cloud - Copy

Ný tíð – hvernig er hún?

Magnþrungið – það er magnþrungið að gamla tíðarandanum hefur ekki enn tekist að stöðva viðleitni almennings til að fá að taka þátt í því að semja nýja stjórnarskrá! Tálmar hafa verið reistir, gryfjur grafnar, hindranir strengdar, fótakefli og fyrirstöður, torfæri og torveldi …20. október 2012: kosningar.

Endrum og eins er líkt og íslensk þjóð ætli sér að gera eitthvað nýtt og óvænt: velja 37 ára gamla konu sem forseta eða taka sjálf að sér að semja nýja stjórnarskrá með þjóðfundi og stjórnlagaráði. Erlendir fréttamenn fylgjast spenntir með …

… síðan verður úrtölufólkið hrætt og telur kjarkinn úr þjóðinni.

Framtíðarsýnin verður þessi: stytta reist af gamla forsetanum með gömlu stjórnarskrána við hjartastað!

Nýi tíðarandinn getur þó enn orðið ríkjandi!

Ný tíð – hvernig er hún? Hún kýs rökræður og gagnrýna hugsun fremur er karp og þrjóskuhausa. Hún velur gildi fremur en stjórnmálastefnur og hvetur fólk til að sameinist um valin þjóðgildi og setja sér markmið út frá þeim í stað þess að karpa til vinstri og hægri út frá misgóðum hagfræði-, og stjórnmálakenningum.

Látum ekki telja okkur trú um að það séu önnur en við sem höfum völdin og ráðin til að taka þýðingarmiklar ákvarðanir. Þjóðfundurinn 2010 bað um jafnrétti, lýðræði, réttlæti, frelsi, heiðarleika, virðingu, ábyrgð og mannréttindi.

Gamla valdið stendur taugaveiklað á tánum, gagnslaust og gisið.

Í dag, 20. október, stígum við fram eða aftur. Það er magnþrungið hvað gamla tíðarandanum gengur illa að kveðja niður hinn nýja. Það er einnig magnþrungið hvað sá gamli tórir lengi og hvað hinum nýja gengur seint að verða ríkjandi.

Gunnar Hersveinn

Deila