UM BÓKINA

„Bókin fjallar með öðrum orðum um nokkra af þeim meginþáttum sem gera persónur gagnrýnar. Í fyrstu þremur köflunum er greint frá samhenginu á milli flokkana, staðalímynda og fordóma og mismununar en samtímis lögð áhersla á að halda þessum hugtökum aðgreindum. Í fyrsta kafla er fjallað almennt um flokkanir og nokkur einkenni flokkunarstarfsemi hugans kynnt. Að flokka eftir kerfi sem mannshugurinn hefur tamið sér í þróunarsögunni og sú hæfni er oft forsenda samskipta. Flokkunum fylgja bæði kostir og ókostir.

Flokkun er öflug aðferð mannshugans til að draga ályktanir á undraskjótum tíma en hún er einnig gölluð og það þarf gagnrýninn borgari að gera sér grein fyrir. Eins og fjallað er um í bókinni getur flokkunin verið menningarbundin, fyrirskipuð og jafnvel félagslegur tilbúningur og uppspretta fordóma.

Staðalímyndir eru umfjöllunarefni annars kafla, en þær eru ein gerð félagslegra birtingarmynda ákveðinna hópa sem skapa grunn sameiginlegra hugmynda og ímynda um þá. Staðalímyndir eru sem frosnar ímyndir og mun erfiðara er að breyta þeim en flokkunum. Þær geta falið í sér grófar órökstuddar alhæfingar einhvers meirihluta um minnihluta og þá um alla einstaklinga sem tilheyra hópum.

Þriðji kaflinn fjallar um fordóma, að þeir geti verið ómeðvitaðir og/eða duldir eða meðvitaðir. Áður fyrr var lítill greinarmunur gerður á fordómum og staðalímyndum, en sú túlkun hefur breyst á síðastliðnum áratugum og nú er frekar litið á fordóma sem birtingarmynd skoðana sem byggja á staðalímyndum.
Í köflunum um jafnrétti og friðarmenningu eru kenndar aðferðir til að hugsa um samfélagið í þeim tilgangi að varpa ljósi á misrétti og átakamenningu sem víða einkennir veröldina. Þeir lýsa einnig hvernig hægt er að greina kynjaskekkjur og leggja stund á aðrar hugsunaraðferðir en venjan segir til um. Ekki síst er þar gerð tilraun til að kenna um mannréttindi.

Kaflinn um borgaravitund fjallar um það vandasama verkefni að vera virkur og hugsandi borgari í lýðræðissamfélagi. Áður fyrr var verkefnið fyrst og fremst að læra að taka þátt í samfélaginu, að verða fullgildur þegn og kunna að vera með. Núna felst verkefnið ekki síst í því að vera gagnrýninn borgari sem efast og vill koma í veg fyrir mistök og tryggja að næsta kynslóð fái einnig að njóta gæða lífsins.

Bókin fjallar um mannréttindi út frá nokkrum sjónarhornum. Veitt er innsýn í aðferðir til að gera greinarmun á jafnrétti og misrétti, virðingu og fordómum, ofbeldi og friðarmenningu og aðferðir kenndar til að flokka og greina ímyndir. Allt miðar þetta að því að verða læs á samtímann til að geta orðið öflugur borgari sem vill bæta samfélagið og koma í veg fyrir misrétti og mannamun.
Borgari sem hefur góð tengsl við næstu kynslóð og finnur til ábyrgðar gagnvart kjörum hennar er fullþroska. Einnig má segja að enginn verði fullgerður borgari fyrr en hann finnur hjá sér knýjandi þörf til að láta gott af sér leiða.“

Deila

Gunnar Hersveinn | ritverk og greinaskrif