jafnretti

Jafnréttisáætlun eða –bylting?

Hér er fjallað um jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fjögurra ára en hún liggur nú fyrir Alþingi í formi þingsályktunar. Ef til vill verður hún síðasta áætlunin áður en byltingin verður? Næsta verkefni felst væntanlega í því að brjóta niður valdakerfið og vinnumenninguna sem reist eru á karllægum viðmiðum.

I. Fræðsla gegn misrétti
„Meiri fræðsla, fræðsla, fræðsla,“ er oft svarið þegar spurt er um ráð gegn misrétti. Áróður, fræðsla, upplýsingar, fréttir, greiningar, skýrslur og grafísk framsetning sem varpa skýru ljósi á misrétti dugar þó ekki alla leið ef markmiðið er breyta valdakerfinu og menningunni.

Oftrú er á að fræðsla vinni gegn misrétti. Hefðbundin fræðsla höfðar til skynseminnar í framheilanum. Hún er sett fram með staðreyndum og pottþéttri tölfræði. Fólk fer á námskeið, les og hlustar og talar jafnvel saman um efnið.

Fræðsla er það efni sem unnið er úr vísindalegum gögnum og niðurstöðum og miðlun tekur mið af  aldurs- og þroskastigi. Gögn um jafnrétti og önnur mannréttindi opinbera oft alvarlegar skekkjur. En þrátt fyrir það nægir fræðslan ekki til að eitthvað breytist á heimilinu, vinnunni eða samfélaginu. Misrétti á sér nefnilega fleiri rætur en skort á þekkingu eða fræðslu, sumar hverjar teygja sig óheyrilega langt undir yfirborðið.

Vestræn hugsun gerir of oft ráð fyrir að (flest)allt megi laga með þekkingu, jafnvel hið illa er sagt skortur á hinu góða, lygi skortur á sannleika og misrétti skortur á réttlæti. Skortur á þekkingu er sögð undirrót alls sem misfer í heiminum. „Sá sem veit, sá sem býr yfir þekkingu, brýtur ekki á öðrum,“ er viðhorf sem varð úrelt á tímum Forngrikkja – en lifði þó áfram.

Félagslegt misrétti berst milli kynslóða – viðhorf, hefðir, viðmið og siðir verða ekki upprætt með skynseminni einni saman eða miðlun upplýsinga. Og undirskipun kvenna heldur áfram þrátt fyrir að Hagstofan gefi árlega út rit um stöðu karla og kvenna á Íslandi til að opinbera kynjaskekkjur í samfélaginu.

Þrátt fyrir alla þekkingu, upplýsingar, lög og fræðslu þá dróst t.a.m. hlutfall kvenna meðal æðstu stjórnenda 100 stærstu fyrirtækja landsins saman eða úr 12% árið 2005 í 8% árið 2007. Hlutfall þeirra sem stjórnarformenn í þessum sömu fyrirtækjum var 5% árið 2005 og varð 3% árið 2007. Hlutfall kvenna sem framkvæmdastjórar var 17% árið 2001 og 19% árið 2009. Það myndi æra óstöðugan að telja upp fleiri tölur, þótt sumt hafi nálgast jafnrétti til dæmis hlutfall kynjanna á Alþingi. Tölurnar voru birtar á Jafnfréttisþingi 2011 í febrúar.

II. Hvers vegna er fræðsla ekki nóg?
Fjölmiðill sem hefur starfað í heila öld þar sem bæði stjórnendur, eigendur og ritstjórar hafa ævinlega og iðulega verið karlar býr að öllum líkindum við rótgróin karllæg viðmið. Þau eru óskrifuð en inngróin í fyrirtækjamenninguna og starfsmenn aðlagast þeim án þess að taka eftir því.

Karlar fá fremur en konur framgang í slíkum fyrirtækjum, meiri hlunnindi og skilning. Ef landslög myndu ekki banna launamismun væru þeir einnig allir á hærri launum en konur í sömu störfum – en jafnvel lögin duga ekki, því fyrir hverja krónu sem launakarl þiggur hér á landi fær launakonan færri aura. Kynbundinn launamunur hefur mælst 16% og þar af er engin leið að úskýra með neinum þekktum mælikvörðum 7,3% launamun (Jafnréttisþing, bls. 20). Líklega liggur hann í rótgrónum viðhorfum og vinnumenningu.

Fræðsla er ekki nóg vegna þess að viðmið og menning vinnustaðar er meira og stærra en hver karl og kona, hver stjórnandi og eigandi. Vinnumenningin er sett saman úr mörgum þáttum og þegar yfirmannsstaða losnar þá er eins og hún kalli á karl. Rökin hníga að karli og næstum öllum finnst það eðlilegt því þær hugsanavenjur sem hafa mótast á vinnustaðnum kveða svo á um.

Þetta gerist aftur og aftur, vinnustaðurinn verður valdakerfi sem sækist eftir venjunni og útilokar ögrunina. Sömu relgur gilda þegar skipað er í nefndir um svokölluð brýn þjóðhagsleg málefni, þær verða þéttskipaðar körlum. Jafnvel ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti skipar reglulega nefndir sem einungis karlar eða aðeins ein kona sitja í. Ef hver flokkur á Alþingi á að skipa einn fulltrúa í nefnd má spá fyrir um að þar raðist fjórir karlar og ein kona. Glænýtt dæmi er kosning á Alþingi í landskjörstjórn: 4:1 fyrir körlum (28. febrúar 2011).

Hlutverk kynjanna í nefndum á vegum hins opinbera eru fastmótuð þrátt fyrir jafnréttislög. Ný rannsókn á nefndum á vegum sveitarfélaga sýnir að ósjálfrátt er gert ráð fyrir að konur skipi sér í nefndir sem tengist einkasviðinu og karlar hinu opinbera. „Karlar eru í miklum meirihluta í skipulagsnefndum sveitarfélaga, á meðan konur eru í miklum meirihluta í félagsmálanefndum.“ (Ásta Jóhannsdóttir, 2010). Skipulagsvaldi fylgir virðing, félagsmálavaldi fylgir skylda.

III. Vinnumenning og valdakerfi
Fræðsla er greinilega ekki nóg, ekki heldur hugsjón um réttlæti, það er eitthvað annað sem gildir og af þeim sökum má iðulega búast við bakslagi í jafnréttis- og annarri mannréttindabaráttu. Beina þarf sjónum að menningunni, m.a. vinnumenningunni.

Karllæg viðmið: hið hefðbundna, „eðlilega“ og „rétta“ eiga samleið á mörgum vinnustöðum og því skiptir stundum ekki máli, til dæmis á fjölmiðlum, hvort það er kona eða karl sem heldur á pennanum – ef þau hafa bæði aðlagast menningunni. Hið sama getur gerst á kvennavinnustað. Ekki er nóg að vita þetta, heldur þarf að læra einhverjar aðferðir til að breyta vinnumenningu og skipta um viðmið. Það krefst tíma og þekkingar.

Breytingin felur í sér meira en menntun, meira en fræðslu, hún felur í sér kraft og hugrekki: að skapa sér rödd inni í valdakerfinu á hverjum stað og koma auga á möguleikana til andófs. Sá/sú sem vill breyta vinnustað, samfélagi eða heiminum til að draga úr misrétti gerir það ekki einn/ein og ekki utan frá.

Aðferðin felst ekki einungis í því að greina misréttið eða jafna hlut fólks heldur einnig í því að finna veikleika í (vinnu)menningunni, fá jafningja til liðs við sig og sameinast gegn því sem breyta þarf. Nauðsynlegt er að safna gögnum og afhjúpa síðan misréttið með fræðslu – en það er ekki nægjanlegt, aðeins byrjunin.

IV. Kerfisbundin áætlun eða bylting?
„Af hverju er fólk með sambærilega menntun með mismunandi laun eftir kyni? Mér finnst þetta vera athyglisvert,“ sagði Pétur H. Blöndal í fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um áæltun í jafnréttismálum til fjögurra ára. (20. janúar 2011). „Ég skil ekki þennan kynjamismun í vali á starfi,“ sagði hann einnig í umræðunum. Pétur sér kynjaskekkjurnar en horfist ef til vill ekki í augu við að valdakerfið og vinnumenning valdsins lýtur karllægum viðmiðum. Meira en fræðslu þarf til að opna augun fyrir því.

Kynning og fræðsla, könnun og úttekt er títtnefnd í nýrri jafnfréttisáætlun og Alþingi heitir sér því að skipta jafnt konur sem karla í nefndir. Vandinn er þó áfram sá að venjur og viðmið flokkanna sjálfra eru áfram karllæg og valdakerfið sjálft stendur óhaggað. Fyrsta val í þýðingarmiklar nefndir sem varða efnahag, utanríkismál og annað á hinu opinbera sviði verða því væntanlega áfram einstaklingar af karlkyni.

Jafnréttisætlunin sem væntanlega verður samþykkt er nauðsynleg, t.a.m verður efnt til fræðslu um ábyrgð og skyldur stjórnenda og stjórnarmanna í fyrirtækjum. „Ef árangur á að nást þarf að auka fræðslu og stuðning við fyrirtækin og efla gagnagrunn um konur sem gefa kost á sér til stjórnunarstarfa.“ (bls. 15). Áætlunin gerir réttilega ráð fyrir að kynjajafnrétti sé fjölþætt fyrirbæri en ekki mælt á einum ás.

Áætlunin kveður á um gagnagrunna, greiningar, kannanir og stuðning, fræðslu og að draga úr kynbundnu ofbeldi, launamun, taka þátt í alþjóðastarfi og bæta þátt karla í jafnréttismálum. Áætlunin gerir ráð fyrir að dregið verði úr skekkjum – en valdakerfið stendur samt áfram.

Vandinn er ekki sá að það þurfi að fjölga körlum í kennarastétt og konum í verkfræðingastétt sem sérstækum aðgerðum. Eða tala við jafnmargar konur og karla í fjölmiðlum. Það eru afleiðingar af orsökinni og vinnumenningunni. Verkefni framtíðarinnar felst í því að brjóta niður með byltingu karlægt valdakerfi, vinnumenninguna, viðmið og mælikvarða og byggja upp samfélag jafnréttis með öðrum viðmiðunum.

Nýja jafnréttisáætlunin á að gilda til ársins 2014. Ef til vill verður hún síðasta áætlunin áður en umbyltingin verður? Næg gögn og sannanir liggja þá á borðinu. Búum okkur undir að þarnæsta jafnréttisáætlun 2014- 2018 feli í sér byltingu á kerfi sem búið er að greina og afhjúpa. Þessa byltingu þarf að undirbúa vel – en henni gæti lokið 2018.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Heimildir:

Jafnréttisþing 2011: skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála. Velferðarráðuneytið 2011.
http://www.velferdarraduneyti.is/media/ritogskyrslur2011/18022011_Jafnretti_i_tolum.pdf

Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. (2010-2011, Alþingi).
http://www.althingi.is/altext/139/s/0401.html

Ásta Jóhannsdóttir (2010). Konur og karlar í nefndum: „Við eigum að velja hæfasta fólkið“. MA ritgerð í mannfræði.
http://skemman.is/stream/get/1946/6180/17645/1/MA_ritgerd_asta_johannsdottir.pdf

Pétur H. Blöndal
http://www.althingi.is/altext/raeda/139/rad20110120T142709.html

Deila

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *