Alúð, hamingja og rósemd

Copy of 11 heimspeki okt amyndHamingjan kom við sögu á heimspekikaffi í Gerðubergi 19. mars 2014. Hér er brot úr erindi Gunnars Hersveins þar, birt í tilefni af alþjóðadegi hamingjunar.

Stóuspekinginn Epiktetus (50-138 e.Kr.) kenndi speki um rósemd hjartans og að ekkert í þessum heimi væri þess vert að raska ró manna.

Þungamiðjan í heimspeki Epiktetusar snerist um að efla hæfileikana til að velja og hafna, tjá sig og sýna rólegar tilfinningar. Hann trúði á hinn frjálsa vilja. Við erum frjáls og okkur ber af þeim sökum siðferðileg skylda til að rannsaka líf okkur.

Hann ráðlagði ávallt út frá því sjónarmiði að fólk ætti aldrei að missa stjórn á skapi sínu og að enginn ætti að tileinka sér viðhorf sem gæti dregið úr hamingju. „Segðu við engan hlut: ég missti hann, heldur: ég skilaði honum aftur. “

„Ef mótlæti hendir þig, þá mundu að snúa þér ætíð til sjálfs þín og spyrja, hverja mannkosti þú megir setja gegn því. Ef þér er falið erfitt starf, nýtur þú þrautseigju þinnar. Ef þú ert svívirtur neytir þú umburðarlyndis þíns.“ Gagnvart hverri þraut ber að tefla mannkosti, sagði spekingurinn, ávallt bjartsýnn. *1

Hann sætti sig þó við hið ósveigjanlega og taldi fávisku að missa stjórn á skapi sínu gagnvart hlutum sem eru ekki á valdi okkar. Hann var taldi að lífshamingja manna réðist af því að girnast aðeins það sem er á okkar eigin valdi og innan ramma möguleikanna. Ómöguleikinn beinist einungis gagnvart því sem er ekki á okkar valdi.

Óhamingjan felst í því að reyna að flýja hið óumflýjanlega og trúa að atburðirnir sjálfir stjórni líðan okkar, þegar það er í raun viðhorf okkar til þeirra sem gerir það. „Skelfileg er einungis sú skoðun að dauðinn sé skelfilegur,“ nefndi hann sem dæmi. Hann brýndi fyrir mönnum að trúa að hamingjan væri á þeirra eigin valdi, en ekki annarra. (Því miður er það ekki alltaf svo en þannig ætti það að vera).

Epiktetus taldi að rósemd hjartans skapaði hamingjuna. Hann bjó sjálfur yfir sálarró, enda á enginn að kenna öðrum eitthvað sem hann er ekki sjálfur. „Það eitt sem þú getur rækt með trúnaði og sjálfsvirðingu, á að vera hlutverk þitt í þjóðfélaginu,“ sagði hann. Við eigum með öðrum orðum að starfa við það sem við sinnum af alhug, en ekki við það sem okkur leiðist eða höfum ekki metnað til að vinna vel. Ef við fáum eða getum skapað okkur tækifæri til að gera það sem við sinnum af alúð þá líður okkur vel og við öðlumst sálarró.

Sérhver persóna þarf að rækta með sér ákveðnar dyggðir og tilfinningar til að mikilvæg verkefni sem verða á veginum heppnist vel. Til að verða fullgerð persóna þarf að efla nokkra lykilþætti; þeirra mikilvægastir eru gjöfin, þakklætið og vináttan ásamt rósemd hjartans og ræktun þeirra skapar möguleikann á að lifa hamingjuríku lífi. *2

*1 Handbók Epiktets. Almenna bókafélagið 1955 og 1993.
*2 Gæfuspor – gildin i lífinu. Gunnar Hersveinn. Forlagið 2012

Rósemd og núvitund í heimspekikaffi

12_vef_feb_heimspeki_visitMargir standa allt sitt líf furðulostnir gagnvart tilgangi lífsins jafnvel þótt hann sé augljós: að lifa. Merkingin vefst hins vegar fyrir mörgum. Leitin að tilgangi lífsins getur verið annasöm, sérstaklega ef gert er ráð fyrir að hugtakið feli í sér mark og mið, stefnu og rás eða að fara frá einum stað til annars. Hversu oft hafa einstaklingar ekki þotið um víða veröld í leit að svari en svo fundið það innra með sér við heimkomu? (ferðalög eru reyndar oftast holl og stundum finnst svarið ekki fyrr en vatnið hefur verið sótt yfir lækinn).

