Hver er myndin af guði?

Heimspeki

Spurningin um myndina af guði er ekki spurning um tilvist, trú eða reynslusögur, heldur þær myndir sem fólk í gegnum aldirnar hefur gert sér í hugarlund af guði eða veru sem er æðri en maðurinn.

Myndirnar hafa verið margbrotnar eftir tímaskeiðum og menningu, guðirnir af ýmsum toga, kynlausir og kynjaðir. Afskiptalaus himnavera er sennilega ein elsta guðsmyndin, óljós hugmynd um veru sem hafði ekki nafn, eðli, framtíð eða fortíð. Höfuðskepnurnar, jörð, loft, vatn og eldur hafa allar birst á hugartjaldinu sem guð á himnum eða guð í undirdjúpunum.

Myndin af guði sýnir yfirleitt veru sem býr yfir einhverjum mætti sem manneskjur búa ekki yfir eins og eilífð eða valdi til að sigra dauðann (sem allir óttast). Önnur mynd sýnir frjósemi, efni sem sáldrast yfir heiminn og upp vaxa jurtir. Þriðja myndin sýnir stríðsguði sem breyta, bylta og frelsa úr ánauð, fjórða myndin sýnir varanleika.

Myndin af guði sýnir ekki aðeins karlkyns öldunga heldur einnig gyðjur, konur og mæður. Myndin hefur bæði varpast fram sem himnadrottning og himnafaðir. Jafnvel börnum, vinum, óvinum og dýrum bregður fyrir í myndinni af guði.

Það er krefjandi verkefni að dusta rykið af myndinni af guði, efast og leita og sjá hvað opinberast , því myndir af móður, föður, sonum (en þó ekki dætrum), konum, körlum, hjónum og einnig af kaldri skynsemi og heitum kærleika,  birtast.

HELGIMYNDIR

Nútíma rithöfundar sem semja dæmisögur um guði í mannheimum fela hina guðlegu veru iðulega meðal hinna ósýnilegu. Í þeim gæti guð verið stétt- og allslaus indverskur karl eða pakistönsk kona með sýrubrennt andlit sem enginn tekur eftir.

Listamenn hafa löngum glímt við myndina af guði og skapað margar helgimyndir, samið tónverk, skrifað bækur og gert myndverk.
Helgimynd er heiti yfir myndir með trúarlegu inntaki. Íkon er helgimynd, oftast gerð á tré eða í fílabein og stundum úr blaðgulli.

KristinGunnlaugsdottir - Afrit

Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarmaður hefur tekist á við helgimyndina í verkum sínum. Hún hefur birt þar konur, börn, öldunga og fjöll en einnig „fléttaði ég saman blaðgulli og eggtemperu, eða tækni helgimynda við nýtt myndmál. Hinn heiti kjarni mannlegrar tilveru, sem býr meðal annars í sköpum konunnar eða leið innra lífs og fæðingar. Birting kvenorkunnar er minn veruleiki,“ segir Kristín (Undir rós, bls. 21). Hún fjallar m.a. um náttúruorku, lífsgeislun, kynkraft og frjósemi sem tengist fæðingu,  móður jörð og hringrás lífsins. Allt eru þetta þættir sem sjá má í myndinni af guði.

Átök hafa ævinlega staðið yfir um myndina af guði því sá sem mótar hana hefur vald. En hvernig lítur myndin út núna? Er hægt að lýsa henni? Á hún framtíð fyrir sér? Er frummyndin til eða aðeins margræð ímynd, eftirlíking af eftirlíkingu?

Hvert er svarið? Heimspekin og listin eiga leitina að svari sammerkt, og innan þeirra vébanda eru settar fram tilgátur, túlkanir og bráðabirgðaniðurstöður sem vekja nýjar spurningar.

Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarmaður munu ræða saman um myndina af guði á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 21. október kl. 20:00 út frá nokkrum sjónarhornum og mun Kristín m.a. segja frá endursköpun sinni á helgimyndum en sú túlkun hefur komið mörgum á óvart.

Enginn aðgangseyrir, allir velkomnir.

Tenglar

Viðburður á facebook

Kristín Gunnlaugsdóttir

 

Deila

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *