thjodfundur2010

Gildin eru í bókinni Þjóðgildin

Þjóðfundurinn 6. nóvember 2010 stendur nú yfir. Þjóðfundargestir hafa nú valið grunngildin sem þeir telja að eigi að birtast í nýrri stjórnarskrá. Í bókinni minni Þjóðgildin eru að finna greinar um öll þessi gildi; jafnrétti, lýðræði, réttlæti, virðing, heiðarleiki, frelsi, mannréttindi og ábyrgð. Hér eru gildin í hnotskurn:

Jafnrétti felst í jafnri stöðu kynjanna gagnvart völdum, ríkidæmi, störfum og heimili. Jafnrétti er svar við kúgun og launin eru betri veröld fyrir alla, konur og karla. Jafnrétti skapar jafnvægi milli manna og laðar fram heillavænlegar ákvarðanir.

Lýðræði felst í samfélagi þar sem viska fjöldans stígur hæglátlega fram og kveður á um veginn framundan. Lýðræði þrífst ekki í landi hörku, múgsefjunar eða valdamikilla manna. Lýðræði kallar á virðingu og samráð fólks um næstu skref.

Réttlæti felst í því að skapa jafnan aðgang að völdum og tækifærum og að allir standi jafnfætis gagnvart lögum og reglum, þar á meðal refsingum. Réttlæti felur í sér mannúð og það skapar samfélag mannréttinda sem berst gegn spillingu.

Virðing felst í því að heiðra sambandið milli sín og annarra og veita umhverfinu stöðu í hjarta sínu. Virðing felur í sér væntumþykju gagnvart öðrum. Hún er forsenda fyrir betri heimi. Virðing er svarið við fordómum og aðskilnaði.

Heiðarleiki felst í því að eiga í samskiptum án þess að bogna eða brjóta á öðrum. Sá sem vill verða heill til orðs og æðis þarf að finna jafnvægið milli sín og samfélags. Heiðarleiki er samhljómur milli hugsjóna og aðgerða og samfélagið verður opið og gagnsætt.

Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu. Frelsi án kærleika er einskis virði.

Ábyrgð felst í því að nema hlutdeild sína í samfélaginu. Enginn verður fullþroska fyrr en hann skynjar samábyrgð sína til að vinna góð verk og koma í veg fyrir sundrungu. Ábyrgðin birtist í samstöðu þjóðarinnar gegn óréttlæti.

Mannréttindi felast í þeim gildum sem eru sammannleg og þar af leiðandi óháð trúarbrögðum, stjórnmálum, stöðu, búsetu og hverju öðru sem ætlað er til að aðgreina manneskjur og raða þeim í flokka. Mannréttindi gilda á öllum tímum og óháð aðstæðum og fyrir alla. Þau eru ævinlega til stuðnings lífinu og gegn allri kúgun, eyðileggingu og dauða.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Deila

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *