Heiðarleiki og hófsemi að leiðarljósi

(Morgunblaðið – Sunnudaginn 25. júlí, 2010 – Menningarblað/Lesbók. Bækur Ásgerður Júlíusdóttir asgerdur@mbl.is)

Gunnar Hersveinn sendir í haust frá sér bók þar sem fjallað verður um þjóðgildin sem valin voru á Þjóðfundinum 2009. 1500 manns tóku þátt í fundinum og fjallar Gunnar um tólf efstu gildin sem valin voru af fundarmönnum. Hann segir það ekki hafa komið sér á óvart að efsta gildið á listanum varð heiðarleiki.
Gunnar Hersveinn er rithöfundur, heimspekingur og ljóðskáld. Hann hefur gefið út fjórar ljóðabækur en auk þess hefur JPV útgáfa gefið út bækurnar Gæfuspor – gildin í lífinu, 2005, og Orðspor – gildin í samfélaginu, 2008. Gunnar hefur starfað við ýmislegt, m.a. verið blaðamaður á Morgunblaðinu, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg og kennari í Listaháskóla Íslands. Hann hefur hlotið viðurkenningar fyrir skrif sín um samfélagsmál, m.a. Ljósberann 2004, Fjölísviðurkenningu Rithöfundasambandsins 2010 og fengið tilnefningu til Blaðamannaverðlauna 2004.

Gunnar er einna þekktastur fyrir að láta sig varða siðferðisleg, uppeldisleg og samfélagsleg málefni og vinnur hann nú að nýrri bók sem Skálholtsútgáfan mun gefa út í haust en bókin fjallar um þjóðgildin sem valin voru á Þjóðfundinum 2009. Þessi gildi voru valin af þeim 1500 manns sem tóku þátt í fundinum en Gunnar hefur ákveðið að fjalla um tólf efstu gildin sem valin voru. Undirritaður blaðamaður hitti Gunnar Hersvein á dögunum í blíðskaparveðri á einum af kaffistöðum borgarinnar til þess að spyrja hann nánar um afrakstur fundarins og tilgang þessa verkefnis. Í alvarlegum tón segir Gunnar að nauðsynlegt hafi verið að halda þennan fund og enn nauðsynlegra að minna á hann með því að hamra á þeim gildum sem valin voru. „Eitt af því sem gert var á fundinum var að velja gildi sem þjóðin á að efla með sér á næstu árum og líka að ákveða hverskonar framtíðarsýn ætti að hafa í hávegum; auðvitað var ýmislegt fleira gert. Ég einbeiti mér að þeim gildum sem valin voru til að hafa að leiðarljósi. Um 1500 manns völdu í sameiningu þessi gildi og í raun vissi enginn fyrirfram hvaða gildi yrðu fyrir valinu en það kom svo sem ekki á óvart að efsta gildið á listanum varð heiðarleiki. Ég vinn út frá tólf efstu gildunum sem auk heiðarleika eru fjölskyldan, réttlæti, jafnrétti, virðing, ábyrgð, sjálfbærni, lýðræði, traust, frelsi, jöfnuður og kærleikur en þetta eru gildi sem þjóðfundurinn taldi brýnast að þjóðin þyrfti að efla með sér.“

Neikvætt verður jákvætt

Gunnar segist ímynda sér að þessi gildi hafi orðið ofan á vegna þess að þau hafi verið vanrækt að einhverju leyti á undanförnum árum. „Það var annar tíðarandi hér áður sem lagði ekki áherslu á þessi gildi sem þjóðfundurinn valdi heldur voru önnur gildi höfð að leiðarljósi. Áður, fyrir bankahrunið var talað um að gildi eins og framsækni væru nauðsynleg og menn ættu að hafa dug og þol til þess að stíga ákveðin skref án þess að hugsa of mikið um afleiðingarnar. Þessu var hampað eins og þetta væri eitthvert Íslendingaeðli að vera fljótari en aðrir og framkvæma áður en var hugsað. Einnig má segja að yfirvöld hafi hvatt ákveðna yfirstéttarhópa til þess að hegða sér á þennan hátt. Það stóð í skýrslum frá forsætisráðuneytinu að menn mættu sýna af sér óútreiknanlega hegðun og jafnvel agaleysi í samskiptum við erlend fyrirtæki þannig að tíðarandinn var allur annar.“
Gunnar segir ennfremur að það sem gerðist fyrir hrun var að gildi sem í venjulegu samhengi eru hlaðin neikvæðri merkingu öðluðust á þessum árum efnahagsbólunnar jákvæða merkingu. „Til dæmis var græðgi, sem er neikvætt hlaðið gildi, talin jákvæð á ákveðnum vettvangi. Einnig var óútreiknanleg hegðun skyndilega orðin jákvæð en aðeins til þess að ná í meiri peninga. Hins vegar átti almenningur að vera hlýðinn en útvalin yfirstétt mátti vera ósvífin í samskiptum við aðra.“
Árið 2007 gerði Capacent-Gallup lífsgildakönnun meðal almennings og þar kom í ljós að fólk kvartaði yfir efnishyggju, skammsýni og spillingu, segir Gunnar. „Fólki líkaði ekki við þetta afl í tíðarandanum. Einnig kom í ljós að almenningur hafði ekki týnt gömlum og góðum gildum og mat ennþá gildi eins og traust, vinsemd og virðingu. Þessi gildi voru samt ekki í deiglunni en eftir hrunið hafa þau verið dregin aftur fram í sviðsljósið.“

