndur, hann gefur ekki eyðileggingunni undir fótinn. Hann lyftir því sem hefur gildi. Hann teflir ekki fram einni lausn, heldur mörgum. Hann verður mildur. Hann er ekki draumur, heldur raunhæfur möguleiki sem nú þegar breiðist út …

Þegar úrelt hugsun á fjölmiðlum líður undir lok mun ný aðferð felast í því að beita uppbyggilegri gagnrýni, greina, skýra og miðla á faglegan hátt. Aðferðin er í raun ekki ný heldur felst nýjungin í því að leyfa henni að lifa.

Lýðræðið hefur spillst og engir geta hreinsað út nema borgararnir sjálfir. Sjálfboðaliðar úr hópi borgaranna verða að fá áheyrn fjöldans og leyfi til að breyta kerfinu. Verkefnið felst í því að endurskapa samfélagið, ekki að smiða hindranir með úrtölum.

Látum ekki telja okkur trú um að það séu önnur en við sem höfum völdin og ráðin til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir. Viska þjóðarinnar býr innra með henni. Hún verður ekki þvinguð fram heldur stígur hún fram sjálf við kjöraðstæður. Sköpum þær!

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Deila

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *