Greinasafn fyrir merki: þjóðfundur

ÞJÓÐGILDIN 5 ÁRUM EFTIR HRUN

islandHvernig líður þjóðgildunum fimm árum eftir hrun? Hrunið opinberaði ekki aðeins spillingu, ofdramb og skeytingarleysi heldur einnig ófullnægða ósk og þrá sem bjó með þjóðinni. Áfallið sem fylgdi efnhagslegu hruni, falli bankanna og ríkisstjórnarinnar veitti innri rödd þjóðarinnar vægi. Þjóðfundirnir 2009 og 2010 löðuðu fram visku þjóðarinnar.

Tíðarandi græðgi, taumleysi, óbilandi bjartsýni og gildislausar hegðunar hafði ríkt um skeið. Skefjalaus heimskan fékk verðlaun, viðurkenningar og himinhá bankalán. Græðgin, agaleysið, framsæknin og hrokinn áttu greiðan aðgang að völdum, þjóðareignum og bankalánum en forsjálni, heiðarleiki, jöfnuður, umhyggja, ábyrgð og nægjusemi komu að luktum dyrum.

Þetta er ein af meginástæðunum fyrir hruninu og þarna liggur ábyrgð sem of fáir hafa gengist við. Viðhorfið, hegðunin og hugsunin sem fylgja óskum um ríkidæmi og draumsýn um að vera fremst þjóða er einfaldlega ávísun á hrun. Það er óneitanlega fífldirfska að beisla ekki kraftinn, reikna ekki út afleiðingar hegðunar og stemma ekki stigu við hömlulausri bjartsýni. Það er því engin ástæða til að draga úr ábyrgð þeirra sem réðu hvert hin svokallað þjóðarskúta sigldi.

ÁFÖLL SKÝRA MYNDIR

Við áföll kemur í ljós hvað hefur gildi í lífinu og samfélaginu. Sá sem lendir í lífsháska, uppgötvar oftast hvað hefur gildi og hvað ekki. Það sama átti sér stað með þjóðinni og hún sá skýrt hvernig samfélag hún óskaði sér og hrópaði á að gildin gagnsæi, ábyrgð, heiðarleiki, réttlæti, sjálfbærni og lýðræði yrðu efld og ræktuð.

Þjóðfundirnir voru framlag þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar. Gjöf þjóðar til sjálfs sín og ný stjórnarskrá átti að vera veganesti fyrir nýja ráðamenn og þjóð með framtíðarsýn. Flest atkvæði á þjóðfundinum 2009 fengu gildin heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, fjölskyldan, jöfnuður og traust. Einnig voru menntun, bjartsýni, öryggi og mannréttindi ofarlega á baugi. Ástæðan var að sum þeirra höfðu verið alvarlega vanrækt meðal annars heiðarleikinn.

Þjóðgildin voru efld á marga lund á næstu árum, það kostaði baráttu, óhlýðni, byltingar og breytingar auk þess að takast á við andspyrnu græðginnar. Embætti sérstakts saksóknara er til dæmis tilraun til að leita réttlætis og ný náttúruverndarlög og rammaáætlun tilraun til að auka virðingu og efla sjálfbærni svo dæmi séu nefnd.

Samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika, réttlæti og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt lendir ekki í hruni, það tekur ekki áhættu sem er út fyrir öll endimörk alheimsins. Það hefur taumhald á græðginni, hrokanum og setur bjartsýninni mörk. Þjóð sem leggur sig ekki fram um að bæta hag annarra og heldur aðeins eigin hag fyllist hroka sem hrynur yfir hana að lokum.

KÆRLEIKURINN OG HRUNIÐ

thjodgildin_bokskuggiKærleikur var eitt þeirra gilda sem innri rödd þjóðarinnar nefndi eftir hrun en segja má að skeytingarleysi hafi verið ríkjandi í tíðarandanum fyrir hrun og sú færni að hremma bráðina á undan öðrum hafi oftast verið lofuð: að grípa tækifærin á undan varfærnum þjóðum og að kaupa á meðan önnur fyrirtæki eru að kanna hvort það sé góður kostur.

