Regnbogi

MANNRÉTTINDI Í HNOTSKURN

RegnbogiHugtakið mannréttindi hefur tvær stefnur, annars vegar að forðast og hins vegar að sækjast eftir. Mannréttindi verða ekki öflug nema með linnulausum lærdómi og reynslu. Mannréttindi virðast ekki vera eðlisleg viðbrögð heldur fremur margar lærðar dyggðir.

1. Mannréttindi er að læra að forðast illsku, kúgun og ofbeldi og temja sér að vinna gegn þessari grimmd hvenær og hvar sem er með aðferðum sem skapa ekki enn meira ofbeldi heldur draga úr því eða með friðarmenningu.

2. Mannréttindi felast í kærleika sem felst í hjartahlýju gagnvart náunganum, samlíðun með öðrum og lönguninni til að gera líf annarra bærilegt. Flestöllum finnst auðvelt að unna sínum nánustu en kærleikurinn þýðir elsku og virðingu á milli ólíkra hópa. Að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og vera viljugur til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra – það er kærleikur sem veitir jafnframt vernd gegn ofbeldi. Kærleikurinn brýtur reglur til að rétta náunganum hjálparhönd.

Mannréttindi virða engin landamæri, stöður, ríkidæmi né neitt annað sem notað er til að draga línur á milli einstaklinga eða hópa. Auðvelt er að bera kennsl á mannréttindi, þau styðja ævinlega lífið og vinna gegn allri kúgun, eyðileggingu og dauða.

Gunnar Hersveinn/ lifsgildin.is 

Á hinsegin dögum 10. ágúst 2013

Deila