Greinasafn fyrir merki: Þjóðgildin

Heiðarleiki sem þjóðgildi

Heiðarleiki er eitt af þjóðgildum Íslendinga. Staða heiðarleikans í samfélaginu er stundum óljós. Allir krefjast heiðarleika en færri eru reiðubúnir til að leggja eitthvað á sig til að styðja hann og styrkja. 

Heiðarleiki er eftirsóknarverð dyggð sem þarf að læra og æfa. Samfélag sem vill vera heiðarlegt þarf aga til að standast freistinguna sem skjótfengur gróði felur í sér og hugrekki til að sporna gegn spillingu tíðarandans.

Heiðarlegt samfélag hefur tvær víddir, önnur felur í sér fyrirmyndar samskipti og hin spornar gegn slægð, blekkingu og lýgi. Heiðarlegir borgarar hafa engan áhuga á  líferni sem hægt er að afhjúpa á einu augabragði. Heiðarleikinn veitir þeim frelsi og gleði.

Þjóð verður ekki heiðarleg nema hún búi yfir kröftugum borgurum. Spilling sprettur upp ef almenningur sofnar á verðinum. Dagblað verður ekki gott nema lesendur þess séu kröfuharðir. Hætta er á að það dragi úr heiðarleika stjórnvalda ef fjölmiðlar og almenningur missa áhugann og veita ekki aðhald.

Þjóð sem vill gera heiðarleika að þjóðgildi sínu þarf að leggja ýmislegt á sig. Ekki er nóg að velja gildið. Almenningur þarf að vera heilsteyptur og áhugasamur um vænlegt samfélag og gera kröfur til fulltrúa sinna. Hann má til dæmis alls ekki umbera gort yfir svikum undan skatti eða aðferðum sem felast í því að greiða ekki í sameiginlega sjóði. Gagnrýni og gagnsæi eru nauðsynleg hjá heiðarlegri þjóð. Það er viturlegt að hrífast af þjóð sem rís upp gegn ranglæti og lætur ekki ljúga að sér.

Heiðarleiki er samhljómur milli hugsjóna og aðgerða í opnu og gagnsæju samfélagi og felst í að eiga í samskiptum án þess að bogna eða brjóta á öðrum.

Gunnar Hersveinn

www.lifsgildin.is

Deila

ÞJÓÐGILDIN 5 ÁRUM EFTIR HRUN

islandHvernig líður þjóðgildunum fimm árum eftir hrun? Hrunið opinberaði ekki aðeins spillingu, ofdramb og skeytingarleysi heldur einnig ófullnægða ósk og þrá sem bjó með þjóðinni. Áfallið sem fylgdi efnhagslegu hruni, falli bankanna og ríkisstjórnarinnar veitti innri rödd þjóðarinnar vægi. Þjóðfundirnir 2009 og 2010 löðuðu fram visku þjóðarinnar.

Tíðarandi græðgi, taumleysi, óbilandi bjartsýni og gildislausar hegðunar hafði ríkt um skeið. Skefjalaus heimskan fékk verðlaun, viðurkenningar og himinhá bankalán. Græðgin, agaleysið, framsæknin og hrokinn áttu greiðan aðgang að völdum, þjóðareignum og bankalánum en forsjálni, heiðarleiki, jöfnuður, umhyggja, ábyrgð og nægjusemi komu að luktum dyrum.

Þetta er ein af meginástæðunum fyrir hruninu og þarna liggur ábyrgð sem of fáir hafa gengist við. Viðhorfið, hegðunin og hugsunin sem fylgja óskum um ríkidæmi og draumsýn um að vera fremst þjóða er einfaldlega ávísun á hrun. Það er óneitanlega fífldirfska að beisla ekki kraftinn, reikna ekki út afleiðingar hegðunar og stemma ekki stigu við hömlulausri bjartsýni. Það er því engin ástæða til að draga úr ábyrgð þeirra sem réðu hvert hin svokallað þjóðarskúta sigldi.

ÁFÖLL SKÝRA MYNDIR

Við áföll kemur í ljós hvað hefur gildi í lífinu og samfélaginu. Sá sem lendir í lífsháska, uppgötvar oftast hvað hefur gildi og hvað ekki. Það sama átti sér stað með þjóðinni og hún sá skýrt hvernig samfélag hún óskaði sér og hrópaði á að gildin gagnsæi, ábyrgð, heiðarleiki, réttlæti, sjálfbærni og lýðræði yrðu efld og ræktuð.

Þjóðfundirnir voru framlag þjóðarinnar sjálfrar og sameign hennar. Gjöf þjóðar til sjálfs sín og ný stjórnarskrá átti að vera veganesti fyrir nýja ráðamenn og þjóð með framtíðarsýn. Flest atkvæði á þjóðfundinum 2009 fengu gildin heiðarleiki, jafnrétti, virðing, réttlæti, kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, fjölskyldan, jöfnuður og traust. Einnig voru menntun, bjartsýni, öryggi og mannréttindi ofarlega á baugi. Ástæðan var að sum þeirra höfðu verið alvarlega vanrækt meðal annars heiðarleikinn.

Þjóðgildin voru efld á marga lund á næstu árum, það kostaði baráttu, óhlýðni, byltingar og breytingar auk þess að takast á við andspyrnu græðginnar. Embætti sérstakts saksóknara er til dæmis tilraun til að leita réttlætis og ný náttúruverndarlög og rammaáætlun tilraun til að auka virðingu og efla sjálfbærni svo dæmi séu nefnd.

Samfélag sem ræktar heiðarleika, kærleika, réttlæti og ábyrgð ásamt hófsemd og auðmýkt lendir ekki í hruni, það tekur ekki áhættu sem er út fyrir öll endimörk alheimsins. Það hefur taumhald á græðginni, hrokanum og setur bjartsýninni mörk. Þjóð sem leggur sig ekki fram um að bæta hag annarra og heldur aðeins eigin hag fyllist hroka sem hrynur yfir hana að lokum.

KÆRLEIKURINN OG HRUNIÐ

thjodgildin_bokskuggiKærleikur var eitt þeirra gilda sem innri rödd þjóðarinnar nefndi eftir hrun en segja má að skeytingarleysi hafi verið ríkjandi í tíðarandanum fyrir hrun og sú færni að hremma bráðina á undan öðrum hafi oftast verið lofuð: að grípa tækifærin á undan varfærnum þjóðum og að kaupa á meðan önnur fyrirtæki eru að kanna hvort það sé góður kostur.

Kærleikurinn til annarra verður að teljast æðsta stig mannlegrar viðleitni: að bera hag óviðkomandi fyrir brjósti og að vera viljug til að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir aðra og jafnvel að fórna einhverju af eigin gæðum til af svo megi verða – það er kærleikur. Gildið merkir elsku milli ólíkra hópa, ekki að taka heldur að gefa.

Sjálfselsk þjóð er á byrjunarreit. Engin þjóð er fullgild fyrr en hún finnur sér vettvang til að bæta heiminn. Hún þarf aðeins að velja hann og sinna honum af alúð í áratugi. Ég skrifaði bókina Þjóðgildin (2010) til að skilja innri rödd þjóðarinnar og greindi þá dulda óbeit hennar á því að hrifsa og hremma og vera fremst þjóða – og kom auga á löngun hennar til að vera bara þjóð meðal þjóða og að geta gefið öðrum eitthvað: „ef samfélag gefur öðrum þjóðum af gnægð sinni, þekkingu og hugviti með það að markmiði að bæta heiminn – batnar það sjálft.“ (Þjóðgildin bls. 164). Getur það verið leiðarljós?

Þetta er sá kærleikur sem þjóðin vildi stefna að eftir hrun, hún nefndi hann skýrt og ritaði. En hvernig gengur? Kærleikurinn og hrunið verða í kastljósinu á heimspekikaffi í menningarmiðstöðunni Gerðubergi 16. október 2013 kl. 20 þar sem Gunnar Hersveinn og Sigríður Guðmarsdóttir rýna í hugtakið og tengja það við samtímann. Næsta grein fjallar um það.

Tenglar:

Heimspekikaffi um kærleikann og hrunið

Bókin Þjóðgildin

 

Nýárssöngur þjóðarinnar!

Ljósmynd/Gunnar HersveinnÞað vantar nýársávarp frá þjóðinni! Hver getur flutt það? Enginn – en hver og einn getur samið sitt eigið ávarp eða sungið. Mitt nýársávarp er svona: „Ég ætla aldrei aftur að gera samning við Magma Energy Sweden AB!“ (ekki í mínu nafni).  
Eða með öðrum orðum: Náttúruauðlindir Íslands í eigu og lögsögu almennings !*

Hið svokallaða Magma-mál snerist og snýst enn um grundvallarákvörðun sem Íslendingar geta tekið um sjálfræði þjóðarinnar og almannahag til frambúðar. Andi íslenskra laga mælir alfarið gegn gjörningum á borð við sölu á HS Orku hf og framsali á nýtingarétti. Ekki efast, þetta er enn ein blekkingin og gríninu er beint að þjóðinni. Markmið og tilgangur íslenskra lagas kveður nefnilega á um full yfirráð yfir landi og verðmætum auðlindum. Hlustum ekki á annað.

Íslensk lög voru gróflega sniðgengin með þessum Magma samningi og almenningi var gefið langt nef. Allir vita að Magma Energy Sweden AB er tóm skúffa í Stokkhólmi og að eigendurnir eru kanadískir. Þetta var trix. Hvers vegna trúum áfram þótt blekkingin hafi verið afhjúpuð?

Greinilegt var að íslensk stjórnvöld brugðust þjóð sinni með því að vera bæði svifasein og óvarkár gagnvart þessum gjörningi. Hagsmunir almennings urðu undir og af þeim sökum átti skilyrðislaust að fara með málið fyrir dómstóla eða afturkalla ákvörðunina um söluna eða setja lög um eignarnám eða finna betra ráð. Ef þetta verður látið viðgangast er gatan greið fyrir óvelkomna.

Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður hefur sýnt fram á að hefðbundnir fjölmiðlar  kokgleyptu fréttatilkynningar um að kaup Magma Energy á eignarhlutum HS Orku hf. hafi verið í lagi og að „frá lagalegum sjónarhóli sé ekki tilefni til að gera athugasemdir við samningana sem slíka.“ Frá öllum öðrum sjónarhólum voru kaupin vafasöm en fjölmiðlar höfðu ekki tíma til að kanna það þrátt fyrir að segjast vera fulltrúar almennings í landinu. Hvers vegna eiga óljós, loðin, gloppótt, mótsagnarkennd lög að ráða fremur en ljós rökhugsun og staðfast siðvit?

MAGNAÐUR SÖNGUR
Í dag (6. janúar 2011) hefst maraþonkaraókí þar sem sunginn verður óður til náttúru- og orkuauðlinda landsins. Skráning fer fram í Norræna húsinu, 6.-8.janúar, frá kl:15.00 til kl:24.00.  Á þréttándanum lætur þjóðin rödd sína heyrast.  Hún mun syngja orkuauðlindir sínar til okkar aftur! Allir eru hvattir til að taka þátt og syngja uppáhaldslagið sitt í stærsta karaókíi Íslandssögunnar.

Nú þegar hafa safnast rúmar 20.000 undirskriftir á áskorun á orkuaudlindir.is um að stjórnvöld taki mark á ósk þjóðarinnar um orkuauðlindirnar. Maraþonsöngurinn heldur áfram þar til 15 % er náð; Þegar 35.000 Íslendingar hafa skrifað undir !

Óskin er einföld og er nýárssöngurinn 2011: Náttúruauðlindir Íslands í eigu og lögsögu almennings ! *

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

* Ljósmynd/ Kirkjufoss í Jökulsá í Fljótsdal/Gunnar Hersveinn
*  Slagorð frá hópnum sem stendur fyrir maraþon-karókí í Norræna húsinu.
Tengill:
http://www.nordice.is/norraena-husid/frettir/nr/784

www.orkuaudlindir.is

Þjóðgildin árituð og viðtal við höfund

Gunnar Hersveinn áritar bók sína Þjóðgildin á Laugavegi 31 í Skálholtsútgáfunni laugardaginn 18. desember frá kl. 14.00. Allir velkomnir þangað í kaffi og koníak og spjall. Endilega gerið okkur þann heiður að líta í búðina. Allir sem eiga leið um eða vilja gera sér erindi til að fagna útkomu bókarinnar um þjóðgildi Íslendinga. Bókin er skrifuð gegn firringu og leiðindum með það markmið að taka þátt í því að skapa betra samfélag. Gunnar Hersveinn verður einnig í Vikulokunum á Rás eitt milli 11-12 (18. des) og loks er von á ítarlegu viðtalið við hann um vonir og vonbrigði Íslendinga í Fréttablaðinu, sennilega þriðjudaginn 21. desember. Fylgist með. Bókin er kjörin til uppbyggilegrar umræðu í jólaboðunum!

Hver nennir að vera heiðarlegur?

Það er ekki nóg að velja þjóðgildin, það er ekki nóg að hengja þau upp á vegg sem leiðarljós eða læra þau utanbókar. Verkefnið framundan er að tileinka sér þau. Heiðarleiki hefur margsinnis verið valinn eitt æðsta þjóðgildi Íslendinga. „Allir vita að heiðarleiki er göfug dyggð en enginn nennir að læra hana,“ er fullyrðing í anda Laó-tse.

Heiðarleiki er í raun rammi eða mörk sem ekki má fara yfir. Heiðarleiki birtist annars vegar gagnvart sjálfum sér og hins vegar öðrum. Heiðarleiki i eigin garð kemur öðrum ekki við nema þá helst nánustu aðstandendum. En heiðarleiki gagnvart öðrum dregur til sín mörg önnur gildi eins og traust og réttlæti.

Fyrirtæki sem hefur heiðarleika sem leiðarljós leynir ekki mikilvægum upplýsingum fyrir viðskiptavinum sínum. Það veitir ekki lán sem það á ekki fyrir né sá sem fær það, það lýgur ekki og blekkir ekki til að bjarga sér frá falli. Skortur á heiðarleika var áberandi fyrir hrun.

Samfélag sem hefur heiðarleika að leiðarljósi gerir það sem það hefur samþykkt. Það mismunar ekki fólki. Það leggur sig fram um jöfnuð, ekki aðeins í orði heldur einnig á borði. Heiðarlegt samfélag þarf að leggja eitthvað á sig til að standa undir nafni, það er ekki nóg að birta tölur eða kaupa skýrslur.

Alþingi sem hefur heiðarleika að leiðarljósi og samþykkir Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar um sama efni hefur samþykkt eftirfarandi: Nauðsynlegt er að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna. Siðfræði og heimspeki ættu að vera sjálfsagður hluti alls náms á öllum skólastigum, sem og gagnrýnin hugsun, rökræður og fjölmiðlalæsi. Í því skyni þarf að ýta undir þróun í kennslu og námsgagnagerð (13, 2010). Samþykktin verður sennilega látið nægja.

Ef þessi yfirlýsing verður látin næga, er ekkert samband milli hugar og handar. Heiðarleiki er nefnilega samhljómur milli hugsjóna og aðgerða. Það er ekki nóg að segjast vera heiðarlegur eins og títt er, heldur þarf hátternið ennfremur að vera það. Ef það verður bara skorið niður í skólakerfinu og námsgagnasjóðir lagðir niður, þá er ofangreind samþykkt merkingarlaus ímyndarvinna. Hún verður sennilega vitnisburður um fögur fyrirheit.

Ég held að þjóðin hafi valið heiðarleika sem æðsta gildið á Íslandi vegna áþreifanlegs og mælanlegs skorts á honum hjá þeim sem tengjast valdi og óheyrilegu ríkidæmi. Hrópað var á heiðarleika meðal annars til að sporna gegn tilurð yfirstéttar. Heit um betrumbætur er byrjunin en hegðunin er prófsteinninn. Hlustum ekki á fagurgala, tökum eftir þeim sem raunverulega eru að störfum til að byggja upp betra samfélag, fylgjumst með grasrótinni.

Bókin Þjóðgildin er viðleitni til að fylgja þjóðfundunum 2009 og 2010 eftir og hún er verkfæri handa þeim sem vilja taka þátt í því að skapa betra samfélag þar sem efnahagur og peningar eru ekki einu guðirnir og mælikvarðarnir. Það sem er hrunið, er hrunið, beinum huganum annað.

Hver nennir að vera heiðarlegur? Ef samfélagið metur heiðarleika mikils og lætur ekki glepjast af fölskum vonum, ef virðing fylgir heiðarleika og sú yfirlýsing að hann sé eftirsóknarverður, þá gæti ef til vill eitthvað breyst. Ef samfélagið krefur alla um heiðarleika, ekki aðeins óbreytta launamenn, þá mun margt breytast til betri vegar.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Lýðræðið eftir kosningar

Lýðræði er eitt af þjóðgildunum. Gestir á þjóðfundunum 2009 og 2010 völdu lýðræði. Íslendingar eru óánægðir lýðræðissinnar vegna þess að þeim hefur ekki líkað fáræði formanna stjórnmálaflokkanna. En eina leiðin til að breyta ríkjandi fáræði er að taka þátt í lýðræðinu.

Kosið var til stjórnlagaþings laugardaginn 27. nóvember og svo virðist sem þátttaka í kosningunum hafi verið undir 40%. Skiptir það máli? Allir vissu af kosningunum, öllum gafst kostur til að kjósa, fólk var hvatt til að kjósa, enginn skortur var á frambjóðendum.

Hvert atkvæði í opinberum kosningum er brot af valdi almennings. Flestir er sammála því um þessar mundir að valdið sprettur úr grasrótinni. Valdið býr í þjóðinni og hún veitir fulltrúum sínum sem hún velur í kosningum tímabundið leyfi til að vara með valdið. Hlutverk fjölmiðla er síðan að fylgjast með því hvernig valdhafar hverju sinni fara með fé, eigir, land og önnur dýrmæti þjóðarinnar. Hlutverk fjölmiðla er að skapa aðstæður fyrir upplýst almenningsálit. (Það tókst ekki að þessu sinni.)

Þrátt fyrir það þarf hver og einni kjósandi að efast og beita gagnrýnni hugsun, því svo óendanlega margir vilja hafa áhrif á skoðanir hans og hegðun. Hvað hann kaupir, hvert hann fer og hvað hann velur í kosningum.

Kosningarnar til stjórnlagaþings voru nýjung á Íslandi. Valmöguleikarnir voru fleiri. Það voru persónukosningar en samt voru frambjóðendur meðhöndlaðir sem hjörð í fjölmiðlum. Kosningarnar voru talaðar upp og þær voru talaðar niður. Möguleikar kjósenda til að kynna sér það fólk sem þeim leist vel á voru þrátt fyrir fjöldann talsverðir. (Ekki þó í sjónvarpi).

Í bók minni Þjóðgildin er fjallað um lýðræði, þar segir meðal annars: „Lýðræði er aðferð til að laða fram visku fjöldans. Lýðræði er samræða þar sem leitað er heillavænlegra leiða til að halda áfram. Lýðræði krefst sterkrar vitundar borgaranna um gildin í samfélaginu. Lýðræði er aðferð sem krefst alls hins besta í samfélaginu. Það krefst umhugsunar, tíma og gaumgæfilegra athugana, gagnsæis, virðingar og umfram allt náungakærleika. “

OF MARGIR Í FRAMBOÐI?

Ég hef alls ekki tapað trú á lýðræðisást landsmanna þrátt fyrir að kosningaþátttakan núna hafi verið undir 40%. Aðrir þættir spila hér sterkt inn í. Hér tilgáta 1. Valkostirnir voru of margir, 552 í stað tveggja til átta eins og venjulega. 2. Persónukosningar þar sem hver og einn var aðeins hluti af hjörð. 3. Fjölmiðlar og almenningur hefði þurft meiri tíma og fleiri lausnir, jafnvel forkosningar (frambjóðendur í nútímasamfélagi verða nauðsynlega að fá tækifæri til að koma fram í sjónvarpi).

Lýðræðið þarf vettvang þar sem viska fjöldans getur brotist upp á yfirborðið. Almenningur er sterkasta aflið en hinn útvaldi er veikasti hlekkurinn. Það eru engin ofurmenni til, þau eru ekkert nema almenningur gefi þeim styrk. Sköpum fremur aðrar aðstæður og andrúmsloft. Fjölmiðill á aðeins og einungis að vera vinur borgarana, almennings og þjóna engum öðrum!

Lýðræði á sín mörk eins og allt annað.  Mannréttindi eru t.a.m. mörk lýðræðis. Of fáir valkostir eða of margir geta einnig varðað mörk lýðræðis. En hvað um það: Höldum áfram að vinna að lýðræði á Íslandi! Nemum ekki staðar! Fögnum góðum lýðræðistilraunum!

Eitt er alveg víst: þau sem taka þátt, þau velja, þau ráða framtíðinni.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

Leiðarljós þjóðarinnar!

Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskránni núna og ekki seinna en það. Ástæðan er sú að í undanfarin áratug hefur landinu verið stjórnað af örfáum körlum og þjóðin hefur glatað sambandi sínu við stjórnarskrána.
Foringja(r)æði hefur ríkt, oddvitaræði eða með öðrum orðum: örfáir valdamenn hafa ráðið næstum öllu þinginu og stjórnmálaflokkunum. Hvað lög eru sett og hvernig þau eru framkvæmd. Þetta er ekki bara fullyrðing heldur er nú staðfest í rannsóknarskýrslum Alþingis og skýrslu alþingismanna sjálfra.

Einhver gæti sagt að vel sé hægt að búa áfram við þessa stjórnarskrá og hægt sé að lagafæra hana í rólegheitunum eftir því sem þarf. Það skipti engu máli þótt fyrstu tvær síðurnar séu lagðar undir forsetann, mannréttindakaflinn sé aftarlega og ekki sé þess getið að valdið komi frá fólkinu. En svo er ekki.

Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskránni til að þjóðin eignist á ný lifandi samband við grundvallarlögin. Þetta er ekki breyting breytinganna vegna heldur viðleitni til að byrja upp á nýtt með betri huga.

Sá sem hefur lent í því að vera fluttur í sjúkrabíl með blikkandi sírenur og endurlífgaður á síðustu sekúndunni, heitir sér því að breyta líferni sínu. Hann endurskoðar venjur sínar og lífsreglur. Hann setur væntanlega heilsuna fremst og kærleikann til annarra.

Hið sama gerir þjóð sem féll fram af hengifluginu. Hún endurskoðar stjórnarskrána sína, bætir í, þéttir og endurraðar til að draga úr líkum á að fáræði ráði aftur för. Hún heitir sér því að efla vald almennings og skapa skilyrði til að hægt sé að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hlustum ekki á úrtöluraddir eða þá sem tala gegn breytingum. Hlustum ekki á þá sem engu vilja breyta, þeir styðja gamla valdið og kerfið og vilja ekki breyta líferni sínu.

Breyta þarf andanum í stjórnarskránni, þannig að hann verði aftur andi þjóðarinnar en ekki valdsins. Styrkja þarf hlut almennings, bæta virðingu hans og auka ábyrgð þeirra sem fara tímabundið með valdið fyrir þjóðina.

Styrkja þarf hlut náttúru og auðlinda landsins í stjórnarskránni, svo tryggt sé að sölumenn eyðileggingarinnar geti ekki öðlast vald yfir gersemum landsins og svipt næstu kynslóðir fegurðinni.

Enginn þarf að óttast það að fulltrúar þjóðarinnar í stað fulltrúa stjórnmálaflokka fái tækifæri til að leggja til breytingar á stjórnarskrá Íslands. Enginn þarf að óttast þótt valdmörk Alþingis verði skýrari og sterkari gagnvart framkvæmdavaldinu. Traust á Alþingi getur aðeins vaxið.

Margt mjög frambærilegt fólk býður sig fram í það starf að eiga samtal um drög að nýrri stjórnarskrá, leggja fram drög að frumvarpi. Það mun vinna að þessu verkefni af alúð. Ég gef kost á mér í þetta starf, ég er ekki nauðsynlegur í starfið fremur en neinn annar. Ég hef þekkingu á grunngildum Íslendinga og hef skrifað bækur um þau og tel af þeim sökum að sú þekking geti nýst.

Niðurstaðan er að tækifærið er núna. Nýr tíðarandi lýðræðis, jafnaðar, sjálfbærni, jafnréttis, samvinnu, fjölskyldu, réttlætis og virðingar knýr á og sú viðleitni að vilja endurskoða stjórnarskrá Íslendinga er mikilvægur þáttur í því að varanleg breyting eigi sér stað.

Spurningin er: Hvernig samfélag viljum við vera? Tvisvar voru þjóðfundir haldnir til að laða fram visku þjóðarinnar og tvisvar voru sömu gildin valin. Þjóðin vill sporna gegn spillingu og græðgi gamla tíðarandans og móta heiðarlegt samfélag. Hvernig getum við lagt okkar af mörkum til að festa þjóðgildin í sessi? Meðal annars með því að þjóðin öll taki þátt í ferlinu og geri stjórnarskrána að leiðarljósi sínu.

Gunnar Hersveinn 6527
www.thjodgildin.is

Óttalaust tjáningarfrelsi

Frelsi til að tjá sig, frelsi til að mæla mál sitt. Frelsi til að tala, andmæla, færa rök, frelsi til að efast, gagnrýna og byggja upp. Frelsi til að leita upplýsinga og miðla þeim aftur til almennings. Frelsi til að gefa ráð, til að kynna verk sín, frelsi til að vera manneskja án þess að búa við fordóma annarra er dýrmætt.

Frelsi til að vera fullgildur borgari í landinu sem getur án ótta tekið þátt í lýðræðislegri umræðu ætti að vera sjálfsagt. Enginn ætti að þurfa að færa fórnir einungis til að geta tekið þátt í lýðræðislegum umræðum á opinberum vettvangi. Það er fásinna.

