Heimspeki

JAFNSÆLT AÐ GEFA OG ÞIGGJA

12_vef_feb_heimspeki_visitAð kunna að gefa með gleði og þakka af heilum hug er meira virði en margur hyggur, það er jafnvel forsenda velgengni í lífinu. Gjöf og þakklæti ganga ekki kaupum eða sölum, þessar dyggðir eru djúpur lærdómur. Þótt ávallt sé fullyrt að sælla sé að gefa en þiggja þá er það ekki augljóslega rétt. Að mörgu leyti er jafnt á komið með þiggjanda og gefanda.

Gjöfin er ekki gjöf nema með ákveðnum skilyrðum. Hún er ekki gefin með ólund heldur gleði. Hún er aðeins gefin með góðum hug og gefandinn býst ekki við endurgreiðslu. Eins þarf þiggjandinn að gleðjast og taka við henni án beiskju.

Gjöf og þakklæti eru samstæður. Sú og sá sem lærir að gefa með gleði og sá sem lærir að þiggja með gleði lærir jafnframt uppbyggjandi afstöðu gagnvart samfélaginu. Hún losnar undan nístandi löngun til að taka af öðrum, safna upp einskis nýtum hlutum, losnar undan græðginni. Hún verður þakklát fyrir tækifærið til að geta gefið öðrum.

Siðaboðið „gefið öðrum“ er lögmál velgegni í lífinu. Sú sem gefur, öðlast eitthvað annað, hún veit ekki hvað, aðeins að það er eitthvað gott. Sá sem þiggur gerir það með þakklæti, hann vex og vonast til að geta gefið öðrum síðar. Þannig eru þessi hugtök samtvinnuð en þau verða til umræðu í heimspekikaffi í menningarmiðstöðinni í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 17. september kl. 20.

Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur fjallar þar um leyndardóma þakklætis og gjafar og Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur talar um hvernig þakklæti getur verið stysta leiðin frá reiði og vanlíðan og lykill að hamingju jafnt í amstri hversdagsins sem í erfiðleikum og sorg vegna missis.

Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum. Allir eru velkomnir.

Tengill

Heimspekikaffi í Gerðubergi 17. september: Leyndardómar þakklætis og gjafar

 

 

 

 

Deila