Brot úr bókinni

Orðspor – gildin í samfélaginu. Gunnar Hersveinn

Umhverfi

ÁBYRGÐARKENNDIN er hornsteinn mannlegs siðferðis. Skorti hana slitnar sambandið við aðra og umheiminn. Sá sem finnur ekki til ábyrgðar getur ekki byggt upp raunverulegt samband við aðra og honum er ekki hægt að treysta. Ekki er hægt að fela honum mikilvæg verkefni eins og að gæta barna eða vernda dýrmætt land. Gildi náttúrunnar einskorðast ekki við manninn, því maðurinn er aðeins vera í náttúrunni á tilteknu skeiði, lífvera sem kemur og fer. Höfuðatriði er því að rækta ábyrgðina gagnvart náttúrunni og lífinu á jörðinni í heild. Fullþroskaðri siðgæðisveru er ekki einungis umhugað um eigin tegund og afkvæmi, heldur hefur hún ennfremur vilja til að aðrar lífverur geti búið í náttúrulegum heimkynnum sínum.

Að elska land

• Að elska og hegða sér sómasamlega er á okkar valdi.

Ímyndið ykkur lífið án ástarinnar. Ef engin ást bærðist í titrandi hjarta. Ef ekki stafaði geislum frá neinum augum. Ef blóðið rynni kalt um æðarnar, laust við hlýju ástarinnar. Ef löngunin hyrfi. Ef þráin slokknaði. Ef ástin stigi upp til himna og kæmi aldrei aftur. Hvers virði væri lífið þá og hve mörg yrðu ljóðin? Enginn gæti kveðið af ást eins og Jónas Hallgrímsson í Heiðlóarkvæði sínu:

„Snemma lóan litla í
lofti bláu „dírrindí“
undir sólu syngur:
„Lofið gæsku gjafarans
grænar eru sveitir lands
fagur himinhringur.“

Þar sem ástin lifir ekki, dafnar skeytingarleysið, kæruleysið og virðingarleysið. Ekki einu sinni lög og refsingar duga til að vernda það sem enginn skeytir um. En hvað er okkur fært að elska? Það sem við þekkjum. Það sem við dáum, treystum og finnum styrk af. Það sem eykur sjálfstraustið og hvetur okkur til dáða. Það sem við söknum. Og fegurðina, hið fagra og ómengaða, en fegurðin er einmitt einn af máttarstólpum ástarinnar, ásamt hinu góða og þránni til að sigra dauðann og hverfulleika mannlífsins.

Við getum elskað hvert annað, dýrin og Guð og aðrir geta elskað okkur eða að minnsta kosti sýnt okkur væntumþykju. En land? Getum við elskað land, snert eða ósnert af mannlegri skipulagsgáfu? Landið og lífríki þess, til að mynda fjall, sléttu, dal, hæð, hól, þúfu, vatn og silunginn, læk, heiðlóu, gjótu, helli, hraun, hrafn og grænar grundir? Og getur ást manns og lands orðið gagnkvæm?

Eru trén, gróðurinn, blómin og öll flóran ef til vill ástarbirtingarkraftur landsins? Og birtist ást okkar til landsins í hegðun okkar og ljóðum, eins og í kvæði heiðlóunnar sem söng um hvernig hnökralaus ást er:

„Ég á bú í berjamó,
börnin smá, í kyrrð og ró,
heima í hreiðri bíða.
Mata ég þau af móðurtryggð,
maðkinn tíni þrátt um byggð
eða flugu fríða.“

Ást þeirra sem alast upp, lifa og hrærast í nánum tengslum við landið, fjarri öllum borgum er innbyggð, ósjálfráð og ómeðvituð. Þau þurfa ekki að íhuga ástarsamband sitt við landið og finna ekki fyrir því nema þeir flytji á brott – og deyi úr heimþrá. Jónas Hallgrímsson átti slíka ást til landsins en hann flutti í stórborg og ljóð með innbyggðri ást urðu til í brjósti hans. Halldór Laxness segir um ást Jónasar á einum stað „Jónas hefur aldrei látið sér um munn fara ástarjátningar þvílíkar sem gert hafa stórskáld önnur til ættjarðarinnar […] það sem önnur skáld játuðu með svo geystum fögnuði var Jónasi of sjálfsagt mál til þess að honum gæti dottið í hug að taka það fram.“

Við getum tekið ástfóstri við land. Við löðumst að tilteknum stöðum. Þeir toga í okkur, seiða okkur til sín aftur og aftur. Ástæðan virðist óljós og hulin, eiginlega ósegjanleg en ef til vill er um gagnkvæma ást manns og lands að ræða:

Tré hafa staðið eins og dauð við mannlaus býli en líkt og vaknað til lífsins jafnskjótt og búskapur hefur hafist á nýjan leik. Tré hafa hangið líkt og niðurdregin á afskekktum stöðum en tekið fjörkipp um leið og sumarfólkið fyllir bústaðina. Allt líf er tengt. Sami lífsþráðurinn liggur í gegnum allt sem er. Samskipti mannsins og hinnar lifandi náttúru landsins varða spurninguna um að lifa eða deyja. Ekki þarf að fjölyrða um árangur þess að tala af alúð við blómin. Orðin virka eins og áburður sem eykur vöxtinn. Í gegnum þráð lífsins hefur allt áhrif á hvað annað; land, menn, dýr og jurtir, og fegurðin sjálf. Skeytingarleysið getur slitið samband manns og lands en ástin styrkt.

Að sjá hrikafegurð fjallanna, heyra fuglasönginn og niðinn í ánni, finna lykt hinna ólíku staða og vita að hún er öll tilbrigði við sama stef, snerta og baða sig upp úr dögginni, bragða á berjunum og yrkja jörðina uns hin notalega þreyta rekur menn til hvíldar. Það er að vera ástfanginn af landinu eins og lóan hans Jónasar var:

„Lóan heim úr lofti flaug,
ljómaði sól um himinbaug,
blómi grær á grundu,
til að annast unga smá. –

Það er aðeins tvennt sem skiptir sköpum í þessum heimi: að elska og hegða sér sómasamlega. Það er allt sem við getum gert og er á okkar valdi. Við hlúum að því sem við eigum. Við trúum og vonum að allt fari vel, en við vitum að við ráðum í raun ekki niðurstöðunni. Við verðum nefnilega aldrei fullkomlega örugg í viðsjárverðum heimi, frekar en lóan sem flaug heim til að annast unga smá:

„Alla étið hafði þá
hrafn fyrir hálfri stundu.

Deila

Gunnar Hersveinn | ritverk og greinaskrif