Á Íslandi sem var – krafðist það hugrekkis að taka þátt í lýðræðislegri umræðu, því sífellt reis einhver upp og reyndi að gera andmælendur tortryggilega. Þetta vissu allir og var síðan afhjúpað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Blaðamenn þögðu, háskólamenn þögðu …

Enn í dag þarf hugrekki til að standa með frelsi sínu til tjáningar. Hræðslan við skammir, óttinn við brottrekstur, kvíðinn vegna möguleikans á því að persónan yrði dregin inn í málið – allt þetta leiðir til þess að fólk velur fremur að þegja en að tala.

Frelsið knýr fólk til að tjá sig, gagnrýna heimsku og ofbeldi og mótmæla ósanngjarni hegðun. Í hverju landi og á hverjum stað er vald og hópur sem vill ráða ferðinni og berst ekki fyrir óttalausu tjáningarfrelsi borgarana. Foreldrar ættu í uppeldi barna sinna að kenna þeim hugrekki til að tala, hugrekki til að tjá hug sinn og ályktun, hugrekki til að mótmæla heimskunni. Slíkt myndi draga úr líkum á hræðslusamfélagi. Eða hver vill búa í samfélagi kvíða og angistar?

Frelsi er eitt af þjóðgildunum. Þjóðfundurinn 2009 valdi frelsi og þjóðfundurinn 2010 valdi frelsi. Hvers vegna? Vegna þess að þjóðin finnur fyrir skorti á frelsi andans og frelsi til tjáningar. Það eru alltaf einhverjir sem vilja setja öðrum of þröngar skorður. Samfélag þar sem borgarar þora ekki að tala eða taka þátt í rökræðum og samræðu af ótta við afleiðingarnar er ekki í góðum málum.

Sá sem verður hræddur, sá sem lætur kúga sig, sá sem hættir að þora að tjá sig, hann glatar sjálfum sér. Við eigum þvert á móti að standa keik í fæturna og mótmæla. Málfrelsi, ritfrelsi, talfrelsi, tjáningarfrelsi – hvers vegna ætti einhver að beita sig innri ritskoðun óttans, í stað þess að vera fyrirmyndarborgari sem tjáir sig og vill styrkja rétt sinn til að segja skoðun sína og taka þátt í umræðunni?

Sá sem gerir tilraun til að draga persónur niður í svaðið, sá sem sviptir einhvern einhverju vegna skoðana hans er ekki vinur frelsis heldur kúgunar. Ég held að á næstu árum verði frelsið eitt mikilvægasta þjóðgildið því þjóðin þarf að berjast fyrir frelsi sínu gagnvart skuldurum sínum og hver og einn þarf að standa vörð um frelsi sitt gagnvart öðrum. Aðferðin felst í því að temja okkur samræður, greina á milli málefnis og persónu og leita lausna í stað þess að búa til vandamál.

Ég skrifaði kafla um frelsið í bók minni Þjóðgildin. Þar stendur meðal annars:

„Innra ófrelsi felst í því að skapa sjálfum sér eða taka í arf ótta og hugleysi til að stíga skrefin. Sá sem býr við andlegt ófrelsi lýtur eigin þvingunum og stjórnsömu fólki. Hann nemur innri rödd og löngun, veit hvað hann vill, en skortir kraft og sjálfstraust til að fylgja því eftir. Frelsið er fyrir hendi en hann nýtir það ekki til fulls.“

„Hrædd þjóð, stillt þjóð, hlýðin þjóð, værukær þjóð, saklaus þjóð er í bágri stöðu þegar kjöraðstæður skapast fyrir þá sem vilja græða á henni. Þjóðin, hver hópur, hvert fyrirtæki, stofnun og félag þarf því að temja sér hugrekki og heiðarleika til að láta ekki traðka á sér. “

„Frelsið snýst ekki aðeins um að taka sér bessaleyfi til að framkvæma það sem hugurinn girnist. Frelsið felst einnig í því að setja sjálfum sér mörk, skipta um viðhorf, breyta hegðun sinni og gangast við ábyrgð sinni. Stilla frekjunni í hóf. Helsta hindrunin er að heimskan ræður of oft för. Þeir sem við leyfum að ráða hafa sjaldan áhuga á breyttu fyrirkomulagi.“

„Hættum að þræta um útmörk mögulegs frelsis og hefjumst handa við að velja leiðir til að bæta aðstæður, líðan, menntun og valfrelsi annarra. Frelsi spinnst af mörkum. Þau mörk snúast um kúgun og ofbeldi gegn manninum og anda hans. Frelsið sjálft felst í því að skapa heim sem fer ekki yfir mörk ofbeldis. Frelsi klæðir heiðarlegar manneskjur vel.“

„Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu. Frelsi án kærleika er einskis virði.“

Við þetta má bæta: Frelsið lamast ef óttinn við hið þekkta og óþekkta verður sterkur. Frelsi án hugrekkis, frelsi án kærleika og frelsi án ábyrgðar er einskis virði. Frelsi án ótta er aftur á móti eftirsóknarvert.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

 

Úr Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, bls. 207
„Íslenskir fjölmiðlar eru í kreppu en ef einhver gerir athugasemdir við vinnubrögð þeirra er sá hinn sami annaðhvort hunsaður eða gerður tortryggilegur. Það er líkt og hugrekki þurfi til að taka þátt í lýðræðislegri umræðu á Íslandi.“
Gunnar Hersveinn: „Röng umræða um fjölmiðla.“ Fréttablaðið 8. desember 2009.

Gildin eru í bókinni Þjóðgildin

Þjóðfundurinn 6. nóvember 2010 stendur nú yfir. Þjóðfundargestir hafa nú valið grunngildin sem þeir telja að eigi að birtast í nýrri stjórnarskrá. Í bókinni minni Þjóðgildin eru að finna greinar um öll þessi gildi; jafnrétti, lýðræði, réttlæti, virðing, heiðarleiki, frelsi, mannréttindi og ábyrgð. Hér eru gildin í hnotskurn:

Jafnrétti felst í jafnri stöðu kynjanna gagnvart völdum, ríkidæmi, störfum og heimili. Jafnrétti er svar við kúgun og launin eru betri veröld fyrir alla, konur og karla. Jafnrétti skapar jafnvægi milli manna og laðar fram heillavænlegar ákvarðanir.

Lýðræði felst í samfélagi þar sem viska fjöldans stígur hæglátlega fram og kveður á um veginn framundan. Lýðræði þrífst ekki í landi hörku, múgsefjunar eða valdamikilla manna. Lýðræði kallar á virðingu og samráð fólks um næstu skref.

Réttlæti felst í því að skapa jafnan aðgang að völdum og tækifærum og að allir standi jafnfætis gagnvart lögum og reglum, þar á meðal refsingum. Réttlæti felur í sér mannúð og það skapar samfélag mannréttinda sem berst gegn spillingu.

Virðing felst í því að heiðra sambandið milli sín og annarra og veita umhverfinu stöðu í hjarta sínu. Virðing felur í sér væntumþykju gagnvart öðrum. Hún er forsenda fyrir betri heimi. Virðing er svarið við fordómum og aðskilnaði.

Heiðarleiki felst í því að eiga í samskiptum án þess að bogna eða brjóta á öðrum. Sá sem vill verða heill til orðs og æðis þarf að finna jafnvægið milli sín og samfélags. Heiðarleiki er samhljómur milli hugsjóna og aðgerða og samfélagið verður opið og gagnsætt.

Frelsi felst í mætti hugans til að losna úr viðjum vanans. Það veitir ímyndunaraflinu kraft til að skapa ný tækifæri án þess að brjóta á öðrum. Frelsi er gjöf andans og launin eru þakklæti gagnvart lífinu. Frelsi án kærleika er einskis virði.

Ábyrgð felst í því að nema hlutdeild sína í samfélaginu. Enginn verður fullþroska fyrr en hann skynjar samábyrgð sína til að vinna góð verk og koma í veg fyrir sundrungu. Ábyrgðin birtist í samstöðu þjóðarinnar gegn óréttlæti.

Mannréttindi felast í þeim gildum sem eru sammannleg og þar af leiðandi óháð trúarbrögðum, stjórnmálum, stöðu, búsetu og hverju öðru sem ætlað er til að aðgreina manneskjur og raða þeim í flokka. Mannréttindi gilda á öllum tímum og óháð aðstæðum og fyrir alla. Þau eru ævinlega til stuðnings lífinu og gegn allri kúgun, eyðileggingu og dauða.

Gunnar Hersveinn
www.thjodgildin.is

„ÞJÓÐGILDIN, á erindi við alla“

„Bók Gunnars Hersveins, ÞJÓÐGILDIN, á erindi við alla. Í bókinni fjallar hann um lífsgildin, sem Þjóðfundurinn 2009 valdi.  Á þessum síðustu og verstu tímum er okkur hollt að huga að því sem skiptir máli í lífinu og byggja afstöðu okkar á kærleika, mannvirðingu og heiðarleika.  Ég mæli með því, að allir sem áhuga hafa á mannlegu samfélagi – og sjálfum sér – lesi þessa bók.“

Tryggvi Gíslason, fv. skólameistari