Sjöund

Bókadómar / SJÖUND

Sjöund/ljóðaumslag
Gunnar Hersveinn
Umsj.: Sóley Stefánsdóttir

Sjöund er handsaumað ljóðaumslag – grafískt og hjartnæmt. Verkið er eftir Gunnar Hersvein rithöfund og Sóleyju Stefánsdóttur hönnuð. Sjöund sameinar mynd, ljóð og bréf í einu umslagi.
„Mér finnst þetta falleg bók bæði að utan sem innan.“ „Ég féll fyrir þessari bók, rómantísk bók um ástina og þrána, fallegar tilfinningaríkar myndir. “ Gerður Kristný/ Mannamál á Stöð


Sjö ástarljóð

Sjöund eftir Gunnar Hersvein. Eiginútgáfa 2008 – 15 bls.

Skafti Þ. Halldórsson/Morgunblaðið

Aðdráttarafl og þrá, vissa og ást. Allt eru þetta orð sem koma upp í hugann við lestur á litlu ljóðakveri eftir Gunnar Hersvein sem hann nefnir Sjöund. Að losna úr læðingi kuldans og einmanaleikans, gefa sjálfan sig, loka sig af frá ástinni, gleyma og endurheimta. Þetta er myndríkur og tilfinningaríkur skáldskapur og gerður af hagleik. Nafnið Sjöund hefur ekki bara kosmíska skírskotun og himneska heldur tengist einnig því að ljóðin í bókinni eru sjö. Hvert um sig myndar sjálfstæða veröld tilfinninga sem tengjast einu ljóðsjálfi, leita í allar áttir og eiga sér miðju.

Það er vandasamt að skrifa ástarljóð svo að þau verði hvorki of tilfinningasöm né of kaldræn. Gunnari tekst það þó mæta vel. Þetta er hugljúf bók og einlæg.Sum ljóðin eru munúðarfull og ástleitin, önnur setja lokur á milli viðfangs ástarinnar og ljóðsegjanda. Um þrána sem dofnar við salt tímans yrkir Gunnar svo:

Tíminn

bið sem strokaði út skriftina

Ég skrifaði nafn þitt í þýðingarmikla bók

fletti því daglega upp – og bað

Núna leita ég að farinu eftir blýantinn

en blaðsíðan hefur jafnað sig

líkt og stafirnir hafi aldrei verið skrifaðir.

Sjöund er ekki einungis vönduð ljóðabók full af ástleitni og þrá heldur er hún einnig skemmtilegt hugmyndaverk. Hún er eins og ástarbréf, vantar bara frímerkið og utanáskriftina.

Skafti Þ. Halldórsson/Morgunblaðið


Deila

Gunnar Hersveinn | ritverk og greinaskrif