peace

Ísland – Palestína – Hvað getum við gert?

peace

Ísland á ekki landher, flugher eða sjóher, engin hervopn, engar herdeildir, enga hershöfðingja, engan stríðsmálaráðherra, engar hervarnir, ekkert af neinu tagi sem getur flokkast undir stríðsrekstur. Ísland gæti þar af leiðandi ekki gert neins konar innrás, hvorki sótt né varið sig. Sama má segja um Palestínu.

Ef stríðsleiðtogar annars lands myndu beita ógnarherstyrk sínum til að skelfa, hræða og myrða Íslendinga, rústa híbýlum þeirra, skólum, sjúkrahúsum og hverju öðru sem stríðsrekstur getur þurrkað út, myndum við sennilega óska þess að einhver rétti hjálparhönd og reyndi að skilja stöðu okkar. Ef Ísland væri undir járnhæl stríðsherra sem margir óttuðust, myndum við eflaust óska þess að einhverjir hefðu hugrekki til að vera vinir okkar.

Þjóðarleiðtogar myndu ef til vill þegja og helstu fjölmiðlar láta sér nægja að lýsa annarri hliðinni og stilla málinu upp sem átökum milli tveggja jafnvígra aðila, með og á móti, sigur og ósigur.

Allir ættu þó að vita að stríðsaðferðin sem leiðtogar Ísraelsríkis beita gagnvart Palestínumönnum gerir aðeins illt verra. Þeir vita það sjálfir, því ef það væri áhugi á nágrannakærleik og friðsemd þá yrði allt annarri aðferð beitt í samskiptunum. Sú aðferð er friðarreglan og hún hljómar svona: særið engan.

 ÁTAKAMENNING – FRIÐARMENNING

Friðaraðferðin er jafngömul og jafnkunn og aðferð átakanna en hún er hljóðlát og þarfnast alúðar og tíma. Hún fer ekki í manngreinarálit, hún gildir óháð stétt, búsetu, stöðu, kyni, uppruna og öðru sem sett er fram til aðskilnaðar. Hún er grunnregla mannréttinda. Hún er ekki flugskeyti. Hún bindur ekki, skerðir ekki frelsi, hún kveður aðeins á um ein mörk. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það á ekki að gera. Hún setur aðeins eitt bann.

Hún er friðurinn, heimsfriðurinn í hjartanu. Hún er silfurreglan: Ekki óska neinum þess sem vekur þér andstyggð. Ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér.

Ekki gera öðrum það sem þú sjálf/ur forðast.

Eflaust má finna undantekningu á friðarreglunni í formi sjálfsvarna og gilda réttlætingu fyrir broti á reglunni – en reglan sjálf verður þó ekki numin úr gildi. Verkefnið er að læra regluna og kenna hana, ekki að vopnbúast heldur friðvæðast.

Réttlæti er aldrei samferða ofbeldi, kúgun og manndrápi.

Ef reglunni er fylgt þróast friðarmenning. Reglan er mild og þekkist á því að sá sem virðir hana vinnur lífinu ekki mein, heldur skapar ró og næði, öryggi. Hann skýtur ekki fyrst og býður svo í friðarviðræður.

Friður er lærdómsferli með jöfnuð að leiðarljósi. Hann kemur böndum á agaleysi og eyðir tortryggni sem lengir bilið á milli manna og þjóða. Hvar sem ójöfnuður fær að vaxa brýst fyrr eða síðar út styrjöld. Friðarmenning er aftur á móti ljósið út úr óreiðu heimskunnar.

Öll viðleitni sem snýst um friðarmenningu hefur jöfnuð að mælikvarða: að stytta bil á milli manna, hópa og þjóða í öllum málaflokkum og draga úr stéttaskiptingu. Það er sterk fylgni milli réttlætis og jafnaðar. Árás á Gaza núna breikkar bilið, skilur fólk að og skapar yfirstétt og undirskipun, ríkidæmi og fátækt og hvaðeina annað sem reisir múra á milli manna og þjóða.

Allir ættu því að gera sér ljósa grein fyrir að friðarreglan er ekki iðkuð um þessar mundir á þessu tiltekna svæði og það bitnar á borgurum. Hvað getum við gert? Jafnvel þótt við séum smá og virðumst marklaus, þá munum við aldrei hætta að mótmæla heimskunni og grimmdinni.

Fylgjumst með, knýjum á, mótmælum, það skiptir máli, jafnvel afstaða, viðbrögð og rödd okkar skiptir máli. Efumst ekki, við erum öll jöfn gagnvart mannréttindum hvar sem við búum, hvort sem það er í Gaza, Manhattan eða í Breiðholtinu.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

 

 

Deila