Heimspeki

Hæglæti á heimspekikaffihúsi

12_vef_feb_heimspeki_visitHeimspekikaffið í Gerðubergi 19. febrúar fjallar um hæglæti sem lífsstíl – og speki. En hvað er hæglæti og er þess virði að læra það?

I. Tæknilæti.

Homo sapines er nú homo technologicus. Hraðinn og magnið er vopn tæknimannsins í árás sinni á Tímann sjálfan og birtist það meðal annars í æskudýrun og von um að sigra dauðann.

Tæknin styttir og þurrkar vegalengdir út og gerir líkamleg samskipti á tilteknum stað óþörf. Orð, setningar, hugsanir, tilfinningar og jafnvel ást þýtur hjá á ljóshraða. Farsældin er tæknivædd.

Vandinn er að nokkrir mannlegir ókostir blómstra í tæknisamfélaginu og góðar dyggðir fölna. Dyggðir sem dofna í vestrænum tæknisamfélagum eru t.a.m. þolinmæði, biðlund, nægjusemi og hófsemd.

Tæknimaðurinn geysist áfram á leifturhraða þótt jaðarhópar reyni að spyrna við fótum með hæglæti. Tæknin og hraðinn hafa fært manninum margt en því miður einnig fjær sjálfum sér. Það sem á skortir er hæglæti.

II. Hæglæti

Tæknin vinnur meðal annars að því útiloka biðina en hæglætið gerir hana að liðsmanni sínum.

„Ys og þys út af engu“ gæti verið slagorðið í velmegunarlöndum nútímans. Hægláti maðurinn nemur staðar til að finna brennidepilinn bak við skýin. Hann stillir hugann og leyfir skýjunum að líða hjá.

Hæglæti er lífgildi sem dregur fram nokkra mannnkosti og útilokar valda ókosti. Hæglæti hefur þríþætt gildi: viðhorf, kennd og dyggð.

Viðhorfið felst í því að einsetja sér að leggja alúð við verkið og verkefnin. Ekki hugsa einungis um áfangastaðinn heldur um leiðina. Að hvert skref sé þess virði og áfangi í sjálfum sér. Viðhorfið hefur áhrif á líðan, það stillir hugann og dregur úr óþolinmæði og leiðindum.

Kenndin felst í jafnvægisgeði og dyggðin í biðlund. Hinn óþreyjufulli og eirðarlausi stekkur umhugsunarlaust af stað en úthaldið er lítið. Hinn þrautgóði og hægláti getur unnið árum saman að markmiðum sínum.

III. Heimspekikaffi

Hæglæti er gott mótvægi við hraða nútímans. Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, fjallar um hæglæti og biðlund sem lífsspeki og Ásgerður Einarsdóttir, ferðamálafræðingur og leiðsögumaður, fjallar um hæglæti sem lífsstíl í daglegu lífi og ferðalögum á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti 19. febrúar nk. Heimspekikaffið hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri undir stjórn Gunnars, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum.

Tengill
Gerðuberg – Heimspekikaffi

Allt er hægt – gönguferðir

 

 

Deila