lydraediMynd

Lýðræðið eftir kosningar

Lýðræði er eitt af þjóðgildunum. Gestir á þjóðfundunum 2009 og 2010 völdu lýðræði. Íslendingar eru óánægðir lýðræðissinnar vegna þess að þeim hefur ekki líkað fáræði formanna stjórnmálaflokkanna. En eina leiðin til að breyta ríkjandi fáræði er að taka þátt í lýðræðinu.

Kosið var til stjórnlagaþings laugardaginn 27. nóvember og svo virðist sem þátttaka í kosningunum hafi verið undir 40%. Skiptir það máli? Allir vissu af kosningunum, öllum gafst kostur til að kjósa, fólk var hvatt til að kjósa, enginn skortur var á frambjóðendum.

Hvert atkvæði í opinberum kosningum er brot af valdi almennings. Flestir er sammála því um þessar mundir að valdið sprettur úr grasrótinni. Valdið býr í þjóðinni og hún veitir fulltrúum sínum sem hún velur í kosningum tímabundið leyfi til að vara með valdið. Hlutverk fjölmiðla er síðan að fylgjast með því hvernig valdhafar hverju sinni fara með fé, eigir, land og önnur dýrmæti þjóðarinnar. Hlutverk fjölmiðla er að skapa aðstæður fyrir upplýst almenningsálit. (Það tókst ekki að þessu sinni.)

Þrátt fyrir það þarf hver og einni kjósandi að efast og beita gagnrýnni hugsun, því svo óendanlega margir vilja hafa áhrif á skoðanir hans og hegðun. Hvað hann kaupir, hvert hann fer og hvað hann velur í kosningum.

Kosningarnar til stjórnlagaþings voru nýjung á Íslandi. Valmöguleikarnir voru fleiri. Það voru persónukosningar en samt voru frambjóðendur meðhöndlaðir sem hjörð í fjölmiðlum. Kosningarnar voru talaðar upp og þær voru talaðar niður. Möguleikar kjósenda til að kynna sér það fólk sem þeim leist vel á voru þrátt fyrir fjöldann talsverðir. (Ekki þó í sjónvarpi).

Í bók minni Þjóðgildin er fjallað um lýðræði, þar segir meðal annars: „Lýðræði er aðferð til að laða fram visku fjöldans. Lýðræði er samræða þar sem leitað er heillavænlegra leiða til að halda áfram. Lýðræði krefst sterkrar vitundar borgaranna um gildin í samfélaginu. Lýðræði er aðferð sem krefst alls hins besta í samfélaginu. Það krefst umhugsunar, tíma og gaumgæfilegra athugana, gagnsæis, virðingar og umfram allt náungakærleika. “

OF MARGIR Í FRAMBOÐI?

Ég hef alls ekki tapað trú á lýðræðisást landsmanna þrátt fyrir að kosningaþátttakan núna hafi verið undir 40%. Aðrir þættir spila hér sterkt inn í. Hér tilgáta 1. Valkostirnir voru of margir, 552 í stað tveggja til átta eins og venjulega. 2. Persónukosningar þar sem hver og einn var aðeins hluti af hjörð. 3. Fjölmiðlar og almenningur hefði þurft meiri tíma og fleiri lausnir, jafnvel forkosningar (frambjóðendur í nútímasamfélagi verða nauðsynlega að fá tækifæri til að koma fram í sjónvarpi).

Lýðræðið þarf vettvang þar sem viska fjöldans getur brotist upp á yfirborðið. Almenningur er sterkasta aflið en hinn útvaldi er veikasti hlekkurinn. Það eru engin ofurmenni til, þau eru ekkert nema almenningur gefi þeim styrk. Sköpum fremur aðrar aðstæður og andrúmsloft. Fjölmiðill á aðeins og einungis að vera vinur borgarana, almennings og þjóna engum öðrum!

Lýðræði á sín mörk eins og allt annað.  Mannréttindi eru t.a.m. mörk lýðræðis. Of fáir valkostir eða of margir geta einnig varðað mörk lýðræðis. En hvað um það: Höldum áfram að vinna að lýðræði á Íslandi! Nemum ekki staðar! Fögnum góðum lýðræðistilraunum!

Eitt er alveg víst: þau sem taka þátt, þau velja, þau ráða framtíðinni.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Deila

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *