Heimspeki

Heimspekikaffi um sjálfþekkingu

12_vef_feb_heimspeki_visitHver er ég? Hvernig getur maður þekkt sjálfan sig? Hver er besta leiðin til að kynnast sjálfum sér? Hvernig lýsir fólk hvert öðru og hvað merkir það? Hvað þarf að gera til að öðlast þekkingu sjálfan sig? Hvernig bregst ég við áreiti? Hopa ég á fæti eða stíg ég fram? Rétti ég fram hjálparhönd eða læt ég mig hverfa sporlaust?

Spurningarnar eru verðugt viðfangsefni en sennilega öðlast enginn þekkingu á sjálfum sér fyrr en á reynir, fyrr en í harðbakkan slær, fyrr en staðið er andspænis ógninni, auglitis til auglitis. Hugrekkið og kærleikurinn skilur líklega á milli feigs og ófeigs.

Ofangreindar spurningar eru efni í margar bækur, en til er önnur hlið á sjálfsþekkingu sem sjaldan er fjallað um. Þá hlið er ekki beinlínis hægt að lesa af svipbrigðum, dyggðum eða úr samræðumi. Hún felst í þeim afleiðingum sem hegðun og skoðanir hvers og eins skapa. Ekki endilega á hér og nú heldur annars staðar og síðar meir, jafnvel í framandi heimsálfum. Ábyrgð fylgir skoðunum og hegðun sem varða aðra .

Hver persóna hefur sjálfsmynd og vinir hennar móta sér myndir af henni í huga sér en á sama tíma lengist skuggamynd mótuð af atferli og viðhorfum. Sá skuggi verður einskonar tvífari sem fæstir koma auga á og  eigandinn vill ekki kannast við. Hver er tvífarinn og hvað er hann að gera?

Virðulegur maður í samfélaginu sem sífellt fær tækifæri til að lýsa skoðunum sínum og afrekum í fjölmiðlum hefur óhjákvæmilega áhrif á aðra. Hann gæti mælt með ýmsum hugmyndum sem hljóma ágætlega á yfirborðinu, hrifningaralda í þjóðfélaginu gæti haft áhrif á lög og reglugerðir. Hann gæti jafnvel sannfært aðra um að það borgaði sig að skulda sem mest. Aðeins þegar ráðleggingar hans eru greindar og rannsakaðar opinberast duldar afleiðingar þeirra.

Stéttaskipting gæti leynst í þeim og hvers konar ójöfnuður. Hann gæti dregið upp spennandi viðskiptaumhverfi hér á landi án þess að nefna að í þeim fælist kúgun launþega í Bangladesh, að vörurnar sem auglýstar yrðu hér á útsölu væru handunnar af lægst launuðu launþegum veraldar sem ynnu svo sannarlega myrkranna á milli.Hver er ábyrgð þeirra sem trúa honum? Hver er ábyrgð hans sjálfs? Hvað segir tvífarinn?

Páll postuli og heimspekingur gat greint tvífarann sinn og tókst að orða þetta ágætlega: „Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.“ Flestallir vilja þetta góða sem þeir tala mikið um og aðrir styðja þá í þeirri viðleitni. En svo gera margir eitthvað allt annað og afleiðingarnar til lengri tíma eru alls ekki góðar. Þar er tvífarinn á ferð.

Tvífarinn er hin hliðin. Sérhver maður er ekki aðeins sá sem hann vill vera, heldur einnig sá sem hann vill ekki vera. Sjálfsþekkingin er því tvíþætt: Sá sem þú vilt horfast í augu við og sá sem þú vilt ekki horfast í augu við.

 

HEIMSPEKIKAFFI UM TVÍFARANN

„Þekktu sjálfan þig“ er ein elsta ráðlegging heimspekinnar til þeirra sem vilja skilja heiminn. Sjálfsþekking er langtímanám og sá sem er um það bil að útskrifast uppgötvar að öflug skoðun og hegðun á einum stað getur haft óvæntar afleiðingar á öðrum fjarlægum stað.

Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, og Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í mannfræði, ætla með ýmsum dæmum að varpa ljósi á leitina að sjálfsþekkingu á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 20. nóvember kl. 20.00 en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum

Gunnar Hersveinn hefur tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni um margra ár skeið og skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Guðrún Margrét Guðmundsdóttir er fyrrverandi formaður stjórnar UNIFEM, nú UNWOMEN. Hún mun m.a. glíma við þá mótsögn að berjast gegn misrétti og að viðhalda því á sama tíma.

Heimspekikaffi í Gerðubergi

www.lifsgildin.is

 

Deila