frelsi

Óttalaust tjáningarfrelsi

Frelsi til að tjá sig, frelsi til að mæla mál sitt. Frelsi til að tala, andmæla, færa rök, frelsi til að efast, gagnrýna og byggja upp. Frelsi til að leita upplýsinga og miðla þeim aftur til almennings. Frelsi til að gefa ráð, til að kynna verk sín, frelsi til að vera manneskja án þess að búa við fordóma annarra er dýrmætt.

Frelsi til að vera fullgildur borgari í landinu sem getur án ótta tekið þátt í lýðræðislegri umræðu ætti að vera sjálfsagt. Enginn ætti að þurfa að færa fórnir einungis til að geta tekið þátt í lýðræðislegum umræðum á opinberum vettvangi. Það er fásinna.

Á Íslandi sem var – krafðist það hugrekkis að taka þátt í lýðræðislegri umræðu, því sífellt reis einhver upp og reyndi að gera andmælendur tortryggilega. Þetta vissu allir og var síðan afhjúpað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Blaðamenn þögðu, háskólamenn þögðu …

Enn í dag þarf hugrekki til að standa með frelsi sínu til tjáningar. Hræðslan við skammir, óttinn við brottrekstur, kvíðinn vegna möguleikans á því að persónan yrði dregin inn í málið – allt þetta leiðir til þess að fólk velur fremur að þegja en að tala.

Frelsið knýr fólk til að tjá sig, gagnrýna heimsku og ofbeldi og mótmæla ósanngjarni hegðun. Í hverju landi og á hverjum stað er vald og hópur sem vill ráða ferðinni og berst ekki fyrir óttalausu tjáningarfrelsi borgarana. Foreldrar ættu í uppeldi barna sinna að kenna þeim hugrekki til að tala, hugrekki til að tjá hug sinn og ályktun, hugrekki til að mótmæla heimskunni. Slíkt myndi draga úr líkum á hræðslusamfélagi. Eða hver vill búa í samfélagi kvíða og angistar?

Frelsi er eitt af þjóðgildunum. Þjóðfundurinn 2009 valdi frelsi og þjóðfundurinn 2010 valdi frelsi. Hvers vegna? Vegna þess að þjóðin finnur fyrir skorti á frelsi andans og frelsi til tjáningar. Það eru alltaf einhverjir sem vilja setja öðrum of þröngar skorður. Samfélag þar sem borgarar þora ekki að tala eða taka þátt í rökræðum og samræðu af ótta við afleiðingarnar er ekki í góðum málum.

Sá sem verður hræddur, sá sem lætur kúga sig, sá sem hættir að þora að tjá sig, hann glatar sjálfum sér. Við eigum þvert á móti að standa keik í fæturna og mótmæla. Málfrelsi, ritfrelsi, talfrelsi, tjáningarfrelsi – hvers vegna ætti einhver að beita sig innri ritskoðun óttans, í stað þess að vera fyrirmyndarborgari sem tjáir sig og vill styrkja rétt sinn til að segja skoðun sína og taka þátt í umræðunni?

Sá sem gerir tilraun til að draga persónur niður í svaðið, sá sem sviptir einhvern einhverju vegna skoðana hans er ekki vinur frelsis heldur kúgunar. Ég held að á næstu árum verði frelsið eitt mikilvægasta þjóðgildið því þjóðin þarf að berjast fyrir frelsi sínu gagnvart skuldurum sínum og hver og einn þarf að standa vörð um frelsi sitt gagnvart öðrum. Aðferðin felst í því að temja okkur samræður, greina á milli málefnis og persónu og leita lausna í stað þess að búa til vandamál.

Ég skrifaði kafla um frelsið í bók minni Þjóðgildin. Þar stendur meðal annars:

„Innra ófrelsi felst í því að skapa sjálfum sér eða taka í arf ótta og hugleysi til að stíga skrefin. Sá sem býr við andlegt ófrelsi lýtur eigin þvingunum og stjórnsömu fólki. Hann nemur innri rödd og löngun, veit hvað hann vill, en skortir kraft og sjálfstraust til að fylgja því eftir. Frelsið er fyrir hendi en hann nýtir það ekki til fulls.“

„Hrædd þjóð, stillt þjóð, hlýðin þjóð, værukær þjóð, saklaus þjóð er í bágri stöðu þegar kjöraðstæður skapast fyrir þá sem vilja græða á henni. Þjóðin, hver hópur, hvert fyrirtæki, stofnun og félag þarf því að temja sér hugrekki og heiðarleika til að láta ekki traðka á sér. “

„Frelsið snýst ekki aðeins um að taka sér bessaleyfi til að framkvæma það sem hugurinn girnist. Frelsið felst einnig í því að setja sjálfum sér mörk, skipta um viðhorf, breyta hegðun sinni og gangast við ábyrgð sinni. Stilla frekjunni í hóf. Helsta hindrunin er að heimskan ræður of oft för. Þeir sem við leyfum að ráða hafa sjaldan áhuga á breyttu fyrirkomulagi.“

„Hættum að þræta um útmörk mögulegs frelsis og hefjumst handa við að velja leiðir til að bæta aðstæður, líðan, menntun og valfrelsi annarra. Frelsi spinnst af mörkum. Þau mörk snúast um kúgun og ofbeldi gegn manninum og anda hans. Frelsið sjálft felst í því að skapa heim sem fer ekki yfir mörk ofbeldis. Frelsi klæðir heiðarlegar manneskjur vel.“

„Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu. Frelsi án kærleika er einskis virði.“

Við þetta má bæta: Frelsið lamast ef óttinn við hið þekkta og óþekkta verður sterkur. Frelsi án hugrekkis, frelsi án kærleika og frelsi án ábyrgðar er einskis virði. Frelsi án ótta er aftur á móti eftirsóknarvert.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

 

Úr Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, bls. 207
„Íslenskir fjölmiðlar eru í kreppu en ef einhver gerir athugasemdir við vinnubrögð þeirra er sá hinn sami annaðhvort hunsaður eða gerður tortryggilegur. Það er líkt og hugrekki þurfi til að taka þátt í lýðræðislegri umræðu á Íslandi.“
Gunnar Hersveinn: „Röng umræða um fjölmiðla.“ Fréttablaðið 8. desember 2009.

Deila

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *