Heimspeki

Rósemd og núvitund í heimspekikaffi

12_vef_feb_heimspeki_visitMargir standa allt sitt líf furðulostnir gagnvart tilgangi lífsins jafnvel þótt hann sé augljós: að lifa. Merkingin vefst hins vegar fyrir mörgum. Leitin að tilgangi lífsins getur verið annasöm, sérstaklega ef gert er ráð fyrir að hugtakið feli í sér mark og mið, stefnu og rás eða að fara frá einum stað til annars. Hversu oft hafa einstaklingar ekki þotið um víða veröld í leit að svari en svo fundið það innra með sér við heimkomu? (ferðalög eru reyndar oftast holl og stundum finnst svarið ekki fyrr en vatnið hefur verið sótt yfir lækinn).

Uppspretta hamingjunnar býr sennilega innra með hverjum manni. Hamingja manns er ekki á valdi annarra (nema beitt sé skipulögðu ofbeldi eins og einelti). Fullnægjandi líf fæst ekki fyrr en rósemd hjartans streymir um æðar einstaklingsins. Sá sem öðlast þá rósemd kennir ekki öðrum um það sem miður fer, hann rækir þau verkefni sem hann telur sig hafa skyldu til og skapar sér jafnframt tækifæri til að starfa við það sem hann sinnir af alúð.

Hugsun um hugsun, vitund um vitund og hæfileikinn til að vega og meta sjálfan sig í samhengi við aðra og annað gefur hverri persónu vald til að taka ákvarðanir og taka þátt í eigin sköpum. Séu menn óstöðugir eru þeir eru ekki ánægðir með þá ályktun að enginn fyrirfram gefinn tilgangur sé til, það vekur þeim ugg og hugsanir um tilgangsleysi lífsins ná undirtökunum. Lausnin kemur þó á óvart því spurningin er ekki: „Er tilgangur með lífinu?“ (svarið er augljóst, einnig um hver tilgangurinn er). Hún er heldur ekki: „Skapa umhverfi og/eða erfðir persónur?“ Svarið er hvorugt og hvorki né, því þriðju víddina vantar: Að sérhver persóna hefur vald og tækifæri til að móta sig og velja sér markmið. Enginn getur leyst hana af hólmi gagnvart þessu erfiða verkefni. Margir bjóðast eflaust til að velja fyrir hana og hún getur jafnvel beðið aðra um að velja fyrir sig en það dugar skammt.

Sérhver persóna þarf að rækta með sér ákveðnar dyggðir og tilfinningar til að mikilvæg verkefni sem verða á vegi hennar heppnist vel, m.a. til að geta brugðist rétt við mannraunum. „Ef mótlæti hendir þig, þá mundu að snúa þér ætíð til sjálfs þín og spyrja, hverja mannkosti þú megir setja gegn því. Ef þér er falið erfitt starf, nýtur þú þrautseigju þinnar. Ef þú ert svívirtur neytir þú umburðarlyndis þíns,“ sagði stóuspekingurinn Epiktetus. Gagnvart hverri þraut ber að tefla öflugum mannkosti.

„Segðu við engan hlut: ég missti hann, heldur: ég skilaði honum aftur,“ svo mælir rósemd hjartans.*

Er samband milli gátunnar um tilgang lífsins, rósemdar hjartans, gjörhygli hugans og hamingju? Málið verður krufið á heimspekikaffi í Gerðubergi miðvikudaginn 19. mars 2014, þar mun Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur mun veita innsýn í rósemd hjartans og Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur fjallar um núvitund / gjörhygli / vakandi athygli /mindfulness. Ef til vill getur rósemdin og vakandi athygli hugans fært okkur feti nær því sem við sækjumst eftir?

Heimspekikaffi Gerðubergi

*Handbók Epiktets. 1955. Almenna bókafélagið.

 

Deila