israel-palestine

Höfnum óvild, veljum frið

israel-palestineKúgun er alltaf röng, stríð og ofbeldi og morð er alltaf rangt. Stríðsleiðtogar sem efna til deilna milli þjóða deyja sjaldnast vegna myrkraverka sinna heldur deyja aðrir karlar, konur og börn í hópum. Hrokafullir stríðsleiðtogar beita klækjum og blekkingum, lygum og áróðri til að fá sínu framgengt. Trúum engu sem frá þeim kemur, valdið er ekki þeirra.

Hundrað ár eru liðin frá því að heimsstyrjöldin 1914-1918 hófst. Rangar ákvarðanir, heimska, illska og grimmd kostuðu að minnsta kosti 16. milljónir lífið og árin 1939-1945 töpuðu ekki færri en 40. milljónir lífi sínu, átökin í Palestínu eiga meðal annars rætur í heimsstríðum tuttugustu aldar.

Það nægir að líta eina öld aftur í tímann til að sjá blóðuga skelfinguna og heyra þjáninguna sprengja hljóðhimnur. Ofbeldismenningin getur ekki leyst eitt eða neitt, aðeins skapað meiri viðbjóð. Hún hefur aðeins dauða og þjáningu í för með sér.

Friðarferlið hefst ekki fyrr en vafasamir leiðtogar stíga til hliðar eða missa tiltrú fólksins. Það eru engin landamæri, engin lína milli nágranna. Borgarar allra landa þurfa að rísa upp og neita að taka þátt í átakmenningunni sem spinnur hatursferlið. Neita að deila, neita að vera óvinir og viðurkenna jafnan rétt allra.

Allir allsstaðar, hættum að bíða eftir óhæfum leiðtogum, sköpum friðarmenningu og gerum hana að okkar lífsskoðun. Tökum valdið og vopnin af hinum ófæru og í ljós kemur að það er græðgi hinna fáu sem allt er að drepa, óvild þeirra og hatur eyðileggur líf annarra.

Höldum grið og frið. Særum engan!

Veröldin sem verður – veltur á afstöðu okkar, mótspyrnu og hugsjónum.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Ljósmynd/Unhate foundation

Deila