Í regnborg hljóðra húsa

Bókadómar

Morgunblaðið 23. nóvember 1993

Sameining og sundrung
Bókmenntir
Skafti Þ. Halldórsson
Gunnar Hersveinn: í regnborg hljóðra húsa. Ljóð. 52 bls.
Útgefandi: Höfundur sjálfur. 1993.

Sameining og sundrung eru helstu andstæður sem teflt er fram í nýrri bók Gunnars Hersveins, Í regnborg hljóðra húsa. Annars vegar sameining í ást og guði en hins vegar sundrung; aðskilnaður, söknuður, einsemd og dauði.

Bókin er hugsuð sem heild. Hún er í fjórum hlutum og eru þrír þeirra rammaðir inn með kvæðum sem ljóðmælandi grípur í upphafi pensil af forviða málara í skógi, fer um og málar tilfinningar með orðum eigin myndljóð en skilar málaranum penslinum aftur í lok þriðja hlutans. í þessum málverkum orða er ákveðin jarðkennd ríkjandi, skógurinn, smáverur og laufin en þó er blái liturinn nokkuð áberandi. Bókin hefst á fremur björtum tónum í umfjöllun um ást, sameiningu sálna og samúð með öllu lífi en annar hlutinn er fullur af váboðum; óafmáanlegur blettur á hönd sem vísar til leikrits sem hjátrúin bannar að nefna, ljóðmælandi sekkur í djúp eða fellur í hyldjúpt blóð og dauðinn liggur á gægjum. Í þriðja hluta eru ljóð sem byggja á biblíutilvísunum. En í síðasta hluta eru svo saknaðarljóð.

Ljóðmál Gunnars Hersveins er víðast persónulegt, hugmyndaríkt og fágað. Hann lætur oftast ljóðmyndirnar tala og merking kvæðisins verður til úr samspili orða, mynda, þverstæðna og ýmiss konar grunnkveikja sem skáldið notar óspart. Oft gengur þetta ágætlega upp en því er ekki að leyna að stundum þarf lesandi að hafa býsna mikið fyrir túlkun ljóðanna.

Mörg kvæða Gunnars Hersveins eru naum að orðum og sum þeirra verða fyrir bragðið ekki bragðmikill skáldskapur, t.d. kvæðið Hér: „Þú hlýtur/að hafa verið hér//ég sakna þín“ eða kvæðið Blá: „Þú ert blárri en fjöllin/og ég einmana.“ í fáeinum öðrum ljóðum finnst mér svo umhverfislýsingarnar- og útleitni kæfa innihaldið, t.d. í garðinum. Best þykir mér Gunnari takast í látlausum ljóðum þar sem hlutlæg myndsmíðin kveikir kenndir með lesanda. Bláu augun þín er eitt slíkt kvæði:

Blár
á blárri grundu
húsin trén dýrin blá einsog hafið
sólin skýin fuglarnir
allt er blátt einsog himinninn
og kyrrðin
hún er líka blá
og allt er í kyrrstöðu
allt nema kóngulóin
sem vefur okkur saman
með bláum þræði.

Ljóðheimur Gunnars Hersveins er fremur kyrrstæður og sjálfhverfur líkt og skáldskapur margra af hans kynslóð. Einhver umbrot eiga sér þó stað innra með skáldinu, einhvers konar viðleitni til að rjúfa einangrun. Í kvæðinu Ljóðadyrnar segir svo: „Viltu þá taka öxina á ganginum/og höggva ljóðadyrnar í spað?“

Þetta gerir vitaskuld enginn annar en skáldið sjálft og nú er bara að bíða og sjá.


Brothætt líf og tárvotur maður

Bókmenntir. Sigríður Albertsdóttir

Þú ert blárri en fjöllin / og ég einmana segir á einum stað í nýjustu ljóðabók Gunnars Hersveins, í regnborg hljóðra húsa. Þessi yfirlýsing rímar við mörg önnur ljóð bókarinnar þar sem dregnar eru upp kýrrlátar myndir af einmana og leitandi manni í brothættum heimi þar sem dauðinn er stöðugt nálægur. Í upphafsljóði bókarinnar grípur ljóðmælandi pensil í hönd og málar síðan (yrkir) hverja myndina á fætur annarri þar sem ltirnir rautt og blátt eru sterkir: rautt tengt blóði, dauða og ólgandi tilfinningum, blátt tengt himni og hafi, fjarlægðinni og óendanleikanum. Heimurinn er hverfull og allt sem í honum er sbr. ljóðið Spáð í bolla (bls. 18):

Það er kvöld

og snjór hylur jörð. ,

Ég sit í eldhúsinu við ofninn

og rýni oni bolla í kaffirákir um ókomna tið.

Sé feikilegan lukkustólpa

og slæ teskeið af ánægju á bollabrún

en flís skýst í augað

og blóð fellur á lukkustólpann

sem hrynur.

Í hverju ljóðinu af öðru fáum við þau skilaboð að ekkert sé öruggt, að ekkert vari að eilífu: síst af öllu hamingjan sem fölnar og visnar hraðar en auga á festir alveg eins og fegurð fiðrildisins sem ljóðmælandi fangar í öðru ljóði (bls. 19). Við þessu er lítið að gera, má þó henda gaman að eins og í ofangreindu ljóði og víðar bregður Gunnar fyrir sig húmor með ágætum árangri. En skáldinu er ekki alltaf hlátur í huga, þau eru fleiri ljóðin sem lýsa óskilgreindri ógn sem

í steinglerjuðu herbergi

og horfl á lykilinn

hanga á brothættum nagla.

í hurðinni bíður skráargatið.

Hinumegin

liggur dauðinn á gægjum. (Brothætt líf, bls. 26).

Maðurinn er afkróað fórnarlamb lífsins (leiðans?), ófær um að aðhafast nokkuð, er eins og vængbrotin fluga sem bíður komu hinnar grimmu kóngulóar (sbr. Óyndi bls. 21). Óvirkni er orðið sem lýsir ljóðum Gunnars nokkuð vel, maðurinn er áhorfandi að lífinu fremur en þátttakandi. Nærvera hans er brotakennd og hann verður hvað eftir annað ósýnilegur. Hann visnar (31), bráðnar (11), sekkur í saltan faðm hafsins (9), sekkur í djúpið (27) og fellur í hyldjúpt blóðið (28). Og í fjórða og síðasta kafla bókarinnar eru sjö ljóð sem öll fjalla um skilnað, eða yfirvofandi skilnað, og andspænis því ástandi er maðurinn alveg varnarlaus og að sama skapi „ósýnilegur“. Getur engu breytt, aðeins ákallað konuna í ljóðum sem hann líkir við litlausa eyðimörk án hennar. Þessi ljóð eru gædd sárum söknuði og sterkum tilfinningum, andstætt t.a.m. biblíuljóðunum  í þriðja kafla bókarinnar sem eru upphafin og innhverf og vísa til syndar og sektar á afar óljósan hátt (Trén eru góð að eta af (37), Kornsigð (38) Höndin (35) Haninn sem galaði (41)). Það sama gildir um ljóðið Óhreinar hendur (bls. 24) þar sem endurvakið er hið fræga sturtuatriði úr bíómyndinni Psycho með slæmum árangri. Í því ljóði er fjallað um sekt og dauða en hér nær skáldið ekki að skapa þá stemningu spennu og óhugnaðar sem til þarf svo ljóðið vakni til lífsins. En Gunnar er annars heilmikill stemningarmaður og nær yfirleitt að endurskapa það andrúmsloft sem textarnir boða í huga lesandans.

Í regnborg hljóðra húsa. Gunnar Hersveinn,

Héraðsprent sf., Egllsstöðum.

Deila

Gunnar Hersveinn | ritverk og greinaskrif