Uppspretta hamingjunnar býr sennilega innra með hverjum manni. Hamingja manns er ekki á valdi annarra (nema beitt sé skipulögðu ofbeldi eins og einelti). Fullnægjandi líf fæst ekki fyrr en rósemd hjartans streymir um æðar einstaklingsins. Sá sem öðlast þá rósemd kennir ekki öðrum um það sem miður fer, hann rækir þau verkefni sem hann telur sig hafa skyldu til og skapar sér jafnframt tækifæri til að starfa við það sem hann sinnir af alúð.

Hugsun um hugsun, vitund um vitund og hæfileikinn til að vega og meta sjálfan sig í samhengi við aðra og annað gefur hverri persónu vald til að taka ákvarðanir og taka þátt í eigin sköpum. Séu menn óstöðugir eru þeir eru ekki ánægðir með þá ályktun að enginn fyrirfram gefinn tilgangur sé til, það vekur þeim ugg og hugsanir um tilgangsleysi lífsins ná undirtökunum. Lausnin kemur þó á óvart því spurningin er ekki: „Er tilgangur með lífinu?“ (svarið er augljóst, einnig um hver tilgangurinn er). Hún er heldur ekki: „Skapa umhverfi og/eða erfðir persónur?“ Svarið er hvorugt og hvorki né, því þriðju víddina vantar: Að sérhver persóna hefur vald og tækifæri til að móta sig og velja sér markmið. Enginn getur leyst hana af hólmi gagnvart þessu erfiða verkefni. Margir bjóðast eflaust til að velja fyrir hana og hún getur jafnvel beðið aðra um að velja fyrir sig en það dugar skammt.

Sérhver persóna þarf að rækta með sér ákveðnar dyggðir og tilfinningar til að mikilvæg verkefni sem verða á vegi hennar heppnist vel, m.a. til að geta brugðist rétt við mannraunum. „Ef mótlæti hendir þig, þá mundu að snúa þér ætíð til sjálfs þín og spyrja, hverja mannkosti þú megir setja gegn því. Ef þér er falið erfitt starf, nýtur þú þrautseigju þinnar. Ef þú ert svívirtur neytir þú umburðarlyndis þíns,“ sagði stóuspekingurinn Epiktetus. Gagnvart hverri þraut ber að tefla öflugum mannkosti.

„Segðu við engan hlut: ég missti hann, heldur: ég skilaði honum aftur,“ svo mælir rósemd hjartans.*

Er samband milli gátunnar um tilgang lífsins, rósemdar hjartans, gjörhygli hugans og hamingju? Málið verður krufið á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 19. mars 2014, þar mun Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur mun veita innsýn í rósemd hjartans og Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur fjallar um núvitund / gjörhygli / vakandi athygli /mindfulness. Ef til vill getur rósemdin og vakandi athygli hugans fært okkur feti nær því sem við sækjumst eftir?

Heimspekikaffi Gerðubergi

*Handbók Epiktets. 1955. Almenna bókafélagið.

 

Hæglæti á heimspekikaffihúsi

12_vef_feb_heimspeki_visitHeimspekikaffið í Gerðubergi 19. febrúar fjallar um hæglæti sem lífsstíl – og speki. En hvað er hæglæti og er þess virði að læra það?

I. Tæknilæti.

Homo sapines er nú homo technologicus. Hraðinn og magnið er vopn tæknimannsins í árás sinni á Tímann sjálfan og birtist það meðal annars í æskudýrun og von um að sigra dauðann.

Tæknin styttir og þurrkar vegalengdir út og gerir líkamleg samskipti á tilteknum stað óþörf. Orð, setningar, hugsanir, tilfinningar og jafnvel ást þýtur hjá á ljóshraða. Farsældin er tæknivædd.

Vandinn er að nokkrir mannlegir ókostir blómstra í tæknisamfélaginu og góðar dyggðir fölna. Dyggðir sem dofna í vestrænum tæknisamfélagum eru t.a.m. þolinmæði, biðlund, nægjusemi og hófsemd.

