Abyrd2011a

Hættulegar skoðanir undanfari ofbeldis

Andvaraleysi gagnvart hættulegum skoðunum hefur kostað mannkynið ómældar þjáningar og dauða um aldir. Getum við lært af reynslunni og risið linnulaust upp til að kveða niður mannfyrirlitningu og kúgun sem greina má í hættulegum skoðunum?

I. Skoðanir
Samábyrgð er dyggð sem þarf að efla og rækta á Íslandi í samhengi við skoðanir. Allir skulu frjálsir skoðana sinna og því að láta þær í ljós – en hverjum réttindum fylgja mörk.

Iðulega koma fram einstaklingar og hópar sem fara yfir mörkin og hvetja til ofsókna.

Þeir segjast standa vörð um sannleikann og vilja ekki svara til saka. Þeir vísa allri ábyrgð á bug og verða jafnvel vinsælir í völdum fjölmiðlum fyrir öfgafullar skoðanir sínar sem fela í sér leynda og ljósa mismunun.

Skoðun fylgir full ábyrgð. Skoðanir geta verið réttar og rangar, góðar eða slæmar, líklegar og ólíklegar, niðurlægjandi og uppbyggjandi, úreltar og nýstárlegar, saklausar og hættulegar. Við virðum rétt fólks til að tjá skoðanir sínar en ekki gagnrýnislaust hverja skoðun fyrir sig. Slíkt flokkast undir heimsku. Ef skoðun felur í sér ofríki, kúgun og ofbeldi þá er skylda að mæla gegn henni.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna geymir þau viðmið sem við höfum sett okkur og samþykkt, þau eru mörkin sem við förum ekki yfir. Skoðun sem felur í sér mismunun milli stétta, kynja, borgara eftir mælikvörðum eins og búsetu, þjóðerni, kynferði, litarhætti, trúar, tungu eða hverju öðru sem ætlað er til aðskilnaðar er röng því hún felur í sér kúgun, þjáningu og dauða.

Við eigum ekki að temja okkur umburðarlyndi gagnvart hættulegum skoðunum sem fela m.a. í sér aðskilnað og valdamismunun. Ekki í nafni frelsis, hugrekkis eða neinu öðru grunngildi mannlífsins. Við eigum ekki að gefa skoðunum sem eru undanfarar ofbeldis svigrúm til að dafna í skúmaskotum hugans. Fyrr eða síðar myndast um þær hættulegur aðdáendahópur.

Skoðun sem ætluð er til kúgunar einkennist af því að hún leitast við að svipta tiltekinn hóp manngildi, virðingu og stöðu. Þetta hafa Afríkubúar þurft að þola, Kúrdar gyðingar, indíánar, konur, samkynhneigðir, börn, svo örfá dæmi séu nefnd.

Margskonar lúmskar aðferðir eru til sem hafa það markmið að koma í veg fyrir jafnrétti og jafngildi manna. Ef við lærum að greina þær og höfum hugrekki til að standa gegn þeim komum við um leið í veg fyrir þjáningu þeirra sem andróðurinn beinist gegn. Það er verðugt markmið.

II. Fjölmiðlar
Ábyrgð fylgir því að skrifa í fjölmiðil, reka fjölmiðil, eiga fjölmiðil og ritstýra, því fjölmiðill miðlar ekki aðeins heimsmynd, tíðaranda og skoðunum heldur tekur hann einnig þátt í að móta viðhorf í hverjum málaflokki, og ekki aðeins það, heldur hefur hann einnig áhrif á umræður, daglegt líf og flest allt sem mannréttindi varðar. meðal annars: jafnrétti kynjanna.

Hvað er skrifað og birt, hvað ekki, hvert er sjónarhornið? Er það ígrundað með fyrirvörum eða er það galgopalegt með dulið markmið? Er aðferðin gagnrýnin hugsun eða mælskulist, fagleg eða ófagleg? Eru hagsmunir almennings í húfi eða hagsmunir fyrirtækis eða einstaklings?

Leikinn blaðamaður hefur vald og af þeim sökum skiptir öllu máli að hann hafi hugsjón um betra samfélag en sé ekki skeytingarlaus og sama um aðra. Ritstjóri hefur enn meira vald og má því alls ekki vera háður öðru en hagsmunum almennings og samfélags.

Ytri þrýstingur hagsmunaaðila, stjórnmálaflokka og auðmanna hefur ævinlega fylgt fjölmiðlum og starfsfólk þeirra lærir að takast á við tilraunir til stjórn- og íhlutunarsemi þeirra. Þetta starfsfólk þarf á öflugu aðhaldi notenda að halda til að öðlast kraft til að standast þrýstinginn frá óviðkomandi.

III. Aldrei aftur
Það er mikilvægt að gera greinarmun á persónu og því sem hún gerir og segir. Það er heillavænleg aðferð að beina kastljósinu að meininu sjálfu en ekki einhverju öðru. Við berjumst síðan hiklaust gegn uppsprettu mismununar og þeim skilyrðum sem skapa ofbeldi og viðhalda því. Það er þáttur í forvörnum gegn ofbeldi.

Hættulegar skoðanir sem kveða á um mismunun eða ofbeldi gegn konum eru ekki smekksatriði hvers og eins til að skemmta öðrum, níða eða öðlast vinsældir viðhlæjenda. Þær eru ekki aðeins brot á óskráðum siðareglum heldur brot á mannréttindum samkvæmt Sameinuðu þjóðunum, stjórnarskrá Íslands og lögum og reglum. Þetta er ekkert grín.

Upphefð, vald, staða og ríkidæmi sem hvílir á sárauka annarra er einskis virði.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Deila