island

KALDAR TÆR KJÓSENDA

islandÞjóðin er á gönguferð og ólíkir tíðarandar blása ýmist í bakið eða fangið. Sumir vilja snúa við – aðrir ekki, sumir benda í austur, aðrir í vestur, nokkrir til hægri og stöku til vinstri. Kosið verður um áttina 27. apríl 2013.

I. TÍÐARANDINN

Spár fyrir Alþingiskosningar 2013 gera ráð fyrir því að það sem var verði næst á dagskrá. Taumleysi og agaleysi er það sem var ásamt hroka, óbilandi bjartsýni og óbeisluðum krafti að ógleymdri óútreiknanlegri hegðun.

Efnishyggja, skammsýni, spilling, yfirstétt og eyðing auðlina einkenndi það sem var – en það sem átti að koma í staðinn var víðsýni, heiðarleiki, jöfnuður, sjálfbærni og gagnsæi ásamt vináttu og samábyrgð. Þangað átti að minnsta kosti að stefna.

Óbilandi einstaklingshyggja, þrautseigja, forysta og yfirburðir geystust um eins og framtíðin væri þeirra. En eftir hengiflugið efldist virðing, umhyggja, nægjusemi og lýðræði. Tíðarandar takast á, það sem var togar í og það sem vill verða er ekki fast í hendi.

II. GÖNGUFERÐIN

Gangan á milli þess sem var og þess sem verður tekur á, hún þarfnast þolinmæði og úthalds göngufólks. Sundrung skapast í hópnum, sumir vilja snúa við, aðrir halda áfram og einhverjir eru áttavilltir.

„Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi – snúum við,“ segir þreytt göngufólk,“ „Sjáið þið ekki reykinn sem stígur upp af rústunum, þar er ekkert skjól – höldum áfram,“ segja aðrir í hópnum.

Áfangastaðurinn er handan við hæðirnar en of margt göngufólk virðist reiðubúið að snúa við á vaðinu yfir jökulána. Kjósa þarf um næstu höfuðátt í miðri á. Enginn vandi er að spá köldum tám kjósenda á bakkanum báðum megin árinnar en …

III. AFTURGANGA – FRAMGANGA

Framtíðin er val, hún er mótuð af þeim sem stíga lífsgönguna á hverjum tíma. Hún er ýmist fram eða aftur, í hring eða spíral í meðvindi eða mótvindi tíðarandans. Þjóðin er á vaði og lýkur ferðinni með kaldar tær á árbakkanum hvort sem hún snýr við eða ekki. Öðrum megin blána þær en hinum megin má nudda lífi í þær og fá blóðið til að renna á nýjan leik. En hvorum megin?

 

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

 

 

 

Deila