Kærleikurinn til annarra verður að teljast æðsta stig mannlegrar viðleitni: að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og að vera viljug til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra og jafnvel að fórna einhverju af eigin gæðum til af svo megi verða – það er kærleikur. Gildið merkir elsku milli ólíkra hópa, ekki að taka heldur að gefa.

Sjálfselsk þjóð er á byrjunarreit. Engin þjóð er fullgild fyrr en hún finnur sér vettvang til að bæta heiminn. Hún þarf aðeins að velja hann og sinna honum af alúð í áratugi. Ég skrifaði bókina Þjóðgildin (2010) til að skilja innri rödd þjóðarinnar og greindi þá dulda óbeit hennar á því að hrifsa og hremma og vera fremst þjóða – og kom auga á löngun hennar til að vera bara þjóð meðal þjóða og að geta gefið öðrum eitthvað: „ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.“ (Þjóðgildin bls. 164). Getur það verið leiðarljós?

Þetta er sá kærleikur sem þjóðin vildi stefna að eftir hrun, hún nefndi hann skýrt og ritaði. En hvernig gengur? Kærleikurinn og hrunið verða í kastljósinu á heimspekikaffi í menningarmiðstöðunni Gerðubergi 16. október 2013 kl. 20 þar sem Gunnar Hersveinn og Sigríður Guðmarsdóttir rýna í hugtakið og tengja það við samtímann. Næsta grein fjallar um það.

Tenglar:

Heimspekikaffi um kærleikann og hrunið

Bókin Þjóðgildin

 

Deila

Nesti og nýir skór þjóðar

Verður Þjóðfundurinn 14. nóvember skráður í sögubækur? Fundurinn er skipulagður af sjálfboðaliðum og á hann eru fulltrúar þjóðarinnar kallaðir. Ef til vill mun eftirfarandi standa í alfræðiritum framtíðarinnar:
„Þjóðfundurinn 2009 markaði þáttaskil í varnarbaráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði sínu. 1.500 íbúar voru kallaðir til fundarins í Laugardalshöll til að endurskoða gildin eftir hrun efnishyggjunnar og varpa upp framtíðarsýn um samfélag þar sem hamingja almennings og heill náttúru er mælikvarði allra þýðingarmikilla ákvarðana. Þjóðfundurinn varð afl gegn skammsýni og stundarhagsmunum. Máttarstólpar risu, þjóðin sameinaðist um gildin og hætti að veita afslátt á auðlindum sínum. Straumhvörf urðu á Þjóðfundinum 2009 líkt og á Þjóðfundinum 1851 þar sem hin fleygu orð svifu yfir:

„Vér mótmælum allir!“ Þverskurður þjóðarinnar á Þjóðfundinum 2009 mótmælti fífldirfsku, aga- og taumleysi og óútreiknanlegri hegðun útvaldra og fékk fólk til að sameinast um ný gildi með bjartsýni og kraft í farteskinu. Þjóðfundurinn markaði endalok tíðaranda græðginnar og upphaf nýrrar samábyrgðar.“

Ofangreind orð eru tilgáta um mögulega framtíð – sem verður ef við viljum. Allt er mögulegt, ekkert útilokað, enginn veit. Þjóðfundurinn er merkileg tilraun sem getur aðeins heppnast ef þeir sem boðaðir hafa verið mæta. 1.500 einstaklingar hvaðanæva af landinu fengu boð á fundinn, ef til vill má segja að þeir hafi verið kallaðir til að búa þjóð sína undir ferðalag með nesti og nýja skó. Búa hana til sóknar og nýsköpunar.

Það er hollt að spyrja sjálfa sig: „Hvaða gildi vil ég efla með sjálfum mér á næstunni?“ Ef til vill sjálfsaga, vináttu, jákvæðni og hæglæti? En hvaða gildi þarf þjóðin á að halda á næstunni? Ef til vill gagnsæi, sjálfbærni, samvinnu og bjartsýni? Vandasamt er að finna svörin nema í samræðum við aðra og rökræðum þar sem markmiðið er að finna heillavænlega niðurstöðu sem er ósnert af skammsýni. Finnum svörin af eigin mætti og leggjum drög að næstu framtíð!

Höfundur er rithöfundur.

[fbshare]