Tæknimaðurinn geysist áfram á leifturhraða þótt jaðarhópar reyni að spyrna við fótum með hæglæti. Tæknin og hraðinn hafa fært manninum margt en því miður einnig fjær sjálfum sér. Það sem á skortir er hæglæti.

II. Hæglæti

Tæknin vinnur meðal annars að því útiloka biðina en hæglætið gerir hana að liðsmanni sínum.

„Ys og þys út af engu“ gæti verið slagorðið í velmegunarlöndum nútímans. Hægláti maðurinn nemur staðar til að finna brennidepilinn bak við skýin. Hann stillir hugann og leyfir skýjunum að líða hjá.

Hæglæti er lífgildi sem dregur fram nokkra mannnkosti og útilokar valda ókosti. Hæglæti hefur þríþætt gildi: viðhorf, kennd og dyggð.

Viðhorfið felst í því að einsetja sér að leggja alúð við verkið og verkefnin. Ekki hugsa einungis um áfangastaðinn heldur um leiðina. Að hvert skref sé þess virði og áfangi í sjálfum sér. Viðhorfið hefur áhrif á líðan, það stillir hugann og dregur úr óþolinmæði og leiðindum.

Kenndin felst í jafnvægisgeði og dyggðin í biðlund. Hinn óþreyjufulli og eirðarlausi stekkur umhugsunarlaust af stað en úthaldið er lítið. Hinn þrautgóði og hægláti getur unnið árum saman að markmiðum sínum.

III. Heimspekikaffi

Hæglæti er gott mótvægi við hraða nútímans. Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, fjallar um hæglæti og biðlund sem lífsspeki og Ásgerður Einarsdóttir, ferðamálafræðingur og leiðsögumaður, fjallar um hæglæti sem lífsstíl í daglegu lífi og ferðalögum á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti 19. febrúar nk. Heimspekikaffið hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri undir stjórn Gunnars, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum.

Tengill
Gerðuberg – Heimspekikaffi

Allt er hægt – gönguferðir

 

 

Hugrekki á heimspekikaffihúsi

12_vef_feb_heimspeki_visitAð láta ekki bugast þrátt fyrir ófarir og halda ferðalaginu áfram er merki um hugrekki. Að nema óttann, depla jafnvel auga andspænis ógninni en víkja ekki af vettvangi er hugrekki.  Heimspekikaffið í Gerðubergi í Breiðholti 22. janúar kl. 20.00 er tileinkað hugrekki og sjálfsmynd.

Hugrekki má efla og æfa en styrkurinn kemur í ljós þegar á reynir. Hver og einn ætti að búa sig undir þær þolraunir sem lífið leggur fyrir. Hugrekki er margslungið fyrirbæri, tengt mismunandi þáttum eftir aðstæðum.

Hugrekki tilheyrir ekki aðeins víðkunnum hetjum heldur einnig óbuguðum einstaklingum sem ákveða að hefja sig aftur til flugs daginn eftir brotlendingu, það tilheyrir óbreyttum borgurum sem yfirgefa ekki torgin fyrr en þeir fá hugsjónum sínum framgengt.

Hugrekki felur ávallt í sér áhættu, það er afl sem knýr fólk áfram þrátt fyrir óttann, það fullgerir verkið. Ef markmiðið er að komast yfir gjá og tilhlaupið er undirbúið, birtist hugrekkið í stökkinu.

Hugrekki sprettur upp af mörgum þáttum. Borgari sem greinir spillingu og kúgun og dirfist að mótmæla yfirvöldum er hugrakkur. Hinn hugaði er alltaf vongóður. En ef vonin er horfin og hann stígur þrátt fyrir það í veg fyrir óréttlætið telst það fremur fifldirska en hugrekki.

Vonin er vasaljós hins hughrausta.

Sá sem telur úr sér kjarkinn skreppur saman en sá sem stappar í sig stálinu stækkar. Hugrekki er ávísun á alls konar afrek og stolt sem styrkir sjálfsmynd sérhvers manns. Segja má að margar aðrar dyggðir og mannlegir þættir þarfnist þessa kraftar, m.a. hjálpsemi, vinátta og réttlæti. Það þarf alltaf hugrekki til að standa skilyrðislaust með eða á móti og til að segja skoðunun sína.

Hugrekki getur skilið á milli feigs og ófeigs, á örlagastundinni sprettur það fram eða ekki. Það opinberast þegar á reynir. Sá sem lætur ekki hugfallast getur verið upplitsdjarfur gagnvart öðrum og myndinni í speglinum.

HUGREKKI OG SJÁLFSMYND

Hugrekki leikur stórt hlutverk í sterkri sjálfsmynd einstaklinga. Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur mun fjalla um hugrekki sem dyggð og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sálfræðingur og sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis mun tengja saman hugrekki, sjálfsmynd og vellíðan út frá sjónarhóli jákvæðrar sálfræði á heimspekikaffi miðvikudaginn 22. janúar í Gerðubergi.

Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vel sótt og vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum. Margir hafa fengið gott veganesti eftir kvöldin eða a.m.k. eitthvað til að íhuga nánar og ræða heima eða á vinnustað sínum. Heimspekikvöldin hefjast klukkan 20.00 og eru allir velkomnir.

Tengill

Heimspekikaffi í Gerðubergi

 

 

 

EKKI GLATT Í DÖPRUM HJÖRTUM

barnOrkan brennur upp í taumlausri löngun til að vera fremst þjóða. Enginn vill rifja upp mislukkaðar tilraunir til að þjóna þessari þrá, aðeins er horft fram á veginn í leit að nýjum tækifærum til að öðlast virðingu fyrir að vera best í heimi.

Aðeins ef metnaðurinn stæði til þess að vera þjóð meðal þjóða, stolt þjóð sem tekur þátt í því með öðrum að bæta lífskjör annarra jarðarbúa. Þessi metnaður væri nóg fyrir vestræna velmegunarþjóð í gjöfulu landi.

Ísland hafði sett sér metnaðarfulla áætlun um að komast yfir 0,3% til þróunarsamvinnu en viðmiðunarlöndin Danmörk, Svíðþjóð og Noregur veita yfir 0,7% af þjóðarframleiðslu til þessa málaflokks.

Nú berast þær fréttir að Ísland stefni fremur undir 0,2% en í þá átt sem önnur Norðurlönd ganga. Það er sorglegt, það er ekki vilji þjóðarinnar. Ákvörðun um niðurskurð í þróunarsamvinnu vinnur gegn þrá þjóðarinnar um virðingu.

Þjóð sem verður fremst þjóða í skjótfengnum gróða öðlast ekki virðingu, þjóð sem gortar af snilld sinni og þráir aðdáun valdaþjóðanna, verður annað hvort aðhlátursefni eða vekur öfund, ótta og óvild.

Til er lögmál sem ætti að höfða til stjórnmálafólks. Það hljómar svona: „Ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.“ (Þjóðgildin, 2010).

Mælikvarðar í vestrænni siðfræði, kennisetningar í trúarbrögðum, fjölmargar niðurstöður skáldsagna og hug- og félagsvísindarannsókna vitna um að meiri líkur eru á gæfu þeirra sem gefa en þeirra sem taka.

Þetta er lögmál í mannheimum sem á ekki aðeins við um einstaklinga heldur einnig þjóðir. Allir alast upp við þessa vitneskju og flestir heyra nefnt að allra best sé að gefa/hjálpa öðrum án þess að búast við endurgjöf – en trúir því einhver?

Það er ekki góð jólagjöf að draga úr þróunarsamvinnu í stað þess að efla hana. Í dag er ekki glatt í döprum hjörtum.

Gunnar Hersveinn  www.lifsgildin.is

Við getum breytt lífi annarra

Þróunarsamvinnustofnun

 

 

HÓFSEMD Í HNOTSKURN

Hofsemd2Hófsemdin er ekki vinsæl í fræknum hópi dyggðanna. Hver velur nægjusemi í hraðasamfélagi nútímans þar sem biðlund er sögð ávísun á gjaldþrot, hik er sama og tap? Íslendingar vilja eflaust vera þekktir fyrir gestrisni, glaðlyndi, dugnað, heiðarleika, hugrekki og jafnvel visku. Og fyrir framsækni, óbilandi bjartsýni, þrautseigju og þolgæði. En hvað með hófsemi?

Segja má að hófsemdin sé innra jafnvægi, jafnvægið milli allra þátta sem togast á innra með hverjum manni, milli þess að fara aldrei af stað og spretthlaups. Hún er það sem öllum foreldrum ber skylda til að kenna börnum sínum. Agi til að standast, agi til að þora, agi til að hætta við, agi til að vinna afrek. Hún er markalínan.

Lífið þarf að finna jafnvægið milli þurrðar og flóða, milli of og van. Ofaukið, ofbirta, ofdrykkja, ofeldi, ofeyðsla, -neysla, -fjölgun, -vöxtur. Vanmat, vanræksla, vanreikna, -svefta, -traust, -þakklæti. Lífið er á milli alls sem er. Mannlífið á Íslandi er stjörnubókardæmi um öfgar. Það er ýmist í ökkla eða eyru þegar verkefnið er að finna jafnvægið á milli.

Hófsemdin kemur við sögu margra mannkosta og málaflokka. Nægjusemin er í raun kjarni sjálfbærni og aðferðin til að draga úr mengun og spillingu lands og náttúru. Hófsemd er einnig góð aðferð til að stuðla að jafnvægi milli kynja, milli valda og stöðu því hún dregur úr öfgum og misrétti. Hófsemdin er andstæða við allar þær öfgastefnur sem gera tilraunir gegn lýðræði og jöfnuði í samfélaginu. Hún er ekki fylginautur kúgunar heldur jafnvægis.

Jöfnuður vísar til dreifingar á valdi og störfum. Jöfn tækifæri, jafnir möguleikar til mennta og starfa. Hófsemdin er nauðsynleg til að skapa réttlátt samfélag, eigna-, launa- og mannjöfnuð. Jöfnuður breytist í draumóra ef hennar nýtur ekki við.

Það er sama hvar borið er niður, við þurfum á hófsemdinni að halda. Frelsið er blaðra. Hófsemdin er snærið sem bundið er um blöðruna. Hófsemdin er taumhald. Án hófs fyki frelsið út í veður og vind. Hófsemdin er mörk kærleikans, fegurð fjölskyldunnar, lykill ábyrgðarinnar, skynsemi heiðarleikans og æðasláttur traustsins. Hófsemdin vísar veginn til jafnvægis í samfélaginu og rósemdar hjartans.

Gunnar Hersveinn
www.lifsgildin.is

TRAUST SEM ÞJÓÐGILDI

islandMælikvarði á traust er meðal annars gagnsæi upplýsinga. Óbreyttur borgari hefur hvorki þrek, kunnáttu né tíma til að rannsaka alla hluti til hítar. Hann kýs sér sér fulltrúa sem hann treystir til að fara með valdið. Hann þarf að geta valið úr góðu og fjölbreyttu úrvali fulltrúa úr ýmsum stéttum, af báðum kynjum og af ólíkum uppruna.

Borgari í samfélagi gagnsærra upplýsinga þarf á fjölbreyttum fjölmiðlum að halda sem eru óháðir sterkum hagsmunahópum og fjármagnseigendum. Meginhlutverk fjölmiðla er að veita yfirvöldum og viðskiptalífinu aðhald. Lög og reglugerðir þurfa því að tryggja fjölmiðlum greiðan aðgang að gagnagrunnum og upplýsingum í hverjum málaflokki.

Verkefnið er í raun ósköp einfalt: almannaheill, það þjónar almenningi. Hvert stjórnvald, hver stofnun, hvert fyrirtæki þarfnast trausts og þess að njóta stuðnings almennings. Sá sem engum treystir nema sjálfum sér einangrast. Sá sem öllum treystir verður leiksoppur annarra. Verkefnið er að læra að treysta öðrum en búast þó ávallt við að einhver bregðist. Traust er göfugt og gott en það er jafnframt áhætta. Enginn ætti að treysta öðrum manni fyrir öllum fjöreggjum sínum.

Sama gildir um að treysta stofnunum, fyrirtækjum, tækni og öðrum þjóðum. Þjóð sem annaðhvort vanmetur sig eða ofmetur gefur ákveðnum öflum lausan tauminn. Þjóðir sem fyllast ofmetnaði eru sígilt efni í sögur um fall og þá bila undirstöðurnar. Hversu oft þurfum við að lesa ævintýrið Nýju fötin keisarans til að skilja það og fylgja fordæmi drengsins sem kallaði: Hann er nakinn.

Þá hefst tími vantrausts þar sem efast er um heilindi eða áreiðanleika. Vantraust er að vera í lausu lofti, ganga þar sem jörðin er ekki lengur undir fótum, svifa líkt og glataður geimfari utan gufuhvolfsins. Vantraust hefur engan áfangastað, veruleikinn hverfur, gufar upp jafnóðum og hann birtist. Haldreipin renna úr höndum og síðasta hálmstráið slitnar, fallið hefur engan botn.

Það er því ómaksins vert að leggja mikið á sig til að rækta og efla traust með þjóðinni.

Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is

Einnig birt í vikublaðinu Reykjavík 23. nóvember 2013

 

 

Heimspekikaffi um sjálfþekkingu

12_vef_feb_heimspeki_visitHver er ég? Hvernig getur maður þekkt sjálfan sig? Hver er besta leiðin til að kynnast sjálfum sér? Hvernig lýsir fólk hvert öðru og hvað merkir það? Hvað þarf að gera til að öðlast þekkingu sjálfan sig? Hvernig bregst ég við áreiti? Hopa ég á fæti eða stíg ég fram? Rétti ég fram hjálparhönd eða læt ég mig hverfa sporlaust?

Spurningarnar eru verðugt viðfangsefni en sennilega öðlast enginn þekkingu á sjálfum sér fyrr en á reynir, fyrr en í harðbakkan slær, fyrr en staðið er andspænis ógninni, auglitis til auglitis. Hugrekkið og kærleikurinn skilur líklega á milli feigs og ófeigs.

Ofangreindar spurningar eru efni í margar bækur, en til er önnur hlið á sjálfsþekkingu sem sjaldan er fjallað um. Þá hlið er ekki beinlínis hægt að lesa af svipbrigðum, dyggðum eða úr samræðumi. Hún felst í þeim afleiðingum sem hegðun og skoðanir hvers og eins skapa. Ekki endilega á hér og nú heldur annars staðar og síðar meir, jafnvel í framandi heimsálfum. Ábyrgð fylgir skoðunum og hegðun sem varða aðra .

Hver persóna hefur sjálfsmynd og vinir hennar móta sér myndir af henni í huga sér en á sama tíma lengist skuggamynd mótuð af atferli og viðhorfum. Sá skuggi verður einskonar tvífari sem fæstir koma auga á og  eigandinn vill ekki kannast við. Hver er tvífarinn og hvað er hann að gera?

Virðulegur maður í samfélaginu sem sífellt fær tækifæri til að lýsa skoðunum sínum og afrekum í fjölmiðlum hefur óhjákvæmilega áhrif á aðra. Hann gæti mælt með ýmsum hugmyndum sem hljóma ágætlega á yfirborðinu, hrifningaralda í þjóðfélaginu gæti haft áhrif á lög og reglugerðir. Hann gæti jafnvel sannfært aðra um að það borgaði sig að skulda sem mest. Aðeins þegar ráðleggingar hans eru greindar og rannsakaðar opinberast duldar afleiðingar þeirra.

Stéttaskipting gæti leynst í þeim og hvers konar ójöfnuður. Hann gæti dregið upp spennandi viðskiptaumhverfi hér á landi án þess að nefna að í þeim fælist kúgun launþega í Bangladesh, að vörurnar sem auglýstar yrðu hér á útsölu væru handunnar af lægst launuðu launþegum veraldar sem ynnu svo sannarlega myrkranna á milli.Hver er ábyrgð þeirra sem trúa honum? Hver er ábyrgð hans sjálfs? Hvað segir tvífarinn?

Páll postuli og heimspekingur gat greint tvífarann sinn og tókst að orða þetta ágætlega: „Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.“ Flestallir vilja þetta góða sem þeir tala mikið um og aðrir styðja þá í þeirri viðleitni. En svo gera margir eitthvað allt annað og afleiðingarnar til lengri tíma eru alls ekki góðar. Þar er tvífarinn á ferð.

Tvífarinn er hin hliðin. Sérhver maður er ekki aðeins sá sem hann vill vera, heldur einnig sá sem hann vill ekki vera. Sjálfsþekkingin er því tvíþætt: Sá sem þú vilt horfast í augu við og sá sem þú vilt ekki horfast í augu við.

 

HEIMSPEKIKAFFI UM TVÍFARANN

„Þekktu sjálfan þig“ er ein elsta ráðlegging heimspekinnar til þeirra sem vilja skilja heiminn. Sjálfsþekking er langtímanám og sá sem er um það bil að útskrifast uppgötvar að öflug skoðun og hegðun á einum stað getur haft óvæntar afleiðingar á öðrum fjarlægum stað.

Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur, og Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í mannfræði, ætla með ýmsum dæmum að varpa ljósi á leitina að sjálfsþekkingu á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 20. nóvember kl. 20.00 en þar er fjallað á mannamáli um mikilvæg efni og gestir taka virkan þátt í umræðum

Gunnar Hersveinn hefur tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni um margra ár skeið og skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Guðrún Margrét Guðmundsdóttir er fyrrverandi formaður stjórnar UNIFEM, nú UNWOMEN. Hún mun m.a. glíma við þá mótsögn að berjast gegn misrétti og að viðhalda því á sama tíma.

Heimspekikaffi í Gerðubergi

www.lifsgildin.is

 

Heiðarleiki sem þjóðgildi

Heiðarleiki er eitt af þjóðgildum Íslendinga. Staða heiðarleikans í samfélaginu er stundum óljós. Allir krefjast heiðarleika en færri eru reiðubúnir til að leggja eitthvað á sig til að styðja hann og styrkja. 

Heiðarleiki er eftirsóknarverð dyggð sem þarf að læra og æfa. Samfélag sem vill vera heiðarlegt þarf aga til að standast freistinguna sem skjótfengur gróði felur í sér og hugrekki til að sporna gegn spillingu tíðarandans.

Heiðarlegt samfélag hefur tvær víddir, önnur felur í sér fyrirmyndar samskipti og hin spornar gegn slægð, blekkingu og lýgi. Heiðarlegir borgarar hafa engan áhuga á  líferni sem hægt er að afhjúpa á einu augabragði. Heiðarleikinn veitir þeim frelsi og gleði.

Þjóð verður ekki heiðarleg nema hún búi yfir kröftugum borgurum. Spilling sprettur upp ef almenningur sofnar á verðinum. Dagblað verður ekki gott nema lesendur þess séu kröfuharðir. Hætta er á að það dragi úr heiðarleika stjórnvalda ef fjölmiðlar og almenningur missa áhugann og veita ekki aðhald.

Þjóð sem vill gera heiðarleika að þjóðgildi sínu þarf að leggja ýmislegt á sig. Ekki er nóg að velja gildið. Almenningur þarf að vera heilsteyptur og áhugasamur um vænlegt samfélag og gera kröfur til fulltrúa sinna. Hann má til dæmis alls ekki umbera gort yfir svikum undan skatti eða aðferðum sem felast í því að greiða ekki í sameiginlega sjóði. Gagnrýni og gagnsæi eru nauðsynleg hjá heiðarlegri þjóð. Það er viturlegt að hrífast af þjóð sem rís upp gegn ranglæti og lætur ekki ljúga að sér.

Heiðarleiki er samhljómur milli hugsjóna og aðgerða í opnu og gagnsæju samfélagi og felst í að eiga í samskiptum án þess að bogna eða brjóta á öðrum.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Kærleikurinn og hrunið

Copy of kaerleikurKærleikurinn verður í kastljósinu á heimspekikaffi í menningarmiðstöðunni Gerðubergi 16. október 2013 kl. 20.. Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Sigríður Guðmarsdóttir sóknarprestur í Guðríðarkirkju og doktor í heimspekilegri guðfræði efna til lifandi umræðu um kærleika fyrir og eftir hrun og velta upp fjölmörgum hliðum hans með hjálp gesta sem einnig láta ljós sitt skína.

Þjóðgildin 5 árum eftir hrun

Heimspekikaffi í Gerðubergi

 

 

 

 

 

Gunnar Hersveinn | ritverk og greinaskrif