Afturhvarf til hinna gömlu gilda

Aðspurður hvort þjóðin muni nýta sér þessi gildi, sem í raun eru aðeins hugtök hlaðin einhverri ákveðinni siðferðislegri merkingu á einhverjum ákveðnum tíma, segir Gunnar að það muni taka langan tíma að efla með sér þessi gildi en slíkt þurfi að æfa. „Það verður ekki létt verk fyrir þjóðina að tileinka sér þessi gildi því það eru ekki til nein forrit sem maður getur bara stungið inn í heilann á sér heldur er þetta mikil vinna sem í raun ætti að koma með uppeldinu. Þetta er eitthvað sem við þurfum að læra en er ekki meðfætt. Foreldrar þurfa að kenna börnum sínum þessi gildi og yfirvöld þurfa að halda þeim að borgurum sínum. Þetta er að vissu leyti nám og því þurfum við að æfa okkur. Tökum til dæmis fyrir hugrekki. Hvernig getum við orðið hugrakkari? Það er hægt að æfa með því að gera eitthvað sem við óttumst og stíga stöðugt skrefinu lengra í óttanum og þar með verðum við hugrakkari. En þetta er nú bara einfalt dæmi um hvernig hægt er að tileinka sér jákvætt gildi.“
Gunnar segir ennfremur að þessi gildi, sem jafnvel megi flokka til ákveðinna mannréttinda, hafi alltaf búið með manninum en það sé mismikil áhersla lögð á þessi gildi á hverjum tíma. „Að efla þessi gildi er eitthvað sígilt og hluti af því að vera manneskja og til þess að samfélagið geti verið í einhverju jafnvægi. Fólk er algjörlega reiðubúið til þess að tileinka sér og efla með sér þessi gildi sem alltaf hafa verið til en er nú verið að knýja á. Tíðarandinn vill verða svona en það er ekki víst að það heppnist, það þarf kannski fleira að spila með, t.d. fyrirtækin og yfirvöld. Því veit svo sem enginn hvernig þetta fer.“

Hófsemin í hávegum höfð

Gunnar hefur, eins og áður kom fram, gefið út tvær aðrar bækur sem fjalla um persónuleg og samfélagsleg gildi sem hver manneskja getur tileinkað sér. Hins vegar segir Gunnar að nýja bókin fjalli meira um opinber, þjóðfélagsleg gildi sem almenningur og yfirvöld ættu að virða. „Þessi bók fjallar um gildi Íslendinga og er í raun ekki beintengd né framhald af hinum bókunum þó þær tengist á vissan hátt. Ég þurfti að finna aðferð til að nálgast þessi gildi á nýjan hátt og bætti því við einu gildi sem ekki er mikið nefnt en er þó alltaf undir niðri. Þetta er gildi sem aldrei er talið beint eftirsóknarvert en er þó alltaf þarna. Það er hófsemin en mætti líka kallast nægjusemi en ég set það gildi sem ákveðna miðju og vinn hin gildin tvö og tvö saman út frá þessari miðju. Ég læt öll gildin krækja einhvernveginn hvert í annað, t.d. ábyrgð og frelsi, virðing og réttlæti, traust og heiðarleiki o.s.frv. og á endanum fer ég hring og skapa þar með ákveðna heildarsýn en undir niðri impra ég á hófseminni.“

Deila

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *