Bordi2

Jarðarstundin rennur upp

Einstaklingurinn virðist oft vera sem örsmár maur í mauraþúfu eða sandkorn á endalausri strönd og engu máli skipta. En svo er ekki. Án hvers og eins væri engin strönd heldur aðeins auðn. Til eru verkefni sem sanna mátt einstaklinga – og sýna að það er borgarinn en ekki firrtur einræðisherra sem breytir heiminum til betri vegar.

Jarðarstundin er eitt af þessum verkefnum eða Earth hour þar sem einstaklingar, fyrirtæki, borgir og sveitarfélög vinna saman að orkusparnaði í eina klukkustund laugardaginn 31. mars milli klukkan 20.30 til 21.30.

Reykjavíkurborg tekur þátt í þessum viðburði í fyrsta sinn ásamt tæplega 140 öðrum borgum og borgarbúum um víða veröld. Viðburðurinn er skipulagður af sjálfboðaliðum og er markmiðið að hvetja hvern og einn til að spá í hvað hann geti lagt af mörkum í þágu umhverfisins.

Dimman sem borgarbúar skapa þessa klukkustund er tákn yfir samtakamátt og vald fjöldans. Hún er einnig tákn yfir sparnað andspænis orkusóun. Markmiðið með þessum alþjóðaviðburði er að vekja fólk til umhugsunar um umhverfismáli í víðu samhengi.

Reykjavíkurborg slekkur götuljósin í miðborginni og hvetur heimili, fyrirtæki og stofnanir til að slökkva einnig svo hægt verði að njóta þessa viðburðar betur. Einnig eru allir borgarbúar hvattir til að njóta stundarinnar með því að draga úr rafljósum. Milli klukkan 20:30 og 21:00 dregur hratt úr birtu og eftir 21:00 er myrkur í borginni og þá gefst vonandi tækifæri til að njóta stjarnanna.

Allt sem til þarf er að taka þátt, hún getur að lokum breytt heiminum til betri vegar.

Tengill:

http://www.youtube.com/watch?v=FovYv8vf5_E

http://www.earthhour.org/

https://www.facebook.com/EarthHourIceland

http://graennapril.is/

Deila