THJODGILDIN_COVER

Ritdómur Morgunblaðsins

Morgunblaðið 13. desember, 2010 – Bókmenntir  bækur

Leiðarvísir fyrir þjóð í kreppu
Þjóðgildin ****
Eftir Gunnar Hersvein. Skálholtsútgáfan 2010, 167 bls.

Íslenska þjóðin þarf á leiðarvísi að halda eftir bankahrunið og gott innlegg í þá umræðu er bókin Þjóðgildin, eftir Gunnar Hersvein heimspeking. Hann hefur áður sent frá sér bækur um manngildin og er því vel að sér um efnið.
Í bókinni fjallar Gunnar um gildin 12 sem valin voru á Þjóðfundinum í nóvember 2009, af ríflega 1.200 manns sem fundinn sátu. Tekur hann fyrir kærleik og fjölskyldu, ábyrgð og frelsi, heiðarleika og traust, virðingu og réttlæti, lýðræði og jöfnuð og jafnrétti og samfélag. Jafnframt bendir hann á andheiti þessara gilda og leggur út frá þeim.
Gunnari tekst vel upp, bókin er læsilega skrifuð og hugrenningar hans settar fram með skipulögðum og markvissum hætti. Auk þeirra 12 gilda sem urðu efstar á blaði þjóðfundarins tekur Gunnar fyrir hófsemdina, sem hann telur halda öðrum gildum á floti. Á meðan gildin eru árar þjóðarskútunnar er hófstillingin seglið, ritar hann.
Þjóðgildin er holl lesning fyrir kreppuþjáða þjóð, sem enn er í sárum eftir hrunið og veltir fyrir sér hvernig höndla eigi verkefni morgundagsins. Hrunið var ekki eingöngu efnahagslegt heldur ekki síður siðferðilegt.
Gunnar segir hófsemdina vera andstöðu græðginnar og með sanni má segja að græðgin hafi orðið þjóðinni að falli. Og því miður virðist hún vera enn til staðar.
Hugleiðingar Gunnars og tilgátur ættu að vera skyldulesning fyrir t.d. stjórnendur fjármálafyrirtækja, skilanefndir, lögmenn, endurskoðendur, ráðherra, þingmenn og þá 25 einstaklinga sem kjörnir hafa verið á stjórnlagaþing. En ekki bara þessa hópa heldur alla þá sem vilja leita sér leiðsagnar að betra mannlífi.
Eflaust verða ekki allir sammála Gunnari og einhver myndi segja að hann sé að gera óraunhæfar kröfur til mannskepnunnar. Enginn er jú gallalaus. Margt er þó af mikilli visku skrifað og flest gæti flokkast undir heilbrigða og alkunna skynsemi. Líta má á bókina sem óskalista um það hvernig þegnar samfélagsins ættu að haga sér. Þó að Gunnar leggi fram sínar tilgátur þá biður hann lesandann um að halda áfram með efnið og ræða það í sínum ranni, halda þjóðfundinum áfram á heimilum landsmanna og í því skyni skilur hann eftir nokkrar síður í lok bókarinnar fyrir lesandann að fylla út í með eigin hugleiðingum.
Mannskepnan er breysk að eðlisfari og sagan hefur gengið í bylgjum, með risi og falli í aldanna rás. Við náum sennilega aldrei fullkomnun eða hinu eina sanna draumaríki en hægt er að leggja af stað í þá vegferð með bók Gunnars í hendi – þar til næsta hrun ríður yfir.

Björn Jóhann Björnsson

Deila

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *